Ferill 1128. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1762  —  1128. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um samstarf Norðurlandanna um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd.


Flm.: Bryndís Haraldsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Njáll Trausti Friðbertsson, Diljá Mist Einarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að leita samstarfs við dómsmálaráðherra annarra Norðurlanda um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafa fengið synjun umsóknar á Íslandi.

Greinargerð.

    Málefni flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd er stórt viðfangsefni á Norðurlöndunum, þ.m.t. á Íslandi. Norðurlöndin eru í fararbroddi velferðarríkja á heimsvísu og því viðbúið að ásókn sé í að búa í þeim ríkjum.
    Með tillögu þessari er dómsmálaráðherra falið að leita samninga við dómsmálaráðherra eða annarra þar til bærra stjórnvalda annars staðar á Norðurlöndunum um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafa fengið synjun hérlendis en hafa ekki farið sjálfviljugir af landi brott. Markmið tillögunnar er einna helst að samræma betur meðhöndlun mála þegar einstaklingar fá ekki alþjóðlega vernd á Norðurlöndunum en viðkomandi fer ekki sjálfviljugur af landi brott og upprunaríki tekur ekki á móti ríkisborgara sínum þegar um þvingaða endursendingu er að ræða.
    Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu voru í maí 2024 alls 169 einstaklingar, sem áður voru umsækjendur um alþjóðlega vernd og komnir í verkbeiðni hjá embætti ríkislögreglustjóra um flutning úr landi, skráðir í lögreglukerfinu LÖKE í stöðunni „finnst ekki“. Er þannig um að ræða einstaklinga sem ekki hafa fundist þegar kom að flutningi úr landi þrátt fyrir að ítrekað hafi verið reynt að ná í þá. Mikilvægt er að fyrir liggi skýr málsmeðferð þegar einstaklingar dvelja ólöglega á Íslandi og geta ekki eða vilja ekki fara af sjálfsdáðum af landi brott. Í þessu samhengi er þess að vænta að frumvarp um vistun útlendinga í lokaðri búsetu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum verði lagt fyrir Alþingi haustið 2024. Tillögu þessari er ætlað að brúa bilið þangað til slík lög taka gildi, þannig að íslensk stjórnvöld geti nýtt úrræði annarra Norðurlanda til að tryggja umsækjendum, sem fengið hafa synjun, örugga búsetu fram að brottflutningi.