Ferill 295. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 706  —  295. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Eyjólfi Ármannssyni um brot gegn áfengislögum.


     1.      Hefur ráðherra, í ljósi þess að hann hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds skv. 19. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, brugðist við því formlega eða óformlega að áfengi sé selt í smásölu innan lands í vefverslunum einkaaðila þrátt fyrir einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011, sbr. 1. mgr. 10. gr. áfengislaga, nr. 75/1998? Ef svo er, þá hvernig? Ef ekki, hvers vegna ekki?
    Rétt er að taka fram að íslenskt sakamálaréttarfar byggir á því grundvallarsjónarmiði að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa á hverjum tíma. Starfsemi ákæruvaldsins er því sérstaks eðlis og hefur sérstöðu hvað varðar eftirlitsheimildir ráðherra. Það eru því takmarkanir á því með hvaða hætti ráðherra getur beitt sér gagnvart ákæruvaldinu og verða heimildir ráðherra til afskipta að byggja á skýrum lagaheimildum.
    Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, hefur dómsmálaráðherra eftirlit með framkvæmd ákæruvalds og getur krafist þess að ríkissaksóknari láti í té gögn og greinargerð um meðferð einstakra mála. Í því felst þó ekki almenn heimild fyrir ráðherra til að óska eftir upplýsingum um stöðu einstakra mála eða hvernig rannsókn þeirra miðar með einum eða öðrum hætti. Ákvæði þessu hefur ávallt verið beitt af mikilli varfærni og í algerum undantekningartilvikum enda eru afar fá tilvik þar sem til skoðunar hefur komið að beita því og því verið beitt. Það hefur því ekki verið litið svo á að í ákvæðinu felist nein heimild til að endurmeta hvort málsmeðferð lögreglu eða ákæruvalds í sakamáli samræmist lögum, enda gengi slíkt gegn meginreglunni um sjálfstæði ríkissaksóknara sem æðsta handhafa ákæruvalds í landinu, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Þá hefur enn fremur ekki verið litið svo á að í ákvæðinu felist heimild ráðherra til að beita sér fyrir því hvað megi teljast lögmæt eða ólögmæt starfsemi í skilningi þeirra laga sem vísað er til í fyrirspurn þessari. Það hlutverk er í höndum viðeigandi stjórnvalda á grundvelli fyrrnefndra laga. Þá er það að endingu dómstóla að skera úr um lagalegan ágreining, hvort heldur á sviði sakamála eða einkamála.
    Ráðherra hefur því hvorki formlega né óformlega beitt sér á þann hátt sem fjallað er um í fyrirspurn þessari.

     2.      Hefur ráðherra eða aðrir á vegum ráðuneytisins, í ljósi fyrrnefnds eftirlitsvalds skv. 19. gr. sakamálalaga, látið í ljós við lögreglu eða handhafa ákæruvalds þá skoðun að vefverslun með áfengi sé lögmæt og þar með ekki brot á áfengislögum?
    Vísað er til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar.

     3.      Hafa stjórnvöldum borist kærur vegna meintra brota á áfengislögum, sem felast í netsölu áfengis, og ef svo er, er sakamálarannsókn í gangi vegna þeirra? Ef kærur hafa borist, á hvaða stigi er sakamálarannsóknin?
    Óskað var upplýsinga frá embætti ríkislögreglustjóra og samkvæmt upplýsingum úr málaskrá lögreglu hafa á síðastliðnum sjö árum, þ.e. frá 2017 og fram til 29. nóvember 2023, komið upp tvö mál þar sem kæra hefur verið lögð fram hjá lögreglu fyrir ólöglega netsölu fyrirtækja með áfengi innan lands á grundvelli 1. mgr. 4. gr. áfengislaga, nr. 75/1998.

     4.      Er ráðherra sammála þeirri túlkun sem fram kemur í bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 4. desember 2015, sem vísað var til í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2503/2016, að öðrum en ÁTVR sé ekki heimilt að selja eða afhenda neytendum áfengi?
    Á undanförnum árum hefur ráðuneytið oft á tíðum svarað fyrirspurnum og öðrum álitaefnum tengdum áfengislögum, nr. 75/1998, og tekur dómsmálaráðherra undir þau sjónarmið sem þar hafa verið rakin, líkt og fram komu í bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 4. desember 2015.
    Í svörum ráðuneytisins undanfarin ár hefur komið skýrt fram að áfengislög, nr. 75/1998, heyri undir dómsmálaráðuneytið og að það sé ákveðin skörun á milli þeirra og laga nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, sem heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneyti. Þá byggja áfengislög, nr. 75/1998, að miklu leyti á eldri áfengislögum frá 1969 sem hafa tekið litlum efnislegum breytingum í gegnum tíðina. Það hefur því mátt færa rök fyrir því að lögin hafi ekki þróast í takt við þá samfélagslegu þróun sem orðið hefur á undanförnum árum. Á það einnig við um breytt mynstur verslunar, þá sérstaklega hvað varðar netverslun, innlenda sem erlenda. Þá hefur orðið mikil gróska í innlendri framleiðslu sem vart þekktist við gildistöku laganna. Á undanförnum árum hafa því komið upp ýmis álitaefni sem hafa bent til þess að mikilvægt sé að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislögum til að þau endurspegli breytta þróun á sviði verslunar og framleiðslu áfengis hér á landi.
    Lögin sem slík eru að ákveðnu leyti takmörkuð hvað varðar ýmis álitaefni en í þeim er þó skýrt tekið fram að um innflutning, heildsölu, smásölu eða framleiðslu áfengis í atvinnuskyni fari samkvæmt áfengislögum, nr. 75/1998, og að slík starfsemi sé leyfisskyld hér á landi skv. 1. mgr. 3. gr., sbr. 4. gr. laganna.
    Smásala áfengis er nú einungis heimil Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem hefur einkaleyfi til slíkrar starfsemi skv. 1. mgr. 10. gr. laganna og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, að undanskildum þeim breytingum sem gerðar voru árið 2022 þar sem opnað var fyrir heimild til sölu áfengis á framleiðslustað. Í lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011, er að öðru leyti ítarlega fjallað um einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins ásamt hlutverki og verkefnum verslunarinnar. Er enn fremur skýrt markmið laganna að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð.
    Dómsmálaráðherrar síðustu ára hafa unnið að frumvörpum til breytinga á áfengislögum sem m.a. hefur verið ætlað að lögfesta heimild til reksturs innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda. Frumvarp þess efnis var m.a. lagt fyrir ríkisstjórn síðastliðinn vetur en náði ekki fram að ganga. Dómsmálaráðherra hyggst leggja það frumvarp fram að nýju í upphafi næsta árs.