Ferill 1130. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1771  —  1130. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna framhalds á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI
Breyting á lögum um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 15/2024.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „júní“ í inngangsmálslið kemur: desember.
     b.      Á eftir 1. málsl. 2. tölul. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal hlutfallið vera 20% vegna rekstrarstuðnings fyrir almanaksmánuðina júlí til og með desember 2024.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „1.–2. málsl.“ í 3. málsl. 2. tölul. kemur: 1.–3. málsl.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna:
     a.      Við b-lið bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Vegna rekstrarstuðnings fyrir almanaksmánuðina júlí til og með desember 2024 getur umsækjandi farið fram á að styrkfjárhæð verði miðuð við fjölda stöðugilda í nóvember 2023, þó að hámarki tíu stöðugildi.
     b.      Við c-lið bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef tekjufall skv. 2. tölul. 4. gr. var á bilinu 50–100% skal tekjufall samkvæmt þessum staflið reiknast 100% vegna rekstrarstuðnings fyrir almanaksmánuðina júlí til og með desember 2024.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „rekstrarstuðning“ í 1. málsl. kemur: vegna almanaksmánaðar frá nóvember 2023 til og með júní 2024.
     b.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Umsókn um rekstrarstuðning vegna almanaksmánaðar frá júlí til og með desember 2024 skal beint til Skattsins fyrir hvern almanaksmánuð og eigi síðar en 31. mars 2025.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „lögum þessum“ kemur: vegna almanaksmánaðar frá nóvember 2023 til og með júní 2024.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef aðili sem fengið hefur rekstrarstuðning samkvæmt lögum þessum vegna almanaksmánaðar frá júlí til og með desember 2024 greiðir út arð, kaupir eigin hlutabréf eða ráðstafar með öðrum hætti fé til eigenda sinna, öðruvísi en í formi launa eða til samræmis við skuldbindingu sem stofnað var til fyrir 5. júní 2024, fyrir 1. janúar 2026 skal hann endurgreiða þann rekstrarstuðning sem hann hefur fengið.

II. KAFLI
Breyting á lögum um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 94/2023.

5. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. september 2024“ í 1. málsl. 4. mgr. 10. gr. laganna kemur: 31. janúar 2025.

6. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. ágúst 2024“ í 4. mgr. 15. gr. laganna kemur: 31. desember 2024.

III. KAFLI
Breyting á lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023.

7. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. júní“ í 1. málsl. 1. gr. laganna kemur: 31. ágúst.

8. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. september“ í 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laganna kemur: 30. nóvember.

9. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. júní“ í 3. mgr. 12. gr. laganna kemur: 31. ágúst.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í samstarfi fjármála- og efnahagsráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og innviðaráðuneytis. Í því eru lagðar til breytingar á þrennum lögum sem fela í sér stuðningsaðgerðir sem ætlað er að mæta vanda heimila og rekstraraðila í Grindavíkurbæ vegna náttúruhamfaranna á Reykjanesi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Vinna starfshóps um atvinnulífið í Grindavík.
    Forsætisráðherra skipaði starfshóp um atvinnulífið í Grindavík 19. febrúar 2024. Í hópnum sátu fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, matvælaráðuneytis og menningar- og viðskiptaráðuneytis. Verkefni hópsins var að kortleggja atvinnulíf, aðgengi að Grindavík og þá valkosti sem í boði eru varðandi áframhaldandi rekstur fyrirtækja í bænum. Hópnum var gert að taka saman upplýsingar fyrir ráðherranefnd um samræmingu mála og í framhaldinu leggja fram tillögur fyrir ríkisstjórn.
    Starfshópurinn aflaði gagna og fundaði með fulltrúum ólíkra fyrirtækja í Grindavík, atvinnuteymi Grindavíkur og fulltrúum nokkurra félaga, samtaka og stofnana, m.a. opinberra eftirlitsstofnana.
    Út frá fundum með rekstraraðilum í Grindavík og niðurstöðum viðhorfskönnunar á meðal þeirra taldi starfshópurinn að álykta mætti að fyrirtæki í Grindavík væru í misjafnri stöðu og að róðurinn hefði þyngst hjá fjölmörgum rekstraraðilum á þeim tíma sem starfshópurinn var að störfum. Framan af höfðu margir væntingar um að fyrirtæki þeirra gætu starfað áfram í Grindavík en fækkað hefur í hópi þeirra að undanförnu. Væntingar þeirra sem telja sig þurfa að flytja starfsemi fyrirtækis frá Grindavík eða sjá ekki fram á rekstrargrundvöll á næstu árum voru að ríkið byðist til að kaupa atvinnuhúsnæði rétt eins og íbúðarhúsnæði.
    Til að undirbyggja ákvarðanatöku um stuðning við atvinnulífið í Grindavík leitaði starfshópurinn í mars til þriggja ráðgjafarfyrirtækja um tilboð í gerð líkans og sviðsmyndagreininga um uppbyggingu atvinnulífs í bænum. Að útboðsferli loknu var samið við Deloitte um verkið. Deloitte skilaði skýrsludrögum 22. apríl og kynnti þau á fundi ráðherranefndar um samræmingu mála 24. apríl. Skýrslan var birt opinberlega á vef Stjórnarráðsins 17. maí.
    Sama dag kynnti ríkisstjórnin tillögur um frekari stuðning við heimili og fyrirtæki í Grindavík. Þær tillögur sem greint var frá voru áform um að gefa rekstraraðilum kost á stuðningslánum með ríkisábyrgð auk þess sem lögum um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ yrði breytt á þann veg að skilyrði yrðu rýmkuð og gildistími lengdur (viðspyrnustyrkir). Þá var upplýst að ríkisstjórnin myndi leggja til að gildistími laga um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ yrði framlengdur til næstu áramóta. Loks var greint frá áformum um framhald á tímabundnum stuðningi til greiðslu launa vegna náttúruhamfaranna til loka ágústmánaðar nk. og áformum um stofnun sérstaks afurðasjóðs til að tryggja hráefni og afurðir fyrirtækja í Grindavík gegn óbeinu tjóni af völdum náttúruvár.
    Frumvarpið fjallar um þrjár af framangreindum tillögum, þ.e. breytingar á ákvæðum laga um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, framhald á gildistíma laga um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ sem og framlenging á því tímabili sem lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ er ætlað að ná til.

