Ferill 930. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1376  —  930. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um lagareldi.

Frá matvælaráðherra.



1. ÞÁTTUR

Gildissvið, stjórnsýsla o.fl.

I. KAFLI

Markmið, gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu lagareldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skal leitast við að tryggja vernd vistkerfa, sjávarbotns og vatnshlota sem og líffræðilega fjölbreytni, velferð eldisfiska og gæði framleiðslu. Við framkvæmd laganna skal byggt á vistkerfisnálgun og varúðarnálgun.
    Leitast skal við að fyrirbyggja hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og vistkerfi þeirra ásamt því að tryggja hagsmuni þeirra sem nýta villta nytjastofna. Til að ná því markmiði skal tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í lagareldi standist ströngustu staðla og kröfur sem gerðir eru til lagareldis. Skal þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra nytjastofna og annarra villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu.

2. gr.

Gildissvið og lagaskil.

    Lög þessi gilda um sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi. Lögin gilda ekki um ræktun og nýtingu sjávargróðurs, skelfiskrækt eða fiskrækt í ferskvatni samkvæmt lögum um fiskrækt.

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum, reglugerðum og reglum settum á grundvelli þeirra, er merking hugtaka sem hér segir:
     1.      Afföll: Dauði eldisfisks í eldiseiningum eða í sjó. Til affalla telst einnig förgun á fiski vegna sára, sjúkdóma og sníkjudýra.
     2.      Áhættumat erfðablöndunar: Mat á þeim fjölda frjórra eldislaxa sem strýkur úr eldi í sjó og vænta má að komi í ár og valdi erfðablöndun við villta nytjastofna lax.
     3.      Burðarþolsmat: Mat á þoli vatnshlota eða annarra afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu álagi af völdum sjókvíaeldis eða hafeldis án þess að það hafi óæskileg áhrif á vistkerfi og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru fyrir það samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að meta óæskileg staðbundin áhrif af sjókvíaeldi og hafeldi.
     4.      Eldisfiskur: Fiskur sem hefur verið alinn í lengri eða skemmri tíma í sjókvíaeldi, hafeldi eða landeldi.
     5.      Eldiseining: Eldisker, tankur, tjörn, stöðuvatn eða sambærilegar afmarkaðar einingar á landi. Sjókvíar eru ekki eldiseiningar í skilningi laga þessara.
     6.      Eldislax: Lax sem hefur verið alinn í lengri eða skemmri tíma í sjókvíaeldi, hafeldi eða í landeldi.
     7.      Eldissvæði: Svæði innan smitvarnasvæðis þar sem sjókvíaeldi eða hafeldi er leyft og afmarkað með sérstökum hnitum.
     8.      Fiskrækt: Hvers konar aðgerðir sem ætla má að skapi eða auki fiskgengd í veiðivatni eða sjó.
     9.      Fiskstofn: Hópur fiska sömu tegundar sem hrygnir á tilteknum stað og tíma en gerir það ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða tíma.
     10.      Fiskur: Allur fiskur og önnur lagardýr óháð þroskastigi, þ.m.t. seiði, hrogn og svil.
     11.      Frjór lax: Lax sem er fær um að framleiða frjóar kynfrumur.
     12.      Göngusilungur: Silungur sem gengur á milli sjávar og ferskvatns, svo sem sjóbirtingur og sjóbleikja.
     13.      Hafbeit: Slepping gönguseiða til sjógöngu og föngun þeirra sem fullvaxta fiska á sleppistað þegar þeir ganga úr sjó í ferskt vatn, annaðhvort til slátrunar eða flutnings í annað veiðivatn til endurveiða.
     14.      Hafeldi: Sjókvíaeldi á svæðum sem eru hvort tveggja í senn utan friðunarsvæða skv. 7. gr. laga þessara og viðmiðunarlínu skv. 5. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997.
     15.      Hálflokaður eldisbúnaður: Búnaður sem er opinn ofan sjávarmáls en með ógegndræpa girðingu utan um nótapoka þannig að fóðurleifum og úrgangi er safnað saman en ferskum sjó dælt inn fyrir girðinguna.
     16.      Hámarkslífmassi: Hámark lífmassa samkvæmt burðarþolsmati eins og lífmassa hefur verið skipt niður á tiltekið vatnshlot, smitvarnasvæði eða annað hafsvæði.
     17.      Heildarlaxamagn: Heildarmagn frjós lax sem heimilt er að ala í sjó hverju sinni, mælt í lífmassa.
     18.      Kynbætur: Markvisst val með tilliti til ákveðinna arfgengra eiginleika. Slíkir eiginleikar geta verið mikill vaxtarhraði eða síðbúinn kynþroski. Til undaneldis eru valdir fiskar sem sýna ákjósanlega eiginleika umfram aðra fiska í stofninum. Slíku vali er viðhaldið og það aukið með vali í hverri kynslóð.
     19.      Kynslóð: Allir þeir fiskar sem settir eru út í sjó á sama almanaksári á sama smitvarnasvæði.
     20.      Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni.
     21.      Lagareldi: Sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi á fiski.
     22.      Landeldi: Geymsla, gæsla, fóðrun og önnur meðhöndlun fiska í eldiseiningum.
     23.      Landeldisstöð: Starfsstöð á landi sem nýtt er í þágu landeldis.
     24.      Lax: Fiskur af tegundinni Salmo salar.
     25.      Laxamagn:
Heimild rekstrarleyfishafa til eldis á frjóum laxi í sjó hverju sinni, mælt í lífmassa.
     26.      Laxahlutur: Hlutdeild rekstrarleyfishafa í heildarlaxamagni.
     27.      Laxfiskar: Fiskar af laxfiskaætt ( Salmonidae), m.a. tegundirnar lax (Salmo salar), urriði ( Salmo trutta), bleikja ( Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur ( Oncorhynchus mykiss).
     28.      Leyfilegur lífmassi:
Leyfilegt hámark lífmassa fisks sem rekstraraðili má ala hverju sinni að teknu tilliti til breytinga samkvæmt lögum þessum.
     29.      Lífmassi: Lífmassi er margfeldi fjölda og meðalþyngdar fiska.
     30.      Lokaður eldisbúnaður: Eldisbúnaður þar sem fiski er haldið í lokuðu rými í sjó eða söltu vatni, sjó- eða vatnsskiptum er stýrt og mögulegt er að endurnýta úrgang vegna eldisins með því að fjarlægja hann úr eldisbúnaðinum.
     31.      Lús: Sníkjudýr sem finnast á fiskum í sjó og eru ýmist á eldisfiski eða villtum fiskum, þ.m.t. laxalús ( Lepeophtheirus salmonis) og fiskilús ( Caligus elongatus).
     32.      Ófrjór lax: Lax sem er ófær um að framleiða frjóar kynfrumur.
     33.      Sjókví: Netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir við yfirborð sjávar auk hvers konar annars búnaðar sem ætlaður er til sjókvíaeldis, þ.m.t. festingar og akkeri.
     34.      Sjókvíaeldi: Geymsla, gæsla, fóðrun og önnur meðhöndlun fiska í sjó, þ.m.t. eldi á fiskum í sjókvíum, hálflokuðum eða lokuðum eldisbúnaði.
     35.      Sjókvíaeldisbyggðir: Sveitarfélög sem hafa nána landfræðilega tengingu við smitvarnasvæði innan tiltekins landshluta.
     36.      Sjókvíaeldisstöð: Starfsstöð á eða við sjó sem nýtt er í þágu sjókvíaeldis. Sjókvíaeldisstöð getur verið sjókví, lokaður eldisbúnaður eða hálflokaður eldisbúnaður, fleki, fóðurlagnir og/eða annar sá búnaður sem er nauðsynlegur til reksturs sjókvíaeldis. Búnaðurinn getur verið sökkvanlegur eða fljótandi.
     37.      Smitvarnasvæði: Afmarkað svæði á sjó þar sem heimilt er að stunda sjókvíaeldi eða hafeldi á nánar tilgreindum eldissvæðum.
     38.      Sníkjudýr: Dýr sem lifir sníkjulífi á eða í fiski og getur valdið honum skaða.
     39.      Vatnshlot: Eining vatns, svo sem allt það vatn sem er finna í stöðuvatni, á eða strandsjó samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.
     40.      Veiðivatn: Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða sem mætti vera í ef fiskur væri ræktaður þar.
     41.      Villtir nytjastofnar: Fiskstofn villtra fiska, hvort sem um er að ræða ferskvatnsfiska eða sjávarfiska, sem er nytjaður, eða kann að verða nytjaður, í íslenskri fiskveiðilandhelgi, í ám eða vötnum.
     42.      Villtir nytjastofnar lax: Fiskstofn villtra laxa sem er nytjaður, eða kann að verða nytjaður, í íslenskri fiskveiðilandhelgi, í ám eða vötnum. Til villtra nytjastofna lax teljast annars vegar laxastofnar þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum og hins vegar laxastofn í veiðiám þar sem samþykkt hefur verið fiskræktaráætlun.

II. KAFLI

Stjórnsýsla.

4. gr.

Stjórnsýsla.

    Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum, en framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með að ákvæðum laganna sé framfylgt.
    Ákvarðanir Matvælastofnunar er lúta að skráningarskyldu eða veitingu og afturköllun rekstrarleyfis til lagareldis samkvæmt lögum þessum sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sama gildir um ákvarðanir Matvælastofnunar er lúta að breytingu á heimildum vegna affalla og lúsar. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kærur fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Aðrar ákvarðanir sem Matvælastofnun tekur á grundvelli laga þessara sæta kæru til ráðherra og fer um kærur samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Hafrannsóknastofnun er til ráðgjafar við framkvæmd laga þessara samkvæmt lögum um Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna.

2. ÞÁTTUR

Sjókvíaeldi.

III. KAFLI

Umhverfisvernd og rannsóknir.

5. gr.

Burðarþolsmat, vöktun og rannsóknir.

    Ráðherra ákveður fyrir hvaða vatnshlot eða önnur afmörkuð hafsvæði burðarþolsmat skuli gert og tímasetningu þess. Hafrannsóknastofnun skal framkvæma burðarþolsmat.
    Hafrannsóknastofnun skal meta áhrif af völdum álags frá sjókvíaeldi með því að framkvæma tímabundnar rannsóknir á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis og vakta ástand vistkerfa innan vatnshlota eða annarra afmarkaðra hafsvæða sem þegar hafa verið metin til burðarþols. Endurskoða skal burðarþolsmat svo oft sem þurfa þykir, til dæmis ef niðurstöður vöktunar eða rannsókna gefa tilefni til, en eigi sjaldnar en á sex ára fresti. Hafrannsóknastofnun skal árlega birta niðurstöður vöktunar á áhrifum af völdum álags fyrir þau hafsvæði sem vöktuð voru árið áður. Rannsóknir og vöktun Hafrannsóknastofnunar á vatnshlotum eða öðrum afmörkuðum hafsvæðum koma ekki í stað eftirlits Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfishafa með áhrifum af sjókvíaeldi innan eldissvæða.
    Matvælastofnun skal halda skrá um leyfilegan lífmassa smitvarnasvæða sem sýnir hámarkslífmassa samkvæmt burðarþolsmati hverju sinni. Lífmassi fisks í skrá Matvælastofnunar skal að hámarki samrýmast burðarþolsmati. Skráin skal að auki sýna breytingar sem verða á leyfilegum lífmassa hvers smitvarnasvæðis sem leiðir af breytingum skv. IX. og X. kafla. Skráin skal birt opinberlega á vef Matvælastofnunar.
    Skal Matvælastofnun, ef burðarþolsmat lækkar, aðlaga skrá sína fyrir hvert smitvarnasvæði til samræmis við burðarþolsmat, og skal gefa rekstrarleyfishöfum hæfilegan frest til aðlögunar. Um afleiðingar af hækkun burðarþolsmats fer skv. 32. gr. Hvorki skal tilgreina hámarkslífmassa í rekstrarleyfum samkvæmt lögum þessum né starfsleyfum sem gefin eru út samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Að loknum aðlögunarfresti samkvæmt þessari grein, sem ekki skal vera lengri en 24 mánuðir, er óheimilt að ala meiri fisk í vatnshloti eða öðru afmörkuðu hafsvæði en gildandi burðarþolsmat og skrá Matvælastofnunar segir til um.
    Burðarþolsmat og endurskoðun þess telst áætlun í skilningi laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ráðherra ber ábyrgð á öflun umhverfismats áætlana. Komi ekki til aukningar á hámarkslífmassa við endurskoðun á burðarþolsmati, og séu forsendur fyrir endurskoðuðu burðarþolsmati í veigamiklum atriðum óbreyttar frá fyrra burðarþolsmati, er ráðherra heimilt, að fengnu jákvæðu áliti Skipulagsstofnunar, að láta hjá líða að gera umhverfismat áætlana vegna viðkomandi endurskoðunar burðarþolsmats.
    Heimilt er að setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd, efni, meðferð, útgáfu og breytingu burðarþolsmats. Einnig er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um skrá Matvælastofnunar samkvæmt þessari grein.

6. gr.

Áhættumat erfðablöndunar.

    Hafrannsóknastofnun gerir tillögu til ráðherra um það hámarksmagn frjórra laxa, mælt í lífmassa, sem heimilt er að ala í sjó hverju sinni á tilteknu hafsvæði á grundvelli áhættumats erfðablöndunar. Ráðherra staðfestir áhættumat erfðablöndunar að fenginni tillögu Hafrannsóknastofnunar og er tillagan bindandi fyrir ráðherra. Áhættumat erfðablöndunar skal byggjast á vistkerfis- og varúðarnálgun. Heimildir til að ala frjóan lax samkvæmt lögum þessum skulu miðast við það magn sem fram kemur í reglugerð.
    Með áhættumatinu er áhætta af erfðablöndun frjórra eldislaxa við villta nytjastofna lax metin með líkani. Áhættumat skal gefið út miðað við þann lífmassa frjórra laxa sem mætti ala í sjó ef hagkvæmustu skiptingu milli smitvarnasvæða væri fylgt. Áhættumat erfðablöndunar skal ekki skipt niður á smitvarnasvæði af Hafrannsóknastofnun en getur tekið mið af skiptingu milli hafsvæða og landshluta ef við á. Hluti ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar í áhættumati erfðablöndunar er framsetning skiptihlutfalla vegna flutnings laxahluta milli smitvarnasvæða. Áhættumatið skal byggt á þáttum eins og áætlun um fjölda strokufiska og endurkomuhlutfalli þeirra, áhrifum hafstrauma og dreifingu fiska, fjarlægð áa frá eldissvæðum, stofnstærð laxa í ám og öðru sem þýðingu kann að hafa.
    Í áhættumati erfðablöndunar er heimilt að taka tillit til mótvægisaðgerða sem draga úr mögulegri erfðablöndun. Einungis skal tekið tillit til mótvægisaðgerða við gerð og notkun áhættumats erfðablöndunar ef fyrir liggur við gerð áhættumats erfðablöndunar að allir rekstrarleyfishafar sem ala frjóan lax á sama hafsvæði hafa samþykkt að rekstrarleyfum verði breytt þannig að skylda til viðkomandi mótvægisaðgerða verði hluti rekstrarleyfa. Ný rekstrarleyfi sem gefin eru út eftir að mótvægisaðgerðir hafa verið samþykktar skulu hafa að geyma skyldu til sömu mótvægisaðgerða.
    Hafrannsóknastofnun skal endurskoða áhættumat svo oft sem þurfa þykir, en þó eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
    Matvælastofnun skal, við útgáfu nýrrar reglugerðar um heildarlaxamagni skv. 1. mgr., breyta skráningu á laxamagni rekstrarleyfishafa miðað við laxahlut. Rekstrarleyfishöfum skal vera heimilt að ljúka eldi á þeim kynslóðum sem eru í sjó en við næstu útsetningu fiska eftir útgáfu reglugerðar skv. 1. málsl. skal taka mið af heildarlaxamagni samkvæmt reglugerðinni.
    Sé heildarlaxamagn bundið tilteknum skilyrðum, t.d. um mótvægisaðgerðir, skal Matvælastofnun hafa eftirlit með að rekstrarleyfishafar fullnægi þeim skilyrðum.
    Áhættumat erfðablöndunar og endurskoðun þess telst áætlun í skilningi laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ráðherra ber ábyrgð á öflun umhverfismats áætlana. Komi ekki til aukningar á heildarlaxamagni við endurskoðun á áhættumati erfðablöndunar, og séu forsendur fyrir endurskoðuðu áhættumati erfðablöndunar í veigamiklum atriðum óbreyttar frá fyrra áhættumati erfðablöndunar, er ráðherra heimilt, að fengnu jákvæðu áliti Skipulagsstofnunar, að láta hjá líða að gera umhverfismat áætlana vegna viðkomandi endurskoðunar áhættumats erfðablöndunar.
    Ráðherra skal setja nánari ákvæði í reglugerð um meðferð, útgáfu og breytingu rekstrarleyfa og mótvægisaðgerðir, hvaða stofnar teljast til villtra nytjastofna lax, sem og framkvæmd vöktunar á fjölda frjórra laxa og lífmassa þeirra. Þar verða nánari ákvæði um afmörkun landshluta sem og um meðferð, útgáfu og breytingu áhættumats. Reglugerðin skal taka tillit til bestu fáanlegrar tækni.

7. gr.

Friðunarsvæði.

    Til verndar villtum laxi er eldi laxfiska í sjókvíum óheimilt á eftirtöldum svæðum við strendur landsins:
     1.      Í Faxaflóa innan línu sem dregin er frá Garðskaga að Malarrifi á Snæfellsnesi.
     2.      Í Breiðafirði innan línu sem dregin er frá Hellissandi að Látrabjargi.
     3.      Í Húnaflóa og Skagafirði innan línu sem dregin er frá Geirólfsgnúp að Siglunesi.
     4.      Í Eyjafirði innan línu sem dregin er frá Siglunesi að Bjarnarfjalli.
     5.      Við Skjálfanda innan línu sem dregin er frá Bjarnarfjalli að Tjörnestá.
     6.      Í Öxarfirði innan línu sem dregin er frá Tjörnestá að Rauðanúpi.
     7.      Við Norðausturland innan línu sem dregin er frá Hraunhafnartanga að Fonti á Langanesi og frá Fonti að Glettinganesi.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á í reglugerð um takmörk friðunarsvæða skv. 1. mgr. með vísan til hnita eða nákvæmari kennileita.

8. gr.

Upprunarakning laxa og aðskilnaður í eldi.

    Skylt er að halda skrá yfir uppruna eldislaxa sem byggist á gagnagrunni um erfðaefni hjá framleiðanda hrogna. Ráðherra skal setja nánari ákvæði í reglugerð um þær aðferðir sem skylt er að nota til að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva og um framkvæmd þeirra.
    Eldi ófrjórra laxa skal halda aðgreindu frá eldi frjórra laxa.

9. gr.

Sleppingar eldisfisks.

    Eldisfisk sem alinn er til notkunar í sjókvíaeldi er óheimilt að nýta í fiskrækt eða hafbeit. Þó getur Hafrannsóknastofnun gert sleppitilraunir í óverulegum mæli, að fenginni umsögn Matvælastofnunar og Fiskistofu, og eftir atvikum annarra fagaðila, ef ástæða þykir til.

10. gr.

Tímabundnar rannsóknir Hafrannsóknastofnunar.

    Hafrannsóknastofnun getur, sjálf eða í samvinnu við aðra, stundað tímabundnar rannsóknir í fiskveiðilandhelgi Íslands á eldi fiska, eldisaðferðum, atferli fiska í sjókvíaeldi, mannvirkjum, búnaði og heilbrigði fiska.
    Ráðherra veitir samþykki fyrir rannsóknum skv. 1. mgr. samkvæmt umsókn þar sem fram koma m.a. upplýsingar um markmið og framkvæmd rannsóknarinnar.
    Við slíkar rannsóknir skal gætt allra varúðarsjónarmiða vegna þeirrar eldisstarfsemi sem þegar er starfrækt á viðkomandi svæði og þess gætt að tilraunastarfsemi raski ekki eða auki rekstrarlega áhættu þeirrar starfsemi.

IV. KAFLI

Smitvarnasvæði og dýraheilbrigði.

11. gr.

Afmörkun smitvarnasvæða.

    Afmarka skal tiltekin smitvarnasvæði þar sem stunda má sjókvíaeldi. Almennt skal miða við að hvert einstakt vatnshlot sé eitt smitvarnasvæði en þó er heimilt að skipta vatnshloti í fleiri en eitt smitvarnasvæði ef slíkt er mögulegt með tilliti til rekstraröryggis og smitvarna. Með sama hætti má ákveða að smitvarnasvæði nái yfir fleiri en eitt vatnshlot, eða hluta vatnshlota.
    Að fenginni umsögn Matvælastofnunar skal ráðherra ákveða með reglugerð hvaða vatnshlot teljast smitvarnasvæði skv. 1. mgr. og hvernig smitvarnasvæði eru afmörkuð. Í þeim tilfellum þegar vatnshlot skiptist í fleiri en eitt smitvarnasvæði skal ráðherra einnig ákveða hvernig hámarkslífmassi viðkomandi vatnshlots skiptist milli smitvarnasvæða að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

12. gr.

