Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 653  —  344. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um akstur um friðlönd.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa til að takmarka akstur of þungra bifreiða um friðlönd á vegum og vegslóðum? Ef svo er ekki, hvers vegna ekki?

    Skýrt er kveðið á um bann við akstri utan vega í 31. gr. laga um náttúruvernd og varðar ólögmætur akstur utan vega refsingu. Á ákvæðið jafnt við um vegi innan eða utan friðlýstra svæða. Sérreglur um takmörkun á akstri utan vega í auglýsingu um friðlýsingu svæðis eða í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið ganga framar undanþágum frá banni við akstri utan vega skv. 1. og 2. mgr. 31. gr. náttúruverndarlaga, en lögin gera þar ráð fyrir heimild til aksturs utan vega ef nauðsyn krefur og ef ekki hljótast af því náttúruspjöll, t.d. vegna landbúnaðarstarfa, landgræðslu, vegalagna, línulagna og björgunarstarfa. Þó ber að hafa í huga að sérreglur um takmörkun á akstri utan vega í auglýsingu um friðlýsingu svæðis eða í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið ganga framar undanþágum frá banni við akstri utan vega.
    Ekki hefur verið farin sú leið að takmarka sérstaklega akstur þungra bifreiða í friðlýsingarskilmálum umfram akstur annarra vélknúinna ökutækja.
    Í 32. gr. laga um náttúruvernd er fjallað um skrá yfir vegi í náttúru Íslands og kveðið á um að Vegagerðin skuli halda skrá í stafrænum kortagrunni um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands þar sem umferð vélknúinna ökutækja er heimil (vegslóðir), sbr. 2. mgr. 7. gr. vegalaga, nr. 80/2007. Akstur á vegum sem ekki eru á vegaskrá eða skrá skv. 32. gr. náttúruverndarlaga flokkast sem akstur utan vega.
    Vegagerðin, sem heyrir undir innviðaráðuneyti, getur gripið til þeirra ráðstafana að loka vegum inn á hálendi landsins á vorin vegna aurbleytu og getur Vegagerðin einnig takmarkað öxulþunga bifreiða sem fara um vegi sem liggja að hálendinu eða um það.
    Að mati ráðuneytisins er ástæða til að skoða hvort tilefni sé til að takmarka sérstaklega akstur þungra bifreiða innan friðlýstra svæða.