Ferill 880. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1796  —  880. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Hagsmunasamtökum heimilanna, Landssamtökum lífeyrissjóða, Gildi lífeyrissjóði, Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins.
    Nefndinni bárust sex umsagnir og minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti sem eru aðgengileg á síðu málsins á vef Alþingis.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Annars vegar er lagt til að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta hluta eignasafn síns í ákveðnum óskráðum fjármálagerningum útgefnum af félögum sem hafa það að meginstarfsemi að leigja út íbúðarhúsnæði til einstaklinga. Hins vegar er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilað að eiga stærri hlut en 20% í hverju leigufélagi sem hefur þá meginstarfsemi að leigja út íbúðarhúsnæði til langs tíma til einstaklinga. Þetta er þó með því skilyrði að hlutur hvers lífeyrissjóðs í slíku félagi megi ekki vera stærri en 50%.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Í þeim umsögnum sem nefndinni bárust kom fram að frumvarpinu væri fagnað og var lýst yfir stuðningi við að það yrði að lögum. Markmið frumvarpsins er að auðvelda lífeyrissjóðum að koma að fjárfestingum í leigufélögum. Í sameiginlegri umsögn Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sagði að aukið framboð fjölbreyttara búsetukosta væri til þess fallið að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og draga raunverulega úr kostnaði heimila án þess að opinber stuðningur þyrfti að koma til.
    Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða var minnt á að mikilvægt væri að hefja vinnu sem fyrst við að yfirfara með heildstæðum hætti fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Nefndin tekur undir þetta og bendir á að vorið 2023 var skipaður starfshópur um grænbók um lífeyriskerfið sem skilar drögum að henni síðar á árinu 2024.
    Í umsögn ÖBÍ var lögð áhersla á samfélagslega ábyrgð lífeyrissjóða með virkan eignarhluta í félögum sem leigja íbúðarhúsnæði til einstaklinga í langtímaleigu. Lögðu samtökin til að ráðherra kvæði á um slíkt í reglugerð sem og um algilda hönnun og aðgengi. Nefndin vísar til minnisblaðs ráðuneytisins þar sem fram kom að samfélagsleg ábyrgð hefur undanfarin ár verið til umræðu innan lífeyriskerfisins. Jafnframt nefndi ráðuneytið fyrirhugaða innleiðingu á svokallaðri CSRD-tilskipun, sem innleiðir sjálfbærni við reikningsskil ársreikninga félaga og kann að leiða til breytinga á ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, m.a. varðandi upplýsingagjöf stjórnar sjóða um umhverfis- og samfélagsmál.
    Loks lagði Gildi – lífeyrissjóður til orðalagsbreytingu á 1. gr. frumvarpsins í umsögn sinni til áréttingar því að um væri að ræða viðbótarheimild til fjárfestingar en ekki takmörkun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða. Nefndin tekur undir með ráðuneytinu að orðalag frumvarpsins kveði skýrt á um að það hlutfall heildareigna lífeyrissjóðs, sem frumvarpið mælir fyrir um, sé ætlað að koma til viðbótar við heimild lífeyrissjóðs skv. 1. máls. 3. mgr. 36. gr. b.

Breytingartillögur.
    Í umsögn Gildis – lífeyrissjóðs kom jafnframt fram tillaga um orðalagsbreytingu á 2. gr. frumvarpsins. Bent var á að svo virtist sem farist hefði fyrir að tiltaka í ákvæðinu að fjárfesting lífeyrissjóðs í félögum þar sem meginstarfsemin er langtímaleiga íbúðarhúsnæðis til einstaklinga kunni að vera óbein í gegnum hluti eða hlutdeildarskírteini sjóða um sameiginlega fjárfestingu, til samræmis við 1. gr. frumvarpsins. Að höfðu samráði við ráðuneytið fellst nefndin á tillöguna og leggur til breytingu þess efnis.
    Nefndin leggur jafnframt til tvær orðalagsbreytingar sem ekki er ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „verðbréfamarkað“ í 1. málsl. 1. gr. kemur: markað.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      Í stað orðsins „hlut“ í 1. málsl. kemur: hluta.
                  b.      Við 1. málsl. bætist: eða í hlutum eða hlutdeildarskírteinum sjóða um sameiginlega fjárfestingu, sem fjárfesta eingöngu í hlutabréfum og skuldabréfum útgefnum af slíkum félögum.
                  c.      Við 2. málsl. bætist: eða sjóði um sameiginlega fjárfestingu.

    Diljá Mist Einarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 4. júní 2024.

Teitur Björn Einarsson,
form.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
frsm.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Diljá Mist Einarsdóttir. Elín Íris Fanndal. Guðbrandur Einarsson.
Jóhann Friðrik Friðriksson. Oddný G. Harðardóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.