Almennt um smitvarnasvæði.

    Tilgangur með afmörkun smitvarnasvæða er að takmarka útbreiðslu sjúkdóma og sníkjudýra milli einstakra hafsvæða.
    Á hverju smitvarnasvæði skal aðeins veita einum rekstraraðila rekstrarleyfi og starfsleyfi til sjókvíaeldis. Rekstrarleyfishafa er óheimilt að starfrækja sjókvíaeldi á smitvarnasvæði þar sem annar rekstrarleyfishafi starfrækir sjókvíaeldi. Rekstrarleyfishafa er heimilt að starfrækja sjókvíaeldi á fleiri en einu smitvarnasvæði svo fremi sem aðrir rekstrarleyfishafar starfræki ekki sjókvíaeldi á sömu svæðum.
    Starfræki rekstrarleyfishafi sjókvíaeldi á fleiri en einu smitvarnasvæði skulu engu að síður sömu reglur gilda og endranær um flutning milli svæða á fiski, farartækjum, búnaði og öðru því sem getur borið smit eða sníkjudýr milli smitvarnasvæða, sbr. 14. og 15. gr.
    Ráðherra er heimilt að kveða á um lágmarksfjarlægð milli sjókvíaeldisstöðva og einstakra sjókvía í reglugerð.

13. gr.

Hvíld smitvarnasvæða.

    Rekstrarleyfishafa er einungis heimilt að ala eina kynslóð fisks í einu á smitvarnasvæði. Rekstrarleyfishafa er skylt að hvíla smitvarnasvæði í tiltekinn tíma eftir að eldi kynslóðar lýkur. Þegar smitvarnasvæði er í hvíld er með öllu óheimilt að stunda þar sjókvíaeldi eða tengda starfsemi.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um skyldu til sótthreinsunar tækja og búnaðar meðan á hvíld stendur og tiltekna starfsemi sem undanþegin er banni við starfsemi á hvíldartíma smitvarnasvæðis. Í reglugerð skal kveða á um lengd hvíldartíma.

14. gr.

Flutningur farartækja og búnaðar milli smitvarnasvæða.

    Flutningur hvers konar farartækja og/eða búnaðar á vegum rekstrarleyfishafa eða annarra milli smitvarnasvæða er óheimill nema samkvæmt leyfi Matvælastofnunar. Leyfi Matvælastofnunar er ávallt bundið skilyrði um sótthreinsun farartækja og búnaðar nema stofnunin taki annað sérstaklega fram.
    Leyfi sem Matvælastofnun veitir skv. 1. mgr. má veita í einstök skipti eða sem ótímabundið leyfi vegna skipulagðra og endurtekinna ferða um eða milli smitvarnasvæða.
    Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um flutning og ferðir farartækja og/eða búnaðar milli smitvarnasvæða og landeldisstöðva.

15. gr.

Útsetning og flutningur eldisfisks.

    Matvælastofnun veitir heimild til útsetningar fiska í sjó með tilliti til fjölda fiska, lífmassa og tímasetningar útsetningar á einstökum eldissvæðum. Rekstrarleyfishafi skal sækja um heimild til útsetningar fisks í sjókvíar til Matvælastofnunar fyrir fram og eigi síðar en tveimur vikum fyrir áætlaða útsetningu. Rekstrarleyfishafi skal afhenda Matvælastofnun heilsufarsyfirlýsingu dýralæknis áður en heimild er veitt fyrir útsetningu.
    Flutningur eldistegunda, sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi, milli eldissvæða, svo og flutningur á öllum fiski milli smitvarnasvæða eða ótengdra vatnshlota, er óheimill.
    Flutningur fiska á milli sjókvía innan smitvarnasvæðis er tilkynningarskyldur til Matvælastofnunar og skal skráður af rekstrarleyfishafa.

16. gr.

Talning upp úr sjókví.

    Rekstrarleyfishafa er skylt að telja allan fisk upp úr sjókví að kröfu Matvælastofnunar, sé ríkt tilefni til. Talning skal fara þannig fram að Matvælastofnun geti fylgst með henni með áreiðanlegum hætti. Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um skilyrði og aðferðir við talningu upp úr sjókví.

17. gr.

Þéttleiki og fjöldi fiska í sjókvíum.

    Rekstrarleyfishafa ber að sjá til þess að fjöldi fiska og þéttleiki fisks í sjókvíum sé ávallt í samræmi við ákvæði rekstrarleyfis og reglugerða settum samkvæmt lögum þessum. Ráðherra skal í reglugerð setja ákvæði um hámarksþéttleika fiska í sjókvíum og útreikning á þéttleika.

18. gr.

Skimun og bólusetning við sjúkdómum.

    Rekstrarleyfishafa er skylt að láta fara fram reglulega skimun fyrir tilkynningarskyldum sjúkdómum í fiski í sjókvíum, m.a. fyrir flutning til útsetningar fiska í sjó. Rekstrarleyfishafa er óheimilt að taka við fiskum til útsetningar í sjó nema niðurstaða úr skimun fyrir flutning liggi fyrir og að sú niðurstaða staðfesti að fiskar séu ekki smitaðir af tilkynningarskyldum sjúkdómum.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða á um fyrir hvaða sjúkdómum skuli bólusetja, sem og um framkvæmd skimunar og bólusetningar.

19. gr.

Bann við eldi tiltekinna tegunda.

    Að fenginni umsögn Matvælastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar getur ráðherra með reglugerð bannað eldi tiltekinna fisktegunda, tiltekinna fiskstofna eða fisks með tiltekna erfðaeiginleika vegna atriða sem varða dýravelferð eða vistkerfi.

20. gr.

Innflutningur á notuðum eldisbúnaði og flutningstækjum.

    Innflutningur á notuðum eldisbúnaði til sjókvíaeldis er óheimill. Til slíks búnaðar teljast m.a. sjókvíar, eldisker, tankar, nætur, fóðrarar og fiskidælur. Þó er heimilt að flytja inn notuð vísindatæki og tæknibúnað, m.a. tæki til flutnings sem sannanlega er hægt að sótthreinsa að mati Matvælastofnunar. Einnig getur Matvælastofnun með sömu skilyrðum heimilað innflutning á öðrum eldisbúnaði enda telji Matvælastofnun ekki líklegt að smitefni sem valda dýrasjúkdómum berist með honum. Sækja skal um leyfi fyrir innflutningi á notuðum vísindatækjum, tæknibúnaði og eldisbúnaði til Matvælastofnunar sem getur heimilað innflutning að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar.
    Sækja skal um leyfi til Matvælastofnunar fyrir innflutningi á brunnbátum og öðrum tækjum til flutnings á fiski. Matvælastofnun getur heimilað innflutning að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar. Matvælastofnun getur bannað innflutning á brunnbátum og öðrum tækjum sem kunna að hafa verið notuð í tengslum við tilkynningarskylda sjúkdóma eða sníkjudýr.

21. gr.

Brunnbátar og sótthreinsun.

    Brunnbátar og önnur tæki til flutnings á fiski skulu vera lokuð og yfirbyggð. Brunnbátar skulu hafa búnað sem gerir þeim kleift að sigla með lokaða brunna sem geta lokað fyrir inntöku og fráveitu á sjó. Jafnframt skulu brunnbátar vera með búnað sem dauðhreinsar fráveitu. Tæmingu brunnbáta skal haga þannig að tryggt sé að smitefni og lúsalirfur berist ekki á smitvarnasvæði.
    Öll flutningstæki, farartæki og búnað skal vera hægt að sótthreinsa með fullnægjandi hætti.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um notkun, eiginleika og sótthreinsun flutningstækja, farartækja og búnaðar sem notaður er í sjókvíaeldi.

22. gr.

Hættusvæði vegna sjúkdóma eða sníkjudýra í sjókvíaeldi.

    Komi upp tilkynningarskyldur atburður vegna sjúkdóma eða sníkjudýra samkvæmt lögum þessum, lögum um varnir gegn fisksjúkdómum eða öðrum reglum sem gilda um sjókvíaeldi, getur Matvælastofnun ákveðið að viðkomandi smitvarnasvæði sé hættusvæði. Þá er Matvælastofnun einnig heimilt að ákveða að nærliggjandi smitvarnasvæði séu áhættusvæði vegna sama atburðar sem og allt svæði innan tiltekinnar fjarlægðar frá eldissvæði eða sjókvíaeldisstöð.
    Sé svæði skilgreint sem hættusvæði skal leita samþykkis Matvælastofnunar fyrir allri umferð á vegum rekstrarleyfishafa um svæðið, slátrun og förgun fisks sem og aðgerðum sem rekstrarleyfishafi hyggst grípa til vegna tilkynningarskylds atburðar.
    Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um heimildir Matvælastofnunar til ráðstafana og takmarkana á hættusvæðum og áhættusvæðum.

23. gr.

Tilvísanir til almennra laga á sviði lagareldis.

    Að öðru leyti en greinir í lögum þessum skulu lög um varnir gegn fisksjúkdómum gilda um varnir og viðbrögð gegn fisksjúkdómum og sníkjudýrum í sjókvíaeldi.
    Að öðru leyti en greinir í lögum þessum skulu lög um velferð dýra gilda um velferð fiska í sjókvíaeldi.

V. KAFLI

Úthlutun smitvarnasvæða og rekstrarleyfi.

24. gr.

Úthlutun smitvarnasvæða.

    Þegar burðarþolsmat hefur verið gert fyrir vatnshlot eða önnur afmörkuð hafsvæði er ráðherra heimilt að úthluta smitvarnasvæðum í viðkomandi vatnshloti eða hafsvæði. Ráðherra ákveður hvenær smitvarnasvæðum er úthlutað og hversu mörgum er úthlutað hverju sinni.
    Smitvarnasvæði skal úthlutað til umsækjanda með útboði og skulu umsækjendur tilgreina í tilboði, auk annarra upplýsinga, þá tilboðsfjárhæð sem þeir eru reiðubúnir að greiða fyrir úthlutun viðkomandi smitvarnasvæðis. Heimilt er að gera kröfu um lágmarkstilboðsfjárhæð í útboðinu. Tilboðsfjárhæð rennur í ríkissjóð.
    Við mat á tilboðum kemur m.a. til skoðunar fjárhæð tilboðs, reynsla af sjókvíaeldisstarfsemi, fjárhagslegur styrkur, mælikvarðar sem mæla hvernig tilboðsgjafi hefur stundað annan rekstur sinn, svo sem nýtingu þegar útgefinna rekstrarleyfa, og upplýsingar um hvernig tilboðsgjafi hyggst stunda reksturinn, m.a. út frá umhverfissjónarmiðum. Ávallt skal heimilt að víkja frá hæsta boði ef aðrir þættir en tilboðsfjárhæð mæla með því að öðru tilboði sé tekið. Úthlutun smitvarnasvæða skal auglýsa opinberlega.
    Komi í ljós að umsækjandi uppfyllir ekki skilmála úthlutunar eða forsendur fyrir henni bresta af öðrum ástæðum er heimilt að úthluta smitvarnasvæðum að nýju samkvæmt þessari grein.
    Úthlutun smitvarnasvæða samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir einstaka smitvarnasvæðum eða yfir heimildum til eldis á smitvarnasvæðum. Hafi aðili, sem fengið hefur smitvarnasvæði til úthlutunar, ekki fengið gefið út rekstrarleyfi til starfsemi á viðkomandi smitvarnasvæði innan fimm ára frá úthlutun, skal úthlutun til viðkomandi aðila falla niður og jafnframt er heimilt að úthluta svæðinu að nýju án bóta eða endurgreiðslu. Glati aðili rekstrarleyfi til sjókvíaeldis á tilteknu smitvarnasvæði glatar sami aðili einnig öllum rétti til smitvarnasvæðis og er heimilt að úthluta því að nýju.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um auglýsingu og úthlutun smitvarnasvæða, skilmála úthlutunar, hvað teljist hagstæðasta tilboð og afturköllun tilboðs.

25. gr.

Rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi.

    Til að starfrækja sjókvíaeldi þarf rekstrarleyfi sem Matvælastofnun veitir og starfsleyfi sem Umhverfisstofnun veitir. Rekstrarleyfi er gefið út fyrir hvert og eitt smitvarnasvæði og veitir heimild til sjókvíaeldis á öllum eldissvæðum innan viðkomandi smitvarnasvæðis. Umsækjandi skal uppfylla kröfur sem gerðar eru um vernd vistkerfa og vatnshlota, heilbrigði fiska og afurða þeirra, um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í fiskum, um velferð fiska og um varnir gegn stroki.
    Sjókvíaeldi skal einungis stunda á eldissvæðum og skulu sjókvíar og tengdur búnaður vera að öllu leyti innan marka eldissvæða.

26. gr.

Móttaka og afgreiðsla umsókna.

    Áður en sótt er um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar og starfsleyfi til Umhverfisstofnunar skal umsækjandi afla staðfestingar frá Skipulagsstofnun um hvort gera þurfi umhverfismat vegna framkvæmda og starfsemi sem gert er ráð fyrir samkvæmt umsóknum um rekstrarleyfi og starfsleyfi.
    Þegar ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir skal umsækjandi afhenda Matvælastofnun umsóknir um leyfi skv. 25. gr. og skulu þær afgreiddar samhliða, sbr. þó 11. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021.
    Rekstrarleyfi og starfsleyfi verða ekki gefin út til sjókvíaeldis nema fyrir liggi strandsvæðaskipulag samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Heimilt er að sækja um rekstrarleyfi þrátt fyrir að umsókn samræmist ekki gildandi strandsvæðaskipulagi en Matvælastofnun er óheimilt að auglýsa tillögu að rekstrarleyfi nema nauðsynlegar breytingar séu gerðar á strandsvæðaskipulagi.
    Matvælastofnun skal framsenda umsókn um starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi til Umhverfisstofnunar til meðferðar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hvor stofnun um sig skal tilkynna umsækjanda hvort umsókn telst fullnægjandi, innan tveggja mánaða frá því að umsókn berst. Þegar Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi skal það sent Matvælastofnun. Matvælastofnun afhendir umsækjanda útgefin starfs- og rekstrarleyfi samtímis. Sé starfsleyfi sem útgefið er af Umhverfisstofnun endurútgefið eða endurskoðað skal Umhverfisstofnun afhenda umsækjanda starfsleyfið.

27. gr.

Umsókn um rekstrarleyfi.

    Umsókn um rekstrarleyfi til sjókvíaeldis skal vera skrifleg. Í henni skulu m.a. koma fram upplýsingar um eignaraðild að sjókvíaeldisstöð, sem og raunverulega eigendur umsækjanda sem eiga meira en 10% í honum ef hann er lögaðili, að umsækjandi hafi fullnægjandi fagþekkingu á viðkomandi sviði, að tillaga að innra eftirlit sjókvíaeldisstöðvar og eldisbúnaður standist kröfur sem nánar er kveðið á um í lögum þessum eða reglugerðum, um stærð og framleiðslumagn mælt í lífmassa og laxahlut, ef við á, eldistegundir, eldisstofna, hlutfall frjórra laxa og ófrjórra laxa í eldi og eldisaðferðir. Einnig skal fylgja umsókn afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
    Umsókn skv. 1. mgr. skulu fylgja gögn um úthlutun smitvarnasvæðis skv. 24. gr. ef við á. Þá skal í umsókn tilgreina hvaða eldissvæði hafa verið afmörkuð á viðkomandi smitvarnasvæði. Umsókn skal einnig fylgja eldisáætlun og rekstraráætlun sem sýnir m.a. uppbyggingarferil eldis og öflun hrogna, seiða og fiska, svo og önnur gögn sem Matvælastofnun telur nauðsynleg til að meta hvort skilyrði til útgáfu rekstrarleyfis séu fyrir hendi.
    Umsókn um rekstrarleyfi skal fylgja áætlun um fjárfestingar í búnaði ásamt staðfestingu á stöðu eigin fjár og eiginfjárhlutfalli umsækjanda þegar umsókn er lögð fram. Eiginfjárhlutfall skal vera að lágmarki 30% að teknu tilliti til fjárfestinga í búnaði samkvæmt áætlun.

28. gr.

Afstaða Matvælastofnunar.

    Sé fyrirhuguð starfsemi háð mati á umhverfisáhrifum skal Matvælastofnun fyrir útgáfu rekstrarleyfis kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar við afgreiðslu rekstrarleyfis. Matvælastofnun skal taka saman greinargerð um afgreiðslu rekstrarleyfis þar sem fjallað er um samræmi milli rekstrarleyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði um mótvægisaðgerðir eða vöktun, sbr. 24. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, skal það koma fram í leyfinu. Matvælastofnun skal í greinargerðinni einnig taka tillit til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni er til, ef um það er fjallað í áliti Skipulagsstofnunar. Sé framkvæmd ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar skal Matvælastofnun fyrir útgáfu rekstrarleyfis kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun um matsskyldu og kanna hvort framkvæmdin sé í samræmi við tilkynnta framkvæmd.
    Matvælastofnun skal taka tillit til áhættumats erfðablöndunar og burðarþolsmats fyrir viðkomandi smitvarnasvæði og taka rökstudda afstöðu til sjúkdómstengdra þátta sem kunna að fylgja starfsemi sjókvíaeldis.

29. gr.

Auglýsing tillögu að rekstrarleyfi. Birting rekstrarleyfis.

    Matvælastofnun skal vinna tillögur að rekstrarleyfum og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Matvælastofnun og Umhverfisstofnun skulu auglýsa tillögu að rekstrarleyfi og starfsleyfi á sama tíma. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Matvælastofnunar innan fjögurra vikna frá auglýsingu.
    Matvælastofnun skal innan tveggja mánaða frá því að frestur rann út til að gera athugasemdir við tillögu að rekstrarleyfi taka ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis. Matvælastofnun skal tilkynna Umhverfisstofnun, umsækjanda um rekstrarleyfi og þeim sem hafa gert athugasemdir við tillöguna um afgreiðslu rekstrarleyfis.
    Matvælastofnun skal auglýsa útgáfu rekstrarleyfa á vef sínum. Birting á vef Matvælastofnunar telst vera opinber birting. Matvælastofnun skal birta ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Í auglýsingunni skal tilgreina hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis er aðgengileg og leiðbeina um kæruheimild og kærufrest.

30. gr.

Efni og útgáfa rekstrarleyfis.

    Telji Matvælastofnun að umsókn um rekstrarleyfi fullnægi skilyrðum laga þessara, og eftir auglýsingu tillögu að rekstrarleyfi skv. 29. gr., skal stofnunin gefa út rekstrarleyfi.
    Í rekstrarleyfi skal kveðið á um leyfilegar tegundir í eldi, leyfilega eldisstofna, mótvægisaðgerðir, sem og fjölda og staðsetningu eldissvæða innan viðkomandi smitvarnasvæðis. Í rekstrarleyfi skal hvorki tilgreina hámarkslífmassa smitvarnasvæðis né leyfilegan lífmassa hverju sinni sem skal einungis tilgreina í skrá skv. 3. mgr. 5. gr. Með sama hætti skal ekki tilgreina laxahlut í rekstrarleyfi heldur einungis í skrá skv. 1. mgr. 38. gr. Í rekstrarleyfi fyrir laxeldi skal kveðið á um hvort um sé að ræða eldi á frjóum laxi eða ófrjóum laxi.
    Skilyrði fyrir útgáfu rekstrarleyfis er að fyrirhuguð starfsemi samræmist skipulagi á svæðinu samkvæmt skipulagslögum eða lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Það er jafnframt skilyrði að framkvæmdir við sjókvíar, sjókvíaeldisstöðvar og önnur mannvirki samræmist lögum um mannvirki eftir því sem við á.
    Ráðherra er í reglugerð heimilt að mæla fyrir um nánari skilyrði sem setja má í rekstrarleyfi.
    Matvælastofnun skal aðlaga umsókn um rekstrarleyfi til sjókvíaeldis, sem felur í sér meira umfang en viðkomandi smitvarnasvæði þolir samkvæmt burðarþolsmati, að hámarkslífmassa viðkomandi smitvarnasvæðis.
    Matvælastofnun skal hafna umsókn ef umsækjandi leggur ekki fram þau gögn sem kveðið er á um í 27. gr., enda hafi umsækjanda verið gefinn hæfilegur frestur til úrbóta.

31. gr.

Breytingar á rekstrarleyfi.

    Rekstrarleyfishafi getur sótt um til Matvælastofnunar að rekstrarleyfi verði breytt hvað varðar eldissvæði á því smitvarnasvæði sem hann hefur rekstrarleyfi til að starfa á. Rekstrarleyfishafi getur með sama hætti sótt um að rekstrarleyfi verði breytt, m.a. með tilliti til leyfilegra tegunda í eldi, leyfilegra eldisstofna og þeirra mótvægisaðgerða sem kveðið er á um í rekstrarleyfi.
    Ákvæði 26. gr. gilda um umsókn um breytingu á rekstrarleyfi eftir því sem við á.

