Ferill 396. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 671  —  396. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Elvu Dögg Sigurðardóttur um félagsleg fyrirtæki.


     1.      Er hugtakið félagslegt fyrirtæki (e. social enterprise) að finna í markmiðasetningu ráðuneytisins?
    Hugtakið félagslegt fyrirtæki hefur verið notað yfir rekstraraðila sem hafa það að meginmarkmiði að hafa jákvæð samfélagsleg áhrif, frekar en að skapa eigendum sínum eða hluthöfum hagnað. Með starfsemi sinni leitast þessir aðilar við að nota hagnað af starfsemi sinni, ef einhver er, fyrst og fremst til að ná fram samfélagslegum markmiðum.
    Almennt séð falla slík fyrirtæki, þ.e. félagsleg fyrirtæki, og hugmyndafræði þeirra vel að þeim markmiðum og áherslum sem leiða af stefnu stjórnvalda á þessu sviði, og koma m.a. fram í 16. kafla fimm ára fjármálaáætlunar stjórnvalda 2024–2028 þar sem lögð er áhersla á aukið gagnsæi, samfélagslega ábyrgð og heilbrigða viðskiptahætti fjármála- og viðskiptalífs.

     2.      Er til lagalegur rammi utan um slík fyrirtæki? Ef ekki, stendur til að leggja til slíkan ramma?
    Félagsleg fyrirtæki starfa almennt ekki undir sérstöku rekstrarformi eða félagaformi heldur getur verið um að ræða samvinnufélög, einkafyrirtæki, sjálfseignarstofnanir eða félagasamtök.
    Hér á landi hefur þar af leiðandi ekki verið settur sérstakur lagarammi utan um starfsemi félagslegra fyrirtækja. Í dag má starfrækja slíka aðila á rekstrarformum sem falla m.a. undir lög um samvinnufélög, nr. 22/1991, lög um einkahlutafélög, nr. 138/1994, lög um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999, og lög um félög til almannaheilla, nr. 110/2021. Ekki hefur, enn sem komið er, komið til sérstakrar skoðunar að leggja fram frumvarp um sérstakan lagaramma vegna slíkra fyrirtækja.

     3.      Hefur ráðherra fyrirætlanir um að auka viðurkenningu á þætti slíkra fyrirtækja í því að takast á við félagslegar og umhverfislegar áskoranir, sbr. aukið umfang þeirra í öðrum Evrópuríkjum?
    Ráðuneytið fylgist vel með þróun löggjafar á vettvangi ESB og nágrannalanda á þessu sviði. Í september 2023 var lögð fram tillaga að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um evrópsk félagasamtök (e. European cross-border associations), þ.e. félagasamtök sem starfa yfir landamæri. Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni á hún rætur að rekja til ályktunar Evrópuþingsins frá 17. febrúar 2022 sem miðar að því að efla félagasamtök og önnur óhagnaðardrifin samtök innan ESB með því að setja slíkum samtökum lagaramma. Á vettvangi EFTA er framangreind tillaga merkt sem texti sem varðar EES og fellur hún almennt undir viðauka XXII við EES-samninginn um félagarétt. Tillagan kemur þannig til umræðu í vinnuhópi EFTA um félagarétt, sem ráðuneytið tekur þátt í, og mun ráðuneytið því fylgjast með framvindu málsins þar næstu mánuði og halda Alþingi upplýstu um framgang þess.

     4.      Hefur ráðherra fyrirætlanir um að styðja sérstaklega við slík fyrirtæki með sambærilegum hætti og gert er í áætlun Evrópusambandsins um atvinnumál og félagslega nýsköpun og með evrópska félagslega framtakssjóðum?
    Stjórnvöld hafa á undanförnum árum unnið markvisst að því að veita styrki til rekstraraðila á ýmsum sviðum sem teljast til félagslegra fyrirtækja. Þrátt fyrir fjölbreytileika sinn starfa félagsleg fyrirtæki aðallega á eftirfarandi sviðum:
     *      Vinnuaðlögun – þjálfun og aðlögun fatlaðs fólks og atvinnulausra.
     *      Persónuleg félagsþjónusta – heilsa, vellíðan, fagþjálfun, menntun, heilbrigðisþjónusta, þjónusta við aldraða.
     *      Staðbundin þróun bágstaddra svæða – félagsleg fyrirtæki í dreifbýli og brothættum byggðum, þróunaraðstoð og þróunarsamvinna við þriðju lönd.
     *      Annað – umhverfisvernd, íþróttir, listir, menning, vísindi, rannsóknir og nýsköpun.
    Opinber stuðningur við fyrrgreinda aðila liggur víða og er frekari stuðningur til skoðunar á hverjum tíma, innan viðkomandi fagráðuneyta. Vísast þar nánar til áherslna og markmiða í fimm ára fjármálaáætlun 2024–2028.