Ferill 1051. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1671  —  1051. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um rafræn skilríki og rafræn SIM-kort.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Er unnið að því í ráðuneytinu að tryggja áframhaldandi virkni rafrænna skilríkja verði rafræn SIM-kort algengari?

    Samkvæmt h-lið 10. tölul. 5. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, fer háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti (HVIN) með málefni rafrænnar auðkenningar og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti. Í lögum um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, er traustþjónustuveitandi skilgreindur sem einstaklingur eða lögaðili sem veitir eina eða fleiri tegundir traustþjónustu, annaðhvort sem fullgildur traustþjónustuveitandi eða traustþjónustuveitandi sem hefur ekki fullgildingu, sbr. 9. tölul. 3. gr. laganna. Hér á landi starfa Auðkenni ehf. og Advania Ísland ehf. sem fullgildir traustþjónustuveitendur í samræmi við lög nr. 55/2019 og eIDAS-reglugerð Evrópusambandsins nr. 910/2014 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðinum. Advania Ísland hefur boðið upp á rafræna auðkenningarþjónustu í gegnum Signet. Auðkenni hefur um árabil annast útgáfu rafrænna skilríkja á SIM-kort í farsímum. Þá býður Auðkenni upp á auðkenningu í gegnum smáforrit í farsíma. Auðkenni er að öllu leyti í eigu ríkisins og fer fjármála- og efnahagsráðherra með eignarhlut ríkisins í félagsins. HVIN kemur ekki að rekstri félagsins með neinum hætti né viðskiptalegum ákvörðunum þess eins og innleiðingu eSIM-skilríkja til rafrænnar auðkenningar.