32. gr.

Úthlutun aukins burðarþols.

    Ef endurskoðun Hafrannsóknastofnunar á burðarþolsmati vatnshlots eða annarra hafsvæða skv. 5. gr. leiðir til hækkunar burðarþolsmats er rekstrarleyfishafa, sem þegar hefur fengið rekstrarleyfi á þeim smitvarnasvæðum sem verða fyrir áhrifum af hækkun burðarþolsmats, heimilt að sækja um hækkun á leyfilegum lífmassa til Matvælastofnunar en slík hækkun getur þó aldrei orðið meiri en hámarkslífmassi hverju sinni.
    Um umsókn skv. 1. mgr. skal að öðru leyti fara eftir ákvæðum þessa kafla. Skal sérstaklega höfð til hliðsjónar fyrri rekstrarsaga og eldissaga rekstraraðila. Ráðherra skal heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um þau atriði sem tekið skal tillit til við afgreiðslu umsóknar um hækkun á leyfilegum lífmassa.
    Þegar umsókn um aukinn leyfilegan lífmassa samkvæmt þessari grein hefur verið afgreidd skal skrá nýjan leyfilegan lífmassa í skrá Matvælastofnunar skv. 5. gr.

33. gr.

Ótímabundin rekstrarleyfi.

    Uppfylli rekstrarleyfishafi öll skilyrði laga þessara og reglna settra með stoð í þeim skal rekstrarleyfi til sjókvíaeldis vera ótímabundið. Rekstrarleyfi skulu sæta breytingum samkvæmt lögum og reglum á hverjum tíma sem og afturköllun skv. XII. kafla.

VI. KAFLI

Starfræksla sjókvíaeldisstöðva og eftirlit.

34. gr.

Upphaf starfsemi.

    Óheimilt er að hefja rekstur samkvæmt rekstrarleyfi fyrr en Matvælastofnun hefur gert úttekt á sjókvíaeldisstöðvum sem starfræktar verða samkvæmt leyfinu og m.a. staðfest að fyrirhuguð framkvæmd og eldisbúnaður standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir sjókvíaeldismannvirki og settir eru samkvæmt reglugerðum. Markmið úttektar er að staðreyna eftir föngum að rekstrarleyfishafi sé fær um að fullnægja skilyrðum laga þessara og skilmálum rekstrarleyfis.
    Óheimilt er að flytja eldisfisk eða seiði í sjókvíaeldisstöð fyrr en rekstrarleyfi er fengið og úttekt hefur farið fram.
    Sjókvíaeldisstöðvar skulu hafa stöðvarskírteini útgefið af faggiltri skoðunarstofu og skal skírteinið aðeins gilda fyrir eina sjókvíaeldisstöð á tilteknum stað. Í stöðvarskírteini skulu koma fram upplýsingar um hönnun, ástand og samsetningu búnaðar sjókvíaeldisstöðvar og vottun um að búnaður uppfylli kröfur laga og gildandi staðla samkvæmt reglugerðum.
    Ráðherra skal setja nánari reglur um upphaf starfsemi, m.a. um staðarúttekt, matsgreiningar festinga, meginíhluti og stöðvarskírteini með reglugerð.

35. gr.

Innra eftirlit.

    Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á því að sett sé á fót og starfrækt innra eftirlit með starfseminni, þ.m.t. fiskum og heilbrigði þeirra, mannvirkjum og búnaði. Innra eftirlit skal tryggja að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla eða rekstrarleyfi sem eru veitt samkvæmt þeim. Rekstrarleyfishafi skal sannprófa að eftirlit og úrbætur séu í samræmi við reglur um innra eftirlit.
    Innra eftirlit sjókvíaeldisstöðvar skal m.a. fela í sér vöktun á viðkomu sníkjudýra í eldinu í samræmi við leiðbeiningar sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur. Niðurstöður vöktunar skulu sendar Matvælastofnun sem birta skal þær opinberlega í samræmi við 122. gr. Á grundvelli vöktunar getur rekstrarleyfishafi ákveðið að grípa til aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu sníkjudýra. Ákvörðun um aðgerðir skulu sendar til Matvælastofnunar ásamt rökstuðningi þjónustudýralæknis rekstrarleyfishafa. Matvælastofnun skal innan þriggja virkra daga taka afstöðu til aðgerða og getur innan þess frests synjað um beitingu fyrirhugaðra aðgerða. Matvælastofnun er heimilt að leita umsagnar fisksjúkdómanefndar og Hafrannsóknastofnunar áður en afstaða er tekin til aðgerða rekstrarleyfishafa. Rekstrarleyfishafi sjókvíaeldisstöðvar skal, sem hluta af innra eftirliti, starfrækja gæðakerfi þar sem fram koma verklagsreglur, m.a. um þjálfun starfsmanna og viðbragðsáætlanir. Leyfishafi skal sannreyna að verklagsreglur og viðbragðsáætlanir uppfylli markmið og gera nauðsynlegar úrbætur.
    Rekstrarleyfishafi skal sjá til þess að dýralæknir eða fisksjúkdómafræðingur komi í reglulegar dýraheilbrigðisheimsóknir á starfsstöðvar. Ráðherra setur í reglugerð lágmarkstíðni og kröfur um dýraheilbrigðisheimsóknir.
    Rekstrarleyfishafi skal, ótilkvaddur, senda Matvælastofnun skriflega staðfestingu á að farið sé að innri reglum í starfsemi rekstrarleyfishafa. Skulu slíkar staðfestingar sendar Matvælastofnun eigi sjaldnar en mánaðarlega á því formi sem Matvælastofnun ákveður. Matvælastofnun skal sannreyna reglulega að framkvæmd innra eftirlits með starfseminni sé í samræmi við lög og reglur.
    Ráðherra setur frekari ákvæði um innra eftirlit í reglugerð, þ.m.t. um viðbragðsáætlanir og skyldu rekstrarleyfishafa til að starfrækja gæðakerfi.

36. gr.

Eftirlit og skýrslugjöf.

    Matvælastofnun skal hafa eftirlit með sjókvíaeldi og sjókvíaeldisstöðvum í samræmi við fyrirmæli laga þessara. Eftirlitið skal ná til rekstrar- og fiskeldisþátta í starfsemi sjókvíaeldisstöðvanna og þess að skilyrði í rekstrarleyfi séu uppfyllt. Eftirlit með heilbrigði og velferð fiska og heilnæmi eldisafurða skal einnig framkvæmt af Matvælastofnun í samræmi við lög þar að lútandi. Eftirlit Matvælastofnunar skal vera reglubundið en einnig áhættumiðað þannig að eftirlit skuli almennt vera í hlutfalli við áhættu í rekstri rekstrarleyfishafa, þ.m.t. þannig að stærri sjókvíaeldisstöðvar sæti meira eftirliti en minni sjókvíaeldisstöðvar, allt eftir nánari ákvörðun Matvælastofnunar.
    Til að Matvælastofnun geti framkvæmt eftirlit skv. 1. mgr. skal rekstrarleyfishafi mánaðarlega gefa Matvælastofnun skýrslu um starfsemi sína en stofnunin hefur jafnframt heimild til krefjast tímabundið tíðari skýrsluskila ef tilefni er til. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um framleiðslumagn stöðvar af slátruðum fiski, eldisrými, fóðurnotkun, birgðir af fiski mældar í lífmassa og fjölda, uppruna fisks, sjúkdóma, sníkjudýr og önnur óhöpp í rekstri, svo og önnur þau atriði sem stofnuninni eru nauðsynleg til virks eftirlits samkvæmt lögum þessum. Halda skal atvikaskrá yfir öll frávik í starfsemi sjókvíaeldisstöðvar samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Matvælastofnun er heimilt að kalla eftir frekari gögnum en hér greinir þegar tilefni er til. Matvælastofnun er heimilt að afla upplýsinga samkvæmt þessari grein rafrænt og skylda rekstrarleyfishafa til að skrá upplýsingarnar í gagnagrunn sem stofnunin leggur til.
    Rekstrarleyfishafi skal vinna framleiðsluáætlun til 24 mánaða sem send skal Matvælastofnun til samþykktar eigi síðar en 1. mars ár hvert. Í framleiðsluáætlun skulu m.a. koma fram upplýsingar um útsetningu seiða og fiska á tímabilinu, smitvarnasvæði, eldissvæði og sjókvíaeldisstöðvar sem rekstrarleyfishafi hyggst nota á tímabilinu, fyrirhugað umfang starfsemi í hverri sjókvíaeldisstöð og fyrirhugaða slátrun og vinnslu á fiski á tímabilinu.
    Ráðherra skal í reglugerð mæla nánar fyrir um eftirlitshlutverk Matvælastofnunar. Matvælastofnun er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. að annast framkvæmd eftirlitsins samkvæmt sérstökum samningi. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara. Um þagnarskylduna gilda ákvæði X. kafla stjórnsýslulaga og skal brot á þeim varða refsingu skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga.
    Matvælastofnun skal heimill óheftur aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal til töku sýna og myndatöku, að atvikaskrá rekstrarleyfishafa og að öllum þeim stöðum sem lög þessi og stjórnvaldsreglur ná yfir og er stofnuninni heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Þá skal rekstrarleyfishafi veita Matvælastofnun aðgang að upptökum úr eftirlitsmyndavélum og afrit af myndefni sé þess óskað.
    Matvælastofnun getur, með hæfilegum fyrirvara sem ákveða má í reglugerð, gert kröfu um að fá aðgang að myndavélum og öðrum eftirlitskerfum rekstrarleyfishafa til þess að fylgjast með eldi í rauntíma. Rekstrarleyfishafa er skylt að hafa yfir að ráða búnaði til þess að Matvælastofnun geti fengið nauðsynlegan aðgang samkvæmt þessari málsgrein.
    Vinnsla Matvælastofnunar á eftirlitsgögnum samkvæmt þessari grein skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og reglur Persónuverndar um rafræna vöktun.
    Matvælastofnun og Umhverfisstofnun skulu útbúa og birta sameiginlegar almennar starfsreglur varðandi samræmda framkvæmd eftirlits beggja stofnana með starfsemi rekstrarleyfishafa samkvæmt lögum þessum. Sé samræmd framkvæmd eftirlits ekki fýsileg skal gerð grein fyrir þeirri afstöðu og hún birt með sama hætti.
    Rekstrarleyfishafa er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara og ber að afhenda endurgjaldslaust sýni sem talin eru nauðsynleg til eftirlits. Rekstrarleyfishafa er skylt að veita Matvælastofnun endurgjaldslausan aðgang að tækjum og búnaði, þ.m.t. farartækjum til flutnings í sjókvíaeldisstöðvar, án fyrirvara til þess að framkvæma megi eftirlit með sjókvíum.

37. gr.

Búnaður sem ekki er í notkun.

    Þegar notkun búnaðar lýkur skal rekstrarleyfishafi fjarlægja allan slíkan búnað af eldissvæði að kröfu Matvælastofnunar. Rekstrarleyfishafi getur óskað eftir að Matvælastofnun veiti undanþágu frá skyldu til að fjarlægja búnað samkvæmt þessari grein enda verði búnaðurinn fyrirsjáanlega notaður til sjókvíaeldis á næstu 20 mánuðum frá þeim tíma talið þegar síðustu notkun lauk eða ef viðkomandi búnaður torveldar augljóslega ekki aðra nýtingu viðkomandi eldissvæðis.


VII. KAFLI

Laxahlutur.

38. gr.

Skráning laxahlutar o.fl.

    Matvælastofnun heldur skrá yfir laxahlut einstakra rekstrarleyfishafa sem og laxamagn rekstrarleyfishafa miðað við heildarlaxamagn hverju sinni. Laxamagn skal skráð á tiltekið smitvarnasvæði. Enginn má ala frjóan lax í sjókvíaeldi án skráningar í skrá Matvælastofnunar né ala meira magn frjós lax en þar kemur fram. Skráin skal birt opinberlega á vef Matvælastofnunar.
    Úthlutun og skráning laxahlutar samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildum til eldis á frjóum laxi.

39. gr.

Framsal og flutningur laxamagns milli smitvarnasvæða.

    Rekstrarleyfishöfum er heimilt að flytja laxamagn á milli smitvarnasvæða enda sé staðfestingar Matvælastofnunar á flutningnum aflað fyrir fram og skal slík staðfesting gefin út eigi síðar en viku eftir að Matvælastofnun hafa borist öll gögn til þess að staðfesta megi flutning milli smitvarnasvæða. Að teknu tillit til skiptihlutfalls áhættumats erfðablöndunar getur laxamagn viðkomandi rekstrarleyfishafa breyst við flutning milli smitvarnasvæða. Matvælastofnun skal í staðfestingu sinni skv. 1. málsl. tilgreina breytingu á laxamagni við flutning milli smitvarnasvæða. Laxamagn verður þó ekki flutt milli landshluta.
    Rekstrarleyfishöfum er heimilt að framselja laxahlut til annarra rekstrarleyfishafa með sömu skilyrðum og breytingum og greinir í 1. mgr. Í tilkynningu til Matvælastofnunar um flutning milli rekstrarleyfishafa skal greint frá kaupverði eða leiguverði laxahlutar. Rekstrarleyfishöfum skal með sama hætti heimilt að leigja laxahlut til annarra rekstrarleyfishafa, þó ekki til eldis meira en tveggja kynslóða í senn, sem leigutaki elur óslitið, að teknu tilliti til hvíldartíma. Að leigu lokinni skal leigusala skylt að selja viðkomandi laxahlut eða nýta hann til eigin eldis.
    Hafi rekstrarleyfishafi veðsett rekstrarleyfi sitt ásamt laxahlut skv. 120. gr. skal rekstrarleyfishafi afla samþykkis veðhafa áður en sótt er um framsal eða leigu laxahlutar til Matvælastofnunar. Rekstrarleyfishafi eða veðhafi geta óskað eftir því að veðsetningar rekstrarleyfis sé getið í skrá skv. 38. gr. Rétt skráning veðsetningar er á ábyrgð veðsala og veðhafa en ekki Matvælastofnunar.

40. gr.

Innköllun og útboð laxahlutar.

    Sé laxahlutur ekki nýttur að fullu a.m.k. einu sinni á þriggja ára tímabili, annaðhvort með eigin notum rétthafa eða útleigu skal innkalla þann laxahlut sem ekki var nýttur án endurgjalds og sá laxahlutur færður á nafn Matvælastofnunar í skráningu skv. 1. mgr. 38. gr. Sama gildir ef rétthafi laxahlutar hefur glatað öllum rekstrarleyfum til sjókvíaeldis. Innkallaður laxahlutur skv. 1. og 2. málsl. telst vera óráðstafaður laxahlutur. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. skal rekstrarleyfishafa, sem keypt hefur laxahlut í útboði Matvælastofnunar skv. 2. mgr., heimilt að fresta nýtingu viðkomandi laxahlutar í fjögur ár í stað þriggja ára en gildir það einungis um fyrsta fjögurra ára tímabil að lokinni úthlutun. Einnig skal heimilt að fresta nýtingu laxahlutar í fjögur ár ef aukning hefur orðið á heildarlaxamagni.
    Óráðstöfuðum laxahlut skal úthlutað til umsækjanda með útboði og skulu bjóðendur tilgreina tilboðsfjárhæð í tilboði sínu. Einungis aðilar sem fengið hafa úthlutað smitvarnasvæði til sjókvíaeldis hafa rétt á að bjóða í laxahlut. Tilboðsfjárhæð rennur í ríkissjóð.
    Ráðherra skal setja nánari reglur um innköllun og útboð samkvæmt þessari grein í reglugerð en heimilt er að kveða á um sömu skilyrði og viðmið og gilda við útboð smitvarnasvæða.

41. gr.

Aukning heildarlaxamagns vegna nýrra svæða.

    Aukist heildarlaxamagn vegna afmörkunar nýrra smitvarnasvæða skal sú viðbót ekki koma til aukningar á laxamagni þeirra rekstrarleyfishafa sem þegar hafa yfir að ráða laxahlut heldur skal sú viðbót við heildarlaxamagn sem þannig verður til mynda óráðstafaðan laxahlut sem skal boðinn út.
    Einungis aðilar sem fengið hafa úthlutað smitvarnasvæði í viðkomandi landshluta eða hafsvæði geta boðið í óráðstafaðan laxahlut skv. 1. mgr.

VIII. KAFLI

Strok.

42. gr.

Bann við stroki.

    Skylt er að halda eldisfisk innan sjókvía og skylt að nota búnað sem kemur í veg fyrir strok. Rekstrarleyfishafa er skylt að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir strok, sem og viðhafa verkferla sem vakta strok og ástand sjókvía.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari skilyrði um þær kröfur sem gerðar eru til rekstrarleyfishafa samkvæmt þessari grein.

43. gr.

Tilkynning um strok og fyrstu viðbrögð.

    Rekstrarleyfishafi sem hefur ástæðu til að ætla að eldisfiskur geti strokið eða hafi strokið skal án tafar tilkynna slíkan atburð til Matvælastofnunar. Rekstrarleyfishafa ber að tilkynna um öll þau frávik sem leitt geta til stroks, þ.m.t. öll göt á netpokum. Rekstrarleyfishafi skal án tafar hefja leit að orsökum, meta umfang og koma í veg fyrir frekara strok. Þegar tilkynning berst Matvælastofnun, eða fyrir liggur rökstuddur grunur um strok, skal stofnunin að eigin frumkvæði kanna hvort strok hafi átt sér stað. Staðfesti Matvælastofnun strok eldisfisks skal stofnunin tryggja að brugðist sé við í samræmi við 44. og 45. gr.
    Ef fiskar með eldiseinkenni, eða sem grunur er um að séu af eldisuppruna, veiðast í ám eða veiðivötnum ber stjórn veiðifélags eða veiðiréttarhafa þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað, að tilkynna um slíkt til Matvælastofnunar.

44. gr.

Veiði innan 200 metra frá strokstað.

    Rekstrarleyfishafa er skylt að grípa til allra þeirra ráðstafana, sem nauðsynlegar eru og í hans valdi standa, til þess að varna því að slíkur atburður, sem greinir í 1. mgr. 43. gr., valdi vistfræðilegu tjóni. Er honum í því skyni m.a. skylt, þrátt fyrir friðun á villtum fiski á svæðinu og án tillits til réttar eigenda sjávarjarða í netlögum, að gera allt sem í hans valdi stendur til að slíkur fiskur verði veiddur á svæði innan 200 metra frá strokstað. Skal hver sjókvíaeldisstöð eiga og viðhalda nauðsynlegum búnaði í því skyni sem tekur mið af stærð eldisfisks á hverjum tíma. Veiðar þær sem hér um ræðir skulu ávallt fara fram í samráði við fulltrúa Matvælastofnunar.
    Skylda til veiða skv. 1. mgr. takmarkast við þrjá sólarhringa frá því að ljóst er að fiskur hafi sloppið út, ef slíkur atburður gerist á göngutíma innlendra stofna laxfiska, en veiðitíminn í öðrum tilvikum skal háður ákvörðun Matvælastofnunar, sem leita skal ráðgjafar hjá Hafrannsóknastofnun.
    Ef rekstrarleyfishafi hefur ekki hafið aðgerðir skv. 1. mgr. innan tólf klukkustunda frá því að ljóst er að eldisfiskur slapp út getur Matvælastofnun, ef þörf krefur, gefið út almenna heimild til veiða á svæðinu með sömu skilyrðum og fram koma í 1. mgr.
    Allan kostnað Matvælastofnunar og annarra stjórnvalda vegna nauðsynlegra aðgerða samkvæmt þessari grein skal rekstrarleyfishafi greiða.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um grein þessa, m.a. um hvernig staðið skuli að veiðum og um kröfur til nauðsynlegs búnaðar.

45. gr.

Veiði í veiðiám eða vötnum.

    Ef atburður verður sem greinir í 1. mgr. 43. gr. skal Matvælastofnun, í samráði við Fiskistofu og viðeigandi veiðifélög eða veiðiréttarhafa þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað, ákvarða hvort leita skuli að strokufiski í veiðiám eða vötnum og hann fjarlægður.
    Sé talin nauðsyn á því að fara í aðgerðir skv. 1. mgr. skal Fiskistofa hafa samráð við stjórn veiðifélags, eða veiðiréttarhafa þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað, um aðgerðir skv. 1. mgr.
    Allan kostnað Matvælastofnunar og annarra stjórnvalda vegna nauðsynlegra aðgerða samkvæmt þessari grein skal rekstrarleyfishafi greiða.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um grein þessa, m.a. um hvernig staðið skuli að veiðum í veiðiám og vötnum.

46. gr.

Upprunagreining eldisfiska.