2.2. Nánar um úrræðin sem frumvarpið nær til.
    Lög um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 15/2024, voru samþykkt á Alþingi í lok febrúar 2024 og tóku gildi 1. mars sl. Markmið þeirra er að stuðla að því að rekstraraðilar sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi, varðveitt viðskiptasambönd og hafið starfsemi á ný með stuttum fyrirvara. Á grundvelli laganna gefst rekstraraðilum sem hafa orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli, samanborið við sama almanaksmánuð árið áður, kostur á að sækja um beina styrki úr ríkissjóði. Hámark styrkfjárhæðar er margfeldi 600 þúsund kr., fjölda stöðugilda (að hámarki tíu) og tekjufallshlutfalls viðkomandi almanaksmánaðar, en greiddur styrkur verður þó aldrei hærri en rekstrarkostnaður í viðkomandi mánuði. Gildistími úrræðisins er frá upphafi jarðhræringa í nóvember 2023 og út júní 2024. Hámarksstyrkur á mánuði er 6 millj. kr.
    Lög um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 94/2023, voru samþykkt á Alþingi í desember 2023. Markmið þeirra er að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Skilyrði húsnæðisstuðningsins eru að umsækjandi og heimilismenn hafi verið með lögheimili eða tímabundið aðsetur í Grindavík 10. nóvember 2023 en verið gert að yfirgefa heimili sitt og að umsækjandi sé aðili að leigusamningi sem skráður hefur verið í leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Lögin náðu upphaflega til húsnæðiskostnaðar sem féll til vegna leigu á húsnæði til 29. febrúar 2024 en með lögum nr. 5/2024 var sá tími framlengdur til 31. ágúst 2024. Þá var frestur til þess að sækja um stuðning framlengdur til 30. september 2024.
    Ríkisstjórnin hefur samþykkt, sem hluta af stuðningsaðgerðum við íbúa Grindavíkur, að leggja til að úrræðið verði framlengt til áramóta til samræmis við heimildir Grindvíkinga til þess að óska eftir sölu íbúðarhúsnæðis til Þórkötlu, sbr. lög um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík, nr. 16/2024. Eftir það er gert ráð fyrir að Grindvíkingar á leigumarkaði geti sótt um húsnæðisbætur samkvæmt lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016.
    Lög um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023, voru samþykkt á Alþingi í lok nóvember 2023. Þær breytingar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir á lögunum eru lagðar til í því skyni að framlengja í annað sinn tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ í ljósi þeirrar óvissu sem enn ríkir vegna áframhaldandi jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaga, en stuðningurinn var áður framlengdur með lögum nr. 9/2024 sem samþykkt voru á Alþingi 8. febrúar sl. Nauðsynlegt þykir að framlengja það tímabil sem lögunum er ætlað að ná til þannig að atvinnurekendum og launafólki gefist frekara svigrúm til að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru. Ekki eru uppi áform um að framlengja frekar umrætt tímabil umfram þann tíma sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í fyrsta lagi í sér tillögu um að gildistími laga um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ verði framlengdur út árið 2024. Úrræðið hefði að óbreyttu gilt út júní 2024. Að auki er lagt til að styrkfjárhæðir geti orðið umtalsvert hærri fyrir tímabilið frá júlí til og með desember 2024 en mánuðina þar á undan þar sem lagt er til að mögulegt verði að fá hámarksstyrk í tilviki 50% tekjufalls eða meira. Hækkunin er m.a. hugsuð til að mæta viðbótarrekstrarkostnaði vegna jarðhræringanna og skapa svigrúm til aðlögunar að breyttum aðstæðum. Þá er lagt til að við útreikning á styrkfjárhæð verði heimilt að miða við fjölda stöðugilda við upphaf jarðhræringanna í nóvember í fyrra. Óbreytt er að hámarksstyrkur á hvern rekstraraðila á mánuði getur ekki orðið hærri en 6 millj. kr. Til að hljóta svo háan styrk þarf að vera 50% tekjufall eða meira í viðkomandi almanaksmánuði og tíu stöðugildi. Óbreytt er að styrkur getur þó ekki orðið hærri en rekstrarkostnaður í viðkomandi mánuði.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita sértækan húsnæðisstuðning á grundvelli laga um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 94/2023, til 31. desember 2024, í stað 31. ágúst 2024. Samhliða því verði frestur til þess að sækja um stuðning framlengdur til 31. janúar 2025.
    Loks er lagt til að það tímabil sem lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023, er ætlað að ná til verði lengt til 31. ágúst 2024, en ella hefði tímabilinu lokið 30. júní. Jafnframt er gert ráð fyrir að umsóknarfrestur um stuðning samkvæmt lögunum verði framlengdur til 30. nóvember 2024. Þá er lagt til að komi til úthlutunar arðs hjá atvinnurekanda, sem fengið hefur stuðning til greiðslu launa á grundvelli laganna, á tímabilinu 1. mars 2024 til og með 31. ágúst 2025 beri hlutaðeigandi atvinnurekanda að endurgreiða Vinnumálastofnun þann stuðning sem hann hefur fengið á grundvelli laganna áður en til úthlutunar arðs kemur en gildandi lög miða við arðgreiðslur á tímabilinu 1. mars 2024 til og með 30. júní 2025.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér stuðningsúrræði fyrir rekstraraðila og heimili í Grindavík og þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá.
    Samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er bannað að meginreglu til að veita ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinnar vöru að því leyti sem aðstoðin hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Aðstoð til að bæta tjón af völdum náttúruhamfara eða óvenjulegra atburða samrýmist þó framkvæmd samningsins, sbr. b-lið 2. mgr. 61. gr. samningsins. Við undirbúning aðgerða til stuðnings íbúum og fyrirtækjum í Grindavíkurbæ, sem lögfestar voru í desember 2023, var haft samráð við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), sem hefur eftirlit með framkvæmd EFTA-ríkjanna á EES-samningnum. Á fundi með ESA kom fram að aðstoð sem afmarkaðist við fyrirtæki innan skilgreinds svæðis sem hefðu orðið fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara væri ekki tilkynningarskyld. Voru því af hálfu ESA ekki gerðar athugasemdir við úrræðin sem samþykkt voru á haustþingi 2023, og að mati ESA er ekki ástæða til að tilkynna um önnur sambærileg úrræði.

