Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 578  —  250. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um kaup á vopnum og varnarbúnaði í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins.


    Við vinnslu svars við fyrirspurninni óskaði dómsmálaráðuneytið eftir upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra. Eftirgreind svör byggjast á þeim upplýsingum.

     1.      Hver var fjöldi skotvopna í eigu lögreglunnar áður en undirbúningur hófst vegna öryggisgæslu á leiðtogafundi Evrópuráðsins? Svar óskast sundurliðað eftir gerð og tegund vopna, framleiðanda og magni.
    Lögreglan býr yfir skotvopnum sem eru nýtt við þjálfun og þau verkefni sem lögregla stendur frammi fyrir. Einkum er um að ræða skammbyssur og hálfsjálfvirk vopn.
    Það er mat dómsmálaráðuneytisins, sem er í samræmi við mat ríkislögreglustjóra, að nákvæmar upplýsingar um varnarbúnað lögreglu falli undir lykilupplýsingar varðandi viðbragðsgetu lögreglu. Ekki sé rétt að birta slíkar upplýsingar opinberlega þar sem það geti haft afdrifaríkar afleiðingar, stofnað öryggi ríkisins í hættu og haft áhrif á öryggi lögreglumanna.
    Framangreint mat byggist meðal annars á breyttum forsendum hvað varðar þjóðaröryggi. Staðan í öryggis- og varnarmálum Evrópu hefur tekið miklum breytingum frá því í febrúar 2022 og það er mat embættis ríkislögreglustjóra að verði slíkar upplýsingar gerðar opinberar geti það haft neikvæð áhrif á öryggi ríkisins.
    Þá má minnast á það að undanfarin misseri hefur orðið umtalsverð fjölgun brota á Íslandi þar sem hnífum er beitt og vopnatilkynningum til lögreglu hefur fjölgað verulega. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hefur alvarlegum ofbeldisbrotum og vopnuðum útköllum lögreglu og sérsveitar lögreglu fjölgað verulega síðustu ár. Má sem dæmi nefna að fjöldi útkalla þar sem sérsveit vopnast vegna eggvopna hefur nærri fjórfaldast frá árinu 2016.
    Einnig er rétt að benda á að umhverfið á Íslandi hefur breyst hvað vopnaburð og skotvopn varðar, en mikil fjölgun hefur orðið í innflutningi hálfsjálfvirkra og sjálfvirkra skotvopna sem flutt hafa verið inn á grundvelli safnaraleyfis.
    Ef gerðar yrðu opinberar nákvæmar upplýsingar um þau skotvopn sem lögregla býr yfir, þá væri unnt að finna út með auðveldum hætti hver geta lögreglu er til að verjast, þ.m.t. í þeim tilfellum þegar lögregla þarf að grípa til vopna með skömmum fyrirvara til að verjast fyrstu tilraunum til að taka yfir stjórn og fullveldi landsins. Yrði slík vitneskja opinber gæti það jafnframt valdið lögreglumönnum hættu og erfiðleikum í störfum sínum.
    Embætti ríkislögreglustjóra hefur á öðrum vettvangi synjað um veitingu þessara upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga, nr. 140/2012, með vísan til að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess, enda hafi umræddar upplýsingar að geyma upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál.

     2.      Hvaða skotvopn voru keypt af hálfu íslenskra stjórnvalda í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins dagana 16. og 17. maí 2023? Svar óskast sundurliðað eftir gerð og tegund vopna, framleiðanda, magni og verði.
    Keypt voru vopn fyrir um 165 milljónir króna fyrir leiðtogafundinn. Þau vopn sem keypt voru voru einkum Glock G-17 9x19GEN5 NS 9 mm skammbyssur og hálfsjálfvirkar 9 mm MP5A5 og MP5KSF einskotsbyssur, en þessar upplýsingar hafa áður verið birtar opinberlega. Þá voru tvær aðrar tegundir vopna keyptar til að styrkja sérsveit ríkislögreglustjóra.
    Ekki verða gefnar upp frekari upplýsingar um tegund, fjölda eða eiginleika þeirra vopna með vísun til framangreinds mats sem fjallað er um í 1. tölul.

     3.      Hvaða önnur vopn og varnarbúnaður, þ.m.t. handvopn (t.d. kylfur), rafvarnarvopn, skotfæri, gúmmíkúlur, brynjur og búnaður til að aftra óeirðum, voru keypt af hálfu íslenskra stjórnvalda í aðdraganda leiðtogafundarins? Svar óskast sundurliðað eftir gerð og tegund búnaðar, framleiðanda, magni og verði.
    Lögregla keypti ýmsan annan búnað vegna öryggisráðstafana sem tengdust fundinum. Hjálmar voru keyptir fyrir um 47 milljónir króna frá TST Protection LTD. Lögregluvesti voru keypt frá fyrirtækjunum Lindnerhof og Hiss fyrir tæpar 56 milljónir króna. Keypt var gas fyrir u.þ.b. 5,5 milljónir króna.
    Ekki verða gefnar upp frekari upplýsingar um magn, tegund, eða eiginleika þess búnaðar með vísun til framangreinds mats embættis ríkislögreglustjóra sem fjallað er um í 1. tölul.