    Fiskur sem veiðist í aðgerðum skv. 2. mgr. 43. gr., 44. og 45. gr. skal afhentur Hafrannsóknastofnun til nauðsynlegrar sýnatöku til að greina uppruna.
    Rekstrarleyfishafi skal greiða allan kostnað Hafrannsóknastofnunar vegna nauðsynlegra aðgerða skv. 1. mgr. Ef niðurstöður sýnatöku vegna aðgerða skv. 2. mgr. 43. gr. leiða í ljós að rekja megi uppruna fisks til ákveðins rekstrarleyfishafa skal viðkomandi rekstrarleyfishafi greiða nauðsynlegan sýnatökukostnað en að öðrum kosti skal ríkissjóður greiða kostnað sýnatökunnar.

47. gr.

Upplýsingar um strok.

    Rekstrarleyfishafi skal innan tveggja daga frá tilkynningu, sbr. 43. gr., senda Matvælastofnun skýrslu þar sem að lágmarki skulu koma fram eftirfarandi atriði:
     a.      áætluð tímasetning og staðsetning stroks,
     b.      líkleg dagsetning stroks,
     c.      líklegur fjöldi fiska sem strauk,
     d.      líklegt hlutfall kynþroska fisks,
     e.      líkleg orsök stroks að mati rekstrarleyfishafa.
    Matvælastofnun skal birta skýrslu um árangur af veiðum skv. 44. og 45. gr.
    Matvælastofnun skal birta upplýsingar úr skýrslum skv. 1. og 2. mgr. opinberlega.

48. gr.

Þekkt strok.

    Fyrir hvern strokinn frjóan lax sem finnst í ám sem eru hluti af áhættumati erfðablöndunar og sem stafar frá rekstrarleyfishafa, skal viðkomandi rekstrarleyfishafi greiða sekt til ríkissjóðs sem nemur 5.000.000 kr.
    Fyrir hvern strokinn frjóan lax sem finnst í ám sem ekki eru hluti af áhættumati erfðablöndunar og sem stafar frá rekstrarleyfishafa, skal viðkomandi rekstrarleyfishafi greiða sekt til ríkissjóð sem nemur 1.000.000 kr.
    Ef strok verður þegar meðalþyngd frjórra laxa í viðkomandi sjókví er undir 1 kg skal reikna fjölda fiska vegna sektarákvörðunar sem margfeldi endurkomuhlutfalls og áætlaðs fjölda strokinna fiska. Rekstrarleyfishafi skal greiða sekt til ríkissjóðs vegna hvers fisks skv. 1. málsl. sem nemur 10.000 kr. Ráðherra skal setja ákvæði í reglugerð um endurkomuhlutfall að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Heimilt er að fresta sektarákvörðun samkvæmt þessari málsgrein þar til slátrað er eða talið upp úr þeirri sjókví þar sem strok átti sér stað.
    Stroknir frjóir laxar sem rekstrarleyfishafi veiðir skv. 44. gr. eða sem veiðast við vöktun í fiskiteljara skulu ekki teljast skv. ákvæðum 1. og 2. mgr.
    Matvælastofnun skal leggja á sektir samkvæmt ákvæði þessu. Ákvæði 5.–7. mgr. 133. gr. skulu að öðru leyti gilda um sektarákvörðun samkvæmt þessari grein. Hámarkssekt samkvæmt þessari grein vegna sama stroks er 750.000.000 kr. Hámarkssekt miðast við vísitölu neysluverðs í janúar 2024 og breytist í samræmi við breytingar á henni.

49. gr.

Óþekkt strok.

    Við lok eldis á hverri kynslóð skal telja alla fiska sem er slátrað og sá fjöldi borinn saman við fjölda útsettra fiska að frádregnum samanlögðum afföllum og þekktu stroki. Ef mismunur er annars vegar á milli fjölda fiska sem slátrað er við lok eldis á tiltekinni kynslóð og hins vegar fjölda útsettra fiska, að frádregnum samanlögðum afföllum og fjölda fiska sem vitað er að hafa strokið, þá skal sá mismunur teljast óþekkt strok. Þegar óþekkt strok er reiknað skal nota lægri óvissumörk í fjölda útsettra fiska. Við útsetningu fiska skal nota talningarbúnað sem fullnægir lágmarksskilyrðum um nákvæmni samkvæmt reglugerð.
    Óþekkt strok skal ekki fara yfir viðmiðunarmörk sem ákveðin skulu í reglugerð. Fari óþekkt strok yfir viðmiðunarmörk skal rekstrarleyfishafi skila Matvælastofnun skýrslu um líklegar orsakir og ástæður stroks sem Matvælastofnun skal birta opinberlega.

50. gr.

Óviðráðanleg ytri atvik sem leiða til stroks.

    Í undantekningartilfellum er Matvælastofnun heimilt að lækka eða fella niður sektir samkvæmt þessum kafla ef strok kemur til vegna óviðráðanlegra atvika utan stjórnunarsviðs rekstrarleyfishafa og sem ekki teljast hluti af fyrirsjáanlegri áhættu í rekstri sjókvíaeldis. Fárviðri, hafís og athafnir þriðja aðila, sem er ótengdur rekstrarleyfishafa, skulu m.a. teljast til slíkra óviðráðanlegra ytri atvika enda hafi rekstrarleyfishafi gripið til allra tiltækra ráðstafana og aðgerða til þess að varna stroki af völdum slíkra atburða. Atvik sem varða starfsmenn, verktaka og þjónustuaðila á vegum rekstrarleyfishafa skulu ekki teljast til óviðráðanlegra ytri atvika.

51. gr.

Aðrar skyldur rekstrarleyfishafa.

    Rekstrarleyfishafa er skylt að nota talningarbúnað við útsetningu fiska sem fullnægir lágmarksskilyrðum um nákvæmni samkvæmt reglugerð.
    Í reglugerð má kveða á um lágmarksstærð útsettra fiska og skal þá miða við minnsta fisk í útsetningu en ekki meðalþyngd fiska.
    Frávik frá væntri fóðurnotkun skal tilkynna Matvælastofnun. Í reglugerð skal skilgreina hvað telst til frávika í fóðurnotkun.

IX. KAFLI

Afföll.

52. gr.

Reglulegt eftirlit með afföllum.

    Rekstrarleyfishafa er skylt að halda afföllum á hverju smitvarnasvæði í lágmarki og huga að allri velferð fiska í sjókvíaeldi. Rekstrarleyfishafa er skylt að fjarlæga dauðan fisk og lífrænar leifar fiska reglulega úr sjókvíum. Sama gildir um fiska sem þarf að farga vegna sára eða sjúkdóma. Rekstrarleyfishafi skal skrá fjölda og þyngd fiska sem og þyngd lífrænna leifa sem eru fjarlægðar. Lífrænar leifar skulu umreiknaðar í fjölda fiska eftir fyrirmælum Matvælastofnunar.
    Ráðherra getur kveðið á um í reglugerð að fjarlæga skuli dauðan, særðan eða sjúkan fisk sem og lífrænar leifar fiska úr sjókvíum daglega eða sjaldnar. Í reglugerð má einnig kveða á um frestun skyldu til að fjarlægja dauðan, særðan eða sjúkan fisk sem og lífrænar leifar fiska, svo sem vegna veðurskilyrða. Þegar sérstaklega stendur á, eða ef þörf er á auknu eftirliti á tilteknu tímabili, getur Matvælastofnun mælt fyrir um að fjarlæga skuli dauðan, særðan eða sjúkan fisk sem og lífrænar leifar fiska oftar en daglega.
    Ráðherra er heimilt að setja ákvæði í reglugerð um að fyrstu kynslóðir ófrjós lax sem rekstrarleyfishafi elur séu undanþegnar ákvæðum þessa kafla. Sama gildir þegar eldi hefst fyrst í hálflokuðum búnaði eða lokuðum búnaði hjá tilteknum rekstraraðila.

53. gr.

Upplýsingar um afföll.

    Rekstrarleyfishafi skal senda Matvælastofnun skýrslu um afföll mánaðarlega en stofnunin hefur jafnframt heimild til krefjast tímabundið tíðari skýrsluskila ef tilefni er til.
    Upplýsingar í skýrslu um afföll skv. 1. mgr. skulu að lágmarki tilgreina eftirfarandi:
     a.      sjókví eða aðra staðsetningu þar sem afföll áttu sér stað,
     b.      dagsetningu þegar dauðir fiskar og lífrænar leifar fiska voru fjarlægðar,
     c.      fjölda fiska sem voru fjarlægðir,
     d.      þyngd fiska og lífrænna leifa fiska og vigtunaraðferð,
     e.      líklegar ástæður affalla að mati rekstrarleyfishafa.
    Matvælastofnun skal birta upplýsingar úr skýrslum skv. 1. mgr. opinberlega.


54. gr.

Breytingar á leyfilegum lífmassa vegna affalla.

    Matvælastofnun skal reikna afföll á smitvarnasvæði fyrir hverja kynslóð eldisfisks á smitvarnasvæði. Afföll skulu reiknuð í fjölda fiska. Afföll á hverju smitvarnasvæði skulu vera afföll alls sjókvíaeldis á viðkomandi smitvarnasvæði, óháð fjölda eldissvæða og sjókvíaeldisstöðva.
    Leyfilegur lífmassi á smitvarnasvæði skal vera 3% hærri en að öðrum kosti væri heimilt ef afföll síðustu kynslóðar á viðkomandi smitvarnasvæði voru 10% eða lægri.
    Leyfilegur lífmassi á smitvarnasvæði skal vera óbreyttur ef afföll síðustu kynslóðar á viðkomandi smitvarnasvæði voru hærri en 10% en lægri en 20%.
    Leyfilegur lífmassi á smitvarnasvæði skal vera 3% lægri en að öðrum kosti væri heimilt ef afföll síðustu kynslóðar á viðkomandi smitvarnasvæði voru 20% eða hærri.
    Leyfilegur lífmassi samkvæmt þessari grein verður aldrei meiri en hámarkslífmassi samkvæmt burðarþolsmati segir til um.
    Breytingar skv. 2.–4. mgr. eru ótímabundnar og verður aðeins breytt að nýju ef afföll breytast skv. 2.–4. mgr. eða ef nýr rekstrarleyfishafi hefur sjókvíaeldi á viðkomandi smitvarnasvæði.
    Breytingar á leyfilegum lífmassa samkvæmt þessari grein skulu miðast við leyfilegan lífmassa hverju sinni eins og hann hefur áður breyst en ekki hámarkslífmassa samkvæmt burðarþolsmati. Breytingar samkvæmt þessari grein skulu jafnframt miðast við hlutfall leyfilegs lífmassa sem nýttur er hverju sinni þegar breyting á sér stað. Takmarkanir eða aukning á heimildum á hverju smitvarnasvæði samkvæmt þessari grein eru til viðbótar við aðrar takmarkanir eða aukningu samkvæmt lögum þessum, m.a. vegna lúsasmits.
    Hafi ekki reynst mögulegt að hækka leyfilegan lífmassa skv. 1. mgr. vegna þess að hámarkslífmassa var þegar náð þegar hækkun hefði annars átt að koma til framkvæmda skal Matvælastofnun færa slíka hækkun á móti þeim lækkunum sem síðar kunna að koma til, þó þannig að ekki er hægt að færa slíka hækkun á móti lækkunum ef meira en fimm ár eru síðan heimild til hækkunar varð fyrst til.
    Komi til breytingar á hámarkslífmassa samkvæmt þessum kafla og X. kafla um lúsasmit á sama tíma skal skerðing samkvæmt þessum kafla nema 1,5% í stað 3%.

55. gr.

Óviðráðanleg ytri atvik sem leiða til affalla.

    Í undantekningartilfellum er Matvælastofnun heimilt við útreikning framleiðslutakmarkana samkvæmt þessum kafla að taka tillit til óviðráðanlegra atvika utan stjórnunarsviðs rekstrarleyfishafa og sem ekki teljast hluti af eðlilegri áhættu í rekstri sjókvíaeldis. Fárviðri, hafís og athafnir þriðja aðila sem er ótengdur rekstrarleyfishafa skulu m.a. teljast til slíkra óviðráðanlegra ytri atvika enda hafi rekstrarleyfishafi gripið til allra tiltækra ráðstafana og aðgerða til þess að verjast afföllum af völdum slíkra atburða. Atvik sem varða sjúkdóma, sníkjudýr, náttúru viðkomandi smitvarnasvæðis eða starfsmenn, verktaka og þjónustuaðila á vegum rekstrarleyfishafa skulu ekki teljast til óviðráðanlegra ytri atvika.

X. KAFLI

Lús.

56. gr.

Reglulegt eftirlit og viðbrögð við lús.

    Rekstrarleyfishafa er skylt að halda lús á hverju smitvarnasvæði í lágmarki og fylgjast með lúsasmiti. Rekstrarleyfishafi skal tilkynna niðurstöður lúsatalningar til Matvælastofnunar. Rekstrarleyfishafar skulu starfa eftir forvarna- og viðbragðsáætlun vegna lúsasmits sem samþykkt er af Matvælastofnun og skal forvarna- og viðbragðsáætlun fela í sér aðgerðir vegna viðkomu lúsa í sjókvíaeldi.
    Matvælastofnun er heimilt að krefjast lúsatalningar og fylgjast með lúsatalningu rekstrarleyfishafa, þ.m.t. við óboðað eftirlit. Þá er Matvælastofnun heimilt, á eigin vegum eða með aðkomu faggilds eftirlitsaðila, að framkvæma lúsatalningu á kostnað rekstrarleyfishafa.
    Setja skal með reglugerð hámark á fjölda lyfjameðferða og hámark meðferða með hverju einstöku lyfi. Rekstrarleyfishafi skal ávallt hafa aðgang að búnaði til þess að meðhöndla eða fjarlægja lús án lyfjameðhöndlunar á þeim árstíma þegar hitastig í sjó er til þess fallið að lús geti fjölgað sér.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um að rekstrarleyfishafar skuli grípa til sérstakra aðgerða ef rannsóknir Hafrannsóknastofnunar gefa tilefni til að ætla megi að mikil hætta sé á lúsasmiti.
    Í reglugerð er heimilt að kveða á um að undanskilja megi einstök smitvarnasvæði frá vöktun eða skyldu til að hafa tiltækan búnað skv. 3. mgr. ef málefnalegar ástæður sem snúa að velferð fiska eiga við og ef ekki hefur orðið vart við lúsasmit á tilteknu tímabili.

57. gr.

Upplýsingar um lús.

    Rekstrarleyfishafi skal senda Matvælastofnun upplýsingar um lúsatalningu, sbr. 1. mgr. 56. gr., eigi síðar en þremur dögum eftir talningu.
    Upplýsingar um lúsasmit skv. 1. mgr. skulu að lágmarki tilgreina eftirfarandi:
     a.      talningu lúsa í einstökum sjókvíum,
     b.      sjávarhita,
     c.      dagsetningu vöktunar,
     d.      aðgerðir sem rekstrarleyfishafi hefur ráðist í samkvæmt viðbragðsáætlun,
     e.      árangur í aðgerðum gegn lúsasmiti.
    Matvælastofnun skal birta upplýsingar úr skýrslum skv. 1. mgr. opinberlega.

58. gr.

Punktakerfi.

    Punktar skulu skráðir á smitvarnasvæði vegna fjölda lúsasmita sem fer yfir tiltekin mörk og vegna fjölda lyfjameðferða gegn lús. Matvælastofnun skal halda opinbera skrá yfir punkta sem skráðir eru fyrir hverja kynslóð fisks í sjókvíaeldi. Taki aðgerðir aðeins til hluta sjókvíaeldisstarfsemi á smitvarnasvæði, þá skal fjöldi punkta skerðast og skal þá miða við fjölda sjókvía sem sætir meðhöndlun.
    Ráðherra skal ákveða með reglugerð viðmið um fjölda og tegund lúsa á hverjum fiski vegna punktakerfis, tímasetningu talninga og fjölda lyfjameðferða gegn lús sem varða skráningu punkta á smitvarnasvæði, sem og þann fjölda punkta sem skráður skal í hverju tilfelli.

59. gr.

Breyting leyfilegs lífmassa vegna lúsasmits og meðhöndlunar.

    Leyfilegur lífmassi hvers smitvarnasvæðis skal vera 5% hærri en að öðrum kosti væri heimilt ef punktar skv. 58. gr. voru færri en fjórir vegna eldis undanfarandi kynslóðar.
    Leyfilegur lífmassi hvers smitvarnasvæðis skal vera óbreyttur frá næsta undanfarandi affallatímabili ef punktar skv. 58. gr. voru fjórir til átta vegna eldis undanfarandi kynslóðar.
    Leyfilegur lífmassi hvers smitvarnasvæðis skal vera 5% lægri en að öðrum kosti væri heimilt ef punktar skv. 58. gr. voru fleiri en átta vegna eldis undanfarandi kynslóðar.
    Leyfilegur lífmassi samkvæmt þessari grein getur aldrei orðið meira en hámarkslífmassi samkvæmt burðarþolsmati segir til um.
    Breytingar skv. 1.–3. mgr. eru ótímabundnar og verður aðeins breytt að nýju ef punktafjöldi breytist skv. 1.–3. mgr. eða ef nýr rekstrarleyfishafi hefur sjókvíaeldi á viðkomandi smitvarnasvæði.
    Breytingar á leyfilegum lífmassa samkvæmt þessara grein skulu miðast við leyfilegan lífmassa hverju sinni eins og hann hefur áður breyst en ekki upphaflegan hámarkslífmassa samkvæmt burðarþolsmati. Breytingar samkvæmt þessari grein skulu jafnframt miðast við hlutfall leyfilegs lífmassa sem nýttur er hverju sinni þegar breyting á sér stað. Takmarkanir eða aukning á heimildum á hverju smitvarnasvæði samkvæmt þessari grein eru til viðbótar við aðrar takmarkanir eða aukningu samkvæmt lögum þessum, m.a. vegna affalla.
    Hafi ekki reynst mögulegt að hækka leyfilegan lífmassa skv. 1. mgr. vegna þess að hámarkslífmassa var þegar náð þegar hækkun hefði annars átt að koma til framkvæmda skal Matvælastofnun færa slíka hækkun á móti þeim lækkunum sem síðar kunna að koma til, þó þannig að ekki er hægt að færa slíka hækkun á móti lækkunum ef meira en fimm ár eru síðan heimild til hækkunar varð fyrst til.

60. gr.

Fjarlæging lúsasmitaðs fisks.

    Rekstrarleyfishafa er óheimilt að ala eldisfisk í einstökum sjókvíum þegar fjöldi lúsa á fiski er yfir viðmiðunarmörkum þrátt fyrir að tilraunir til lyfjameðhöndlunar og meðhöndlunar með búnaði hafi verið gerðar. Fari fjöldi lúsa yfir viðmiðunarmörk þrátt fyrir meðhöndlun allir fiskar fjarlægðir úr sjókví. Sé fiskur kominn yfir viðmiðunarþyngd er Matvælastofnun heimilt að skylda rekstrarleyfishafa til að slátra öllum fiski yfir viðmiðunarþyngd án lyfjameðferðar eða annarrar meðferðar.
    Ráðherra skal setja ákvæði í reglugerð þar sem kveðið er á um hvernig skoðun fisks fer fram og hver viðmiðunarmörk lúsasmits skulu vera. Í reglugerð skal kveða á um skilyrði fyrir förgun fisks, samhæfingu milli rekstrarleyfishafa vegna lúsasmits ef við á, heimildir til að fyrirskipa slátrun og förgun sem og skyldu til frekari meðhöndlunar við lús. Í reglugerð má m.a. kveða á um að skoða skuli úrtak fiska og stærð úrtaks. Við ákvörðun viðmiðunarmarka lúsasmits í reglugerð skal kveðið á um tiltekinn hámarksfjölda lúsa sem finnst á fiski. Í reglugerð skal enn fremur tilgreind viðmiðunarþyngd fisks til slátrunar, sbr. 1. mgr.
    Rekstrarleyfishafi skal skila tillögu til Matvælastofnunar um förgun fisks sem er fjarlægður úr sjókvíum samkvæmt þessari grein og skal samþykki Matvælastofnunar á aðferð við förgun liggja fyrir áður en fiskur er fjarlægður úr sjókvíum.

XI. KAFLI

Kynþroska lax.

61. gr.

Eldi kynþroska eldislax.

