Ferill 1147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2259  —  1147. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um skerðingu á húsnæðisstuðningi til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna sérútbúinna bifreiða.


     1.      Hversu oft á undanförnum fimm árum hefur húsnæðisstuðningur fatlaðs einstaklings verið skertur vegna þess að sérútbúin bifreið telst til eignar viðkomandi?
    Í lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, og reglugerð um húsnæðisbætur, nr. 1200/2016, er gert ráð fyrir því að eignir umsækjanda yfir ákveðnum mörkum skerði rétt hans til húsnæðisbóta. Með eignum er átt við allar eignir skv. 72. gr. laga um tekjuskatt að frádregnum skuldum, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga um húsnæðisbætur. Eina undanþágan sem er að finna í lögum snýr að fasteignum eða búseturétti enda hafi þær ekki verið í eigu umsækjanda eða annarra heimilismanna meðan á greiðslum húsnæðisbóta stóð, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna.
    Þrátt fyrir þetta hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun horft fram hjá sérútbúnum bifreiðum við útreikning á eignastöðu hafi verið óskað eftir því, en mögulegt er að í einhverjum tilvikum hafi ekki legið fyrir hvort um sérútbúna bifreið hafi verið að ræða þegar horft er til eignastöðu samkvæmt skattframtali. Því er ekki hægt að svara því hversu oft húsnæðisbætur hafi verið skertar vegna eigna þar sem hluti er bifreið sem er sérútbúin.

     2.      Telur ráðherra eðlilegt að félagslegur húsnæðisstuðningur sé skertur vegna dýrs og sérútbúins ökutækis, sem Tryggingastofnun styrkir einstaklinga til að kaupa með því markmiði að stuðla að því að hreyfihamlaðir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu lífi?
    Líkt og komið hefur fram hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun horft fram hjá sérútbúnum bifreiðum við útreikning á eignastöðu að því gefnu að óskað hafi verið eftir því. Vert er að vekja athygli á því að í c-lið 16. gr. reglugerðar nr. 1084/2020, um hlutdeildarlán, er kveðið á um að sérútbúin bifreið sem nauðsynleg er vegna fötlunar eða sjúkdóms falli undir undanþágur frá almennum skilyrðum hlutdeildarlána.