Ferill 559. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 896  —  559. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Kára Gautasyni um tilkynningarskylda útlánaþjónustu og neytendalán.


     1.      Hvert var umfang lánveitinga þeirra aðila sem stunda tilkynningarskylda útlánaþjónustu, sbr. lög um neytendalán, nr. 33/2013, síðastliðin þrjú ár? Svar óskast sundurliðað eftir aðilum, meðallánsfjárhæðum hjá hverjum aðila, heildarútlánsfjárhæðum hvers aðila og aldri lántakenda eftir aldurshópum.
    Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laga nr. 33/2013, um neytendalán, sbr. 29. gr. þeirra laga. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Neytendastofu vegna fyrirspurnarinnar, þar sem hún snýr að lögum nr. 33/2013 og framkvæmd þeirra. Í umsögn Neytendastofu kemur fram að alls hafa sjö aðilar verið skráðir sem lánveitendur hjá Neytendastofu, þ.e. aðilar sem stunda tilkynningarskylda útlánaþjónustu, sbr. lög um neytendalán. Það eru Síminn Pay ehf., Núnú lán ehf., Greiðslumiðlun ehf., Aur app ehf., Netgíró hf., Personal Account ehf. og Brúa ehf. Tveir af framantöldum aðilum, Aur app og Netgíró, hafa verið afskráðir hjá Neytendastofu þar sem þeir eru nú reknir sem útibú hjá Kviku banka og falla þar með undir eftirlit Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
    Neytendastofa hefur heimild skv. 29. gr. laganna til að krefja lánveitendur, sem ekki eru starfsleyfisskyldir samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, um upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja fyrir stofnunina til að meta áhrif lánastarfsemi á fjármálamarkað og neytendur. Nær sú heimild til upplýsinga um umfang lánveitinga sem spurt er um.
    Neytendastofa óskaði eftir framangreindum upplýsingum í janúar 2023 frá þeim lánveitendum sem voru á þeim tíma skráðir hjá Neytendastofu. Hvorki í umræddu lagaákvæði (29. gr. laga nr. 33/2013) né í upplýsingabeiðni Neytendastofu er gert ráð fyrir að umræddar upplýsingar kunni að verða gerðar opinberar. Þvert á móti gerir ákvæðið ráð fyrir að upplýsingar séu notaðar af Neytendastofu eingöngu til að meta áhrif lánastarfsemi á fjármálamarkað og neytendur.
    Í svari Neytendastofu til ráðuneytisins vegna fyrirspurnarinnar kemur fram að umræddar upplýsingar um umfang lánveitinga einstakra fyrirtækja kunni að falla undir 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Með vísan til þess, sem og ákvæðis 29. gr. laga nr. 33/2013, sbr. framangreint, telur Neytendastofa sér ekki lagalega heimilt að afhenda þær upplýsingar sem hún hefur aflað á grundvelli umrædds lagaákvæðis.
    Með vísan til framangreinds liggja því ekki fyrir upplýsingar um umfang lánveitinga þeirra aðila sem stunda tilkynningarskylda útlánaþjónustu, sbr. lög um neytendalán, síðastliðin þrjú ár.

     2.      Hver voru vanskil á lánum aðila sem stunda tilkynningarskylda útlánaþjónustu samkvæmt lögum um neytendalán, gert upp eftir aðilum og árum síðastliðin þrjú ár?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar liggja ekki fyrir upplýsingar um umfang lánveitinga þeirra aðila sem stunda tilkynningarskylda útlánaþjónustu, sbr. lög um neytendalán, nr. 33/2013, og á það sama við um upplýsingar um vanskil á lánum aðila sem stunda tilkynningarskylda útlánaþjónustu samkvæmt lögum um neytendalán.

     3.      Er ráðherra kunnugt um eftirlitsskyld fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 129/1997 eða lög nr. 161/2002, sem eiga virka eignarhluti í aðilum eða móðurfélögum aðila sem spurt er um í 1. tölul.? Ef svo er, hvaða fjármálafyrirtæki eiga virka eignarhluti í hvaða tilkynningarskyldu aðilum?
    Af þeim aðilum sem vísað er til í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar eru, samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins, tveir aðilar þar sem eftirlitsskyld fjármálafyrirtæki eða lífeyrissjóðir, sbr. lög nr. 129/1997 og lög nr. 161/2002, eiga virkan eignarhlut. Annars vegar Síminn Pay ehf. þar sem Síminn hf. fer með 100% eignarhald. Margir lífeyrissjóðir eru meðal 10 stærstu hluthafa Símans hf. en einungis Lífeyrissjóður verzlunarmanna er með meira en 10% eignarhlut. Hins vegar er Greiðslumiðlun ehf. sem er 100% í eigu Greiðslumiðlunar Íslands ehf. en Landsbankinn hf. fer með 47,9% eignarhlut í Greiðslumiðlun Íslands.
    Taka ber fram að þessar upplýsingar byggja á þeim upplýsingum sem eru opinberlega aðgengilegar í ársreikningum félaga og eignarhald getur hafa breyst frá því sem kemur fram í síðasta ársreikningi viðkomandi félaga.