    Rekstrarleyfishafi skal seinka kynþroska frjós eldislax svo lengi sem verða má. Óheimilt er að ala frjóan eldislax þannig að áætlað hlutfall kynþroska eldislax í tiltekinni kynslóð eldislax eða í tiltekinni sjókví sé yfir 1% af áætluðum heildarfjölda eldisfisks í viðkomandi kynslóð eða sjókví.
    Fari hlutfall kynþroska fisks í sjókví yfir 5% af áætluðum heildarfjölda eldisfisks í viðkomandi sjókví skulu allir kynþroska fiskar fjarlægðir úr sjókví. Fari hlutfall kynþroska fisks í sjókví yfir 3% af áætluðum heildarfjölda eldisfisks í viðkomandi sjókví á tímabilinu júní til nóvember skulu allir kynþroska fiskar fjarlægðir úr sjókví.
    Rekstrarleyfishafi skal skila tillögu til Matvælastofnunar um förgun eða slátrun fisks sem er fjarlægður úr sjókvíum samkvæmt þessari grein og skal samþykki Matvælastofnunar á aðferð við förgun eða slátrun liggja fyrir áður en fiskur er fjarlægður úr sjókvíum. Matvælastofnun er heimilt gera kröfu um förgun eða slátrun innan ákveðinna tímamarka.
    Ráðherra skal setja ákvæði í reglugerð þar sem kveðið er á um hvernig skoðun fisks fer fram, frest til slátrunar og hvernig heildarfjöldi kynþroska eldisfisks skal áætlaður. Í reglugerð má m.a. kveða á um að skoða skuli úrtak fiska og stærð úrtaks.

62. gr.

Aðgerðir til að seinka kynþroska.

    Rekstrarleyfishafi skal viðhafa áætlun til að koma í veg fyrir og seinka kynþroska eldislax. Skal áætlun rekstrarleyfishafa send Matvælastofnun til samþykktar.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um skyldu til ljósastýringar eða annarra aðgerða til að fresta eða koma í veg fyrir kynþroska.

63. gr.

Sérstakt eftirlit vegna kynþroska fisks.

    Við slátrun skal rekstrarleyfishafi hafa eftirlit með hlutfalli kynþroska lax af slátruðum laxi og skal rekstrarleyfishafi veita Matvælastofnun allar upplýsingar þar að lútandi. Matvælastofnun er jafnframt heimilt að hafa eftirlit með kynþroska laxa bæði í sjókvíum og í sláturhúsum. Kynþroska lax skal tekinn frá við slátrun og talinn sérstaklega.
    Sé ástæða til að ætla að hlutfall kynþroska eldislax sé orðið hærra en 0,5% í sjókví skal rekstrarleyfishafi grípa til sérstakra aðgerða til þess að koma í veg fyrir strok, m.a. með aukinni tíðni köfunar eða myndatöku til að kanna ástand sjókvía og eldisbúnaðar.


XII. KAFLI

Afturköllun rekstrarleyfis til sjókvíaeldis.

64. gr.

Forsendubrestur.

    Rekstrarleyfishafi skal innan fimm ára frá fyrstu útgáfu rekstrarleyfis nýta a.m.k. einu sinni 20% af hámarkslífmassa viðkomandi smitvarnasvæðis. Ef starfsemi rekstrarleyfishafa nær ekki viðmiði skv. 1. málsl. skal Matvælastofnun fella rekstrarleyfið úr gildi. Matvælastofnun getur veitt undanþágu frá 1. málsl. ef málefnaleg sjónarmið búa að baki töfinni, þó ekki lengur en 12 mánuði.
    Að loknu upphafstímabili skv. 1. mgr. skal Matvælastofnun fella úr gildi rekstrarleyfi ef starfsemi á smitvarnasvæði stöðvast í þrjú ár eða ef mesta nýting leyfilegs lífmassa á hverju ári er undir 35% að meðaltali á ári á sex ára tímabili.
    Áður en gripið er til afturköllunar leyfis skv. 1. og 2. mgr. skal Matvælastofnun veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.
    Hafi rekstrarleyfishafi glatað meira en 40% af upphaflegum leyfilegum lífmassa smitvarnasvæðis vegna skerðinga skv. IX. og X. kafla skal Matvælastofnun fella rekstrarleyfi úr gildi.
    Fyrirgeri rekstrarleyfishafi rétti sínum til rekstrarleyfis samkvæmt þessari grein telst rekstrarleyfishafi hafa glatað rétti til að starfa á viðkomandi smitvarnasvæði, óháð því hvort starfsleyfi sé í gildi eða ekki samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, og má bjóða smitvarnasvæðið út að nýju. Skal úthlutun smitvarnasvæðis til viðkomandi aðila falla niður án bóta og endurgreiðslu.

65. gr.

Afturköllun rekstrarleyfis til sjókvíaeldis.

    Matvælastofnun getur afturkallað rekstrarleyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum laga þessara eða stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra. Einnig er heimilt að afturkalla leyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn skilyrðum rekstrarleyfis eða skilyrðum þess er að öðru leyti ekki fullnægt. Þá er og heimilt að afturkalla rekstrarleyfi ef leyfishafi verður ófær um að stunda rekstur.
    Áður en gripið er til afturköllunar leyfis skv. 1. mgr. skal Matvælastofnun veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta nema um mjög alvarlegt brot sé að ræða.
    Fyrirgeri rekstrarleyfishafi rétti sínum til rekstrarleyfis samkvæmt þessari grein telst viðkomandi rekstrarleyfishafi hafa glatað rétti til að starfa á viðkomandi smitvarnasvæði, óháð því hvort starfsleyfi sé í gildi eða ekki samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, og má þá bjóða smitvarnasvæðið út að nýju.

XIII. KAFLI

Umhverfissjóður og menntasjóður sjókvíaeldis.

66. gr.

Umhverfissjóður sjókvíaeldis.

    Umhverfissjóður sjókvíaeldis er sjálfstæður sjóður sem heyrir undir ráðherra. Ákvarðanir stjórnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Markmið sjóðsins er að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis og efla menntun á sviði sjókvíaeldis. Með sjóðnum skal greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður.

67. gr.

Stjórn Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.

    Umhverfissjóður sjókvíaeldis lýtur fjögurra manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Landssambands sjókvíaeldisstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með umhverfismál. Ráðherra skal skipa formann sjóðsins án tilnefningar og skal atkvæði hans ráða úrslitum ef atkvæði falla jafnt. Varamenn skal skipa með sama hætti.

68. gr.

Verkefni stjórnar.

    Stjórn Umhverfissjóðs sjókvíaeldis hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög þessi og reglugerð setta samkvæmt þeim. Verkefni stjórnar eru að:
     a.      skila ársreikningum og reglulegu yfirliti um starfsemi sjóðsins til ráðherra,
     b.      taka ákvarðanir um forgangsröðun verkefna og greiðslur úr sjóðnum,
     c.      taka ákvarðanir um ávöxtun eigin fjár,
     d.      tryggja að upplýsingar og gögn sem unnin eru á vegum sjóðsins séu aðgengileg almenningi.

69. gr.

Ráðstöfunarfé Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.

    Ráðstöfunarfé Umhverfissjóðs sjókvíaeldis er:
     a.      árleg fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum,
     b.      arður af eigin fé.

70. gr.

Árgjald Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.

    Rekstrarleyfishafi skal greiða árlegt gjald að upphæð 2.800 kr. fyrir hvert tonn leyfilegs lífmassa hvers smitvarnasvæðis sem hann hefur rekstrarleyfi fyrir. Gjaldið skal taka breytingum miðað við vísitölu neysluverðs og breytast í samræmi við breytingar á henni.

71. gr.

Álagning og innheimta árgjalds.

    Matvælastofnun annast álagningu og innheimtu árgjalds skv. 70 gr. Ráðherra er þó heimilt að fela innheimtumönnum ríkissjóðs eða öðrum aðilum innheimtu þess.
    Eigi síðar en 30. ágúst ár hvert skal Matvælastofnun hafa lokið álagningu á gjaldendur skv. 70. gr. og skal gjaldendum tilkynnt bréflega um hana.
    Gjöld skv. 70. gr. vegna yfirstandandi almanaksárs falla í gjalddaga 1. október ár hvert. Ef gjöld eru ekki greidd innan 30 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af þeim skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Álagning gjalds er aðfararhæf ákvörðun. Matvælastofnun getur krafist fullnustu með aðfarargerð þegar liðnir eru 30 dagar frá gjalddaga.

72. gr.

Skipting úthlutunarfjár.

    Umhverfissjóður sjókvíaeldis skal veita 80% af árlegu úthlutunarfé til Hafrannsóknastofnunar. Skal því úthlutunarfé varið til gerðar og endurskoðunar burðarþolsmats og áhættumats erfðablöndunar og tengdra rannsókna, allt samkvæmt nánari ákvörðun Hafrannsóknastofnunar.
    Umhverfissjóður sjókvíaeldis skal úthluta 20% af árlegu úthlutunarfé til rannsóknar- og menntaverkefna sem tengjast sjókvíaeldi á vegum annarra en Hafrannsóknastofnunar. Auglýsa skal eigi sjaldnar en árlega eftir umsóknum um styrki samkvæmt þessari málsgrein.

73. gr.

Skattaleg meðferð gjalds.

    Gjald skv. XIII. kafla telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

74. gr.

Reglugerðarheimild. Kostnaður af rekstri. Skattskylda.

    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um starfsemi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, þ.m.t. um málsmeðferð og reglur um greiðslur úr sjóðnum.
    Allur kostnaður af starfsemi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis greiðist af sjóðnum.
    Umhverfissjóður sjókvíaeldis skal vera undanþeginn skattskyldu skv. 4. gr., sbr. og 5. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

XIV. KAFLI

Framleiðslugjald og samfélagssjóður.

75. gr.

Gjaldskylda.

    Skyldu til greiðslu sérstaks framleiðslugjalds vegna sjókvíaeldis ber rekstrarleyfishafi samkvæmt lögum þessum.

76. gr.

Fjárhæð gjalds.

    Rekstrarleyfishafi skal mánaðarlega greiða gjald skv. 75. gr. í ríkissjóð sem greiðist í íslenskum krónum. Matvælastofnun skal ákvarða og birta fjárhæð gjaldsins með auglýsingu eigi síðar en 15. dag hvers mánaðar til að öðlast gildi fyrir komandi almanaksmánuð.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm slátraðs lax skal miðast við nýjasta mánaðarmeðaltal alþjóðlegs markaðsverðs á eldislaxi næsta almanaksmánuð fyrir ákvörðunardag skv. 1. mgr. Mánaðarmeðaltal alþjóðlegs markaðsverðs skv. 1. málsl. skal umreiknað í íslenskar krónur á meðaltali miðgengis Seðlabanka Íslands fyrir sama tímabil og skal gjaldið nema því hlutfalli af þeim stofni sem hér segir:
     1.      1% þegar verð er lægra en áætlaður framleiðslukostnaður,
     2.      2% þegar verð er 15 kr. til 149,9 kr. hærra en áætlaður framleiðslukostnaður,
     3.      4% þegar verð er 150 kr. til 299,9 kr. hærra en áætlaður framleiðslukostnaður,
     4.      6,5% þegar verð er 300 kr. til 449,9 kr. hærra en áætlaður framleiðslukostnaður,
     5.      8% þegar verð er 450 kr. til 599,9 kr. hærra en áætlaður framleiðslukostnaður,
     6.      10% þegar verð er 600 kr. til 749,9 kr. hærra en áætlaður framleiðslukostnaður,
     7.      11% þegar verð er 750 kr. eða hærra, en áætlaður framleiðslukostnaður.
    Við gildistöku laga þessara skal áætlaður framleiðslukostnaður vera 1.026 kr. á kílógramm. Áætlaður framleiðslukostnaður skal taka breytingum í upphafi hvers árs í réttu hlutfalli við breytingu á fóðurkostnaði, þ.e. samkvæmt tollskrárnúmeri 23099004 Fiskafóður ót.a. í íslenskum krónum samkvæmt innflutningstölum frá Hagstofunni, auk vísitölu neysluverðs og launavísitölu Hagstofunnar frá upphafi til loka næstliðins 12 mánaða tímabils sem hefst 1. nóvember og lýkur 31. október. Við breytinguna skal fóðurkostnaður vigta 60%, vísitala neysluverðs 20% og launavísitala 20%. Ráðherra skal með auglýsingu birta breytingu á áætluðum framleiðslukostnaði í upphafi hvers árs.
    Fjárhæðir í 2. mgr. breytast hverju sinni til samræmis við gengi krónu á móti evru á sama gengi og greinir í 1. og 2. málsl. 2. mgr. og skal þá miða við að fjárhæðir sem fram koma í 2. mgr. séu á genginu 150 kr. á móti evru áður en þær fjárhæðir eru reiknaðar að nýju yfir í krónur.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm af slátruðum laxi sem alinn er í sjó með lokuðum eldisbúnaði skal nema 25% af gjaldi skv. 2. mgr.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm af slátruðum laxi sem alinn er í sjó með hálflokuðum eldisbúnaði skal nema 40% af gjaldi skv. 2. mgr.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm af slátruðum laxi sem alinn var skemur en 12 mánuði í sjó skal nema 50% af gjaldi skv. 2. mgr.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm af slátruðum laxi sem alinn er með búnaði, tækni eða aðferð sem líkleg er til að draga úr umhverfisáhrifum eða auka dýravelferð, samkvæmt fyrirframskilgreindum viðmiðum í reglugerð, skal nema 50% af gjaldi skv. 2. mgr. eða öðru hlutfalli sem sett er fram í reglugerð.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm af slátruðum laxi sem aðeins er alinn einn vetur í sjó, þannig að slátrun fari fram eigi síðar en 20. október ári eftir útsetningu fisks, skal nema 30% af gjaldi skv. 2. mgr.
    Eigi fleiri en ein framleiðsluaðferð við skv. 5.–9. mgr. skal lægsta gjaldahlutfall gilda. Fyrsta kynslóð fisks í starfsemi rekstrarleyfishafa sem alin er með þeim aðferðum sem um ræðir í 5.–9. mgr. skal þó vera undanþegin gjaldi.
    Með alþjóðlegu markaðsverði í 2. mgr. er átt við verð á slægðum eldislaxi með haus.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm slátraðs regnbogasilungs og ófrjós lax skal nema helmingi af gjaldi samkvæmt þessari grein og kemur sú lækkun til viðbótar við aðra lækkun gjalds skv. 5.–9. mgr.

77. gr.

Gjaldstofn, framtalsskylda og söfnun upplýsinga.

    Stofn til álagningar gjalds skv. XIV. kafla er þyngd afurða við slátrun, upp úr sjó, miðað við slægðan fisk með haus.
    Rekstrarleyfishafa er skylt að skila sérstakri greinargerð um alla slátrun eldisfisks frá sjókvíaeldisstöð á því formi og með þeim hætti sem Matvælastofnun ákveður. Skila skal greinargerðinni eigi síðar en 10. dag hvers mánaðar vegna slátrunar undanfarandi almanaksmánaðar. Heimilt er að ákveða að skil á greinargerð skuli vera rafræn og málsmeðferð rafræn eftir því sem við á.
    Sé upplýsingum ekki skilað eða ef upplýsingar sem látnar eru í té reynast ófullnægjandi eða ótrúverðugar skal skora á viðkomandi að bæta úr. Verði ekki brugðist við áskorun innan hæfilegs frests eða skýringar reynast ótrúverðugar skal áætla framleiðslumagn rekstrarleyfishafa og skal miða við að það skuli vera svo ríflegt að ekki sé hætta á því að það sé lægra en það er í raun og veru og ákvarða gjaldstofn í samræmi við þá áætlun.
    Í tengslum við eftirlit og athuganir einstakra mála er einstaklingum og lögaðilum skylt að láta Matvælastofnun í té allar upplýsingar og gögn sem talin eru nauðsynleg. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann sem hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit Matvælastofnunar. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og gögn sem hér um ræðir.
    Ráðherra skal í reglugerð kveða á um slægingarstuðul sem nota skal við útreikning gjaldstofns samkvæmt ákvæði þessu.

78. gr.

Álagning.

    Matvælastofnun leggur á gjald samkvæmt lögum þessum. Gjaldið skal lagt á 12 sinnum á ári, þ.e. 25. dag hvers mánaðar vegna slátrunar undanfarandi almanaksmánaðar. Gjalddagi skal vera 10 dögum eftir álagningardag.

79. gr.

Innheimta.

    Innheimtumenn ríkissjóðs innheimta gjald skv. XIV. kafla og fer ríkisskattstjóri með samræmingar- og eftirlitshlutverk við innheimtu þess, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
    Eindagi er 14 dögum frá gjalddaga og skal greiða dráttarvexti af því sem gjaldfallið er frá þeim tíma skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu.
    Kröfum um greiðslu gjalds samkvæmt lögum þessum fylgir lögveð ríkissjóðs í fasteignum og lausafé rekstrarleyfishafa í fjögur ár frá gjalddaga. Lögveðið nær einnig til dráttarvaxta og innheimtukostnaðar.
    Matvælastofnun skal birta opinberlega allar upplýsingar um álagðar fjárhæðir gjalds samkvæmt lögum þessum.

80. gr.

Skattaleg meðferð gjalds.

    Gjald skv. XIV. kafla telst sem rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

81. gr.

Samfélagssjóður sjókvíaeldis og skipting úthlutunarfjár.

    Samfélagssjóður sjókvíaeldis er opinber sjóður sem heyrir undir ráðherra. Sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja sjókvíaeldisbyggðir og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum.
    Samfélagssjóður sjókvíaeldis lýtur yfirstjórn þriggja einstaklinga sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn, einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál, einn úr hópi sveitarstjórnarfólks í sjókvíaeldisbyggðum samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og einn án tilnefningar sem vera skal formaður.
    Stjórn Samfélagssjóðs sjókvíaeldis hefur yfirumsjón með rekstri hans í samræmi við lög þessi og reglugerð setta samkvæmt þeim. Stjórnin skilar ársreikningi og reglulegu yfirliti um störf sín til ráðherra og tekur ákvarðanir um úthlutanir og útgjöld. Ákvarðanir stjórnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Ráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna. Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans. Úthlutað skal úr Samfélagssjóði sjókvíaeldis að lágmarki einu sinni á ári. Úthlutun úr Samfélagssjóði sjókvíaeldis fer fram að frumkvæði stjórnar og án umsóknar frá sjókvíaeldisbyggðum.
    Úthlutanir úr Samfélagssjóði sjókvíaeldis skulu skiptast annars vegar á milli landshluta og hins vegar sjókvíaeldisbyggða innan viðkomandi landshluta. Einungis sjókvíaeldisbyggðir eiga rétt til úthlutana úr Samfélagssjóði sjókvíaeldis. Við útreikning á skiptingu úthlutunarfjár milli sjókvíaeldisbyggða skal fyrst reikna hlutdeild sjókvíaeldis innan hvers landshluta í heildargjaldstofni til álagningar gjalds skv. XIV. kafla, sbr. 77. og 78. gr., og skal miða við kjördæmaskipan þegar landshlutar eru ákvarðaðir. Þegar hlutfall hvers landshluta hefur verið reiknað út skal því næst reikna skiptingu úthlutunarfjár milli sjókvíaeldisbyggða í viðkomandi landshluta og skal skiptingin taka mið af umfangi sjókvíaeldis í hverri sjókvíaeldisbyggð.
    Ráðstöfunarfé sjóðsins er fjárveiting hverju sinni af fjárlögum.
    Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um starfsemi sjóðsins, þ.m.t. um málsmeðferð, útreikning úthlutunarfjár og skiptingu úthlutunarfjár milli sjókvíaeldisbyggða. Ráðherra skal jafnframt kveða á um með reglugerð hvaða sveitarfélög teljist til sjókvíaeldisbyggða.
    Samfélagssjóður sjókvíaeldis skal vera undanþeginn skattskyldu skv. 4. gr., sbr. og 5. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

3. ÞÁTTUR

Landeldi

XV. KAFLI

Smitvarnir og dýraheilbrigði.

82. gr.

Flutningur og ferðir farartækja eða búnaðar milli landeldisstöðva.

    Flutningur hvers konar farartækja og/eða búnaðar, á vegum rekstrarleyfishafa eða annarra, milli landeldisstöðva er óheimill nema samkvæmt leyfi Matvælastofnunar. Leyfi Matvælastofnunar er ávallt bundið skilyrði um sótthreinsun farartækja og búnaðar nema stofnunin takið annað sérstaklega fram.
    Leyfi sem Matvælastofnun veitir skv. 1. mgr. má veita í einstök skipti eða sem ótímabundið leyfi vegna skipulagðra og endurtekinna ferða milli landeldisstöðva.
    Ákvæði þessarar greinar gilda einungis að því marki sem farartæki eða búnaður hefur verið í beinni snertingu við fisk.

83. gr.

Flutningur eldisfisks til og frá landeldisstöð.

    Allur flutningur á fiski til og frá landeldisstöð, hvort heldur sem er á vegum rekstrarleyfishafa eða annarra, er háður leyfi Matvælastofnunar. Matvælastofnun skal að jafnaði krefjast heilsufarsyfirlýsingar dýralæknis áður en heimild er veitt fyrir flutningi. Leyfi sem Matvælastofnun veitir samkvæmt þessari málsgrein má veita í einstök skipti eða sem ótímabundið leyfi vegna skipulagðs og endurtekins flutnings. Komi ekki annað fram í leyfi Matvælastofnunar skal sá sem afhendir fisk til flutnings bera ábyrgð á að flutningur til viðtakanda sé heimill og í samræmi við lög.
    Flutningur eldistegunda, sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi eða skráningu viðkomandi landeldisstöðvar, til landeldisstöðvar er óheimill.
    Rekstrarleyfishafi eða skráningarskyldur aðili í landeldi sem afhendir fisk sem nýta skal í sjókvíaeldi ber almennt ábyrgð á að öllum lögum og reglum sé fylgt varðandi meðferð fisksins þar til hann er kominn í brunnbát en þá flyst ábyrgð yfir á rekstrarleyfishafa í sjókvíaeldi sem veitt hefur fisknum viðtöku.

