Ferill 1070. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2194  —  1070. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um rússneska togara á Reykjaneshrygg.


     1.      Hefur ráðherra upplýsingar um hvers vegna rússneskir togarar sem stunda veiðar á karfa á Reykjaneshrygg fá þjónustu í færeyskum höfnum þrátt fyrir bann Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) þar um? Ef svo er, hverjar eru ástæðurnar?
    Færeyingar hafa tekið undir bann Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar varðandi rússneska togara sem stunda veiðar á karfa á Reykjaneshrygg. Þegar ráðuneytið leitaði skýringa á því hvers vegna rússneskir togarar sem stunda veiðar á karfa á Reykjaneshrygg hefðu fengið að landa í færeyskum höfnum var upplýst um að skort hefði lagaheimild í lögum um fiskveiðar til að banna tilteknum skipum að landa í færeyskum höfnum. Þar af leiðandi hefðu rússnesku skipin fengið þjónustu í Færeyjum.
    Breyting á færeyskum lögum um þvingunaraðgerðir var samþykkt í færeyska þinginu 16. júní sl. og hefur utanríkis- og vinnumálaráðherra Færeyja lýst því yfir að hann muni beita heimild sinni til að setja auknar þvingunaraðgerðir gegn Rússum og banna landanir rússneskra skipa sem hafa verið á úthafskarfaveiðum á Reykjaneshrygg. Reiknað er með að bannið verði sett í byrjun júlímánaðar. Þá hafa færeysk stjórnvöld í hyggju að endurskoða lög um fiskveiðar þannig að í framtíðinni verði hægt að beita lokunum af þessu tagi vegna brota á alþjóðasamningum.

     2.      Hefur ráðherra gert athugasemd við stjórnvöld í Færeyjum og Danmörku varðandi þessa þjónustu færeyskra hafna við rússneska togara?
    Íslensk stjórnvöld eiga í reglulegum samskiptum við stjórnvöld í Færeyjum og Danmörku, ekki síst varðandi sjávarútvegsmál og málefni hafsins. Aðgerðir gegn karfaveiðum á Reykjaneshrygg hafa í mörg ár verið hluti af slíkum samskiptum og hefur að jafnaði verið góð samvinna um þau mál. Íslensk stjórnvöld munu halda áfram að eiga í samskiptum við Færeyjar og Danmörku um þessi mál en það er að sjálfsögðu á endanum ákvörðun Færeyinga hvernig aðgerðir til að hindra karfaveiðar á Reykjaneshrygg verða útfærðar innan færeyskrar lögsögu.
    Íslensk stjórnvöld telja fyrrnefnda lagabreytingu mjög jákvæða og fylgjast með framvindu mála innan stjórnkerfis Færeyja.

     3.      Hver hafa viðbrögð íslenskra yfirvalda verið við því að rússneskir togarar, sem sigla vegna þessa um íslenska lögsögu, hafa verið staðnir að því að toga yfir fjarskiptastrengi?
    Rússneskir togarar, líkt og önnur skip, njóta frelsis til siglinga og friðsamlegrar farar eftir því sem kveðið er á um í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Umferð rússneskra togara um íslenska lögsögu er heldur takmörkuð en íslensk stjórnvöld hafa gripið til aðgerða til að takmarka hana enn frekar, til að mynda með innleiðingu þvingunaraðgerða Evrópusambandsins um hafnbann og með því að synja umsóknum rússneskra stofnana um að stunda vísindalegar rannsóknir innan íslenskrar lögsögu.
    Landhelgisgæsla Íslands sinnir löggæslu á hafinu og ýmiss konar eftirliti í samræmi við ákvæði laga nr. 52/2006, um Landhelgisgæslu Íslands. Vegna breyttrar stöðu í öryggismálum í Evrópu hefur Landhelgisgæslan aukið eftirlit með umferð rússneskra togara um íslenska lögsögu, m.a. með gervitunglaeftirliti og auknu samstarfi við nágrannaríki.
    Vegna mikilvægis fjarskiptatenginga við útlönd ákvað þjóðaröryggisráð að kalla til samráðshóp sérfræðinga til þess að fjalla um mögulegar sviðsmyndir komi til rofs á fjarskiptatengingum við útlönd. Markmið samráðsins er nánar tiltekið að kortleggja gagnatengingar við útlönd og varafjarskiptaleiðir, einkum er varðar mikilvæga innviði og starfsemi, að greina skipulagsleg og tæknileg úrlausnarefni og útfærslur, m.a. með tilliti til viðgerðar- og viðbragðsgetu ef kemur til þess að það þurfi að gera við eða lagfæra sæstrengi. Enn fremur verður hugað að gerð forgangsröðunar gagnaumferðar um takmarkaðar útlandatengingar komi til rofs á sæstrengjum og að fylgja eftir gerð viðbragðsáætlunar sem hægt verði að nota ef til sambandsrofs kemur. Ríki bera ábyrgð á eigin lögsögu en vinna náið saman að því að efla eftirlit, upplýsingaskipti og mögulegt viðbragð vegna skemmda á neðansjávarinnviðum. Í mörgum tilfellum liggja slíkir innviðir um lögsögu nokkurra ríkja sem kallar á náið samráð og viðbragð. Innan Atlantshafsbandalagsins hefur markvisst verið unnið að því að styrkja samstarf á þessu sviði og hefur bandalagið jafnframt ályktað að það muni bregðast sameiginlega við vísvitandi árásum á mikilvæga innviði. Búið er að setja á laggirnar sérstaka miðstöð í flotastjórn bandalagsins sem sinnir samþættingu og upplýsingagjöf varðandi neðansjávarinnviði. Þá er aukinn viðbúnaður og eftirlit bandalagsríkja á hafsvæðinu umhverfis Ísland og nýleg ákvörðun stjórnvalda um að heimila bandarískum kafbátum að koma hingað til lands liður í auknu eftirlit og tryggir betra öryggi neðansjávarinnviða.

    Alls fóru þrjár vinnustundir í að taka saman svar þetta.