Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1851  —  477. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við alvarlegum fjárskorti, manneklu og húsnæðisvanda Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands (HTÍ)?
    Í eftirfarandi töflu má sjá fjárframlög ríkisins síðastliðin fimm ár.
Heyrnar og talmeinastöð 2019 2020 2021 2022 2023
Rekstrargjöld -628 -576 -591 -541 -586
Fjárlög 178 182 180 188 208
Fjárheimild 186 187 306 148 315
Aðrar tekjur 400 311 401 324 314
Fjármagnstekjur/gjöld 0 -6 5 -2
Afkoma ársins -42 -84 121 -71 43
Heimild: Ríkisreikningur (Samandreginn rekstur ríkisaðila) og 2023 drög að ársreikningi.

    Fjárframlög hvers árs koma fram í töflunni undir fjárheimild. Hærri framlög árin 2021 og 2023 skýrast að mestu af einskiptis framlögum í fjáraukalögum sem eru tilkomin vegna rekstravanda stofnunarinnar. Í fjáraukalögum árin 2021 og 2023 voru millifærð alls 213 m.kr. einskiptis framlög til stofnunarinnar sem leystu vanda hennar að hluta. Framlög á fjáraukalögum fyrir árið 2021 námu 113 m.kr. og 100 m.kr. árið 2023.
    Heilbrigðisráðuneytið hefur því eins og sjá má styrkt stofnunina árlega af safnliðum og varasjóðum. Árin 2020–2024 hefur stofnunin fengið aðhaldskröfur sem nema alls um 14 m.kr. Möguleikar til frekari hagræðingar og skýrari afmörkunar starfseminnar eru jafnframt til skoðunar. Ráðuneytið hefur einnig haft til skoðunar ýmsar hugmyndir um breytingar á rekstri stofnunarinnar undanfarin tvö ár, þ.m.t. sameiningu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
    Hvað varðar húsnæði fyrir stofnunina hefur FSRE, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir, leitað að lausn frá árinu 2019, bæði í eignasafni ríkisins og á almennum markaði, og stendur sú leit enn yfir. Skoðað hefur verið að koma stofnuninni fyrir innan einnar af þremur heilsugæslum sem stefnt er að því að leita að nýju húsnæði fyrir á höfuðborgarsvæðinu og að í millitíðinni verði stofnunin tímabundið hýst í húsnæði í eignasafni ríkisins. Það sama má segja um starfsstöð stofnunarinnar á Akureyri sem hefur haft húsnæði með heilsugæslustöð HSN. Eftir flutning heilsugæsluþjónustu HSN í nýtt húsnæði er unnið að því að leysa húsnæðismál heyrnarþjónustu þar m.a. með það að sjónarmiði að hún rúmist með heilsugæsluþjónustu til framtíðar.
    Hvað mönnun varðar hefur ráðuneytið skoðað ýmsa möguleika og m.a. beitt sér fyrir auknu framboði menntunar í heyrnartengdum fræðum, sjá svar við 6. lið fyrirspurnarinnar.

     2.      Hvernig má auka sértekjur stofnunarinnar?
    Sértekjur koma fram í töflu í 1. lið fyrirspurnarinnar undir aðrar tekjur. Innan ráðuneytisins er til skoðunar hvort tilefni sé til að breyta lögum um stofnunina þannig að hlutverk hennar sé afmarkað með skýrari hætti og möguleikar á öflun sértekna auknir, en hlutverk stofnunarinnar er skilgreint með víðum hætti í lögum um Heyrnar- og talmeinastöð, nr. 42/2007. Lögin tilgreina fyrir hvaða þjónustu HTÍ er heimilt að innheimta gjöld en skv. 6. gr. laganna er það fyrir:
          a.      viðgerðir á hjálpartækjum,
          b.      sérfræðilæknisþjónustu og rannsóknir,
          c.      greiningu á máltruflun, komu vegna endurmats hjá talmeinafræðingi og aðrar talrannsóknir,
          d.      heyrnarannsókn á vinnustað sem nemur kostnaði.
    Auka mætti sértekjur stofnunarinnar með því að uppfæra núverandi gjaldskrá hvað varðar viðgerðargjald og veitta þjónustu sérfræðilæknis og vegna rannsókna.
    Í lögunum er ekki heimild til gjaldtöku fyrir þjónustu sem vegur mun þyngra í starfsemi HTÍ og unnin er m.a. af heyrnarfræðingum og heyrnartæknum. Vegna þeirra takmarka sem lögin setja hefur stofnunin ekki sett gjaldskrá fyrir slíka þjónustu. Um stofnunina gilda ekki reglur um komugjöld til stofnana í heilbrigðiskerfinu.
    Með breytingu á lögum væri hægt að auka sértekjur stofnunarinnar með setningu heimildar fyrir ráðherra til að setja stofnuninni gjaldskrá í samræmi við veitta þjónustu, svo sem fyrir heyrnamælingar, aðstoð vegna heyrnartækja, stillingar heyrnartækja, ráðgjöf við viðskiptavini og mælingar utan stofnunar og komugjöld.