84. gr.

Talning upp úr eldiseiningum.

    Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila er skylt að telja allan fisk upp úr eldiseiningum að kröfu Matvælastofnunar ef ríkt tilefni er til. Talning skal fara þannig fram að Matvælastofnun geti fylgst með talningu með áreiðanlegum hætti. Ráðherra er heimilt að setja ákvæði í reglugerð um skilyrði og aðferðir við talningu upp úr eldiseiningum.

85. gr.

Þéttleiki og fjöldi fiska í landeldi.

    Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila ber að sjá til þess að fjöldi fiska og þéttleiki fisks í eldiseiningum sé ávallt í samræmi við ákvæði rekstrarleyfis og reglugerða settum samkvæmt lögum þessum. Ráðherra skal í reglugerð setja ákvæði um hámarksþéttleika fiska í eldiseiningum og útreikning á þéttleika. Við ákvörðun um hámarksþéttleika skal m.a. litið til vatnsgæða, eldistækni, tegundar eldisfisks og þroskastigs.

86. gr.

Skimun og bólusetning við sjúkdómum í landeldi.

    Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila er skylt að láta fara fram reglulega skimun fyrir tilkynningarskyldum sjúkdómum í fiski í landeldi, m.a. fyrir flutning. Rekstrarleyfishafa er óheimilt að afhenda eða taka við fiskum til eldis nema niðurstaða úr skimun fyrir flutning liggi fyrir og að sú niðurstaða staðfesti að fiskar séu ekki smitaðir af tilkynningarskyldum sjúkdómum.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða á um fyrir hvaða sjúkdómum skuli bólusetja, sem og um framkvæmd skimunar og bólusetningar.

87. gr.

Meðhöndlun frárennslis frá landeldisstöð.

    Rekstrarleyfishafi skal fylgjast með efnainnihaldi í frárennsli landeldisstöðvar. Matvælastofnun getur skyldað rekstrarleyfishafa og skráningarskyldan aðila til þess að sía frárennsli sérstaklega eða beita öðrum viðurkenndum aðferðum við hreinsun frárennslisvatns til þess að takmarka skaðleg efni og smitefni í frárennsli. Áður en til kemur að beita þessu ákvæði skal Matvælastofnun hafa samráð við Umhverfisstofnun. Í reglugerð skal tilgreina þau efni sem fylgjast skal með í frárennsli og þær aðferðir sem beita skal við síun og aðra hreinsun frárennslisvatns.

88. gr.

Reglulegt eftirlit með afföllum í landeldi.

    Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila er skylt að halda afföllum í hverri eldiseiningu í lágmarki og huga að allri velferð fiska í landeldi. Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila er skylt að fjarlægja dauðan fisk og lífrænar leifar fiska reglulega úr eldiseiningum. Rekstrarleyfishafi skal skrá fjölda og þyngd fiska sem og þyngd lífrænna leifa sem eru fjarlægðar. Lífrænar leifar skulu umreiknaðar í fjölda fiska eftir fyrirmælum Matvælastofnunar.
    Ráðherra getur kveðið á um í reglugerð að fjarlæga skuli dauðan fisk og lífrænar leifar fiska úr eldiseiningum daglega eða sjaldnar. Þegar sérstaklega stendur á, eða ef þörf er á auknu eftirliti á tilteknu tímabili, getur Matvælastofnun mælt fyrir um að fjarlæga skuli dauðan fisk og lífrænar leifar fiska oftar en daglega.

89. gr.

Upplýsingar um afföll í landeldi.

    Rekstrarleyfishafi skal senda Matvælastofnun skýrslu um afföll mánaðarlega en stofnunin hefur jafnframt heimild til að krefjast tímabundið tíðari skýrsluskila ef tilefni er til.
    Upplýsingar í skýrslu um afföll skv. 1. mgr. skulu að lágmarki tilgreina eftirfarandi:
     a.      aldur og þroskastig dauðra fiska,
     b.      eldiseiningu eða aðra staðsetningu þar sem afföll áttu sér stað,
     c.      dagsetningu þegar dauðir fiskar og lífrænar leifar fiska voru fjarlægðar,
     d.      fjölda fiska sem voru fjarlægðir,
     e.      þyngd fiska og lífrænna leifar fiska og vigtunaraðferð,
     f.      líklegar ástæður affalla að mati rekstrarleyfishafa.
    Matvælastofnun skal birta upplýsingar úr skýrslum skv. 1. mgr. opinberlega.

90. gr.

Innflutningur á notuðum eldisbúnaði og flutningstækjum.

    Innflutningur á notuðum eldisbúnaði til landeldis er óheimill. Til slíks búnaðar teljast m.a. eldisker, tankar, fóðrarar og fiskidælur. Þó er heimilt að flytja inn notuð vísindatæki og tæknibúnað, m.a. tæki til flutnings sem sannanlega er hægt að sótthreinsa að mati Matvælastofnunar. Einnig getur Matvælastofnun með sömu skilyrðum heimilað innflutning á öðrum eldisbúnaði enda telji Matvælastofnun ekki líklegt að smitefni sem valda dýrasjúkdómum berist með honum. Sækja skal um leyfi fyrir innflutningi á notuðum vísindatækjum, tæknibúnaði og eldisbúnaði til Matvælastofnunar sem getur heimilað innflutning að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar.
    Sækja skal um leyfi til Matvælastofnunar fyrir innflutningi tækja til flutnings á fiski. Matvælastofnun getur heimilað innflutning að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar. Matvælastofnun getur bannað innflutning á tækjum sem kunna að hafa verið notuð í tengslum við tilkynningarskylda sjúkdóma eða sníkjudýr.

91. gr.

Flutningstæki og sótthreinsun í landeldi.

    Tæki til flutnings á fiski skulu vera lokuð og yfirbyggð. Öll flutningstæki, farartæki og búnað skal vera hægt að sótthreinsa með fullnægjandi hætti.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um notkun, eiginleika og sótthreinsun flutningstækja, farartækja og búnaðar sem notaður er í landeldi.

92. gr.

Hættusvæði vegna sjúkdóma eða sníkjudýra í landeldi.

    Komi upp tilkynningarskyldur atburður vegna sjúkdóma eða sníkjudýra samkvæmt lögum þessum, lögum um varnir gegn fisksjúkdómum eða öðrum reglum sem gilda um landeldi, skal Matvælastofnun heimilt að ákveða að viðkomandi landeldisstöð sé hættusvæði. Þá skal Matvælastofnun einnig heimilt að ákveða að allt svæði innan tiltekinnar fjarlægðar frá landeldisstöð sé áhættusvæði.
    Sé svæði skilgreint sem hættusvæði skal leita samþykkis Matvælastofnunar fyrir allri umferð rekstrarleyfishafa um svæðið, slátrun og förgun fisks sem og aðgerðum sem rekstrarleyfishafi hyggst grípa til vegna tilkynningarskylds atburðar. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um heimildir Matvælastofnunar til ráðstafana og takmarkana á hættusvæðum og áhættusvæðum.

93. gr.

Tilvísanir til almennra laga á sviði lagareldis.

    Að öðru leyti en greinir í lögum þessum skulu lög um varnir gegn fisksjúkdómum gilda um varnir og viðbrögð gegn fisksjúkdómum og sníkjudýrum í landeldi.
    Að öðru leyti en greinir í lögum þessum skulu lög um velferð dýra gilda um velferð fiska í landeldi.

XVI. KAFLI

Rekstrarleyfi til landeldis.

94. gr.

Rekstrarleyfi fyrir landeldi.

    Til að starfrækja landeldi þarf rekstrarleyfi sem Matvælastofnun veitir og starfsleyfi sem Umhverfisstofnun veitir.
    Umsækjandi skal uppfylla kröfur sem gerðar eru um vernd vistkerfa og vatnshlota, heilbrigði fiska og afurða þeirra, um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í fiskum, velferð fiska og varnir gegn stroki.

95. gr.

Skráningarskylda.

    Ráðherra er heimilt að kveða á um í reglugerð að starfræksla landeldisstöðva, þar sem hámarkslífmassi er allt að 20 tonnum á hverjum tíma og starfræksla er ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sé háð skráningarskyldu í stað útgáfu rekstrarleyfis.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð kröfur, skilyrði og skilmála sem gilda fyrir starfsemi og eru forsenda skráningar, þ.m.t. kröfur um strokvarnir, innra eftirlit, úttektir þegar nauðsyn ber til, skýrslugjöf til Matvælastofnunar og að stofnuninni sé heimilt að afla upplýsinga rafrænt og skylda skráningaraðila til að skrá upplýsingar í gagnagrunn sem stofnunin leggur til. Aðili sem er skráningarskyldur skv. 1. mgr. skal skrá starfsemi sína hjá Matvælastofnun. Matvælastofnun skal staðfesta skráningu rekstraraðila og leiðbeina honum um hvaða reglur gilda um starfsemina.
    Óheimilt er að flytja fisk í skráningarskylda landeldisstöð áður en staðfesting Matvælastofnunar á skráningu hefur verið gefin út.

96. gr.

Móttaka og afgreiðsla umsókna.

    Áður en sótt er um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar og starfsleyfi til Umhverfisstofnunar skal umsækjandi afla staðfestingar frá Skipulagsstofnun um hvort gera þurfi umhverfismat vegna framkvæmda og starfsemi sem gert er ráð fyrir samkvæmt umsóknum um rekstrarleyfi og starfsleyfi.
    Þegar ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir skal umsækjandi afhenda Matvælastofnun umsóknir um leyfi skv. 94. gr. og skulu þær afgreiddar samhliða, sbr. þó 11. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021.
    Matvælastofnun skal framsenda umsókn um starfsleyfi til landeldis til Umhverfisstofnunar til meðferðar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Hvor stofnun um sig skal tilkynna umsækjanda hvort umsókn telst fullnægjandi, innan mánaðar frá því að umsókn berst. Þegar Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi skal það sent Matvælastofnun. Matvælastofnun afhendir umsækjanda útgefin starfs- og rekstrarleyfi samtímis. Sé starfsleyfi sem útgefið er af Umhverfisstofnun endurútgefið eða endurskoðað skal Umhverfisstofnun afhenda umsækjanda starfsleyfið.

97. gr.

Umsókn um rekstrarleyfi fyrir landeldi.

    Umsókn um rekstrarleyfi til landeldis skal vera skrifleg. Í henni skulu m.a. koma fram upplýsingar um eignaraðild að landeldisstöð, sem og raunverulega eigendur umsækjanda sem eiga meira en 10% í honum ef hann er lögaðili, að umsækjandi hafi fullnægjandi fagþekkingu á viðkomandi sviði, að innra eftirlit landeldisstöðvar og eldisbúnaður standist kröfur sem nánar er kveðið á um í lögum þessum eða reglugerðum um landeldi, um stærð og framleiðslumagn mælt í lífmassa, eldistegundir, eldisstofna, og eldisaðferðir. Einnig skal fylgja umsókn afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
    Umsókn skv. 1. mgr. skulu fylgja gögn um heimild til afnota af landi eða vatni. Umsókn skal einnig fylgja eldisáætlun og rekstraráætlun sem sýnir m.a. uppbyggingarferil eldis og öflun fiska, svo og önnur gögn sem Matvælastofnun telur nauðsynleg til að meta hvort skilyrði til útgáfu rekstrarleyfis séu fyrir hendi, svo sem nýtingarleyfi vegna vatns og jarðsjávar. Sé frekara eldi á fiski úr landeldi fyrirhugað í sjókvíaeldi eða hafeldi skal enn fremur tilgreina mögulega viðtakendur fisks frá landeldisstöð. Þá skal tilgreina hvernig rekstrarleyfishafi hyggst losa úrgang frá landeldisstöð og hvaða heimilda hefur verið aflað í því skyni.

98. gr.

Afstaða Matvælastofnunar.

    Sé fyrirhuguð starfsemi háð mati á umhverfisáhrifum skal Matvælastofnun fyrir útgáfu rekstrarleyfis kynna sér umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar við afgreiðslu rekstrarleyfis. Matvælastofnun skal taka saman greinargerð um afgreiðslu rekstrarleyfis þar sem gerð er grein fyrir samræmi milli rekstrarleyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði um mótvægisaðgerðir eða vöktun, sbr. 24. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, skal það koma fram í leyfinu. Matvælastofnun skal í greinargerðinni einnig taka tillit til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni er til ef um það er fjallað í áliti Skipulagsstofnunar, svo sem til nýtingarleyfa vegna vatns og jarðsjávar. Sé framkvæmd ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar skal Matvælastofnun fyrir útgáfu rekstrarleyfis kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun um matsskyldu og kanna hvort framkvæmdin sé í samræmi við tilkynnta framkvæmd.
    Matvælastofnun skal taka rökstudda afstöðu til sjúkdómstengdra þátta sem kunna að fylgja starfsemi landeldis.

99. gr.

Auglýsing tillögu að rekstrarleyfi. Birting rekstrarleyfis.

    Matvælastofnun skal vinna tillögur að rekstrarleyfum fyrir landeldi og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Matvælastofnun og Umhverfisstofnun skulu auglýsa tillögu að rekstrarleyfi og starfsleyfi á sama tíma. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Matvælastofnunar innan fjögurra vikna frá auglýsingu.
    Matvælastofnun skal innan tveggja mánaða frá því að frestur rann út til að gera athugasemdir við tillögur að rekstrarleyfi taka ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis. Matvælastofnun skal tilkynna Umhverfisstofnun, umsækjanda um rekstrarleyfi og þeim sem hafa gert athugasemdir við tillöguna um afgreiðslu rekstrarleyfis.
    Matvælastofnun skal auglýsa á vef sínum útgáfu og gildistöku rekstrarleyfa. Birting á vef Matvælastofnunar telst vera opinber birting. Matvælastofnun skal birta ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Í auglýsingunni skal tilgreina hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis er aðgengileg og tilgreina um kæruheimild og kærufrest.

100. gr.

Efni og útgáfa rekstrarleyfis.

    Telji Matvælastofnun að umsókn um rekstrarleyfi fullnægi skilyrðum laga þessara, og eftir auglýsingu tillögu að rekstrarleyfi skv. 99. gr., skal stofnunin gefa út rekstrarleyfi.
    Í rekstrarleyfi skulu vera ákvæði um umfang landeldis mælt í leyfilegum lífmassa. Þá skal í rekstrarleyfi kveðið á um leyfilegar tegundir í eldi og leyfilega eldisstofna. Ráðherra skal setja nánari ákvæði í reglugerð um þær aðferðir sem skylt er að nota til að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna landeldisstöðva og um framkvæmd þeirra.
    Skilyrði fyrir útgáfu rekstrarleyfis er að fyrirhuguð starfsemi samræmist skipulagi á svæðinu samkvæmt skipulagslögum.
    Ráðherra er í reglugerð heimilt að mæla fyrir um nánari skilyrði sem setja má í rekstrarleyfi.
    Matvælastofnun skal hafna umsókn ef umsækjandi leggur ekki fram þau gögn sem kveðið er á um í 97. gr., enda hafi umsækjanda verið gefinn hæfilegur frestur til að leggja fram þau gögn sem vantar.

101. gr.

Ótímabundin rekstrarleyfi.

    Uppfylli rekstrarleyfishafi eða skráningarskyldur aðili öll skilyrði laga þessara og reglna settra með stoð í þeim skulu rekstrarleyfi til landeldis og skráning vegna landeldis vera ótímabundin. Rekstrarleyfi og skráning skulu sæta breytingum samkvæmt lögum og reglum á hverjum tíma sem og afturköllun og afskráning skv. XVIII. kafla.

XVII. KAFLI
Starfræksla landeldisstöðva og eftirlit.

102. gr.

Upphaf starfsemi.

    Óheimilt er að hefja rekstur landeldis samkvæmt rekstrarleyfi fyrr en Matvælastofnun hefur gert úttekt á landeldisstöð sem starfrækt verður samkvæmt leyfinu og m.a. staðfest að fyrirhuguð framkvæmd og eldisbúnaður standist ströngustu staðla sem settir eru samkvæmt reglugerðum. Markmið úttektar er að staðreyna eftir föngum að rekstrarleyfishafi eða skráningarskyldur aðili sé fær um að fullnægja skilyrðum laga þessara og skilmálum rekstrarleyfis.
    Óheimilt er að flytja fisk í landeldisstöð fyrr en rekstrarleyfi er fengið og úttekt hefur farið fram.
    Landeldisstöðvar skulu hafa stöðvarskírteini útgefið af faggiltri skoðunarstofu og skal skírteinið aðeins gilda fyrir eina landeldisstöð á tilteknum stað. Í stöðvarskírteini skulu koma fram upplýsingar um hönnun, ástand og samsetningu búnaðar landeldisstöðvar og vottun um að búnaður uppfylli kröfur laga og gildandi staðla samkvæmt reglugerðum.
    Ráðherra skal setja nánari reglur um upphaf starfsemi, m.a. um staðarúttekt, meginíhluti og stöðvarskírteini með reglugerð. Kveða má í reglugerð um undanþágu smærri landeldisstöðva frá kröfu um stöðvarskírteini.

103. gr.

Bann við stroki úr landeldi.

    Skylt er að halda eldisfisk innan eldiseininga og skylt er að nota búnað sem kemur í veg fyrir strok. Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila er skylt að viðhafa verkferla sem vakta strok og ástand eldiseininga sem og lagna sem liggja að og frá eldiseiningum.
    Ráðherra er í reglugerð heimilt að setja nánari skilyrði um þær kröfur sem gerðar eru til rekstraraðila og skráningarskyldra aðila samkvæmt þessari grein.

104. gr.

Innra eftirlit með landeldi.

    Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á því að sett sé á fót og starfrækt innra eftirlit með starfseminni, þ.m.t. fiskum og heilbrigði þeirra, mannvirkjum og búnaði. Innra eftirlit skal tryggja að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla eða rekstrarleyfi sem eru veitt samkvæmt þeim. Rekstrarleyfishafi skal sannprófa að eftirlit og úrbætur séu í samræmi við reglur um innra eftirlit.
    Rekstrarleyfishafi landeldisstöðvar skal, sem hluta af innra eftirliti, starfrækja gæðakerfi þar sem fram koma verklagsreglur, m.a. um þjálfun starfsmanna og viðbragðsáætlanir. Leyfishafi skal sannreyna að verklagsreglur og viðbragðsáætlanir uppfylli markmið og gera nauðsynlegar úrbætur.
    Rekstrarleyfishafi skal, ótilkvaddur, senda Matvælastofnun skriflega staðfestingu um að farið sé að innri reglum í starfsemi rekstrarleyfishafa. Skulu slíkar staðfestingar sendar Matvælastofnun eigi sjaldnar en hálfsárslega. Matvælastofnun skal reglulega sannreyna að framkvæmd innra eftirlits með starfseminni sé í samræmi við lög og reglur.
    Ráðherra setur frekari ákvæði um innra eftirlit í reglugerð, þ.m.t. um viðbragðsáætlanir og skyldu rekstrarleyfishafa til að starfrækja gæðakerfi.

105. gr.

Eftirlit og skýrslugjöf í landeldi.

