Ferill 991. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2159  —  991. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um verklag lögreglu og sérsveitar ríkislögreglustjóra.


    Eftirfarandi svar er byggt á upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra.

     1.      Hverjar eru verklagsreglur lögreglu þegar brugðist er við ábendingum frá almenningi?
    Í 26. gr. reglugerðar nr. 325/2021, um starfsemi, hlutverk og ábyrgð embættis ríkislögreglustjóra, kemur fram að:
    „Ríkislögreglustjóri starfrækir fjarskiptamiðstöð sem veitir lögreglumönnum á vettvangi leiðbeiningar, sbr. g-lið 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga og reglugerð um fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra.
    Fjarskiptamiðstöð starfar jafnframt í ákveðnum tilvikum sem aðgerðarstjórnstöð ríkislögreglustjóra, þar á meðal þegar um er að ræða útköll sérsveitar ríkislögreglustjóra eða opinberar heimsóknir.“
    Í reglugerð um fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, nr. 335/2005, kemur fram að öllum símtölum sem berast í gegnum neyðarnúmerið 112 og beint er til lögreglu er svarað af hálfu fjarskiptamiðstöðvar. Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra afgreiðir erindin sem eiga heima hjá lögreglu og annast stjórnun útkallshópa lögreglu og fyrstu viðbrögð við aðgerðastjórnun. Verklagsreglur um hlutverk og starfsemi FMR voru settar 31. mars 2005, sbr. 6. gr. fyrrnefndrar reglugerðar.
    Fyrrgreint svar miðast við það verklag sem gildir er fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra tekur við tilkynningum frá almenningi í gegnum neyðarnúmerið 112. Hvað varðar annað form tilkynninga sem berast ekki í gegnum neyðarnúmerið, t.d. á opinber netföng lögregluembætta eða opinbert símanúmer, þá getur gilt innra verklag þess embættis.
    
     2.      Hver tekur ákvörðun um hvort kalla skuli til sérsveit lögreglu eftir ábendingu frá almenningi og hvaða verklagsreglur gilda um það?
    Ef ábending berst frá almenningi í formi neyðarsímtals í gegnum 112 þar sem óskað er aðstoðar lögreglu eða erindið er þess eðlis að það eigi heima hjá lögreglu er það hlutverk fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra að bregðast við og aðstoða viðkomandi. Sé um að ræða tilkynningu um vopnaðan einstakling er það hlutverk lögreglu að kalla eftir aðstoð sérsveitar. Allar tilkynningar eru greindar og er óskað þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að bregðast við með viðeigandi hætti. Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra sinnir þjónustu- og samræmingarhlutverki við lögreglulið og er sérþjálfað í að greina tilkynningar og erindi með tilliti til upplýsingaöflunar og réttra viðbragða.
    Sérsveit lögreglu er kölluð út vegna vopnaðra lögreglustarfa, sbr. 1. og 3. gr. reglugerðar um sérsveit ríkislögreglustjóra, nr. 774/1998, og 24. gr. reglugerðar um starfsemi, hlutverk og ábyrgð embættis ríkislögreglustjóra, nr. 325/2021, sbr. g-lið 1. mgr. lögreglulaga, nr. 90/1996.
    Lögreglumenn í sérsveit hafa hlotið sérstaka þjálfun í að bregðast við þegar um er að ræða tilkynningar um vopnaburð. Hlutverk fjarskiptamiðstöðvar er að hafa samband við stjórnanda lögreglu í því umdæmi sem tilkynning berst frá. Þar til stjórnandi kemur á vettvang er það fjarskiptamiðstöð sem stjórnar fyrstu viðbrögðum lögreglu í umboði lögreglustjóra og kallar til þá aðstoð sem nauðsynleg er, svo sem ef þörf er á aðstoð sérsveitar vegna tilkynningar um vopnaðan einstakling, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Fjarskiptamiðstöð hefur það hlutverk að upplýsa ávallt vakthafandi yfirmann um stöðu mála, svo sem vakthafandi yfirmann sérsveitar ef aðkoma sérsveitar er nauðsynleg og vakthafandi yfirmann þess embættis eða þeirrar stöðvar sem atburðurinn tengist.
    Verklagsreglur embættis ríkislögreglustjóra sem gilda um þetta efni eru verklagsreglur um hlutverk og starfsemi fjarskiptamiðstöðvar ríkisins frá 2005 og verklagsreglur um starfsemi sérsveitar ríkislögreglustjóra frá 2019.
    
     3.      Þegar ákvörðun er tekin um að kalla til sérsveit lögreglu, er tekið tillit til þess sérstaklega ef líkur eru á því að börn séu á vettvangi?
    Samkvæmt lögum eiga allir lögreglumenn að taka tillit til velferðar barna, sbr. 18. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002 og 18. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996. Lögreglan er jafnframt skilgreind sem þjónustuveitandi við börn, sbr. 2. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021.
    Ef börn eru talin í bráðri hættu þarf að bregðast strax við og er það gert með tilliti til aðstæðna hverju sinni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu þá er í miklum meiri hluta mála þar sem ofbeldi á sér stað og barn er á vettvangi um að ræða heimilisofbeldi eða ágreining milli skyldra eða tengdra aðila. Í verklagsreglum ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu slíkra mála segir að ef börn eru á vettvangi skuli starfsmaður barnaverndar upplýstur um stöðu mála og óskað eftir að hann komi strax á vettvang. Séu börn tengd heimili eða aðilum skal upplýsa starfsmann bakvaktar barnaverndarþjónustu um málið og óska eftir aðkomu hans. Ef leitast er eftir aðstoð sérsveitar til að fara inn í t.d. íbúðarhúsnæði þar sem handtaka á hættulegan einstakling eru heimilisaðstæður skoðaðar, þ.m.t. hvort börn eru á heimilinu. Þá er reynt að meta hvort hægt sé að bíða með handtöku uns viðkomandi hefur yfirgefið staðinn eða kalla samningamann á svæðið í þeim tilgangi að tryggja, ef hægt er, að enginn verði fyrir meiðslum, hvorki sá sem á að handtaka né brotaþolar, vitni eða lögreglumenn.
    Þá er rétt að benda á að aukin áhersla hefur verið á afbrotavarnir hjá lögreglunni til að draga úr líkum á því að grípa þurfi til meira íþyngjandi úrræða. Í því sambandi er sérstaklega horft til barna og ungmenna í samræmi við skilgreint hlutverk lögreglunnar innan laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021 og 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.
    
     4.      Hvert er tilefni endurskoðunar þessara verklagsreglna, sbr. svar ráðherra við óundirbúinni fyrirspurn 19. september sl., og hvaða þættir eru einkum hafðir að leiðarljósi í þeirri endurskoðun?
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, Ríkislögreglustjóri: Fjárreiður, stjórnsýsla og stjórnunarhættir, frá árinu 2020 kemur fram það mat stofnunarinnar að endurskoða þyrfti reglur um vopnaburð og valdbeitingu handhafa lögregluvalds sem settar voru árið 1999 á grundvelli vopnalaga, nr. 16/1998.
    Embætti ríkislögreglustjóra stofnaði vinnuhóp með aðkomu lögregluembættanna á Norðurlandi eystra, Vesturlandi og Suðurnesjum sem vann að endurskoðun verklagsreglnanna. Endurskoðunin tók mið af því að uppfæra það sem þurfti, svo sem varðandi þjálfunarmál o.fl., auk þess að taka inn nýjungar. Meðalhóf er eitt þeirra atriða sem ávallt er haft að leiðarljósi og var það gert við endurskoðun reglnanna.