5. Samráð.
    Áform um lagasetninguna og drög að frumvarpi voru ekki kynnt í samráðsgátt stjórnvalda þar sem brýnt þótti að hraða framlagningu frumvarpsins. Áformin voru hins vegar kynnt á blaðamannafundi ráðherra 17. maí sl. og í fréttatilkynningu sem birt var á vef Stjórnarráðsins sama dag.
    Dagana 28. og 29. maí funduðu fulltrúar Grindavíkurbæjar og atvinnurekenda með stjórnvöldum þar sem tillögurnar voru ræddar. Á fundunum komu fram viðbrögð og ábendingar um úrbætur á framkomnum tillögum sem m.a. fólust í tillögum um nýtt úrræði sem fælist í beinum styrkjum úr ríkissjóði til að mæta kostnaði við leigu á atvinnuhúsnæði. Ekki voru gerðar athugasemdir við áform um framlengingu á sértækum húsnæðisstuðningi og tímabundnum stuðningi til greiðslu launa. Í tilefni af framkomnum ábendingum um þörf fyrir hærri beina styrki til rekstraraðila var bætt við frumvarpið ákvæði sem heimilar að við ákvörðun um tímabundinn rekstarastuðning verði ekki sjálfkrafa tekið mið af fjölda stöðugilda í viðkomandi almanaksmánuði á árinu 2024 heldur verði heimilt að miða fjöldann við stöðugildin eins og þau voru við upphaf jarðhræringanna í nóvember 2023.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Áhrif á heimili og fyrirtæki í Grindavík.
    Frumvarpinu er ætlað að styðja bæði einstaklinga og rekstraraðila í Grindavík. Framhald á gildistíma úrræðisins sem felst í stuðningi við launagreiðslur gagnast bæði fyrirtækjum og einstaklingum við að aðlagast aðstæðum út sumarið. Framhald á gildistíma úrræðisins sem felst í húsnæðisstuðningi út árið 2024 kemur til móts við aðstæður þeirra sem ekki hafa náð að festa sér varanlegt húsnæði utan Grindavíkur. Framhald og hækkanir á beinum styrkjum til rekstraraðila eru til þess fallnar að aðstoða einkum lítil og meðalstór fyrirtæki við að standa undir föstum rekstrarkostnaði út þetta ár og aðlaga sig að breyttum aðstæðum.

6.2 Áhrif á stjórnsýslu.
    Talið er að áhrifin af frumvarpinu á stjórnsýslu verði óveruleg. Gert er ráð fyrir að sömu stofnanir og áður sinnir framkvæmd úrræðanna og að þau nýti sambærilegt umsóknarviðmót og verið hefur. Framkvæmd rekstrarstuðningsins hefur verið í höndum Skattsins og eru ákvarðanir hans kæranlegar til yfirskattanefndar. Framkvæmd sértæks húsnæðisstuðnings hefur verið verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og framkvæmd tímabundins stuðnings til greiðslu launa hjá Vinnumálastofnun.

6.3. Áhrif á ríkissjóð.
6.3.1 Rekstrarstuðningur.
    Hinn 23. maí höfðu 27 fyrirtæki sótt um rekstrarstuðning fyrir fyrirtæki í Grindavík í 89 umsóknum og nam greiddur styrkur alls 142 millj. kr. Það úrræði gildir út júní og hægt er að sækja um stuðninginn út september. Samkvæmt viðhorfskönnun hafa mörg fyrirtæki sem eiga tilkall til styrksins ekki enn sótt um en hyggjast gera það og enn önnur vissu ekki um tilvist hans. Því er líklegt að kostnaðurinn aukist áður en yfir lýkur. Við framlagningu frumvarps um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ var gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna hans gæti numið allt að 1,6 milljörðum kr.
    Kostnaður ríkissjóðs vegna þess framhalds á úrræðinu sem kynnt er í frumvarpi þessu getur numið 160 millj. kr. á mánuði. Gildi stuðningurinn í sex mánuði gæti heildarkostnaður ríkissjóðs vegna framhalds úrræðisins því numið allt að 960 millj. kr. Hlutfall fyrirtækja í Grindavík sem gætu átt rétt á stuðningi hækkar úr nærri þriðjungi í helming frá fyrra úrræði vegna rýmri viðmiða um tekjufall og vegna þess að miðað er við fjölda stöðugilda í nóvember 2023 í stað stöðugilda í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar.

