Ferill 423. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 444  —  423. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um nýtt póstnúmer fyrir sveitarfélagið Kjósarhrepp.


Flm.: Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Gísli Rafn Ólafsson, Sigmar Guðmundsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að beina því til Byggðastofnunar að breyta póstnúmeraskrá svo að sveitarfélagið Kjósarhreppur fái sitt eigið póstnúmer sem kennt verði við Kjós en ekki Mosfellsbæ.

Greinargerð.

    Sveitarfélagið Kjósarhreppur liggur að Reykjavík, Mosfellsbæ og Hvalfjarðarsveit og bjuggu þar 285 manns þann 1. janúar 2023. Sveitarfélagið er hluti af póstnúmerinu 276, ásamt dreifbýli Mosfellsbæjar. Þrátt fyrir að langstærstur hluti póstnúmersins sé Kjósarhreppur þá er póstnúmerið enn 276 Mosfellsbær en sveitarfélagið hefur um árabil barist fyrir því að fá sitt eigið póstnúmer. Sveitarstjórn Kjósarhrepps óskaði nýlega eftir því við Byggðastofnun að póstnúmerinu verði breytt þannig að það verði 276 Kjós. Byggðastofnun óskaði eftir umsögn frá Íslandspósti sem lagðist gegn breytingunni með þeim rökum að eini tilgangur póstnúmera væri að styðja við hagkvæma dreifingu. Póstnúmer ættu að auka hraða og öryggi við flokkun og afgreiðslu póstsendinga og væru tengd við þjónustuhúsið sem í tilviki Kjósarhrepps hafi verið í Mosfellsbæ, en hefur nú verið lokað. Sveitarstjórn Kjósarhrepps hefur lýst því að fyrirkomulagið valdi töluverðum óþægindum fyrir íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu. Flutningsmenn þessarar tillögu leggja því til að innviðaráðherra beini því til Byggðastofnunar að verða við ósk sveitarfélagsins um að það fái hið fyrsta sitt eigið póstnúmer í póstnúmeraskrá sem kennt verði við Kjós.