    Matvælastofnun skal hafa eftirlit með landeldi og landeldisstöðvum í samræmi við fyrirmæli laga þessara. Eftirlitið skal ná til rekstrar- og fiskeldisþátta í starfsemi landeldisstöðvanna og þess að skilyrði í rekstrarleyfi séu uppfyllt. Eftirlit með heilbrigði og velferð fiska og heilnæmi eldisafurða skal einnig framkvæmt af Matvælastofnun í samræmi við lög þar að lútandi. Eftirlit Matvælastofnunar skal vera reglubundið en einnig áhættumiðað þannig að eftirlit skuli almennt vera í hlutfalli við áhættu í rekstri rekstrarleyfishafa, þ.m.t. þannig að stærri landeldisstöðvar sæti meira eftirliti en minni landeldisstöðvar, allt eftir nánari ákvörðun Matvælastofnunar.
    Til að Matvælastofnun geti framkvæmt eftirlit skv. 1. mgr. skal rekstrarleyfishafi mánaðarlega gefa Matvælastofnun skýrslu um starfsemi sína en stofnunin hefur jafnframt heimild til að krefjast tímabundið tíðari skýrsluskila ef tilefni er til. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um framleiðslumagn stöðvar af slátruðum fiski, eldisrými, fóðurnotkun, birgðir af fiski mældar í lífmassa og fjölda, uppruna fisks, sjúkdóma, óhöpp í rekstri, svo og önnur þau atriði sem stofnuninni eru nauðsynleg til virks eftirlits samkvæmt lögum þessum. Þá skal færð dagbók um starfsemina í landeldisstöðvum samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Matvælastofnun er heimilt að kalla eftir frekari gögnum en hér greinir þegar tilefni er til. Matvælastofnun er heimilt að afla upplýsinga rafrænt og skylda rekstrarleyfishafa til að skrá upplýsingarnar í gagnagrunn sem stofnunin leggur til. Matvælastofnun er heimilt að draga úr tíðni og umfangi upplýsingagjafar hjá rekstrarleyfishöfum sem framleiða minna en 100 tonn á ári.
    Ráðherra skal í reglugerð mæla nánar fyrir um eftirlitshlutverk Matvælastofnunar. Matvælastofnun er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. að annast framkvæmd eftirlitsins samkvæmt sérstökum samningi. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara. Um þagnarskylduna gilda ákvæði X. kafla stjórnsýslulaga og skal brot á þeim varða refsingu skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga.
    Matvælastofnun skal heimill óheftur aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal til töku sýna og myndatöku, að dagbók rekstrarleyfishafa og að öllum þeim stöðum sem lög þessi og stjórnvaldsreglur ná yfir og er stofnuninni heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf.
    Vinnsla Matvælastofnunar á eftirlitsgögnum samkvæmt þessari grein skal vera í samræmi ákvæði laga um persónuvernd og reglur Persónuverndar um rafræna vöktun.
    Matvælastofnun og Umhverfisstofnun skulu útbúa og birta sameiginlegar almennar starfsreglur varðandi samræmda framkvæmd eftirlits beggja stofnana með starfsemi rekstrarleyfishafa samkvæmt lögum þessum.
    Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara og ber að afhenda endurgjaldslaust sýni sem talin eru nauðsynleg til eftirlits. Rekstrarleyfishafa er skylt að veita Matvælastofnun endurgjaldslausan aðgang að tækjum og búnaði án fyrirvara til þess að framkvæma megi eftirlit.

XVIII. KAFLI

Afturköllun rekstrarleyfis til landeldis.

106. gr.

Afturköllun rekstrarleyfis til landeldis.

    Matvælastofnun getur afturkallað rekstrarleyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum laga þessara eða stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra. Einnig er heimilt að afturkalla leyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn skilyrðum rekstrarleyfis eða skilyrðum þess er að öðru leyti ekki fullnægt. Þá er og heimilt að afturkalla rekstrarleyfi ef leyfishafi verður ófær um að stunda rekstur.
    Áður en gripið er til afturköllunar leyfis skv. 1. mgr. skal Matvælastofnun veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta nema um mjög alvarlegt eða ítrekað brot sé að ræða.

107. gr.

Afskráning landeldistöðva.

    Matvælastofnun er heimilt að afskrá skráða starfsemi verði aðili uppvís að því að vanrækja þær kröfur sem gilda um skráningu skráðra aðila eða brjóta að öðru leyti gegn skilyrðum og skilmálum skráningarinnar. Matvælastofnun ber að senda skráningaraðila tilkynningu um tilefni afskráningar.

4. ÞÁTTUR

Hafeldi

XIX. KAFLI

Almennt um hafeldi.

108. gr.

Upphaf hafeldis.

    Ákvæði 2. þáttar um sjókvíaeldi, sem og sameiginleg ákvæði 5. þáttar sem vísa til sjókvíaeldis, skulu gilda um hafeldi með þeim breytingum sem leiðir af ákvæðum 4. þáttar.
    Engin rekstrarleyfi eða tilraunaleyfi til hafeldis skulu gefin út fyrr en að loknum grunnrannsóknum samkvæmt XX. kafla. Engin rekstrarleyfi til hafeldis með frjóan lax má gefa út fyrr en burðarþolsmat skv. 109. gr. og áhættumat skv. 110. gr. liggur fyrir. Tilraunaleyfi má gefa út án þess að burðarþolsmat skv. 109. gr. og áhættumat erfðablöndunar skv. 110. gr. liggi fyrir. Með umsókn um rekstrarleyfi eða tilraunaleyfi til hafeldis skal fylgja staðfesting á grunnrannsóknum fyrir viðkomandi smitvarnasvæði skv. XX. kafla.

109. gr.

Burðarþolsmat og afmörkun smitvarnasvæða.

    Um burðarþolsmat vatnshlota og annarra afmarkaðra hafsvæða vegna hafeldis fer skv. 5. gr. Heimilt er að burðarþolsmeta smitvarnasvæði til hafeldis utan skilgreindra vatnshlota.
    Afmarka skal tiltekin smitvarnasvæði þar sem stunda má hafeldi og um slíka afmörkun fer að öðru leyti skv. 11. gr. Heimilt er að skipta vatnshloti í fleiri en eitt smitvarnasvæði.

110. gr.

Áhættumat erfðablöndunar.

    Eftir að grunnrannsóknum skv. XX. kafla er lokið fyrir eitt eða fleiri smitvarnasvæði í hafeldi skal Hafrannsóknastofnun endurskoða áhættumat erfðablöndunar skv. 6. gr. og, ef við á, gefa út nýtt áhættumat erfðablöndunar sem tekur tillit til mögulegs hafeldis á viðkomandi smitvarnasvæðum.
    Aukist heildarlaxamagn vegna endurskoðunar skv. 1. mgr. skal sú viðbót ekki koma til aukningar á laxamagni þeirra rekstrarleyfishafa sem þegar hafa yfir að ráða laxahlut heldur skal sú viðbót við heildarlaxamagn mynda óráðstafaðan laxahlut sem skal boðinn út.
    Óráðstafaður laxahlutur skv. 2. mgr. verður aðeins nýttur til hafeldis. Ráðherra getur kveðið á um nánari skilyrði fyrir þátttöku í útboði laxahlutar sem nýtast á við hafeldi.

111. gr.

Tilraunaleyfi í hafeldi.

    Eftir að grunnrannsóknum skv. XX. kafla er lokið, og óháð því hvort burðarþolsmat eða áhættumat erfðablöndunar hafi farið fram skv. 109. gr. og 110. gr., er Matvælastofnun heimilt að veita tilraunaleyfi vegna afturkræfra tilrauna með búnað sem ætlaður er til hafeldis. Áður en tilraunaleyfi er gefið út skal Matvælastofnun leita umsagna Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar og er Matvælastofnun óheimilt að gefa út tilraunaleyfi ef einhver umsagnaraðila leggst gegn því. Matvælastofnun skal þó heimilt að gefa út tilraunaleyfi með breytingum og skilyrðum sem taka tillit til athugasemda umsagnaraðila.
    Áður en tilraunaleyfi er gefið út skv. 1. mgr. skal umsækjandi afla staðfestingar frá Skipulagsstofnun um hvort gera þurfi umhverfismat vegna framkvæmda og starfsemi sem gert er ráð fyrir samkvæmt umsókn um tilraunaleyfi. Þegar ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld, eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir, skal Matvælastofnun taka afstöðu til útgáfu tilraunaleyfis.
    Við tilraunir á notkun búnaðar skv. 1. mgr. er heimilt að nýta fisk, m.a. frjóan lax, enda sé í öllum tilfellum um takmarkaðan fjölda fiska að ræða.
    Skilyrði fyrir tilraunaleyfi er að umsækjandi hafi keypt vátryggingu með þeim skilmálum sem koma fram í 127. gr.
    Að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar skal ráðherra setja nánari reglur um tilraunaleyfi í reglugerð, m.a. um kröfur til búnaðar, skyldur tilraunaleyfishafa til að fjarlægja búnað að lokinni notkun, fjölda fiska sem nýta má við tilraunir á búnaði og vátryggingu tilraunaleyfishafa.

112. gr.

Tímabundin undanþága frá greiðslu gjalda.

    Ákvæði XIII. kafla um greiðslu gjalds til ríkissjóðs vegna Umhverfissjóðs sjókvíaeldis og ákvæði XIV. kafla um greiðslu gjalds til ríkissjóðs vegna Samfélagssjóðs sjókvíaeldis gilda einnig um hafeldi, þó þannig að greiðsluskylda rekstrarleyfishafa í hafeldi hefst fyrst að loknu eldi þriggja kynslóða fisks en í síðasta lagi sex árum frá fyrstu útsetningu fisks í hafeldi hjá viðkomandi rekstrarleyfishafa.

XX. KAFLI

Rannsóknir vegna hafeldis.

113. gr.

Rannsóknir á mögulegum svæðum til hafeldis

    Hafrannsóknastofnun getur, sjálf eða í samvinnu við aðra, stundað grunnrannsóknir í fiskveiðilandhelgi Íslands á mögulegum svæðum til hafeldis og áhrifum hafeldis á vistkerfi og villta stofna auk rannsókna á öðrum atriðum sem varða hafeldi. Til þess að rannsóknir geti talist grunnrannsóknir sem skila má sem fylgigögnum með umsókn til rekstrarleyfis í hafeldi, þá þurfa slíkar rannsóknir að hafa verið unnar af Hafrannsóknastofnun eða í samvinnu við Hafrannsóknastofnun.
    Ráðherra veitir leyfi til rannsókna skv. 1. mgr. samkvæmt umsókn þar sem fram koma m.a. upplýsingar um markmið og framkvæmd rannsóknarinnar.
    Ráðherra getur beint því til Hafrannsóknastofnunar að stofnunin hefji rannsóknir sem miði að því að finna hentug svæði til hafeldis í íslenskri efnahagslögsögu með ákvörðun þar að lútandi.

114. gr.

Markmið rannsókna.

    Markmið með rannsóknum skv. 1. mgr. 113. gr. er að mögulegum svæðum til hafeldis sé valin staðsetning þar sem ræktunarskilyrði fisks eru sem best og þar sem minnst áhrif verða af hafeldi á vistkerfi, villta stofna og sjávarbotn. Jafnframt skulu umhverfisþættir sem lúta að rekstraröryggi, svo sem straumar og ölduhæð, rannsakaðir sem og atriði sem lúta að velferð fiska, svo sem álag vegna sníkjudýra og sjúkdóma.
    Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um aðra þætti sem skulu rannsakaðir í grunnrannsóknum skv. 1. mgr.

115. gr.

Afmörkun og lok rannsókna.

    Hafrannsóknastofnun skal afmarka rannsókn hverju sinni, bæði með tilliti til landfræðilegrar afmörkunar rannsókna, tímasetningar og tímalengdar rannsókna sem og annarra atriða sem máli skipta við rannsókn á svæðum til hafeldis.
    Hafrannsóknastofnun metur hvenær rannsóknum er lokið og hvenær þær hafa náð markmiðum sínum, sbr. 114. gr.

116. gr.

Samvinna við Hafrannsóknastofnun, meðferð kostnaðar og forgangsréttur.

    Einkaaðili eða opinber aðili sem óskar eftir samvinnu við Hafrannsóknastofnun við gerð grunnrannsókna samkvæmt þessum kafla skal sækja um heimild til slíkrar samvinnu til ráðherra. Með umsókn skv. 1. málsl. skulu fylgja gögn um reynslu umsækjanda, fjármögnun rannsókna, búnað sem ætlaður er til rannsókna, markmið með rannsóknunum og annað sem máli skiptir.
    Ráðherra aflar bindandi umsagnar Hafrannsóknastofnunar um umsókn um samvinnu áður en ákvörðun er tekin um hvort af samvinnu verður.
    Ákveði ráðherra að skilyrði séu fyrir samvinnu Hafrannsóknastofnunar við einkaaðila skal ráðherra tilkynna umsækjanda og Hafrannsóknastofnun um þá niðurstöðu. Skulu umsækjandi og Hafrannsóknastofnun gera með sér samning um samvinnu við þær rannsóknir sem um ræðir, m.a. um greiðslu umsækjanda á kostnaði við rannsóknir og tryggingu fyrir greiðslu slíks kostnaðar. Samningur milli einkaaðila og Hafrannsóknastofnunar getur m.a. tekið til þess að aðrir rannsóknaraðilar verði ráðnir til þess að framkvæma rannsóknir í samvinnu við viðkomandi einkaaðila og Hafrannsóknastofnun.
    Kostnaður sem umsækjandi hefur lagt út með greiðslum til Hafrannsóknastofnunar samkvæmt þessari grein skal koma til frádráttar tilboðsfjárhæð ef umsækjandi býður í smitvarnasvæði við úthlutun þeirra skv. 24. gr. Frádráttur skv. 1. málsl. miðast enn fremur við að kostnaður umsækjanda sé fimmfaldaður þegar frádráttur er reiknaður, þó að hámarki jafnhár tilboðsfjárhæð hverju sinni. Kostnað samkvæmt þessari grein má aðeins nýta einu sinni til tilboðs í smitvarnasvæði en kostnað sem ekki nýtist til frádráttar við fyrsta tilboð má nýta við síðari tilboð. Umsækjandi getur sótt um það til ráðherra að til viðbótar við greiðslur til Hafrannsóknastofnunar geti annar sannanlegur kostnaður umsækjanda við grunnrannsóknir nýst til frádráttar samkvæmt þessari grein. Sækja má um slíkan frádrátt við upphaf grunnrannsókna vegna kostnaðar sem enn hefur ekki fallið til. Ráðherra skal setja reglugerð um hvaða annar kostnaður umsækjanda getur komið til frádráttar samkvæmt þessari grein og hvernig umsækjandi skal færa sönnur á greiðslu slíks kostnaðar.
    Sé smitvarnasvæði, sem umsækjandi hefur stundað grunnrannsóknir á í samvinnu við Hafrannsóknastofnun, úthlutað skv. 24. gr. skal umsækjanda heimilt með forgangsrétti að ganga inn í hæsta tilboð við slíka úthlutun enda séu önnur skilyrði um úthlutun til umsækjanda uppfyllt. Það er skilyrði fyrir nýtingu slíks forgangsréttar að ekki séu meira en fimm ár liðin frá því að viðkomandi grunnrannsóknum hafi lokið. Við inngöngu í hæsta tilboð má umsækjandi nýta kostnað með sama hætti og greinir í 4. mgr. Hafi fleiri en einn umsækjandi stundað grunnrannsóknir á viðkomandi smitvarnasvæða skulu báðir hafa forgangsrétt til þess að ganga inn í hæsta tilboð, þó fyrst sá sem síðast stundaði grunnrannsóknir á viðkomandi smitvarnasvæði.

5. ÞÁTTUR

Sameiginleg ákvæði

XXI. KAFLI

Ýmis sameiginleg ákvæði.

117. gr.

Engin bótaskylda vegna aðgerða í þágu dýravelferðar og vistkerfis.

    Ákvarðanir Matvælastofnunar á grundvelli laga þessara um förgun, slátrun eða aðra meðferð fiska sem miða að því að tryggja dýravelferð eða vernda vistkerfi skapa að jafnaði hvorki Matvælastofnun, íslenska ríkinu né öðrum stjórnvöldum bótaskyldu og verða rekstrarleyfishafar og aðrir að þola slíkar aðgerðir bótalaust.

118. gr.

Myndupptökur og persónuupplýsingar.

    Eftirlitsmönnum Matvælastofnunar er heimilt að nota fjarstýrð loftför í eftirlitsstörfum sínum sem eru búin myndavélum til upptöku eða annan fjarstýrðan búnað sem getur safnað upplýsingum. Matvælastofnun er heimilt að vinna upplýsingar sem þannig er aflað í eftirlitstilgangi eða til söfnunar, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga í samræmi við hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum þessum. Skal gæta þess að einungis séu gerðar upptökur á þeim stöðum sem nauðsynlegt er talið vegna almannahagsmuna og til þess að eftirlitsmenn Matvælastofnunar geti uppfyllt eftirlitsskyldu sína. Matvælastofnun skal tilkynna með almennum og opinberum hætti um fyrirhugað eftirlit með fjarstýrðum loftförum.
    Persónuupplýsingum sem safnast við upptökur skal eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær en í síðasta lagi þegar heimild til að beita viðurlögum við háttsemi fellur niður. Verði eftirlitsmenn Matvælastofnunar varir við ætlað brot gegn lögum þessum í upplýsingum sem verða til samkvæmt framangreindu er stofnuninni heimilt að varðveita upplýsingarnar þar til máli telst lokið. Hafi máli lokið með beitingu stjórnsýsluviðurlaga telst því lokið þegar frestur til að höfða dómsmál er runninn út eða endanlegur dómur hefur fallið um það.
    Matvælastofnun er ekki heimilt að láta í té upplýsingar sem verða til við upptökur nema til lögreglu vegna rannsóknar á ætluðu broti.

119. gr.

Þjónustuaðilar.

    Rekstrarleyfishafa er aðeins heimilt að skipta við verktaka eða þjónustuaðila sem uppfylla kröfur sem gerðar eru til slíkra aðila varðandi öryggi, hreinlæti, hollustuhætti, mengunarvarnir, strokvarnir, smitvarnir og dýravelferð samkvæmt þeim stöðlum, lögum og reglum sem gilda um starfsemi viðkomandi verktaka eða þjónustuaðila. Áður en rekstrarleyfishafi þiggur þjónustu verktaka eða þjónustuaðila skal rekstrarleyfishafi afla skriflegrar staðfestingar frá slíkum verktaka eða þjónustuaðila um að viðeigandi kröfur séu uppfylltar. Slíkar staðfestingar skulu endurnýjaðar eigi sjaldnar en á 12 mánaða fresti.
    Rekstrarleyfishafa er óheimilt að skipta við þjónustuaðila eða verktaka nema viðkomandi uppfylli að lágmarki sömu kröfur og gerðar væru til rekstrarleyfishafa ef hann annaðist sömu þjónustu eða verk sjálfur. Rekstrarleyfishafi ber beina ábyrgð á vinnu og háttsemi þjónustuaðila og verktaka. Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á að þjónustuaðilar og verktakar fari eftir ákvæðum laga þessara með sama hætti og rekstrarleyfishafi sjálfur. Allar athafnir slíkra aðila í þágu rekstrarleyfishafa skulu skoðast sem athafnir rekstrarleyfishafa sjálfs. Brjóti þjónustuaðilar eða verktakar gegn ákvæðum laga þessara hefur það sömu afleiðingar fyrir rekstrarleyfishafa og ef rekstrarleyfishafi sjálfur hefði gerst brotlegur.
    Ráðherra er í reglugerð heimilt að setja nánari skilyrði um þær kröfur sem gerðar eru til þjónustuaðila samkvæmt þessari grein. Í reglugerð má kveða á um skyldu þjónustuaðila og verktaka til þess að fá fyrirframskráningu hjá Matvælastofnun áður en viðkomandi aðilar taka að sér þjónustu í þágu rekstrarleyfishafa.

120. gr.

Framsal og veðsetning rekstrarleyfis.

    Framsal og leiga á rekstrarleyfi, án skriflegs samþykkis Matvælastofnunar, er óheimil. Veiti Matvælastofnun skriflegt samþykki skv. 1. málsl. þá skal framsalshafi eða leigutaki uppfylla öll sömu skilyrði og framseljandi eða leigusali gera samkvæmt lögum þessum. Veðsetning á rekstrarleyfi er heimil án samþykkis Matvælastofnunar. Sama gildir um veðsetningu laxahlutar. Við fullnustu veðréttar skal veðhafi, eða annar framsalshafi eftir því sem við á ef fullnusta fer fram með framsali, uppfylla öll skilyrði sem gerð eru til rekstrarleyfishafa samkvæmt lögum þessum. Veðhafi sem gengur að rekstrarleyfi eða laxahlut, eða framsalshafi ef fullnusta fer fram með sölu, skal innan þriggja mánaða frá fullnustu uppfylla kröfur til rekstrarleyfishafa samkvæmt lögum þessum. Matvælastofnun getur veitt allt að 12 mánaða viðbótarfrest í þessu tilliti ef tilefni er til. Uppfylli veðhafi eða framsalshafi ekki kröfur til rekstrarleyfishafa að þeim fresti liðnum skal Matvælastofnun afturkalla viðkomandi rekstrarleyfi og innkalla viðkomandi laxahlut eftir því sem við á.
    Matvælastofnun er heimilt að birta opinberlega upplýsingar um framsöl, leigu og veðsetningar rekstrarleyfa.

XXII. KAFLI

Skil og birting upplýsinga.

121. gr.

Skil á gögnum og upplýsingum.

    Matvælastofnun skal starfrækja miðlægt gagnakerfi sem móttekur öll gögn og upplýsingar frá rekstrarleyfishöfum vegna skráningar samkvæmt lögum þessum, þ.m.t. gögn vegna umsókna, eftirlits, skýrsluskila og annarra tilkynninga.
    Aðgang að miðlægu gagnakerfi hafa Hafrannsóknastofnun, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Fiskistofa og önnur þau stjórnvöld og stofnanir sem rekstrarleyfishafa er skylt að skila gögnum til lögum samkvæmt.

122. gr.

Birting upplýsinga úr eftirliti og um framleiðslu.

