Ferill 257. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 358  —  257. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um fjölda starfa hjá hinu opinbera.


     1.      Hver var fjöldi stöðugilda hjá ríkisaðilum í A1-hluta, A2-hluta, A3-hluta, B-hluta og C-hluta, samkvæmt flokkun í lögum um opinber fjármál, ár hvert á tímabilinu 2011– 2022, sundurliðað eftir aðilum og því hversu margir stjórnendur með mannaforráð voru hjá hverjum aðila?
    Fjöldi starfa hjá ríkinu árin 2011–2022 kemur fram í yfirliti í fylgiskjali I. Miðað er við fjölda stöðugilda í október ár hvert. Hér er stöðugildi skilgreint sem 100% starf. Fjöldi stöðugilda er lægri en fjöldi starfsmanna þar sem nokkrir starfsmenn í hlutastörfum geta myndað eitt stöðugildi. Upplýsingarnar eru sóttar í launakerfi Fjársýslunnar en undanskildir eru lánasjóðir, félög og fyrirtæki sem falla undir A2-, A3-, ,B- og C-hluta sem voru áður einnig í launakerfi Fjársýslunnar.
    Á þeim árum sem yfirlitið nær til hafa orðið ýmsar breytingar á skipulagi ríkisstarfseminnar, svo sem að nöfn stofnana breytast, stofnanir sameinast, færast milli ráðuneyta eru lagðar niður og nýjar verða til.
    Sumar breytingar eiga sér stað á miðju ári eða á öðrum tímum ársins. Þess vegna er skýrara að sýna stöðugildi í tilteknum mánuði fremur en sem meðaltal á heilu ári. Því er miðað við október í yfirliti sem hér fylgir.
    Í yfirlitinu eru allar stofnanir ásamt öðrum ríkisaðilum en ekki sjálfseignarstofnanir og einkaaðilar sem fjármagnaðir eru úr ríkissjóði t.d. hjúkrunarheimili eða einkareknir skólar. Undir liðnum Önnur verkefni, ýmsir aðilar er samtala nokkurra smærri aðila, sjá neðst í yfirlitinu. Sem dæmi falla 48 stöðugildi undir þennan lið árið 2022. Þetta er gert til þess að yfirlitið verði læsilegra.
    Í launakerfinu skrá stofnanir störf með merkingu yfirmenn, sjá Y í yfirlitinu. Það eru störf stjórnenda með mannaforráð.
    Fjöldi starfa hjá ríkisfyrirtækjum kemur fram í yfirliti í fylgiskjali II. Upplýsingar um fjölda stjórnenda með mannaforráð hjá þeim eru ekki aðgengilegar í skrám með sama hætti og hjá ráðuneytum og stofnunum og í mörgum tilvikum liggja ekki fyrir gögn um starfafjölda þeirra lengra aftur en til ársins 2016. Í þessum tölum er um að ræða fjölda starfa í lok hvers árs.

     2.      Hver var fjöldi stöðugilda hjá ríkisaðilum í A1-hluta, A2-hluta, A3-hluta, B-hluta og C-hluta ár hvert á tímabilinu 2011–2022, sundurliðað eftir starfsheitum og aðilum?
    Fjöldi starfsheita hjá ríkisaðilum er mikill og fjölbreyttur og skráning þeirra hefur ekki verið samræmd milli aðila. Af þeim sökum er ekki unnt að taka saman aðgengilegar og samanburðarhæfar upplýsingar um starfsheiti hjá öllum ríkisaðilum.

     3.      Hver var fjöldi stöðugilda hjá sveitarfélögum ár hvert á tímabilinu 2011–2022, sundurliðað eftir sveitarfélögum og því hversu margir stjórnendur með mannaforráð voru hjá hverju sveitarfélagi?
    Málefni sveitarfélaga heyra undir innviðaráðuneyti samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022. Vísað er til svars þess ráðuneytis um efnið frá 30. júní sl., á þingskjali 2183 á 153 löggjafarþingi.

     4.      Hver var fjöldi stöðugilda hjá sveitarfélögum ár hvert á tímabilinu 2011–2022, sundurliðað eftir starfsheitum og sveitarfélögum?
    Sjá svar við 3. tölul.


Fylgiskjal I.


Fjöldi starfa hjá ríkisaðilum árin 2011–2022.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0358-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Fjöldi starfa hjá ríkisfyrirtækjum árin 2011–2022.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0358-f_II.pdf