     3.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við löngum biðlistum eftir þjónustu HTÍ?
    Vegna átaks í barnamælingum 0–3 ára styttist biðlistinn úr fimm mánuðum í þrjá mánuði frá nóvember sl. fram í miðjan mars á þessu ári og á sama tíma fór biðtími eftir vali á tækjum úr fimm mánuðum í um fjóra mánuði. Þá hefur ráðuneytið einnig lagt áherslu á, í samstarfi við HTÍ og ráðuneyti sem fara með menntamál og viðkomandi skóla, að auka framboð menntunar í heyrnartengdum fræðum, sjá nánar svar við 6. lið fyrirspurnarinnar.
    Vinna að nýrri framtíðarsýn í heyrnarþjónustu er hafin í samvinnu ráðuneytis og HTÍ. Varðandi talmeinaþjónustu mun starfshópur skila af sér til ráðherra á næstu vikum. Auk þess er greiningarvinna yfirstandandi á vegum ráðuneytisins sem miðar að styttingu biðar eftir talmeinaþjónustu.

     4.      Hver er meðalbiðtími eftir þjónustu HTÍ? Svar óskast sundurliðað eftir tegund þjónustu, biðtíma og fjölda á biðlista.
    Hinn 15. mars sl. voru 2028 einstaklingar skráðir á biðlista eftir heyrnaþjónustu. Biðtíminn er þó mismunandi eftir tegundum þjónustu. Móttöku á talmeinasviði var hætt haustið 2022.
Þjónusta Fjöldi Biðtími í mánuðum
Barnamælingar 0–3 ára 134 3
Barnamælingar >4 ára 75 3
Fyrstu komu mæling, fullorðnir 380 7
Mæling+heyrnartæki, fullorðnir 1.155 24
Aðstoð vegna heyrnartækja 177 1–2
Val á tæki (mæl.+ráðgj. lokið) 107 4
     5.      Hver er fjöldi þjónustuþega HTÍ á árunum 2013–2023? Svar óskast sundurliðað eftir árum, tegund þjónustu og aldri þjónustuþega.
    Rúmlega 6.700 einstaklingar eru með heyrnartæki frá HTÍ og þarfnast reglulegrar þjónustu vegna eftirlits heyrnarástands, notkunar og viðhalds tækja sinna og endurnýjunar tækja á u.þ.b. fimm ára fresti, eða um 1.200 manns árlega, auk nýrra skjólstæðinga sem bætast við. Á síðustu 10 árum hafa verið afgreidd 24.976 heyrnartæki til 7.821 einstaklinga. Samkvæmt upplýsingum frá HTÍ leituðu alls 28.876 einstaklingar á öllum aldri til stofnunarinnar á árunum 2013–2023. Í eftirfarandi töflu má sjá fjölda samskipta HTÍ á árunum 2013–2023 sundurliðað eftir aldri þjónustuþega:
2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019 2020 2021 2023
0–1árs 4.622 4.010 3.927 4.665 4.531 4.274 4.476 5.426 4.429 4.283
1–4 ára 2.617 2.698 2.316 2.743 3.611 2.867 2.312 2.788 2.769 2.146
5–9 ára 1.397 1.344 1.154 1.242 1.687 1.643 1.331 1.664 1.211 1.114
10–14 ára 631 592 488 501 586 568 547 600 494 607
15–19 ára 215 406 330 308 319 369 230 306 262 234
20–24 ára 119 130 158 153 120 120 151 279 155 146
25–29 ára 82 164 150 127 164 154 124 210 191 117
30–34 ára 159 152 166 141 149 170 174 251 168 168
35–39 ára 288 220 158 232 297 629 207 290 280 225
40–44 ára 256 265 265 323 289 301 283 294 352 307
45–49 ára 298 460 358 424 387 402 315 395 398 322
50–54 ára 395 508 547 648 589 584 557 584 428 391
55–59 ára 590 697 880 754 928 849 849 923 713 753
60–64 ára 824 836 1.074 1.154 1.337 1.352 1.131 1.184 934 927
65–69 ára 782 1.103 1.344 1.367 1.738 1.881 1.444 1.744 1.255 1.382
70–74 ára 964 1.313 1.697 1.731 1.719 2.354 1.762 1.772 1.714 1.629
75–79 ára 1.092 1.337 1.567 1.578 1.620 2.132 1.569 2.027 1.949 1.714
80–84 ára 1.471 1.798 1.912 1.646 1.876 1.838 1.331 1.603 1.254 1.316
85+ 1.876 2.567 2.717 2.772 2.224 2.955 2.244 2.561 1.882 1.837
Samtals 18.678 20.600 21.208 22.509 24.171 25.442 21.037 24.901 20.838 19.618

