Ferill 1134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1785  —  1134. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um áhrif fyrirhugaðs afnáms persónuafsláttar til lífeyrisþega sem eru búsettir erlendis.

Frá Oddnýju G. Harðardóttur.


     1.      Hversu margir lífeyrisþegar sem eru búsettir erlendis fá lífeyristekjur frá Íslandi og í hvaða ríkjum eru þeir búsettir, sundurliðað eftir fjölda lífeyrisþega og búsetulöndum?
     2.      Hversu margir þeirra eru með meiri hluta tekna sinna frá Íslandi og hversu margir þeirra eru með 75% eða hærra hlutfall tekna sinna frá Íslandi?
     3.      Hversu margir þeirra sem eru með meiri hluta tekna sinna frá Íslandi sóttu um að vera skattlagðir hér á landi árið 2023 líkt og innlendir aðilar og fá þar með persónuafslátt?
     4.      Hvaða tvísköttunarsamningar sem Ísland hefur gert heimila eingöngu heimilisfestarríki skattlagningarrétt á lífeyri?
     5.      Við hvaða ríki hefur Ísland gert tvísköttunarsamninga þar sem kveðið er á um að einungis megi skattleggja lífeyrisþega/lífeyristekjur í upprunaríki?
     6.      Við hvaða ríki hefur Ísland gert tvísköttunarsamninga þar sem kveðið er á um að hvoru ríkinu um sig sé heimilt að skattleggja lífeyristekjur?
     7.      Í hvaða ríkjum sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamning við er veitt skattfrjáls lágmarksfjárhæð til þeirra sem eru búsettir í ríkinu?
     8.      Hver er kostnaður ríkissjóðs á ári af persónuafslætti til lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis og fá lífeyristekjur frá Íslandi?
     9.      Hvernig er áformað að umsóknarferli lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis, til þess að vera skattlagðir eins og innlendir aðilar og fá þannig persónuafslátt, fari fram?


Skriflegt svar óskast.