6.3.2 Sértækur húsnæðisstuðningur.
    Í marsmánuði nam heildarstuðningur sértæks húsnæðisstuðnings rúmum 204 millj. kr. sem runnu til 836 heimila og vegna apríl nam stuðningurinn 216 millj. kr. Í eftirfarandi töflu má sjá dreifinguna í mars eftir fjölda heimila og meðalleigufjárhæð og meðalstuðning miðað við fjölda í heimili.

Fjöldi í heimili Fjöldi heimila Leigufjárhæð á mánuði, meðaltal Meðaltal stuðnings
1 138 200.311 156.608
2 223 251.375 205.892
3 175 276.418 231.888
4 180 306.475 261.110
5 91 319.300 276.934
6 20 329.769 287.702
7 7 374.429 324.643
8 2 355.000 319.500
Samtals: 836

    Fjárheimildir sértæks húsnæðisstuðnings nema 2,1 milljarði kr. á árinu 2024. Þegar hafa um 730 millj. kr. verið greiddar vegna tímabilsins janúar – apríl en greiðslur hafa aukist með hverjum mánuði. Gera má ráð fyrir að greiða þurfi a.m.k. 200 millj. kr. á mánuði næstu mánuði að öðru óbreyttu. Verði úrræðið framlengt til áramóta mun því þurfa 250 millj. kr. viðbótarframlag í fjárheimildir ársins til þessa að standa straum af greiðslum til Grindvíkinga.

6.3.3. Tímabundinn stuðningur til greiðslu launa.
    Í því frumvarpi sem hér um ræðir er ekki gert ráð fyrir breytingum hvað varðar þá einstaklinga sem lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ er ætlað að taka til og er því enn gert ráð fyrir að lögin komi til með að ná til 1.500–2.000 einstaklinga. Mat á áhrifum frumvarpsins á útgjöld ríkissjóðs byggist því m.a. á fyrirliggjandi mati á áhrifum laganna á útgjöld ríkissjóðs sem og upplýsingum frá Vinnumálastofnun um greiðslur á grundvelli laganna fram til þessa frá gildistöku þeirra. Í ljósi þess að í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að lögin nái til enn lengra tímabils en áætlað hefur verið, eða til loka ágústmánaðar 2024, má gera ráð fyrir auknum útgjöldum ríkissjóðs sem nema um 500–1.000 millj. kr. á mánuði, eða samtals um 1–2 milljarða kr.
    Ekki er gert ráð fyrir að kostnaður Vinnumálastofnunar í tengslum við framkvæmd laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ komi til með að aukast við þá breytingu sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir, verði það samþykkt óbreytt.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni eru lagðar til tvenns konar breytingar. Annars vegar er lagt til að gildistími rekstrarstuðningsúrræðisins verði framlengdur út árið 2024 en hann hefði að óbreyttu gilt út júní 2024. Hins vegar er lagt til að lágmarkstekjufallsviðmið til að geta notið stuðnings vegna tímabilsins júlí – desember 2024 verði 20% í stað 40% á fyrra tímabili. Breyting á vísun í c-lið leiðir af b-lið greinarinnar.

Um 2. gr.

    Í greininni er lögð til sú efnisbreyting á úrræðinu um tímabundinn stuðning til rekstraraðila að heimilt verði vegna tímabilsins frá og með júlí 2024 til og með desember sama ár að miða útreikning á styrkfjárhæð við þann fjölda stöðugilda sem var hjá rekstraraðilanum við upphaf jarðhræringanna í nóvember 2023. Óbreytt er þó að hámarksviðmið fyrir fjölda stöðugilda verður tíu.
    Þá er lögð til sú breyting að vegna sama tímabils skuli reikna rekstraraðila hámarksstyrk þá mánuði sem tekjufall er 50% eða meira samanborið við sama almanaksmánuð árið á undan.

Um 3. gr.

    Til samræmis við breyttan gildistíma úrræðisins er lagt til að heimilt verði að sækja um tímabundinn rekstrarstuðning vegna almanaksmánaðar frá júlí til og með desember 2024 til Skattsins út mars árið 2025.

