Ferill 369. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 792  —  369. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um aðgerðir vegna greiðsluerfiðleika.


     1.      Hyggst ráðherra grípa til einhverra aðgerða eða gera ráðstafanir til að fyrirbyggja að einstaklingar lendi í greiðsluerfiðleikum á næstunni vegna hárra vaxta og verðbólgu? Ef svo er, hvaða aðgerðir eða ráðstafanir eru það?
    Á undanförnum árum hefur verið gripið til ráðstafana sem ætlað er að draga úr möguleikum einstaklinga til að takast á herðar svo mikla skuldsetningu að hún kynni að valda greiðsluerfiðleikum sem ógnað geta fjármálastöðugleika við breyttar ytri aðstæður. Má hér einkum nefna heimildir Seðlabanka Íslands til að setja reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána og reglur um hámark greiðslubyrðarhlutfalls fasteignalána. Þær reglusetningarheimildir koma fyrir í lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016. Almennt er talið að beiting reglnanna hafi stuðlað að minni skuldsetningu einstaklinga en ella, þær hafi fyrirbyggjandi áhrif og dragi úr líkum á því að einstaklingar lendi í greiðsluvanda. Að minnsta kosti liggur fyrir að skuldir heimila hér á landi voru um 148% af ráðstöfunartekjum á miðju ári 2023. Það hlutfall er til marks um að skuldir hafa verið mun lægri en sögulegt meðaltal undanfarin fimm ár og eru einnig lægri en í flestum löndum sem gjarnan er litið til í slíkum samanburði.
    Í þessu sambandi er ástæða til að nefna að ríkisstjórnin samþykkti 6. maí 2022 ýmsar mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. Horft var til sértækra aðgerða með hækkun bóta almannatrygginga, sérstökum barnabótaauka til þeirra sem eiga rétt á tekjutengdum barnabótum og hækkun húsnæðisbóta. Ákveðið var að bætur almannatrygginga myndu hækka um 3% og húsnæðisbætur um 10% frá 1. júní og að greiddur yrði sérstakur barnabótaauki til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur að fjárhæð 20.000 kr. með hverju barni.
    Ríkisstjórnin tilkynnti 5. júní 2023 um frekari aðgerðir til að styðja þá hópa sem erfiðast eiga með að mæta áhrifum verðbólgu og vaxtahækkana. Til að verja kaupmátt elli- og örorkulífeyrisþega var tilkynnt að bætur almannatrygginga yrðu hækkaðar á miðju ári um 2,5%. Til að húsnæðisbætur skertust ekki á móti yrði frítekjumark húsnæðisbóta jafnframt hækkað um 2,5% afturvirkt frá og með 1. janúar 2023. Hvort tveggja væri til viðbótar við 7,4% hækkun í upphafi árs.
    Þessar aðgerðir koma til viðbótar verulegum stuðningi undanfarin misseri. Þar má m.a. nefna:
     *      Bætur almannatrygginga hækkuðu um tæp 9% árið 2022 og um 7,4% 1. janúar 2023.
     *      Frítekjumark atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hækkaði í 200.000 kr. í ársbyrjun 2023.
     *      Húsaleigubætur hafa verið hækkaðar um fjórðung frá miðju ári 2022 auk þess sem frítekjumörk voru hækkuð til jafns við hækkun bóta.
     *      Eignamörk voru hækkuð um 50% í vaxtabótakerfinu í byrjun árs.
     *      Barnabætur hækkuðu í byrjun árs með hærri grunnfjárhæðum og skerðingarmörkum, auk fækkunar á skerðingarhlutföllum. Þetta leiðir til þess að um 3.000 fleiri fjölskyldur en ella fá bætur í nýju kerfi. Auk þessa er unnið að fyrirkomulagi á greiðslu samtímabarnabóta sem kemur til framkvæmda í byrjun árs 2024.
     *      Persónuafsláttur og þrepamörk hækkuðu um 10,7% 1. janúar 2023. Alls lækka skattar á heimili um 6 milljarða kr. á árinu sökum þessa. Meðalskatthlutfall einstaklings með 450.000 kr. í mánaðarlaun lækkar þannig um 1,8% og 0,9% hjá einstaklingi með 900.000 kr. í mánaðarlaun. Ráðstöfunartekjur beggja heimila vaxa þannig um u.þ.b. 100.000 kr. á ári aðeins vegna skattalækkunarinnar.
    Þessar ráðstafanir og stefnumörkun um ríkisfjármál í fjármálaáætlun hafa falið í sér aukið aðhald sem leggst gegn verðbólgu samhliða því að styrkur grunnþjónustu og almannatrygginga er varinn og fjármunum forgangsraðað í þágu þeirra sem eru ef til vill hvað berskjaldaðastir fyrir hækkandi vöxtum og verðbólgu.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við ef sú staða kemur upp að mikill fjöldi einstaklinga lendir í greiðsluerfiðleikum á næstunni vegna hárra vaxta og verðbólgu og gæti komið til greina að grípa til almennra aðgerða ef svo fer?
    Lánastofnanir hafa ýmsa möguleika til að koma til móts við viðskiptavini sem lenda í tímabundnum greiðsluerfiðleikum. Á þetta er bent í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar 7. júní 2023. Í henni eru lánveitendur hvattir til að huga að þyngri greiðslubyrði lántakenda til að fyrirbyggja greiðsluerfiðleika. Í yfirlýsingunni eru lagðar til nokkrar leiðir í þeim efnum og bent á að margir lántakar hafi rúma eiginfjárstöðu sem ætti að gefa svigrúm til að tryggja að greiðslubyrði haldist í takt við viðmið lánþegaskilyrða, þ.e. reglna um hámark veðsetningarhlutfalls og reglna um hámark greiðslubyrðarhlutfalls sem getið var í svari við 1. tölul.
    Fjármála- og efnahagsráðherra útilokar ekki að gripið verði til frekari aðgerða en þeirra sem nú þegar hefur verið hrint í framkvæmd ef slíkt verður talið nauðsynlegt. Vanskil á útlánum til heimila voru 0,8% við lok annars ársfjórðungs að því er segir í Fjármálastöðugleika, riti Seðlabanka Íslands, sem er lítið í sögulegu og alþjóðlegu samhengi. Vanskil hafa ekki aukist svo að neinu nemi þrátt fyrir hækkun vaxta að undanförnu. Tekjur heimila hafa vaxið hratt og skuldir þeirra eru litlar í hlutfalli við tekjur og eignir þeirra, bæði sögulega og í samanburði við Norðurlönd.

