Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 879  —  382. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um framlög og hagræðingarkröfu til Ríkisútvarpsins.


     1.      Hver eru áhrif fólksfjölgunar á framlög til Ríkisútvarpsins árin 2017–2023, sundurliðað eftir árum?
    Á árunum 2017–2023 hafa framlög til Ríkisútvarpsins hækkað um 1.606 millj. kr. þegar tekið er tillit til fólksfjölgunar. Á myndinni hér fyrir neðan sést samanburður á þróun framlagsins út frá rauntölum annars vegar og þar sem fjöldi einstaklinga 2017 er notaður sem fasti hins vegar. Einungis er hér verið að taka tillit til fólksfjölgunar hvað varðar fjölda einstaklinga en ekki fjölda lögaðila.

Mynd 1. Þróun framlags til RÚV 2017–2023.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hver er kostnaðarauki Ríkisútvarpsins vegna fólksfjölgunar árin 2017–2023, sundurliðað eftir árum?
    Kostnaður við þjónustu Ríkisútvarpsins eykst almennt ekki í jöfnu hlutfalli við fjölgun þeirra einstaklinga sem nýta sér þjónustuna. Hins vegar kann kostnaður að aukast með aukinni þjónustu af ýmsu tagi við ólíka hópa samfélagsins. Almannaþjónustumiðlar um alla Evrópu eru oftar en ekki fjármagnaðir með tilgreindu gjaldi sem hver og einn greiðir og er sú nálgun almennt hugsuð til þess að unnt sé að ná utan um fleiri verkefni sem kunna að fylgja auknum fólksfjölda; með dagskrárgerð og fréttaflutningi frá fleiri stöðum á landinu og þjónustu við fjölbreytta hópa samfélagsins, t.d. með auknu framboði á efni fyrir ólíka aldurshópa, efni á auðskildu máli sem m.a. er ætlað fötluðu fólki, efni sem ætlað er fólki af erlendum uppruna en einnig vegna tæknikostnaðar í tengslum við dreifingu, streymiskostnaðar og fleiri þátta. Ekki er unnt að greina kostnaðarauka af þessu tagi með tilliti til fólksfjölgunar, sundurliðað eftir árum.

     3.      Hvaða áhrif hafa verðbætur haft á framlög til Ríkisútvarpsins árin 2017–2023, sundurliðað eftir árum?
    Útvarpsgjaldið er hækkað árlega og hefur gjaldið hækkað í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga, þ.e. prósentutöluhækkun útvarpsgjaldsins hefur verið sú sama og er á öðrum verðlagshækkunum fjárlagafrumvarpsins. Framkvæmdin er sú að krónutalan er hækkuð ár hvert en alltaf í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga, ekki almennar verðlagsforsendur. Þannig hækkaði útvarpsgjaldið um 3,5% samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi, þrátt fyrir verðbólgu á þessu ári og að fyrirliggjandi verðbólguspá næsta árs sé hærri. Í því felst því raunlækkun framlaga til Ríkisútvarpsins en á móti nýtur Ríkisútvarpið þess að greiðendum á næsta ári fjölgar nokkuð.

     4.      Hver er munurinn á hagræðingarkröfu til Ríkisútvarpsins og hagræðingarkröfu til annarra ríkisstofnana?
    Framlag til Ríkisútvarpsins er ákvarðað með lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, og á að vera að lágmarki sem nemur tekjuáætlun fjárlaga. Við það bætast 175 millj. kr., til eflingar á leiknu íslensku sjónvarpsefni, samkvæmt þjónustusamningi.
    Fjárlagaliðurinn fyrir framlögin til Ríkisútvarpsins er undanskilinn hagræðingarkröfu enda er framlagið reiknað út frá ákveðnu tekjumódeli sem haldið er utan um í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ef taka ætti upp hagræðingarkröfu á framlag til Ríkisútvarpsins gæti sú krafa birst með tvennum hætti: Annars vegar með því að skerða viðbótarframlag að fjárhæð 175 millj. kr. til eflingar á leiknu íslensku sjónvarpsefni eða með því að taka ekki krónutöluhækkun á útvarpsgjaldi með í tekjumódelið við útreikning á framlagi til Ríkisútvarpsins.
    Um leið skal á það bent að tekjumódel RÚV er næmt fyrir sveiflum í efnahagslífinu og t.d. lækkuðu tekjur af útvarpsgjaldi umtalsvert í kjölfar kórónuveirufaraldursins, vegna þess mats að greiðendum gjaldsins myndi fækka í kjölfar versnandi efnahagsástands og innheimtuhlutfall falla. Í þessu fólst að hagræða þurfti um mörg hundruð milljónir króna í rekstri Ríkisútvarpsins fyrir rúmum tveimur árum en við það fækkaði starfsfólki Ríkisútvarpsins um 20 manns, með aðgerðum sem fólu m.a. í sér uppsagnir og að ekki var ráðið í lausar stöður. Að því leyti var sambærileg hagræðingarkrafa gerð til Ríkisútvarpsins fyrir rúmum tveimur árum og sú krafa um hagræðingu sem ríkisaðilar standa frammi fyrir um þessar mundir.