Ferill 1143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2089  —  1143. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um notkun íslenska fánans og fánalitanna við merkingar á matvælum.


     1.      Hvaða kröfur liggja að baki leyfisveitingum Neytendastofu fyrir notkun íslenska fánans og fánalitanna við merkingar á matvælum?
    Neytendastofa veitir eingöngu leyfi til notkunar þjóðfána Íslendinga í skráðu vörumerki. Í öðrum tilvikum er ekki sótt um leyfi stofnunarinnar fyrir notkuninni en eftir að notkun er hafin getur Neytendastofa bannað notkunina ef skilyrði 12. gr. laga nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, eru ekki uppfyllt.
    Neytendastofa veitir leyfi til notkunar þjóðfána Íslendinga í skráðu vörumerki á grundvelli 8. mgr. 12. gr. laga nr. 34/1944 og skal skrásetja vörumerkið hjá Hugverkastofunni. Grundvallarregla fyrir heimild til notkunar þjóðfána í merki er í 3. mgr. 12. gr. þar sem kveðið er á um að heimilt sé að nota fánann þegar um vöru eða þjónustu er að ræða sem er íslensk og fánanum ekki óvirðing gerð. Í 4.–6. mgr. 12. gr. er nánari útfærsla á því hvaða kröfu vara þarf að uppfylla til að teljast íslensk.
    Þegar Hugverkastofunni berst umsókn um skráningu vörumerkis sem ber þjóðfána Íslendinga er erindi sent Neytendastofu um umsóknina. Neytendastofa leitar í kjölfarið skriflegra skýringa umsækjanda um það að hvaða leyti vara hans eða þjónusta uppfylli skilyrði 3.–6. mgr. 12. gr. laga nr. 34/1944. Telji Neytendastofa vöruna eða þjónustuna sem bera á vörumerkið uppfylla skilyrði laganna er leyfi veitt og umsóknarferli Hugverkastofunnar heldur áfram með venjubundnum hætti.
    Í grunninn gerir Neytendastofa ekki greinarmun á því hvort umsókn um skráningu vörumerkis sem ber þjóðfána Íslendinga sé vegna matvöru eða annarrar vöru en þó eru fleiri tilvik þar sem taka þarf tillit til þess hvort innfluttur einkennandi hluti vöru telst eðlislíkur vöru sem er ræktuð eða framleidd hér á landi, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 34/1944.

     2.      Hvert er umfang eftirlits Neytendastofu með notkun íslenska fánans og fánalitanna við merkingar á matvælum og hversu miklum fjármunum er varið til eftirlitsins?
    Neytendastofa hefur fengið til afgreiðslu 21 umsókn um leyfi til notkunar þjóðfána Íslendinga í skráðu vörumerki þar sem ætluð notkun er fyrir matvöru. Þar af voru 18 umsóknir samþykktar, tvær dregnar til baka og einni hafnað. Hver og ein umsókn tekur, að öllu meðtöldu, um þrjár til fjórar klukkustundir í vinnu sérfræðings en getur tekið allt að 20 sé vafi um hvort veita eigi leyfið. Kostnaður stofnunarinnar af málunum er eingöngu launakostnaður starfsmanns.
    Neytendastofa hefur nú til meðferðar fyrsta málið eftir gildistöku 12. gr. laga nr. 34/1944 vegna notkunar þjóðfána Íslendinga á matvöru, þ.e. máls sem snýr að notkun en ekki umsókn um leyfi til notkunar fánans í skráðu vörumerki. Afgreiðslu málsins er ekki lokið og því ekki hægt að svara því á þessum tímapunkti hversu langan tíma afgreiðsla þess mun taka, en mál sem tekin eru til meðferðar vegna hugsanlegs brots taka almennt mun lengri tíma en leyfisveitingar.
    Þess má geta að stofnuninni hafa borist óljósar ábendingar um að ýmsir aðilar merki innflutta matvöru með þjóðfána Íslendinga. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir stofnunarinnar hafa henni ekki borist skýrari upplýsingar um það hvaða vörur er þar átt við. Vegna takmarkaðra fjárheimilda stofnunarinnar og fjölda lögbundinna verkefna hefur stofnunin til þessa ekki haft svigrúm til að fara í almenna heildarskoðun á þessum málum.

     3.      Á hvaða viðmiðum og/eða stöðlum byggist mat Neytendastofu á einkennandi hluta vöru samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, sem lúta m.a. að framleiðslu vöru úr innfluttu hráefni?
    Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 34/1944 er lopapeysa nefnd í samhengi um eðlislíkar vörur. Að öðru leyti er hvorki í lögunum né fylgigögnum þeirra fjallað um hvernig meta skuli einkennandi hluta vöru. Þannig gefa lögskýringargögn viðmið um það að lopapeysa sem prjónuð er hér á landi, jafnvel eftir íslenskum hefðum en úr innfluttum lopa, getur ekki borið þjóðfána Íslendinga þar sem lopi er einkennandi hluti vörunnar og eðlislíkur búvöru sem ræktuð er hér á landi.
    Ekki hefur komið til þess að Neytendastofa hafi þurft að meta hvort innflutt vara teljist einkennandi hluti vöru sem framleidd verður hér á landi en sem dæmi mætti nefna tilbúna kjötrétti þar sem kjötið er innflutt eða fiskrétti þar sem fiskurinn er ekki veiddur af íslensku skipi innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Við þetta má bæta að Neytendastofa sinnir jafnframt eftirliti með lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Í þeim er m.a. fjallað um villandi viðskiptahætti og villandi aðgerðaleysi. Þrátt fyrir að lögin kveði ekki á um skyldu til að upprunamerkja vörur geta það í einhverjum tilvikum, þegar markaðssetningin er metin heildstætt, talist villandi viðskiptahættir að geta ekki til um uppruna vöru. Þannig mætti sjá fyrir tilvik þar sem matvara sem sett er saman af mörgum hráefnum hefði heimild til að bera þjóðfána Íslendinga, þar sem einkennandi hluti vörunnar uppfylli skilyrði 12. gr. laga nr. 34/1944 til að teljast íslensk þrátt fyrir að önnur hráefni séu innflutt. Í einhverjum tilvikum gætu það talist villandi viðskiptahættir að geta þess ekki sérstaklega að önnur hráefni séu innflutt og meta yrði í hverju tilviki hvort þörf væri á að tilgreina uppruna annarra hráefna. Þess skal þó getið að Neytendastofa hefur ekki tekið til meðferðar slíkt mál vegna matvöru sem ber þjóðfána Íslendinga.