Ferill 515. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 915  —  515. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Rögnu Sigurðardóttur um ívilnanir við endurgreiðslu námslána heilbrigðisstarfsfólks.


     1.      Hyggst ráðherra nýta heimild í lögum nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna, um ívilnanir við endurgreiðslu námslána fyrir heilbrigðisstarfsfólk, á grundvelli 27. gr., 28. gr. eða beggja greina?
    Heilbrigðisráðherra hóf undirbúning með skipun starfshóps 14. desember 2022. Verkefni starfshópsins var að koma með tillögur til að jafna aðgengi að ýmiss konar sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði óháð búsetu. Starfshópnum var m.a. falið að koma með tillögur að reglum, viðmiðum og leiðum til að gera veitendum heilbrigðisþjónustu kleift að nýta 27. og 28. gr. laga um Menntasjóð námsmanna til ívilnana námslána. Starfshópurinn skilaði heilbrigðisráðherra tillögum sínum í maí 2023 og eru þær aðgengilegar á skýrsluformi á vef heilbrigðisráðuneytisins.
    Heimildir til ívilnana námslána í 27. og 28. gr. laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, liggja hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

     2.      Hefur ráðherra hafið undirbúning á slíkri ívilnun í samræmi við 2. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 28. gr. laganna? Ef svo er, hvaða undirbúningur er hafinn, hvenær hófst vinna við hann og hvenær er fyrirhugað að henni ljúki?
    Já, frá því að hópurinn skilaði tillögum sínum hefur heilbrigðisráðuneytið beitt sér fyrir því að tillögurnar fari í framkvæmd. Heilbrigðisráðuneytið vinnur að undirbúningi þess að hægt verði að auglýsa ívilnanir samkvæmt 27. gr. laganna, en til að unnt sé að veita ívilnanir samkvæmt ákvæðinu þurfa að liggja fyrir upplýsingar um viðvarandi eða fyrirsjáanlegan skort í starfsstétt.
    Þá hefur heilbrigðisráðuneytið haft milligöngu um að koma á fót samstarfi Byggðastofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis sem vinna nú að nauðsynlegum undirbúningi til þess að unnt verði að auglýsa ívilnanir samkvæmt 2. mgr. 28. gr. Innviðaráðuneyti tekur einnig þátt í þeirri vinnu enda byggist hún á aðgerð A.6 í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036 sem var samþykkt á Alþingi með þingsályktun (þskj. 1383, 563. mál á 152. löggjafarþingi). Búast má við fyrstu greiningum heilbrigðisráðuneytisins á þessu ári og sama má vænta um greiningar annarra samstarfsaðila.

     3.      Hefur ráðherra hafið samráð við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti auk fjármála- og efnahagsráðuneytis um fjármögnun ívilnunar fyrir heilbrigðisstarfsfólk á grundvelli 27. gr. og/eða 28. gr. laganna? Liggur fyrir að hún verði fjármögnuð? Ef svo er, hvenær?
    Já, í áðurnefndum starfshópi ráðherra voru bæði fulltrúar heilbrigðisráðuneytis og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. Verkefninu er þó ekki lokið því framkvæma þarf tillögur hópsins og það krefst áframhaldandi samstarfs heilbrigðisráðuneytis og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. Fjármögnun ívilnana á grundvelli laga nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna, heyrir ekki undir heilbrigðisráðuneytið. Bæði Menntasjóður námsmanna, ívilnanaheimildir laganna og fjármögnun þeirra heyra undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti og ber því að beina fyrirspurnum um það til ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmála.

     4.      Telur ráðherra að einhvers konar hindranir séu í vegi fyrir því að nýta heimild til ívilnunar, sbr. 27. gr. og/eða 28. gr. laganna? Ef svo er, hverjar eru þær?
    Lagaákvæðin krefjast þess að ólíkir aðilar komi að undirbúningi ívilnana og það krefst samvinnu. Unnið er að því að koma á laggirnar vettvangi með fulltrúum heilbrigðisráðuneytis og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis ásamt viðeigandi hagaðilum sem fái það hlutverk að hrinda ívilnunum námslána til tiltekinna heilbrigðisfagstétta í framkvæmd.
    Ívilnanir sem kveðið er á um fela í sér afslátt af endurgreiðslu námslána og lendir því kostnaður af því hjá Menntasjóði námsmanna, sem heyrir undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Innviðaráðuneyti fjármagnar undirbúningsvinnu við beitingu ívilnana á grundvelli 28. gr. laga um Menntasjóð námsmanna, er varðar þörf á menntuðu fólki á tilteknum svæðum. Samkvæmt lið A.6 í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036 er áætlað að 2 milljónir króna komi úr byggðaáætlun til Byggðastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.