    Heimilt er að birta opinberlega upplýsingar úr eftirliti Matvælastofnunar og upplýsingar úr rekstrarleyfum og framleiðsluskýrslum einstakra rekstrarleyfishafa og skráningarskyldra aðila skv. 2. mgr. 36. gr.
    Upplýsingar um strok, tilkynningarskylda sjúkdóma og sníkjudýr, svo sem um lús, mikil afföll eldisfiska eða slæma meðferð á eldisfiski, skal Matvælastofnun birta opinberlega ef slíks verður vart.
    Matvælastofnun skal á vef sínum birta með samandregnum hætti tölfræði og aðrar upplýsingar sem byggjast á upplýsingum og skýrsluskilum rekstrarleyfishafa. Skulu slíkar upplýsingar uppfærðar reglulega á vef Matvælastofnunar.
    Ráðherra skal setja ákvæði í reglugerð um opinbera birtingu upplýsinga samkvæmt þessari grein. Slíkar reglur skulu kveða nánar á um framsetningu og inntak birtingarinnar, m.a. að birtingin sé rafræn og innan hvaða tímamarka skuli birta slíkar upplýsingar.

123. gr.

Önnur birting upplýsinga.

    Matvælastofnun er heimilt, m.a. með fréttatilkynningu, að greina opinberlega frá niðurstöðum eftirlits og ákvörðunum sem fela í sér:
     a.      afturköllun eða niðurfellingu rekstrarleyfis sem og ákvörðun Matvælastofnunar um afskráningu,
     b.      ákvörðun um úrbætur sem unnar eru á kostnað rekstrarleyfishafa eða skráningarskylds aðila,
     c.      álagningu dagsekta,
     d.      ákvörðun um álagningu stjórnvaldssekta.

XXIII. KAFLI

Gjaldtaka og vátrygging.

124. gr.

Gjaldtaka vegna umsókna og úttektar og eftirlits með skráningarskyldri starfsemi.

    Umsækjendur um rekstrarleyfi, tilraunaleyfi og rekstrarleyfi til bráðabirgða skulu greiða Matvælastofnun þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem fellur til við afgreiðslu umsóknar samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar. Skráningarskyldur aðili skal greiða Matvælastofnun þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem fellur til við afgreiðslu skráningar samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar. Fyrir úttekt Matvælastofnunar á starfsemi skráningarskylds aðila og framkvæmd eftirlits skal greitt þjónustugjald samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar. Umsóknir um leyfi samkvæmt grein þessari skulu ekki afgreiddar fyrr en þjónustugjald hefur verið greitt.
    Ráðherra staðfestir, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu samkvæmt grein þessari.

125. gr.

Gjaldtaka vegna eftirlits og þjónustuverkefna samkvæmt lögum þessum.

    Fyrir eftirlit, umsýslu og skjalaskoðun Matvælastofnunar eða faggiltra eftirlitsaðila á hennar vegum skal greiða gjald sem ekki er hærra en raunkostnaður til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum:
     a.      launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits, umsýslu og skjalaskoðunar,
     b.      öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. kostnaði af aðstöðu, áhöldum, búnaði, þjálfun og ferðalögum, svo og tengdum kostnaði,
     c.      kostnaði vegna sýnatöku opinberra eftirlitsaðila og kostnaði sem opinberar rannsóknastofur innheimta vegna sýnatöku, greiningar, prófunar og sjúkdómsgreininga sem framkvæmdar eru á opinberum rannsóknastofum.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um eftirlit, umsýslu og skjalaskoðun Matvælastofnunar og skal hann gefa út gjaldskrá fyrir eftirlit Matvælastofnunar að fengnum tillögum stofnunarinnar.
    Við gerð reglugerðar og gjaldskrár opinberra eftirlitsaðila er heimilt að taka tillit til eftirfarandi atriða:
     a.      hvers konar fyrirtæki um er að ræða og viðkomandi áhættuþátta,
     b.      hagsmuna fyrirtækja með litla framleiðslu,
     c.      hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu,
     d.      þarfa fyrirtækja með aðsetur á svæðum sem líða fyrir landfræðilegar takmarkanir.
    Matvælastofnun skal afla umsagnar hlutaðeigandi hagsmunasamtaka og kynna þeim efni og forsendur reglugerðar og/eða gjaldskrár stofnunarinnar með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Hafi umsagnir þeirra ekki borist Matvælastofnun að mánuði liðnum er ráðherra þó heimilt að setja reglugerð og gjaldskrá án umsagna þeirra.
    Eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi opinbers eftirlitsaðila.
    Innheimta má eftirlitsgjaldið með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.

126. gr.

Kostnaður vegna þvingunarúrræða.

    Opinber eftirlitsaðili getur ákveðið að rekstrarleyfishafi eða skráningarskyldur aðili skuli greiða allan kostnað vegna þvingunarúrræða sem framkvæmd eru samkvæmt lögum þessum. Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að krefjast dráttarvaxta af kostnaði vegna þvingunarúrræða frá og með þeim degi þegar kostnaður féll til og fram að greiðsludegi. Innheimta má slíkan kostnað með fjárnámi án dóms eða sáttar.

127. gr.

Vátrygging.

    Fyrir útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis skal umsækjandi leggja fram sönnun þess að hann hafi keypt ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi. Ábyrgðartrygging takmarkast við að greiða þann kostnað sem til fellur við að fjarlægja búnað rekstrarleyfishafa sem hætt hefur starfsemi, búnað sem ekki er lengur í notkun, sbr. 37. gr., viðgerð á búnaði, hreinsun eldissvæðis og nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjúkdómahættu. Ábyrgðartrygging skal vera í gildi á gildistíma rekstrarleyfis og í tvö ár eftir að rekstrarleyfi er afturkallað eða fellur niður af öðrum orsökum. Ráðherra getur sett nánari ákvæði um trygginguna í reglugerð.

XXIV. KAFLI

Reglugerðarheimild, refsiákvæði o.fl.

128. gr.

Reglugerðarheimild o.fl.

    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara með reglugerð. Þar skal m.a. kveðið á um útgáfu rekstrarleyfa, merkingar á fiskum, fóðurnotkun, endurnýjun eldisbúnaðar, úttekt á sjókvíaeldisstöðvum og landeldisstöðvum, eftirlit með starfsemi sjókvíaeldisstöðva og landeldisstöðva, flutning eldistegunda milli sjókvíaeldisstöðva og landeldisstöðva o.fl.
    Matvælastofnun er, eftir því sem þörf krefur, heimilt að setja svæðis- eða tímabundnar reglur á grundvelli slíkra reglugerða.
    Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð á um skyldu til notkunar ófrjós fisks í sjókvíaeldi, þ.m.t. ófrjós lax.

129. gr.

Skaðabætur til veiðiréttarhafa.

    Ef sannað þykir að missir eldisfisks úr sjókvíaeldisstöð eða landeldisstöð valdi tjóni á hagsmunum veiðiréttarhafa, sem verndar njóta samkvæmt lax- og silungsveiðilögum, skal viðkomandi rekstrarleyfishafi eða skráningarskyldur aðili bæta tjónið á grundvelli mats skv. VII. kafla laga um lax- og silungsveiði. Hið sama á við um tjón annarra þeirra sem hafbeit, fiskeldi eða fiskrækt stunda.
    Ef sannað þykir að starfsemi samkvæmt lögum þessum valdi tjóni í veiðivatni samkvæmt lax- og silungsveiðilögum í öðrum tilvikum en þeim sem greinir í 2. mgr. skal það tjón bætt eftir mati skv. VII. kafla þeirra laga, ef ekki semst.

130. gr.

Dagsektir.

    Fari rekstrarleyfishafi eða skráningarskyldur aðili ekki að fyrirmælum Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða skilyrðum í rekstrarleyfi innan tiltekins frests getur stofnunin ákveðið að viðkomandi greiði dagsektir þar til úr verður bætt. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt viðkomandi aðila.
    Dagsektir mega nema allt að 1.000.000 kr. á sólarhring. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta skal m.a. taka tillit til þess hve aðkallandi úrbæturnar eru og hversu stór og umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er með tilliti til veltu.
    Dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu.
    Aðila er heimilt að kæra ákvörðun Matvælastofnunar um beitingu dagsekta til ráðuneytisins innan fjórtán daga frá því að honum er tilkynnt ákvörðunin. Ráðuneytið skal kveða upp úrskurð eins fljótt og unnt er og að jafnaði innan mánaðar frá því að kæra berst.
    Ákvarðanir Matvælastofnunar um dagsektir eru aðfararhæfar. Málskot til ráðuneytisins frestar aðför.

131. gr.

Úrbætur á kostnað rekstrarleyfishafa.

    Matvælastofnun er heimilt á kostnað rekstrarleyfishafa að láta fjarlægja búnað sjókvíaeldisstöðvar sem hætt hefur starfsemi, gera við búnað og hreinsa eldissvæði og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjúkdómahættu fari hann ekki að fyrirmælum Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða skilyrðum í rekstrarleyfi. Með sama hætti getur Matvælastofnun látið slátra eldisfiski og hreinsað eldissvæði á kostnað rekstrarleyfishafa þegar hann hefur ekki farið að ákvæðum laga og reglugerða um leyfilegan fjölda frjórra laxa eða lífmassa fisks samkvæmt rekstrarleyfi. Ráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmdina með reglugerð. Skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Matvælastofnun en innheimtast síðar hjá rekstrarleyfishafa eða úr ábyrgðartryggingu hans. Kostnað má innheimta með fjárnámi.

132. gr.

Starfsemi án rekstrarleyfis eða staðfestrar skráningar.

    Ef lagareldi er stundað eða landeldisstöð eða sjókvíaeldisstöð er rekin án þess að rekstrarleyfi eða skráning sé í gildi skal Matvælastofnun stöðva starfsemina. Eftir þörfum ber lögreglu að veita Matvælastofnun liðsinni í því skyni. Matvælastofnun er heimilt að slátra eða farga fiski, fjarlægja búnað sem notaður hefur verið til starfseminnar og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir á kostnað þess aðila sem rekið hefur rekstrarleyfisskylda eða skráningarskylda starfsemi án leyfis eða skráningar. Fiskar sem hæfir eru til manneldis skulu seldir og andvirðið, að frádregnum kostnaði Matvælastofnunar við söluna og kostnaði við aðrar ráðstafanir við stöðvun rekstursins, skal renna í ríkissjóð hafi aðili hafið starfsemi án rekstrarleyfis eða skráningar en ella til fyrrverandi rekstrarleyfishafa.
    Sé rekstrarleyfi fellt úr gildi getur Matvælastofnun í sérstökum undantekningartilvikum, enda mæli ríkar ástæður með því, gefið út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að eins árs berist umsókn þess efnis frá handhafa þess leyfis sem var fellt úr gildi innan þriggja vikna frá því að leyfi var fellt úr gildi. Umsókn um rekstrarleyfi til bráðabirgða skal afgreidd eins fljótt og mögulegt er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að umsókn berst. Í umsókn skal tilgreina með skýrum hætti tilgang rekstrarleyfis til bráðabirgða, ástæður þess og fyrirhugaðar aðgerðir á gildistíma bráðabirgðaleyfisins. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal Matvælastofnun ekki stöðva rekstur fyrr en fyrir liggur hvort sótt verði um rekstrarleyfi til bráðabirgða. Berist umsókn um rekstrarleyfi til bráðabirgða skal ekki stöðva rekstur meðan umsókn er til meðferðar.
    Rekstrarleyfi til bráðabirgða skal vera efnislega innan marka þess leyfis sem áður var í gildi. Ákvörðun um rekstrarleyfi til bráðabirgða skal byggja á gögnum sem aflað hefur verið við undirbúning þess rekstrarleyfis sem fellt var úr gildi. Þá getur Matvælastofnun sett rekstrarleyfi til bráðabirgða þau skilyrði sem þörf er á svo að tilgangur leyfisins náist, svo sem um samdrátt þeirrar starfsemi sem þegar er fyrir hendi, um fresti vegna úrbóta eða um tímamörk málshöfðunar eða annarra athafna fyrir dómi sem eru á forræði aðila. Sé rekstrarleyfi fellt úr gildi vegna annmarka á umhverfismati samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana skal Matvælastofnun auk framangreindra skilyrða tryggja að rekstrarleyfi til bráðabirgða sé bundið þeim skilyrðum sem kveðið er á um í 2. mgr. 25. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021. Rekstrarleyfi til bráðabirgða samkvæmt þessari grein er heimilt að endurútgefa einu sinni.
    Matvælastofnun skal vinna tillögur að rekstrarleyfum til bráðabirgða og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Matvælastofnunar innan viku frá auglýsingu. Matvælastofnun skal tilkynna Umhverfisstofnun, umsækjanda um rekstrarleyfi til bráðabirgða og þeim sem hafa gert athugasemdir við tillögu um afgreiðslu rekstrarleyfis til bráðabirgða. Matvælastofnun skal auglýsa á vef sínum útgáfu og gildistöku rekstrarleyfis til bráðabirgða. Birting á vef Matvælastofnunar telst vera opinber birting. Í auglýsingunni skal tilgreina hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis er aðgengileg og tilgreina um kæruheimild og kærufrest.
    Ákvörðun Matvælastofnunar um veitingu rekstrarleyfis til bráðabirgða er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan mánaðar frá því að ákvörðun var birt opinberlega. Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um umsókn, málsmeðferð og skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi fyrir veitingu rekstrarleyfis til bráðabirgða samkvæmt þessari grein.

133. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Matvælastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á aðila sem brýtur gegn einhverju eftirtalinna ákvæða laga þessara um:
     1.      lífmassa í eldi á hverjum tíma skv. 3. mgr. 5. gr og 2. mgr. 100. gr.,
     2.      lífmassa fiska í eldi á hverjum tíma skv. 5. mgr. 6. gr. og 38. gr.,
     3.      eldi í sjókvíum á friðunarsvæðum skv. 7. gr.,
     4.      bann við sleppingum kynbætts eldisfisks í fiskrækt eða hafbeit skv. 9. gr.,
     5.      bann við sjókvíaeldi fleiri en eins aðila á smitvarnasvæði skv. 2. mgr. 12. gr.,
     6.      hvíld smitvarnasvæða skv. 1. mgr. 13. gr.,
     7.      bann við eldi fleiri en einnar kynslóðar í senn á smitvarnasvæði skv. 1. mgr. 13. gr.,
     8.      bann við flutningi farartækja og/eða búnaðar milli svæða skv. 14. gr. og 82. gr.,
     9.      bann við flutningi og sleppingum fisks skv. 2. og 3. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 83. gr.,
     10.      bann við móttöku eða afhendingu fiska án skimunar með niðurstöðu um smitleysi skv. 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 86. gr.,
     11.      bann við innflutningi á notuðum eldisbúnaði án leyfis Matvælastofnunar skv. 1. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 90. gr.,
     12.      bann við eldi fisks ef lúsasmit er yfir viðmiðunarmörkum skv. 1. mgr. 60. gr.,
     13.      bann við eldi kynþroska fisks skv. 1. mgr. 61. gr.,
     14.      bann við flutningi fisks í sjókvíaeldisstöð eða landeldisstöð án rekstrarleyfis skv. 2. mgr. 34. gr. og 2. mgr. 102. gr.,
     15.      skyldu til að tilkynna um strok á fiski og beita sér fyrir veiðum á strokufiski skv. 1. mgr. 43. gr. og 1. mgr. 44. gr.,
     16.      viðmiðunarmörk um óþekkt strok skv. 2. mgr. 49 gr.,
     17.      bann við framsali og leigu á rekstrarleyfi án skriflegs samþykkis Matvælastofnunar skv. 1. mgr. 120. gr.,
     18.      skyldu til að viðhafa búnað og verkferla í landeldi sem vakta strok og ástand eldiseininga sem og lagna sem liggja að og frá eldiseiningum skv. 103. gr.,
     19.      bann við viðskiptum við þjónustuaðila eða verktaka sem ekki uppfylla sömu kröfur og rekstrarleyfishafi skv. 2. mgr. 119. gr.
    Sektir samkvæmt grein þessari geta numið frá 100.000 kr. til 500.000.000 kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. taka tillit til eðlis, umfangs og alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins. Matvælastofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti.
    Sekt fyrir hvern kynþroska fisk úr sjókvíaeldi sem finnst við slátrun, og sem ekki hefur verið fargað eða slátrað að tilmælum Matvælastofnunar, skal nema 50 kr. á hvern kynþroska fisk. Frá sektarfjárhæð sem reiknuð er skv. 1. málsl. skal draga frá fjölda fiska sem er heildarfjöldi slátraðra fiska í viðkomandi skipti, margfaldaður með 0,5%.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða viðmið um fjárhæð stjórnvaldssekta vegna brota á einstökum ákvæðum laga þessara og reglugerðum settum samkvæmt þeim innan þess ramma sem ákveðinn er í 2. mgr.
    Unnt er að lækka sektir ef einstaklingur eða lögaðili hefur haft frumkvæði að því að láta Matvælastofnun í té upplýsingar eða gögn sem að mati stofnunarinnar eru mikilvæg til að upplýsa brotið og að uppfylltum nánari skilyrðum sem Matvælastofnun mælir fyrir um í reglum.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Ákvörðun Matvælastofnun um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Ákvörðun Matvælastofnun er endanleg á stjórnsýslustigi. Aðili máls getur skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla og er málshöfðunarfrestur þrír mánuðir frá því að tilkynnt var um ákvörðun. Málskot frestar aðför.

134. gr.

Sátt.

    Hafi aðili brotið gegn ákvæðum laga þessara eða ákvörðunum Matvælastofnunar á grundvelli þeirra er Matvælastofnun heimilt að ljúka málinu með sátt gangist hinn brotlegi aðili við broti og óski eftir því að ljúka málinu með þeim hætti, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot. Slík sátt getur eftir atvikum falið í sér að hinn brotlegi greiði stjórnvaldssekt. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Matvælastofnun er heimilt að setja reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

135. gr.

Réttur einstaklinga til að fella ekki á sig sök.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssektar eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Matvælastofnun skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

136. gr.

Um refsingar.

    Það varðar stjórnarmenn og framkvæmdastjóra rekstrarleyfishafa eða skráningarskyldan aðila sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, ef sakir eru miklar:
     a.      ef eldisfiskur sleppur úr sjókvíaeldisstöð þar sem umbúnaði við sjókvíaeldið hefur verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis þeirra sem framið hefur verið af ásetningi eða gáleysi,
     b.      ef þeir brjóta gegn ákvæðum 1. mgr. 43. gr. og 44. gr. af ásetningi eða gáleysi,
     c.      ef sjókvíaeldisstöðvar gefa ekki lögboðnar skýrslur um starfsemi sína eða veita eftirlitsmönnum rangar upplýsingar.

137. gr.

Valdmörk stofnana.

    Umhverfisstofnun hefur ekki heimild til að beita þvingunar- og refsiúrræðum samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir vegna sömu atvika og kynnu að varða þvingunar- og refsiúrræðum af hálfu Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum. Umhverfisstofnun er þó rétt og skylt að koma gögnum, upplýsingum og ábendingum á framfæri við Matvælastofnun sem kynnu að verða þess valdandi að Matvælastofnun beiti þvingunar- og refsiúrræðum.

138. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2024.
    Jafnframt falla úr gildi frá sama tíma lög um fiskeldi, nr. 71/2008, og lög um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, nr. 89/2019.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu eftirfarandi ákvæði taka gildi 1. janúar 2025:
     1.      Viðmiðunartímabil vegna innköllunar laxahlutar skv. 1. málsl. 1. mgr. 40. gr.,
     2.      IX. kafli um afföll og skal kaflinn þá gilda um þá kynslóð fiska sem sett er út í sjó árið 2025 og síðar, en ekki eldri kynslóðir fiska,
     3.      58. gr. um punktakerfi vegna lúsar og 59. gr. um breytingar á leyfilegum lífmassa og skal kaflinn þá gilda um þá kynslóð fiska sem sett er út í sjó árið 2025 og síðar, en ekki eldri kynslóðir fiska,
     4.      64. gr. um forsendubrest.

139. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006: Á eftir 35. gr. laganna kemur ný grein, 35. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Fiskiteljarar.

                  Hverjum þeim sem starfrækir búnað með fastri staðsetningu til talningar, myndunar eða flokkunar fisks í ám skal skylt að láta Fiskistofu í té gögn úr viðkomandi búnaði.
                  Að fengnu leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. getur Hafrannsóknastofnun í samráði við landeigendur og veiðiréttarhafa látið setja upp búnað skv. 1. mgr. Ákvæði 34. gr. og 35. gr. skulu gilda um uppsetningu slíks búnaðar eftir því sem við á.
                  Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um kröfur sem gerðar eru til búnaðar skv. 1. mgr. og hvernig farið skuli með fisk og annað sem flokkað er með búnaðinum. Hafrannsóknastofnun skal árlega birta niðurstöður úr upplýsingasöfnun samkvæmt þessari grein.