Ferill 514. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2165  —  514. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um fjölgun starfsfólks og embættismanna.


     1.      Hversu margt starfsfólk hefur verið ráðið til starfa hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti frá því að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 28. nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því:
                  a.      hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu,
                  b.      hvort um er að ræða tímabundnar ráðningar/skipanir eða ótímabundnar,
                  c.      hversu mörg ný störf er um að ræða.

    Á tímabilinu frá 28. nóvember 2021 til 1. apríl 2023 hafa verið gerðir ráðningarsamningar við 22 aðila. Af þeim voru 10 ótímabundnar ráðningar og þar með talin ein skipun í embætti. Tólf ráðningar voru tímabundnar og af þeim var ein auglýst. Tímabundnar ráðningar komu til vegna tímabundinna verkefna, afleysinga vegna veikinda eða fæðingarorlofs.

     2.      Hversu margar stöður hafa verið auglýstar frá því í nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu.
    Frá 28. nóvember 2021 hafa ellefu stöður verið auglýstar í ráðuneytinu, þar af ein skipun í embætti, níu ótímabundnar stöður og ein tímabundin staða.

     3.      Hver er fjöldi stöðugilda á málefnasviðum félags- og vinnumarkaðsráðuneyti samanborið við fjölda stöðugilda sömu málefnasviða í viðeigandi ráðuneytum í nóvember 2017?
    Mikil breyting hefur orðið á málefnasviði ráðuneytisins frá því í nóvember 2017. Þá var velferðarráðuneyti starfandi sem fór með málaflokka heilbrigðis- og félagsmála undir einu ráðuneyti og því varla samanburðarhæft. Fjöldi starfsmanna velferðarráðuneytis var um 92 undir lok árs 2017. Þess skal getið að fjöldi starfsmanna félagsmálaráðuneytis við stofnun þess, 1. janúar 2019, var 56 í 53,65 stöðugildum.
    Í kjölfar forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, varð mikil breyting á málefnasviðum ráðuneytisins þegar málefni barna og ungmenna, barnamál og húsnæðis- og mannvirkjamál fluttust í önnur ráðuneyti. Jafnframt færðust málaflokkar þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og framhaldsfræðslu til ráðuneytisins.

     4.      Hver er áætlaður viðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti á kjörtímabilinu?
    Á þeim tíma sem liðinn er af yfirstandandi kjörtímabili hafa verið gerðar verulegar breytingar á skipulagi og starfsemi aðalskrifstofu félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, með tilheyrandi uppstokkun verkefna milli ráðuneyta. Starfsfólki ráðuneytisins hefur ekki fjölgað á kjörtímabilinu. Í ljósi framangreinds er því ekki gert ráð fyrir viðbótarkostnaði vegna fjölgunar starfsfólks.