Ferill 1022. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2190  —  1022. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um raforkumál í Kjósarhreppi.


     1.      Hvenær er áætlað að þeir sex til átta bæir í Kjósarhreppi sem ekki hafa aðgang að þriggja fasa rafmagni fái aðgang að því?
    Samkvæmt áætlun RARIK um fyrirhugaðar jarðstrengjalagnir verða fjórir af sjö bæjum í Kjósarhreppi tengdir við þriggja fasa rafmagn á þessu ári. Þrír bæir, Möðruvellir, Fellsendi og Stíflisdalur, standa eftir, en eru á truflanalítilli línu.

     2.      Hvaða áætlanir eru um að klára lagningu rafmagns í jörð innan hreppsins?
    Áætlun RARIK er að tengja allar jarðir í byggð með jarðstrengjum fyrir árið 2030.

     3.      Hvaða áætlanir eru um að tryggja það sanngirnismál að íbúar Kjósarhrepps borgi sama flutningsgjald og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins, þ.m.t. íbúar Kjalarness?
    Viðskiptavinir RARIK í Kjósarhreppi eru á dreifbýlisgjaldskrá. Sú gjaldskrá er hærri en þéttbýlisgjaldskrá þar sem kostnaður við uppbyggingu og rekstur dreifikerfisins er mun hærri í dreifbýli en þéttbýli. Til að stuðla að jöfnun á þeim mun greiða stjórnvöld niður kostnað almennra notenda vegna dreifingar raforku á þeim svæðum þar sem eru dreifbýlisgjaldskrár. Þrátt fyrir mikla hækkun á framlagi stjórnvalda til jöfnunar síðastliðin ár, úr 901 m.kr. árið 2017 í 2.321 m.kr. árið 2023, hefur ekki enn náðst að tryggja fulla jöfnun milli þéttbýlis og dreifbýlis, en til að ná fullri jöfnun á þessu ári þarf samkvæmt útreikningum Orkustofnunar tæplega 3.000 m.kr. Tillögur um hækkun jöfnunargjaldsins náðu ekki fram að ganga við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2023, en áfram verður unnið að því að auka jöfnun dreifikostnaðar raforku.