Ferill 920. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1778  —  920. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Með frumvarpi þessu er ráðherra heimilað að ráðstafa eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., að hluta eða öllu leyti, með almennu útboði. 3. minni hluti er fylgjandi því að ríkið selji hluti sína í Íslandsbanka en leggur áherslu á að það sé gert á grundvelli gagnsæis, trausts og með almannahagsmuni í fyrirrúmi. 3. minni hluti leggur einnig áherslu á að andvirði sölunnar verði ráðstafað að fullu til niðurgreiðslu skulda eða arðbærra fjárfestinga en verði ekki varið í áframhaldandi hallarekstur ríkissjóðs. Þannig gefur fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem kveður á um að hallarekstur ríkisins verði viðvarandi til ársins 2028, ekki þá mynd að tekjur ríkissjóðs standi undir útgjöldum á þessu kjörtímabili.
    Þriðji minni hluti greiddi atkvæði með því að frumvarpið yrði ekki tekið úr nefnd í núverandi mynd enda telur hann verulega ágalla vera á því sem þarf að leysa úr, þá fyrst og fremst verði frumvarpið að tryggja það að trúverðugleiki og traust ríki um sölu hluta ríkisins í bankanum. Eftir síðustu sölumeðferð eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka er ríkisstjórnin rúin trausti þegar kemur að sölu ríkiseigna. Viðbrögð hennar voru að tilkynna að Bankasýsla ríkisins, sem sá um fyrri sölu, yrði lögð niður. Annars konar söluferli, sem tryggir traust, trúverðugleika, hlutlægni og gagnsæi, hefur þó ekki verið komið á fót. Telur 3. minni hluti að áform um að færa sölumeðferð í staðinn alfarið undir fjármála- og efnahagsráðherra vinni ekki að því að koma á slíku trausti á ný.
    Meðal þess sem 3. minni hluti telur einnig ábótavant er að nefndin bregðist ekki við ítarlegum athugasemdum úr umsögn Seðlabanka Íslands. Má þar nefna að Seðlabankinn benti á að með frumvarpinu féllu úr gildi lög nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, og þar af leiðandi ákvæði um skyldur og hlutverk Bankasýslu ríkisins í tengslum við sölumeðferð fjármálafyrirtækja. Seðlabankinn telur að fyrir vikið þurfi að skýra betur hlutverk og ábyrgð ráðherra við framkvæmd útboðs, sem og hlutverk og ábyrgð aðila sem ætlað er að annast utanumhald um tilboðsbækur og skipulagningu og yfirumsjón útboðs. Í nefndaráliti meiri hluta er ekki talin ástæða til að bregðast sérstaklega við þessum athugasemdum. Í umsögn Seðlabankans segir einnig að kanna þurfi hvort ákvæði 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins um tilkynningu Fjármálaeftirlits Seðlabankans á skortstöðu samrýmist ákvæðum reglugerðar ESB nr. 236/2012, sbr. lög nr. 55/2017, um skortsölu og skuldatryggingar. Meiri hlutinn fullyrðir að ekkert gefi til kynna að upplýsingaskylda Seðlabankans sé í ósamræmi við reglugerðina og lögin en rökstyður ekki þá niðurstöðu. 3. minni hluti telur athugasemdir Seðlabankans réttmætar og að nákvæmari könnun þurfi að fara fram áður en frumvarpið verður að lögum.
    Líkt og að framan greinir verða lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum felld úr gildi með samþykkt frumvarpsins, þ.m.t. ákvæði 3. gr. laganna, sem kveður á um meginreglur við sölumeðferð. Í ákvæðinu segir að þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar skuli „áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni“. Í 2. málsl. ákvæðisins segir að með hagkvæmni sé átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Í stað þessa ákvæðis er í 3. gr. frumvarpsins ákvæði sem segir að við ráðstöfun eignarhlutar skuli „horft til gagnsæis, hagkvæmni, hlutlægni og jafnræðis í skilningi laga um opinber fjármál“. Annars vegar felst efnisleg breyting í því að orðalaginu „áhersla lögð á“ er breytt í „skal horft til“. Hins vegar er hvergi í ákvæði 45. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, þar sem fjallað er um meginreglur við kaup, sölu og leigu eigna, vísað til þess hvað felist í hugtakinu hagkvæmni. Með samþykkt frumvarpsins er því horfið frá skyldu stjórnvalda til að leita hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Um þetta segir í áliti meiri hluta nefndarinnar: „Loks verður sala á eignum ríkisins ætíð að grundvallast á hagkvæmni og má ganga út frá því að með útboði þar sem fylgt er fyrrgreindum meginreglum verði því markmiði náð.“ 3. minni hluti telur ótækt að hvergi í frumvarpinu, greinargerð með frumvarpinu eða nefndaráliti meiri hluta sé lögð áhersla á að hæsta verð eða markaðsverð sé fengið fyrir hluti ríkisins í Íslandsbanka.
    Að þessu virtu telur 3. minni hluti rétt að frumvarpinu verði vísað aftur til nefndar þar sem bætt verði úr þeim annmörkum sem að framan greinir. Er það nauðsynlegt til að tryggja að traust og sátt ríki um frekari sölu ríkisins á eignarhlutum þess í bankanum.

Alþingi, 3. júní 2024.

Guðbrandur Einarsson.