Ferill 552. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 651  —  552. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um lækkun lóðarleigu ríkisins í þéttbýli Reykjanesbæjar.


Flm.: Guðbrandur Einarsson, Ásmundur Friðriksson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að veita 25% afslátt af lóðarleigu ríkisins í þéttbýli Reykjanesbæjar í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins.

Greinargerð.

    Íbúar í Reykjanesbæ búa við langhæstu lóðarleigu á landinu eða 2% af lóðarmati, samanborið við 0,5% á Akureyri og 0,2% í Reykjavík. Sveitarfélagið sjálft veitir þó 25% afslátt til þeirra sem leigja af því. Íbúar á Ásbrú njóta ekki þess afsláttar. Íbúðarlóðir á því svæði fékk ríkið að gjöf við brottför bandaríska hersins árið 2006. Af þeim lóðum er innheimt af íbúum full 2% lóðarleiga fyrir hönd ríkisins. Nemur hún 222 millj. kr. á ári.
    Byggðastofnun gefur út skýrslu á hverju ári um fasteignagjöld. Þar kemur m.a. fram að meðaltal lóðarleigu á Íslandi, af viðmiðunarstærðinni 808 m2, sé 49.435 kr. Í þessum samanburði er Reykjanesbær langt frá meðaltalinu, þar sem lóðarleiga reiknast hæst á landinu í Keflavík, 149.655 kr., og í Njarðvík, 139.275 kr. Þau sem greiða lóðarleigu til sveitarfélagsins og njóta 25% afsláttar greiða hins vegar 112.241 kr. í Keflavík og 104.456 kr. í Njarðvík.
    Í svari fjármála- og efnahagsráðherra um lóðarleigu á lóðum í eigu ríkisins, frá 5. september 2023 (þskj. 2264, 678. mál), segir að lóðarleiga ríkisins í þéttbýli Reykjanesbæjar sé almennt 2% af lóðarmati í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins. Í ljósi þess afsláttar sem aðrir íbúar Reykjanesbæjar njóta er ekki hægt að fallast á að ríkið innheimti lóðarleigu í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins. Flutningsmenn telja mikilvægt að leiðrétta þá mismunun sem fólgin er í gjaldtökunni nú og gerir það að verkum að kostnaður íbúa á Ásbrú er hærri en annars staðar á landinu.
    Flutningsmenn leggja því til að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að veita íbúum á lóðum í eigu ríkisins í þéttbýli Reykjanesbæjar sama 25% afslátt af lóðarleigu og þeir íbúar sem leigja af sveitarfélaginu njóta.