Ferill 892. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1635  —  892. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Guðbrandi Einarssyni um skerðingu lífeyris.


     1.      Hver er afstaða ráðherra til þess að mismunandi reglur gildi um skerðingu lífeyris ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega vegna fjármagnstekna? Hefur komið til skoðunar að skerðing vegna fjármagnstekna ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega verði hin sama?
    Í 22. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, er kveðið á um tekjugrunn við útreikning ellilífeyris. Þar kemur fram að lífeyrisþegar hafa almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og einnig sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna. Það er því ekki sérstakt frítekjumark vegna fjármagnstekna við útreikning ellilífeyris. Í 30. gr. laganna er kveðið á um tekjugrunn við útreikning greiðslna skv. IV. kafla (greiðslur vegna örorku). Þar kemur fram að greiðsluþegar hafa almennt frítekjumark við útreikning örorkulífeyris, sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna og sérstakt frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna við útreikning tekjutryggingar og sérstakt frítekjumark vegna fjármagnstekna við útreikning á greiðslum skv. IV. kafla laganna. Í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga (þskj. 1290, 864. mál) eru lagðar til verulegar breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga, m.a. er lagt til að greiðsluflokkar verði sameinaðir og þeim þar með fækkað, nýir greiðsluflokkar lagðir til og útreikningar greiðslna einfaldaðir. Meðal annars eru í g-lið 3. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á 30. gr. laganna um tekjugrunn við útreikning greiðslna skv. IV. kafla laganna. Er þar gert er ráð fyrir annars vegar almennu frítekjumarki sem komi í stað framangreindra sérstakra frítekjumarka vegna lífeyrissjóðs- og fjármagnstekna og hins vegar sérstöku frítekjumarki vegna atvinnutekna.

     2.      Er miðað við heildarniðurstöðu hlutabréfaviðskipta þegar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun eru skertar? Er tekið tillit til heildarupphæðar taps og gróða á einu ári áður en til skerðingar kemur?
    Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 22. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 30. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, sbr. einnig 8. tölul. 2. gr., teljast tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að teknu tilliti til ákvæða sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, til tekna við útreikning á örorkulífeyri og ellilífeyri.
    Samkvæmt 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, telst hagnaður af sölu eigna, sbr. 12.–27. gr. laganna, til skattskyldra tekna og skv. 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. tekjuskattslaga er meginreglan sú að hagnaður af sölu hlutabréfa sé mismunur á söluverði þeirra annars vegar og kaupverði hins vegar, sbr. þó 4. mgr. ákvæðisins. Nánar er kveðið á um reglur um söluhagnað af hlutabréfum í ákvæðinu. Skv. 2. málsl. 1. mgr. 24. gr. tekjuskattslaga er heimilt að draga af heildarhagnaði af sölu eigna það tap á sölu eigna sem ekki eru notaðar í atvinnurekstri og sem skattaðili kann að hafa orðið fyrir vegna sölu sams konar eigna á sama ári. Sá fyrirvari er gerður að Skatturinn tekur endanlega ákvörðun um það hvað telst til skattskyldra tekna á grundvelli tekjuskattslaga.