Ferill 192. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 329  —  192. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um brottfall úr framhaldsskólum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir hófu nám í framhaldsskólum árin 2010–2022, sundurliðað eftir árum?
     2.      Hversu mikið brottfall var úr framhaldsskólum árin 2010–2022, sundurliðað eftir árum?


    Hægt er að skilgreina brotthvarf og mæla á mismunandi vegu og sumar mælingar henta betur en aðrar og fer það eftir því hvað er verið að leggja mat á og skoða hverju sinni. Í talnaefni mennta- og barnamálaráðuneytis er miðað við svokallað árlegt nýnemabrotthvarf þar sem mælt er það brotthvarf úr námi sem á sér stað á einu skólaári. Mælikvarðinn veitir tímanlegar upplýsingar um þróun brotthvarfs almennt.
    Árlegt nýnemabrotthvarf úr framhaldsskóla er skilgreint sem hlutfall nýnema í aðalskóla sem hafa hætt í framhaldsskóla á skólaárinu án þess að útskrifast eða flytja sig í annan framhaldsskóla. Almennt er miðað við að nýnemi er nemandi sem er að hefja nám í framhaldsskóla haustið eftir lok grunnskóla. Mælingin er gerð yfir skólaárið frá hausti til hausts. Ástæðurnar fyrir því að skólaárið er mælt en ekki hver önn eru þær að skólaárið er jafn langt í skólum en annir eru mismargar og mislangar milli skóla. Auk þess innritast stærstur hluti nemenda í framhaldsskóla að hausti. Tilfærsla nemenda milli framhaldsskóla er ekki talin til árlegs brotthvarfs úr framhaldsskóla þar sem nemandi sem færist í annan framhaldsskóla stundar enn framhaldsskólanám. Árlegt brotthvarf úr framhaldsskóla er því sértæk mæling fyrir það brotthvarf sem á sér stað úr framhaldsskólanámi.
    Í eftirfarandi töflu er sundurliðað eftir árum árlegt brotthvarf nýnema og fjöldi nýnema fyrir árin 2010–2022.
Skólaár Brotthvarf Fjöldi nýnema
2010/11 6,5% 4.289
2011/12 7,0% 4.198
2012/13 7,2% 4.218
2013/14 7,0% 4.088
2014/15 7,5% 4.055
2015/16 6,2% 3.995
2016/17 7,3% 4.083
2017/18 6,4% 3.980
2018/19 4,9% 3.886
2019/20 4,0% 4.002
2020/21 4,6% 4.209
2021/22 5,7% 4.179