Ferill 1056. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2203  —  1056. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um flugstöð innanlandsflugs á Reykjavíkurflugvelli.


     1.      Hver er eigandi að flugstöð innanlandsflugs á Reykjavíkurflugvelli?
    Á Reykjavíkurflugvelli eru tvær flugstöðvar innanlandsflugs. Annars vegar er það flugstöðin við Þorragötu 10 í eigu Iceeigna ehf., fasteignafélags Icelandair. Hin flugstöðin á Reykjavíkurflugvelli er Nauthólsvegur 58A en þar er aðstaða Flugfélagsins Ernis. Húseignin er 75% í eigu Ernis en 25% í eigu ríkissjóðs.

     2.      Hverjir eru leigutakar í flugstöðinni? Óskað er upplýsinga um það hvenær leigusamningar voru gerðir og til hversu langs tíma þeir eru. Jafnframt er óskað upplýsinga um leiguverð samninganna í heild og umreiknað á fermetra.
    Icelandair er eini flugafgreiðsluaðilinn í flugstöðinni á Þorragötu 10 sem er í eigu Iceeigna ehf., fasteignafélags Icelandair.
    Aðstaða flugfélagsins Ernis á Nauthólsvegi 58A er í húseign sem er 75% í eigu Ernis en 25% í eigu ríkissjóðs. Skrifstofuaðstaða Ernis er í þeim hluta hússins sem er í eigu ríkissjóðs. Stærð þess hluta er 30 m2 og er leiguverð 3.200 kr. á hvern fermetra. Samningurinn er ótímabundinn.
    Ernir greiðir einnig húsaleigu til Isavia Innanlandsflugvalla fyrir tíu skrifstofugáma en ekki er miðað við fermetraverð vegna gámaleigunnar. Leigusamningur er frá árinu 2019 til 15 ára. Upphafsleiga var 667.790 og hækkar samkvæmt byggingarvísitölu ár hvert.

     3.      Hver var kostnaður við malarstæði sem í upphafi var ætlað til bráðabirgða við flugstöðina og hver stóð straum af honum? Eru áformaðar frekari framkvæmdir við bílastæði á svæðinu?
    Icelandair, þá Flugfélag Íslands, annaðist framkvæmdir við gerð malarstæðisins. Ekki liggja fyrir upplýsingar um kostnað vegna þeirra framkvæmda. Isavia Innanlandsflugvellir notaði hins vegar tækifærið þegar flugbrautir Reykjavíkurflugvallar voru malbikaðar árið 2022 og endurnýtti malbiksfræs sem féll til vegna framkvæmdarinnar til að leggja betra yfirlag á þessi stæði. Ekki eru áformaðar frekari framkvæmdir við bílastæði á þessu svæði.

     4.      Hvenær stendur til að taka upp gjaldskyldu á bílastæðum við flugstöðina?
    Isavia Innanlandsflugvellir hefur undirbúið innleiðingu gjaldskyldu á bílastæðum við flugvelli félagsins. Ekki liggur fyrir hvenær gjaldskyldan verður innleidd.

     5.      Hvert munu tekjur af bílastæðagjöldum og sektum renna?
    Tekjur af bílastæðagjöldum og sektum munu renna til Isavia Innanlandsflugvalla og m.a. standa undir rekstri og viðhaldi bílastæðanna.