Ferill 45. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2135  —  45. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (bælingarmeðferð).

(Eftir 2. umræðu, 9. júní.)


1. gr.

    Í stað „og 2. tölul. 1. mgr. 227. gr. a“ í 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: 2. tölul. 1. mgr. 227. gr. a og 2. mgr. 227. gr. b.

2. gr.

    Í stað „og 2. tölul. 1. mgr. 227. gr. a“ í 1. mgr. 82. gr. laganna kemur: 2. tölul. 1. mgr. 227. gr. a og 2. mgr. 227. gr. b.

3. gr.

    Við XXIV. kafla laganna bætist ný grein, 227. gr. b, svohljóðandi:
    Hver sem með nauðung, blekkingum eða hótunum fær einstakling til að undirgangast ógagnreynda meðferð í þeim tilgangi að bæla eða breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu hans skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
    Hver sem lætur barn yngra en 18 ára undirgangast meðferð sem greinir í 1. mgr. skal sæta fangelsi allt að 4 árum. Sömu refsingu skal sá sæta sem færir barn yngra en 18 ára úr landi í sama tilgangi.
    Hver sem framkvæmir, hvetur með beinum eða óbeinum hætti til eða hefur þegið fé vegna meðferðar sem greinir í 1. mgr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.