Ferill 928. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1792  —  928. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016 (samfélagsþjónusta og reynslulausn).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá dómsmálaráðuneyti og Fangelsismálastofnun. Nefndinni bárust tvær umsagnir um málið sem eru aðgengilegar undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu er lagt til að framlengd verði tímabundin ákvæði um samfélagsþjónustu sem fullnustuúrræði. Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða IV og V í lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, sem lúta að reynslulausn og heimild til fullnustu með samfélagsþjónustu, verði framlengd til 1. júlí 2027.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Árið 2021 voru lagðar til tímabundnar breytingar á lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, varðandi samfélagsþjónustu sem fullnustuúrræði. Var Fangelsismálastofnun þá heimilað að fullnusta allt að 24 mánaða óskilorðsbundið fangelsi með samfélagsþjónustu, mæltu almannahagsmunir ekki gegn því. Einnig var kveðið á um að það sama ætti við ef um refsingu samkvæmt fleiri en einum dómi væri að ræða þannig að samanlögð refsing gæti verið allt að 24 mánuðir. Var með því brugðist við tillögum um úrbætur sem fram komu í skýrslu starfshóps dómsmálaráðherra um aðgerðir sem ættu að stytta boðunarlista til afplánunar refsinga.
    Í umsögn Afstöðu, félags fanga, um fyrirliggjandi frumvarp kemur fram að félagið telji málið jákvætt og að úrræðið hafi reynst vel. Jafnframt er þó áréttað mikilvægi þess að farið verði í heildarendurskoðun enda þurfi að huga að mörgum fleiri þáttum til að bæta ástandið í málaflokknum.
    Meiri hlutinn telur brýnt að farið verði í fyrirhugaða heildarendurskoðun fullnustukerfisins þar sem verði m.a. tekin afstaða til fyrirkomulags og umfangs samfélagsþjónustu. Meiri hlutinn tekur undir nauðsyn þess að á meðan sú vinna standi yfir þurfi að framlengja þær heimildir sem frumvarpið kveður á um, m.a. í ljósi þess fjölda sem nú er á boðunarlista Fangelsismálastofnunar. Meiri hlutinn beinir því jafnframt til ráðuneytisins að taka til nánari skoðunar þær ábendingar sem bárust í umsögnum um málið frá Afstöðu, félagi fanga, og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sem varða málaflokkinn og breytingar á lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, en þó ekki efni fyrirliggjandi frumvarps.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að málið nái fram að ganga og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 4. júní 2024.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir,
frsm.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Jódís Skúladóttir. Líneik Anna Sævarsdóttir.