Ferill 1117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2222  —  1117. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Teiti Birni Einarssyni um hjúkrunarrými á Vesturlandi.


     1.      Hvaða áform eru uppi um fjölgun rýma á hjúkrunarheimilum á Vesturlandi og hvað ræður ákvörðun um staðsetningu? Er horft til aðsóknar og biðlista í hverju sveitarfélagi við slíka ákvörðun?
    Heilbrigðisráðherra setur árlega fram framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarrýma. Ákvörðun um uppbyggingu hjúkrunarheimila tekur mið af gögnum frá Hagstofu Íslands um mannfjöldaspár og aldursdreifingu í hverju heilbrigðisumdæmi og sveitarfélagi. Einnig er byggt á gögnum frá embætti landlæknis um biðtíma eftir úthlutuðum hjúkrunarrýmum og dvalartíma íbúa á hjúkrunarheimilum. Við mat á þörf fyrir fjölda hjúkrunarrýma í hverju heilbrigðisumdæmi er auk þess tekið mið af þeim markmiðum um styttingu biðtíma sem sett voru fram í fjármálaáætlun 2024–2028.
    Hinn 1. júní sl. var miðgildi biðtíma eftir hjúkrunarrými í Heilbrigðisumdæmi Vesturlands 133 dagar sem er yfir þeim markmiðum sem sett hafa verið, þ.e. að biðtími eftir hjúkrunarrými skuli ekki vera lengri en 90 dagar. Þrjú heilbrigðisumdæmi voru með styttri biðtíma og þrjú lengri. Þó horft sé til heilbrigðisumdæma í heild í þessari viðmiðun getur biðtími verið breytilegur innan heilbrigðisumdæma. Á einstökum hjúkrunarheimilum á Vesturlandi var miðgildi biðtíma 1. júní allt frá 0 dögum upp í 238 daga. Þar sem biðtíminn er lengstur er dvalartími einnig mjög langur, miðgildi rúm þrjú ár. Meðaldvalartími einstaklinga á hjúkrunarheimilum á landinu öllu er nú 1,9 ár.
    Samkvæmt gildandi framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarrýma er verkframkvæmdum við hjúkrunarheimili í Stykkishólmi að ljúka og þar verða endurbætt rými opnuð síðar á þessu ári. Ekki er gert ráð fyrir frekari framkvæmdum í Heilbrigðisumdæmi Vesturlands í gildandi framkvæmdaáætlun.
    Rétt er að árétta að færni- og heilsumat er forsenda flutnings í dvalar- og hjúkrunarrými. Í reglugerð um færni- og heilsumat vegna dvalar- og hjúkrunarrýma nr. 466/2012, með síðari breytingum, kemur fram í 10. gr. að færni- og heilsumatsnefndir séu ábyrgar fyrir mati á dvalarþörf íbúa í því heilbrigðisumdæmi þar sem þær starfa. Í 5. gr. segir m.a. að verkefni nefndanna sé að leggja faglegt mat á þörf aldraðs fólks fyrir dvalarrými og hjúkrunarrými. Rýmum er úthlutað í samræmi við mat nefndanna og óskir viðkomandi einstaklings um hjúkrunarheimili.

     2.      Stendur til að fjölga hjúkrunarrýmum á Akranesi þar sem flestir sækja um vistun á Vesturlandi?
    Á næstu vikum verða opnuð fimm ný biðrými á Höfða. Þá er unnið að breytingum í Brákarhlíð í Borgarnesi þannig að opna megi tvö ný hjúkrunarrými auk fimm biðrýma.

     3.      Hvernig er fjármagn tryggt til þeirra hjúkrunarheimila þar sem hátt hlutfall vistmanna er í mikilli þjónustuþörf?
    Rekstraraðilar hjúkrunarheimila, aðrir en heilbrigðisstofnanir á föstum fjárlögum, gera samninga við Sjúkratryggingar Íslands. Daggjald hvers hjúkrunarheimilis tekur m.a. mið af RUG-hjúkrunarþyngdarstuðli heimilisins. Allir íbúar í hjúkrunarrými eru RAI-metnir þrisvar á ári og er hjúkrunarþyngdarstuðull heimilanna reiknaður út frá RAI-mötum íbúa.
    Hjúkrunarheimilin geta auk þess sótt um greiðslur úr svokölluðum kostnaðarútlagasjóði hjá Sjúkratryggingum Íslands, vegna kostnaðarsamra meðferða og/eða umönnunar. Hjúkrunarheimilin geta m.a. sótt um viðbótargreiðslur vegna sjúkraflugs, kostnaðarsamra lyfja og tímabundinna tilvika, svo sem aukinnar gæslu vegna breytinga á heilsufari íbúa. Einnig er mögulegt að sækja um styrk vegna einstaklingsbundinna sérstakra aðstæðna íbúa heimilanna.