Ferill 996. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2038  —  996. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um íþróttastarfsemi.


     1.      Hvaða starfsemi telst vera íþróttastarfsemi skv. 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988?
    Samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er íþróttastarfsemi undanþegin virðisaukaskatti. Jafnframt er aðgangseyrir að íþróttamótum, íþróttakappleikjum og íþróttasýningum undanþeginn auk þess sem sérstaklega er kveðið á um að aðgangseyrir og aðrar þóknanir fyrir afnot af íþróttamannvirkjum til íþróttaiðkunar, svo sem íþróttasölum, íþróttavöllum, sundlaugum og skíðalyftum ásamt íþróttabúnaði mannvirkjanna, njóti undanþágu. Undir undanþáguna fellur enn fremur aðgangseyrir að líkamsræktarstöðvum.
    Ákvæði 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt var breytt í núverandi horf með b-lið 1. gr. laga nr. 124/2014, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt o.fl., sem tók gildi 1. janúar 2016. Með breytingunni var íþróttastarfsemi og önnur sú starfsemi sem fellur undir töluliðinn afmörkuð með skýrari hætti en áður. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til breytingu á orðalagi ákvæðisins. Til nánari skýringar á ákvæðinu kemur fram að undanþáguna megi flokka í fernt. Í fyrsta lagi tekur hún til skipulagðrar íþróttastarfsemi. Í öðru lagi tekur hún til aðgangs að íþróttaviðburðum. Í þriðja lagi tekur hún til aðstöðu til almenningsíþrótta og í fjórða lagi tekur hún til aðgangseyris að líkamsræktarstöðvum.
    Í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, sem lagt var fram við þinglega meðferð frumvarps þess er varð að lögum nr. 124/2014, kemur fram að eftir sem áður sé undanþágunni ætlað að ná til hvers konar líkamlegrar þjálfunar sem stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti, sbr. skilgreiningu íþrótta í íþróttalögum, nr. 64/1998. Undanþágan tekur þannig til hverrar þeirrar íþróttar sem stunduð er innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands, en er þó ekki bundin við að íþróttin sé stunduð á vegum þeirra samtaka. Þá tekur undanþágan einnig til æfinga- og keppnisgjalda íþróttaiðkenda og aðgangseyris áhorfenda að íþróttamótum, íþróttakappleikjum og íþróttasýningum.
    Í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar segir jafnframt til nánari skýringar töluliðarins að undanþágunni væri ætlað að ná til aðgangseyris og annarra greiðslna fyrir aðstöðu og búnað til íþróttaiðkunar í íþróttamannvirkjum. Markmið með breyttu orðalagi ákvæðisins væri að greina skýrar en nú er á milli íþróttaaðstöðu í íþróttamannvirkjum annars vegar, svo sem sundlaugum, íþróttahúsum og íþróttavöllum, og afþreyingaraðstöðu í leikjasölum og böðunaraðstöðu á baðstöðum og heilsulindum hins vegar. Í breytingartillögunni fælist því m.a. að aðgangur að afþreyingu í ýmiss konar leikjasölum yrði virðisaukaskattsskyldur og sömuleiðis aðgangur að baðaðstöðu annars staðar en í hefðbundnum íþróttamannvirkjum, sundlaugum eða líkamsræktarstöðvum. Einnig kemur fram að aðgreining íþróttamannvirkja frá mannvirkjum til annars konar nota væri gagnvart ákvæði 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt með sama hætti og aðgreining við lögboðna skráningu og mat fasteigna og við ákvörðun fasteignaskatts.

     2.      Hver ber ábyrgð á því að skilgreina hvaða starfsemi flokkast sem íþróttastarfsemi samkvæmt framangreindum tölulið?
    Ríkisskattstjóra, sem stýrir stofnuninni Skattinum, er falin framkvæmd á álagningu og innheimtu virðisaukaskatts samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Á upplýsingavef Skattsins er að finna ítarlegar leiðbeiningar ríkisskattstjóra um skattskyldu íþróttafélaga þar sem fjallað er um skattalegar skyldur íþróttafélaga og manna sem vinna við íþróttastarfsemi o.fl. Í þessu sambandi ber að geta þess að af ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 24. gr. laga um virðisaukaskatt leiðir að skráningarskyldum aðilum ber að hafa frumkvæði að réttum virðisaukaskattsskilum vegna hvers uppgjörstímabils virðisaukaskatts og að veita Skattinum upplýsingar um forsendur skilanna.