Um 4. gr.

    Til samræmis við breyttan gildistíma úrræðisins er lagt til að áhrifin af útgreiðslu arðs, kaupum á eigin hlutabréfum eða öðrum ráðstöfunum til eigenda verði þau að endurgreiða beri stuðninginn komi til þessara ráðstafana fyrir 1. janúar 2026. Á þetta við vegna tímabilsins frá 1. júlí 2024 og til loka desember sama ár.

Um 5. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á 4. mgr. 10. gr. laga um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 94/2023, sbr. 1. gr. laga nr. 5/2024. Þar kemur fram að umsóknir um húsnæðisstuðning samkvæmt lögunum þurfi að berast í síðasta lagi 30. september 2024. Er lagt til í samræmi við 6. gr. frumvarpsins að sá frestur verði framlengdur til 31. janúar 2025.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um breytingu á 4. mgr. 15. gr. laga um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 94/2023, sbr. 4. gr. laga nr. 5/2024. Þar er kveðið á um að heimilt sé að greiða sérstakan húsnæðisstuðning samkvæmt lögunum vegna húsnæðiskostnaðar sem falli til vegna leigu húsnæðis á tímabilinu 10. nóvember 2023 til og með 31. ágúst 2024. Í greininni er lagt til að þetta tímabil verði framlengt þannig að í stað 31. ágúst 2024 komi 31. desember 2024.

Um 7. gr.

    Í 1. gr. laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ er kveðið á um að lögin gildi um tímabundinn stuðning til greiðslu launa starfsfólks á almennum vinnumarkaði, sem vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ geti ekki gegnt störfum sínum þar sem starfsstöð þess sé staðsett í sveitarfélaginu, á tímabilinu frá og með 11. nóvember 2023 til og með 30. júní 2024. Jafnframt er kveðið á um að lögin gildi um stuðning við starfsfólk vegna launataps geti það af sömu ástæðu ekki gegnt störfum sínum á sama tímabili og fái ekki greidd laun frá atvinnurekanda þrátt fyrir að ráðningarsamband sé fyrir hendi. Þá er kveðið á um að lögin gildi um stuðning við sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna launataps geti þeir af sömu ástæðu ekki gegnt störfum sínum á sama tímabili.
    Hér er lagt til að það tímabil sem lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ er ætlað að ná til verði lengt til 31. ágúst 2024. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að vernda, yfir lengra tímabil en gildandi lög ná til, afkomu þeirra einstaklinga sem vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ geta ekki gegnt störfum sínum þar sem starfsstöðvar viðkomandi eru í sveitarfélaginu, sem og að veita atvinnurekendum og launafólki á svæðinu frekara svigrúm til að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru.

Um 8. gr.

    Í 3. mgr. 9. gr. laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ er kveðið á um að umsóknir um stuðning samkvæmt lögunum skuli berast Vinnumálastofnun í síðasta lagi 30. september 2024. Í ljósi þess að frumvarp þetta gerir ráð fyrir að það tímabil sem lögunum er ætlað að ná til verði lengt til 31. ágúst 2024, sbr. 7. gr. frumvarpsins, er hér lagt til að umsóknir um stuðning samkvæmt lögunum skuli berast Vinnumálastofnun í síðasta lagi 30. nóvember 2024.

Um 9. gr.

    Í 3. mgr. 12. gr. laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ er kveðið á um að komi til úthlutunar arðs hjá atvinnurekanda sem fengið hefur stuðning til greiðslu launa á grundvelli laganna, á tímabilinu 1. mars 2024 til og með 30. júní 2025, beri hlutaðeigandi atvinnurekanda að endurgreiða Vinnumálastofnun þann stuðning sem hann hafi fengið á grundvelli laganna áður en til úthlutunar arðs komi. Í ljósi þess að gert er ráð fyrir að það tímabil sem lögunum er ætlað að ná til verði lengt til 31. ágúst 2024, sbr. 7. gr. frumvarpsins, er hér lagt til að framangreint tímabil í tengslum við úthlutun arðs hjá atvinnurekanda, sem fengið hefur stuðning til greiðslu launa á grundvelli laganna, verði jafnframt lengt til 31. ágúst 2025.

Um 10. gr.

    Greinin fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.