     4.      Hvaða aðili tók ákvörðun um fjölda og tegund skotvopna sem keypt voru og á hvaða forsendum?
    Embætti ríkislögreglustjóra bar ábyrgð á kaupum á skotvopnum og öðrum búnaði lögreglu vegna leiðtogafundarins. Ákvörðun um fjölda og tegundir þeirra vopna sem keypt voru var tekin á grundvelli þarfagreiningar embættis ríkislögreglustjóra. Sú þarfagreining var unnin af sérfræðingum embættisins, auk þess sem byggt var á góðri samvinnu og samtali við norræn lögregluyfirvöld.
    Eingöngu var keyptur búnaður sem talinn var nauðsynlegur til þess að tryggja öryggi almennings og gesta.
    Almennt er búnaður og þjálfun lögregluliða á Norðurlöndum sambærilegur og á Íslandi. Til er samkomulag á milli Norðurlandanna um lán á ýmsum löggæslubúnaði, en vopn eru þar undanþegin. Þrátt fyrir það var kannað hvort eitthvert Norðurlandanna gæti lánað vopn vegna leiðtogafundarins en svo reyndist ekki vera, nema í þeim tilvikum að mannskapur sem kom frá erlendum lögregluliðum kom með sinn búnað. Allur búnaður lögreglu sem til var og unnt var að nýta án þess að það kæmi niður á viðbragðsgetu lögreglu um landið var nýttur

     5.      Hvaða lögregluembætti fer með yfirráð þessara vopna og búnaðar?
    Í dag hefur búnaði verið komið fyrir hjá embættum lögreglu til að styrkja þeirra aðbúnað og viðbúnaðargetu. Þegar búnaði var komið fyrir hjá embættum var það gert í samræmi við þjálfunarstig, viðbúnaðargetu embættanna og landfræðilega þætti.
    Ekki verða gefnar upp frekari upplýsingar um það hvaða lögregluembætti fer með yfirráð þessa búnaðar, með vísun til framangreinds mats embættis ríkislögreglustjóra sem fjallað er um í 1. tölul.

     6.      Hvaðan voru vopnin keypt? Óskað er eftir upplýsingum um söluaðila og upprunaland.
    Sjá svar við 3. tölul. um söluaðila, en um var að ræða bæði innlenda og erlenda söluaðila Búnaðurinn var meðal annars keyptur frá Þýskalandi, Finnlandi og Bandaríkjunum.

     7.      Hvenær fór kostnaðarmat fram vegna öryggisgæslu á leiðtogafundinum, hver sá um matið og á hvaða grundvelli? Hverjar voru forsendur matsins?
    Utanríkisráðuneytið bar ábyrgð á skipulagi og stjórnun undirbúnings og framkvæmd leiðtogafundarins. Hlutverk ríkislögreglustjóra var að sjá um öryggismál tengd fundinum. Gert var sérstakt kostnaðarmat fyrir þann þátt, sem unnið var af sérfræðingum ríkislögreglustjóra í samvinnu við sérfræðinga annarra lögregluembætta.
    Kostnaðarmat embættis ríkislögreglustjóra var lagt fyrir ríkisstjórn þann 20. mars 2023.
    Umfang aðgerða lögreglu réðst meðal annars af fjölda þeirra sem sóttu fundinn og þeirra krafna sem gera þurfti til öryggisgæslu þeim til handa. Er leið nær fundartíma bættist við nokkur fjöldi þátttakenda, fleiri gestir komu sem á grundvelli alþjóðaskuldbindinga fengu aukna öryggisgæslu auk þess sem dæmi voru um að dvalartími varð lengri en gert var ráð fyrir í upphafi. Það hafði meðal annars þau áhrif að fjöldi erlendra lögreglumanna og sérfræðinga jókst nokkuð frá fyrstu áætlunum.

     8.      Reyndist kostnaður vegna öryggisgæslu á leiðtogafundinum í samræmi við kostnaðarmatið?
    Unnið er að lokauppgjöri á kostnaði vegna öryggisgæslu á fundinum. Gert er ráð fyrir að endanlegt kostnaðarmat liggi fyrir á næstu vikum, en það er mat embættis ríkislögreglustjóra að ekki sé gert ráð fyrir miklum frávikum frá því mati sem lagt var fram fyrir ríkisstjórn þann 20. mars 2023.