Ferill 526. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 611  —  526. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um samstarfsverkefni til að fjölga fastráðnum heimilislæknum á landsbyggðinni.


Flm.: Eyjólfur Ármannsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Hanna Katrín Friðriksson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja samstarfsverkefni við valin sveitarfélög á landsbyggðinni með það að markmiði að tryggja að við hverja starfsstöð heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni starfi fastráðnir heimilislæknar. Samstarfsverkefnið verði fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög á landsbyggðinni og verði í stöðugri þróun. Stefnt skuli að því að á hverri starfsstöð starfi hið minnsta tveir fastráðnir heimilislæknar. Þar sem því verður ekki við komið skuli stefnt að samstarfi við lækna á starfsstöðvum nálægra svæða, svo tryggja megi sveigjanlegan vinnutíma og að frítími lækna verði virtur.
    Heilbrigðisráðherra skal flytja Alþingi skýrslu um framgang verkefnisins á haustþingi 2024.

Greinargerð.

    Örugg heilbrigðisþjónusta er grundvallarforsenda fyrir sjálfbærni hinna dreifðu byggða um land allt. Því miður hefur gengið brösuglega að tryggja fastráðningu heimilislækna á starfsstöðvum heilbrigðisstofnana víða um land. Mönnunarvandi heilbrigðisþjónustu er ein stærsta áskorun íslensks samfélags og áhrifa vandans gætir víða. Rétt rúmlega helmingur stöðugilda heimilislækna á landsbyggðinni er mannaður af fastráðnum læknum en verktakar manna rúmlega fjórðung stöðugilda og um fimmtungur stöðugilda er ekki mannaður. 1 Þá er fyrirséð að stór hluti fastráðinna lækna á landsbyggðinni fari á eftirlaun á næstu árum. Upp undir helmingur allra nýútskrifaðra lækna sótti nám sitt erlendis og sérnám þarf í langflestum tilvikum að sækja út fyrir landsteinana. Sífellt fleiri læknar velja að starfa erlendis í stað þess að flytja heim að námi loknu. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk vill geta sótt sem mesta heilbrigðisþjónustu í sinni heimabyggð. 2 Því miður hefur þróunin á Íslandi verið sú að mönnunarvanda er mætt með því að draga úr nærþjónustu. Þess í stað er fjarheilbrigðisþjónusta þróuð og heilbrigðisþjónusta flutt í auknum mæli til höfuðborgarsvæðisins. Úti á landi eru heimilislæknar í dagvinnu alla virka daga mánaðarins og á gæsluvöktum frá lokum starfsdags til næsta morguns. 3 Læknar á landsbyggðinni geta því í flestum tilvikum ekki ferðast út fyrir læknishéraðið og þurfa að geta brugðist tafarlaust við útkalli. Þá þurfa þeir gjarnan að mæta til vinnu næsta morgun óháð því hvort þeir hafi þurft að sinna útköllum nóttina áður. Slíkt vinnuálag dregur úr vilja lækna til að starfa á landsbyggðinni. Ef tekst að manna stöðugildi lækna á landsbyggðinni með viðhlítandi hætti er mögulegt að hægt verði að draga úr því mikla vinnuálagi sem hefur skapast í þeirri manneklu sem nú ríkir. Yfir 800 íslenskir læknar starfa erlendis og eflaust myndu margir þeirra vilja flytja aftur í sína heimabyggð ef kjör og vinnuaðstæður væru viðunandi.
    Tillaga þessi miðar að því að bregðast við mönnunarvanda heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni með því að gera störfin eftirsóknarverðari. Lagt er til að koma á samstarfi milli sveitarfélaga á landsbyggðinni og heilbrigðisyfirvalda þar sem leitað verði leiða til að manna stöðugildi heimilislækna á landsbyggðinni.
    Sveitarfélög á landsbyggðinni hafa kallað eftir samstarfi við heilbrigðisstofnanir til að tryggja mönnun læknisþjónustu svo að fólk þurfi ekki að ferðast langar vegalengdir til að fá læknisþjónustu. Sem dæmi má nefna ályktun bæjarstjórnar Grundarfjarðar frá 13. september 2022, þar sem segir eftirfarandi:
    „Bæjarstjórn lýsir enn yfir áhyggjum sínum af stöðu læknisþjónustu í Grundarfirði, þ.e. að ekki hefur tekist að manna stöðu læknis með fullnægjandi hætti í bænum. Bæjarstjórn óskar eftir samvinnu við heilbrigðisráðherra í því skyni að leita nýrra leiða við mönnun læknisþjónustu í bænum og óskar eftir aðkomu þingmanna að málinu. Bæjarstjórn hvetur jafnframt HVE til að sinna viðeigandi upplýsingagjöf á vef sínum þegar um læknaskort er að ræða.“
    Ljóst er að nokkur sveitarfélög í sama landshluta eða héraði geta unnið saman að því að laða til sín lækna og ráða þá í fullt starf. Gott dæmi um það eru sveitarfélög á Snæfellsnesi. Sveitarfélög geta mörg hver lagt sitt af mörkum til að gera störf lækna á landsbyggðinni eftirsóknarverðari. Til þess að auglýst læknisstörf á landsbyggðinni verði eftirsóknarverðari þarf að koma á samstarfi milli heilbrigðisstofnana og sveitarfélaga. Því er lagt til að heilbrigðisráðherra komi á slíku samstarfi með formlegum hætti.
1     Mönnun lækna á landsbyggðinni. Ingvar Freyr Ingvarsson, Steinunn Þórðardóttir og Súsanna Björg Ástvaldsdóttir. Læknablaðið, 6. tölublað, 108. árangur.
2     Byggðastefna og heilbrigðisþjónusta. Orri Þór Ormarsson. Læknablaðið, 11. tölublað, 101. árgangur.
3     Ómannaðar vaktir lækna. Dögg Pálsdóttir. Læknablaðið, 8. tölublað, 109. árgangur.