     6.      Kemur til álita af hálfu ráðherra að beita sér fyrir auknu framboði menntunar í heyrnartengdum fræðum hér á landi?
    Já, ráðherra hefur þegar beitt sér fyrir auknu framboði menntunar í heyrnartengdum fræðum hér á landi í nokkurn tíma. Ráðherra fól landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu að skoða möguleika á að koma á fót námi í heyrnarfræði hér á landi. Landsráð fundaði með haghöfum og við skoðun á möguleikum á námi í heyrnarfræði hér á landi var einnig litið til þess að koma á fót styttra námi á framhaldsskólastigi í heyrnartækni.
    Heyrnarfræðingar urðu löggilt heilbrigðisstétt á Íslandi árið 2018 en heyrnartæknar eru ekki löggilt heilbrigðisstétt hér á landi. Landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu benti m.a. á að vel hefur reynst að vera með möguleika á styttra námi í ýmsum heilbrigðisgreinum sem létta á sérfræðingum með lengra nám að baki. Heyrnartæknar eru hugsaðir sem slíkir, þ.e. markmiðið er að heyrnartæknar létti á störfum heyrnarfræðinga og veiti þannig heyrnarfræðingum aukin tækifæri til að vinna í auknum mæli að verkefnum sem krefjast þeirrar menntunar sem þeir hafa aflað sér.
    Landsráð skilaði tillögum sínum í tveimur minnisblöðum til ráðherra, því fyrra í mars 2023 og því síðara í júní sama ár. Í heilbrigðisráðuneytinu er unnið með þær tillögur sem þar voru lagðar fram.
    Hvað varðar heyrnarfræði þá eru skilyrði fyrir starfsleyfi þriggja ára BS/BA-próf í heyrnarfræði frá viðurkenndum háskóla, auk þess að hafa starfað undir leiðsögn heyrnarfræðings í þrjá mánuði. Námið hefur ekki verið kennt hér á landi en tímamótasamningur var undirritaður í febrúar 2024 milli Örebro háskóla í Svíþjóð, Háskólans á Akureyri og HTÍ um námsbraut í heyrnarfræði en í honum er kveðið á um samvinnu milli þessara tveggja skóla og verklegs náms hjá HTÍ. Fyrirhugað er að námið hefjist haustið 2024.
    Þá vinnur heilbrigðisráðuneytið nú að því að greina skort á heyrnarfræðingum og hyggst í framhaldi gefa út skýrslu um skort á heyrnarfræðingum á Íslandi og úrræði til að mæta þeirri þörf sem er til staðar. Í kjölfarið mun heilbrigðisráðherra beina því til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að bregðast við aðstæðum með auglýsingu ívilnana við endurgreiðslu námslána til þeirra sem ljúka BS/BA-námi í heyrnarfræði, sbr. 27. gr. laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020.
    Hvað varðar nám í heyrnartækni þá vinnur heilbrigðisráðuneytið að því í samstarfi við Fjölbrautaskólann í Ármúla og HTÍ að hefja námi í heyrnartækni í samstarfi við Syddansk Erhvervsskole í Óðinsvéum í Danmörku, þannig að hluti námsins færi fram þar og hluti hér á landi en ein forsenda þess er að HTÍ sinni verklegri kennslu.

     7.      Hvernig er fyrirkomulagi eftirlits með heyrnarþjónustu einkaaðila háttað?
    Embætti landlæknis hefur eftirlit með starfsemi þeirra sem hafa fengið rekstrarleyfi til sölu heyrnartækja. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um landlækni og lýðheilsu skal landlæknir hafa reglubundið eftirlit með því að heilbrigðisþjónusta sem veitt er hér á landi uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma.
    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglugerðar um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð, nr. 969/2015, ber rekstrarleyfishöfum að vísa þeim sem greinast með heyrnarskerðingu á betra eyra ≥70 dB til frekari endurhæfingar hjá Heyrnar- og talmeinastöð.

     8.      Telur ráðherra rétt að skoða kosti þess að skima heyrn barna á skólaaldri með skipulegum hætti?
    Heilsugæslan skimaði heyrn hjá öllum sex ára grunnskólabörnum en því var hætt eftir skólaárið 2011–2012. Ástæðan var niðurstaða úr greiningu sem heilsugæslan gerði á árangri skimunarinnar. Í þeim tilfellum sem börn skimuðust hjá heilsugæslunni var ávallt um þekkt vandamál að ræða, þ.e. oftast börn með þekkta eyrnabólgu sem voru í ferli í heilbrigðiskerfinu. Því var tekin sú ákvörðun að breyta skimuninni úr því að skima öll skólabörn yfir í að heyrnarmæla eftir þörf og vera vakandi fyrir einkennum eins og málþroska, óróleika í bekk, áhyggjum kennara og slíku og vísa þá í heyrnarmælingu á HTÍ, þar sem væru góðar aðstæður til heyrnarmælinga.
    Ráðherra telur það vel koma til greina að skoða hvort slík skimun gæti skilað meiri árangri nú en áður. Mikilvægt er að slíkt sé gert í góðri samvinnu HTÍ og heilsugæslunnar og með tilliti til svigrúms og forgangsröðunar verkefna. Breyttar aðstæður og framfarir í tækni gætu hafa opnað nýjar leiðir til að takast á við áskoranir sem áður voru til staðar í heyrnarskimun barna á skólaaldri.