     3.      Telur ráðherra koma til greina að leggja til breytingar á lögum eða reglum til að gefa neytendum kost á að setja þak á greidda nafnvexti svo að greiðslubyrði haldist í takt við viðmið lánþegaskilyrða eins og var bent á sem möguleika í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands 7. júní 2023?
    Gildandi lög og reglur hindra ekki að lántakar og lánveitendur semji um breytingar á fyrirkomulagi greiðslna af lánum til að takmarka greiðslubyrði og fyrirbyggja greiðsluerfiðleika, eftir atvikum með því að breyta vaxtagreiðslum. Sem dæmi má taka að bankar hafa boðið viðskiptavinum sínum að draga úr greiðslubyrði með lengingu lána, endurfjármögnun og með tímabundnu mánaðarlegu greiðsluþaki. Einstaklingar í verulegum greiðsluerfiðleikum geta leitað eftir greiðsluaðlögun með atbeina umboðsmanns skuldara samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, og lögum um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010. Með greiðsluaðlögun má kveða á um eftirgjöf eða lækkun skulda eða breytt fyrirkomulag greiðslna af lánum til að gera skuldurum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu. Kveðið er á um frekari úrræði sem geta gagnast skuldurum í greiðsluvanda, m.a. í lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, nr. 50/2009, og lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, nr. 63/1985.

     4.      Telur ráðherra koma til greina að beita sér fyrir breytingum á reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda svo að einstaklingar sem kjósa að breyta óverðtryggðum lánum í verðtryggð lán vegna vaxtahækkana eigi þess kost að breyta þeim aftur í óverðtryggð lán síðar án teljandi hindrana?
    Ráðherra hefur ekki aðkomu að setningu reglnanna. Seðlabanka Íslands er með lögum nr. 118/2016 falin heimild til að ákveða með reglum hámark greiðslubyrðar fasteignaláns í hlutfalli við tekjur neytenda að undangengnu samþykki fjármálastöðugleikanefndar. Einstaklingur sem hefur breytt láni úr óverðtryggðu láni í verðtryggt lán til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði hefur möguleika á að breyta láni sínu aftur í óverðtryggt lán ef aðstæður þróast þannig að greiðslubyrði lánsins verði aftur ásættanleg fyrir viðkomandi lántaka og innan þeirra marka sem reglurnar ákvarða.