Ferill 1051. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2085  —  1051. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um matvörugátt.


     1.      Hvernig miðar vinnu við að koma upp sérstakri matvörugátt þar sem „neytendur munu geta fylgst með daglegu matvöruverði á einum stað“, sbr. tilkynningu á vef Stjórnarráðsins 10. febrúar 2023?
    Matvörugáttin (Verðgáttin) var opnuð og tekin í notkun 7. júní sl.
www.verdgattin.is/

     2.      Mun matvörugáttin sýna verð á sömu tilgreindu vörutegundunum yfir tíma?
    Verðgáttin gerir neytendum kleift að fylgjast með þróun verðlags helstu neysluvara í stærstu matvöruverslunum landsins, Bónus, Krónunni og Nettó. Í Verðgáttinni sjá neytendur vöruverð gærdagsins og verðsögu vörunnar. Neytendur geta sett upp sína eigin matarkörfu með því að velja þær vörur og það magn sem hentar þeirra innkaupum. Þannig geta neytendur borið saman verð sinnar matarkörfu á milli verslana.
    Verðgáttin sýnir verð á helstu neysluvörum og fjölda vörutegunda yfir tíma og er ekki alltaf um sömu vörutegundir að ræða heldur er þeim skipt út. Þannig sýnir gáttin almenna þróun vöruverðs og verðsamanburð á milli verslana.

     3.      Var haft samráð við Samkeppniseftirlitið og sjónarmiða þess óskað um áhrif matvörugáttar á samkeppni áður en gerður var samningur um stuðning ríkisins við verkefnið? Ef svo er, hvaða sjónarmiðum kom Samkeppniseftirlitið á framfæri og mun þróun og útfærsla matvörugáttar taka mið af þeim?
    Haft var samráð við Samkeppniseftirlitið áður en ritað var undir samning um verkefnið á milli menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Rannsóknaseturs verslunarinnar. Í framhaldi af því samráði var áréttað í 3. gr. samningsins að Rannsóknasetur verslunarinnar, sem sér um framkvæmd og útfærslu Verðgáttarinnar, skuli „gæta þess að þátttaka keppinauta í verkefninu feli ekki í sér samstilltar aðgerðir og brjóti þannig gegn 10. gr., sbr. 15. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005.“ Útfærsla Verðgáttarinnar og framkvæmd hennar tekur mið af þessu, sem og öðrum ákvæðum samkeppnislaga.