Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1698, 154. löggjafarþing 1103. mál: tollalög (ökutæki flóttamanna frá Úkraínu).
Lög nr. 50 23. maí 2024.

Lög um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (ökutæki flóttamanna frá Úkraínu).


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Einstaklingur sem hefur á árinu 2022 eða síðar flutt ökutæki inn til landsins án greiðslu aðflutningsgjalda á grundvelli a-liðar 4. tölul. 1. mgr. 7. gr., sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 630/2008, getur óskað eftir framlengingu á greiðslufresti aðflutningsgjalda í 12 mánuði frá umsóknardegi, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
  1. Ökutækið hefur skráningarnúmer frá Úkraínu.
  2. Skráður eigandi ökutækisins er úkraínskur ríkisborgari sem hefur fengið dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum skv. 44. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016.
  3. Eigandi ökutækisins var skráður eigandi ökutækisins á því tímamarki þegar hann fékk dvalarleyfi hér á landi, sbr. 2. tölul.
  4. Lagt sé fram skoðunarvottorð frá skoðunarstofu hér á landi sem sýnir að ökutækið hafi hlotið aðalskoðun, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 414/2021 um skoðun ökutækja.
  5. Lagt sé fram alþjóðlegt vátryggingarskírteini eða önnur skilríki um gilda ábyrgðartryggingu vegna notkunar ökutækisins á hinu framlengda tímabili, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 1244/2019 um ökutækjatryggingar.

     Heimild skv. 1. mgr. gildir til og með 31. desember 2024.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. maí 2024.