Ferill 842. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1755  —  842. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um ADHD-lyf og svefnlyf.


     1.      Hversu margir Íslendingar eru á ADHD-lyfjum samkvæmt lyfjaskrá? Svar óskast sundurliðað eftir aldri og kyni.
    Taflan hér fyrir neðan byggist á gögnum úr lyfjagagnagrunni embættis landlæknis fyrir árið 2023 og gefur yfirlit yfir fjölda þeirra sem nota ADHD-lyf sundurliðað eftir aldri og kyni.

ADHD-lyf Konur Karlar
0–9 ára 332 767
10–19 ára 2.923 4.239
20–29 ára 2.190 1.966
30–39 ára 2.324 1.989
40–49 ára 1.792 1.500
50–59 ára 881 747
60–69 ára 349 299
70–79 ára 82 72
80–89 ára 10 8
90–99 ára 1 1
100 ára +
Samtals 10.884 11.588

     2.      Hversu margir Íslendingar fá uppáskrifuð svefnlyf? Svar óskast sundurliðað eftir aldri og kyni.
    Taflan hér fyrir neðan byggist á gögnum úr lyfjagagnagrunni embættis landlæknis fyrir árið 2023 og gefur yfirlit yfir fjölda þeirra sem nota svefnlyf sundurliðað eftir aldri og kyni.

Svefnlyf Konur Karlar
0–9 ára 20 28
10–19 ára 43 43
20–29 ára 251 174
30–39 ára 751 572
40–49 ára 1.468 982
50–59 ára 2.489 1.457
60–69 ára 4.112 2.290
70–79 ára 4.264 2.660
80–89 ára 2.456 1.424
90–99 ára 780 365
100 ára + 20 5
Samtals 16.654 10.000

     3.      Telur ráðherra áhyggjuefni að fleiri Íslendingar séu á ADHD-lyfjum en tíðkast hjá öðrum þjóðum? Er einhver vinna í gangi í ráðuneytinu við að skoða ástæður þess?
    Sé horft til 10 ára tímabils hefur notkun allra Norðurlandanna aukist úr að meðaltali 6,7 DDD/1000/dag árið 2012 í 21,8 árið 2022 sem er aukning um 326%. Á sama tíma jókst ADHD-lyfjanotkun á Íslandi úr 18,9 í 59 DDD/1000/dag eða um 314%.
    Ekki eru til innlendar rannsóknir á algengi ADHD-taugaþroskaröskunar en alþjóðlegar rannsóknir gefa til kynna að algengi meðal barna liggi á bilinu 5–7,2% og fullorðinna á bilinu 2,5–6,7%. Árið 2023 fengu 22.878 einstaklingar hér á landi afgreidd ADHD-lyf eða 8,5% barna og 5,2% fullorðinna. Bent skal á að ekki þurfa allir með ADHD lyfjameðferð.
    Ljóst er að aukning í greiningum og meðhöndlun af þessari stærðargráðu reynir á þjónustukerfið í heild sinni.
    Heilbrigðisráðherra skipaði því grænbókarnefnd um stöðu ADHD-mála á Íslandi síðastliðinn desember til að fjalla um þjónustu og stuðning við einstaklinga með ADHD. Á sama tíma og fleiri hafa fengið meðhöndlun með ADHD-lyfjum hér á landi samanborið við nágrannalöndin þá eru biðlistar eftir greiningu langir. Því er markmið nefndarinnar m.a. að greina stöðu þessara mála, lýsa samvinnu helstu kerfa sem snertir fólk með ADHD og þeim áskorunum og tækifærum sem þar leynast.
    Í grænbókarnefndinni eru fulltrúar frá heilbrigðisráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, barna- og menntamálaráðuneyti, Geðráði, endurhæfingaráði og ADHD-samtökunum. Nefndinni er ætlað að tryggja umfangsmikil samráð og er ætlað að leita eftir sjónarmiðum haghafa og sérfræðinga, svo sem fulltrúa heilbrigðisþjónustu, fagfélaga, sjúklingasamtaka, embættis landlæknis, Sjúkratrygginga Íslands og Lyfjastofnunar. Grænbókarnefndinni er falið að skrifa grænbók um málaflokkinn og skila fyrir 1. júlí 2024.