Ferill 741. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1866  —  741. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Valgerði Árnadóttur um umboðsmann náttúrunnar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra beita sér fyrir stofnun embættis umboðsmanns náttúrunnar eins og náttúruverndarsamtök á Íslandi hafa óskað eftir?

    Náttúruvernd hefur á undanförnum árum fengið aukið vægi í almennri umræðu. Ýmislegt hefur orðið til þess, m.a. fjölbreytt umræða um landnýtingu, svo sem vegna virkjunaráforma, landbúnaðar og skógræktar. Þá hefur athygli í auknum mæli beinst að nýtingu lands í þágu ferðamennsku í kjölfar þess að ferðamannastraumur til landsins hefur vaxið mikið. Einnig hefur umfjöllun um loftslagsmál og málefni líffræðilegrar fjölbreytni aukið þekkingu almennings á náttúruvernd.
    Þessi umræða hefur leitt til aukinnar vitundar samfélagsins um mikilvægi þess að vernda náttúruna og nýta hana á sjálfbæran máta, enda er samhengið ljóst á milli þessara þátta. Vernda þarf náttúruna og ganga um hana á sjálfbæran máta til að tryggja að þau gæði sem náttúran veitir, allt frá fæðu til hreins lofts og vatns, séu til staðar fyrir núlifandi og komandi kynslóðir.
    Spurt er hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir stofnun nýrrar stofnunar um náttúruvernd svo að náttúran fái sterkara umboð í samfélaginu. Stutta svarið við þeirri fyrirspurn er nei, þar sem ráðherra telur að náttúran hafi nú þegar sterkt umboð í samfélaginu.
    Að baki því svari liggja nokkrar ástæður. Fyrst ber að nefna að ráðherra er þeirrar skoðunar að málaflokki náttúruverndar sé ekki betur borgið undir hatti margra stofnana, heldur sé mun árangursríkara fyrir náttúruvernd að einfalda til muna stofnanakerfið. Það leiðir til betri þjónustu og eflir einnig þekkingar- og lærdómssamfélagið, sem aftur leiðir til öflugri náttúruverndar í landinu. Með þessi markmið í huga hefur ráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp um sameiningu þeirra stofnana ráðuneytisins sem hafa umsjón með náttúruvernd.
    Einnig er rétt að ítreka aukna vitund samfélagsins um mikilvægi náttúruverndar- og umhverfismála. Þátttaka almennings og annarra hagsmunaaðila í ákvörðunum og undirbúningi stefnumiða er snúa að umhverfismálum er til að mynda tryggð í ýmsum lögum, m.a. í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, skipulagslögum, nr. 123/2010, og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Einnig má nefna ýmis ákvæði í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, svo sem ákvæði um friðlýsingar og friðun sem tryggja vernd þeirra svæða sem falla undir þau ákvæði. Í því samhengi má nefna að á undanförnum árum hafa fjölmörg svæði verið friðlýst og nú er um fjórðungur landsins friðlýstur. Einnig má nefna ákvæði um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja, en samkvæmt ákvæðinu ber að forðast að raska slíkum náttúrufyrirbærum og er aðilum sem hyggja á framkvæmdir sem geta haft áhrif á þau skylt að afla tilskilinna leyfa frá eftirlitsaðilum. Þá er hægt að skjóta málum er varða náttúruvernd til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt lögum nr. 130/2011, um úrskurðarnefndina, sem voru sett vegna fullgildingar Árósasamningsins um þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.
    Ráðherra telur enn fremur mikilvægt að minnast á frumkvæði nærsamfélaga hvað varðar landshlutabundna náttúruvernd. Góður árangur í náttúruvernd næst ekki nema sá hluti þjóðarinnar sem býr á eða í grennd við náttúruverndarsvæði, eða svæði sem tillaga er um að vernda, sé virkur þátttakandi og að hlutir séu gerðir með þeim hætti að þessir aðilar séu í forystu eða sáttir við slíkar fyrirætlanir. Í frumvarpinu um sameiningu stofnana sem nefnt var að framan er lögð áhersla á aðkomu nærsamfélagsins að náttúruvernd. Þetta hefur leitt til þess að nú er að vakna aukinn áhugi í ýmsum landshlutum fyrir stofnun þjóðgarða um náttúruperlur. Áhuginn hefur kviknað vegna þess að nærsamfélagið finnur að því er treyst fyrir að huga að náttúruvernd.
    Auðvitað er ætíð hægt að gera betur, en ráðherra er þeirrar skoðunar að sú umgjörð náttúruverndarmála á Íslandi sem að framan greinir geri það að verkum að umboð náttúrunnar sé sterkt og sé rétta leiðin að því að ná betri árangri í náttúruvernd.