Ferill 920. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1874  —  920. mál.

2. umræða.


Framhaldsnefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin tók málið til umfjöllunar að nýju og fékk á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Arctica Finance og Ásgeir Brynjar Torfason. Nefndinni barst minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, dags. 10. júní, þar sem lagðar eru til frekari breytingar á 4. gr. frumvarpsins, að höfðu samráði við fjármálaráðgjafa.
    Í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins segir að söluþóknun til hvers söluaðila skuli nema 0,75% af verðmæti þeirra hluta sem viðkomandi söluaðili selur. Í minnisblaði ráðuneytisins er lögð til sú breyting að söluþóknun til söluaðila skuli nema 0,75% af heildarverðmæti seldra hluta. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að í markaðs- og sölustarfi gagnvart fjárfestum er mikilvægt að samvinna söluaðila sé samstillt og skilvirk. Fyrra orðalag gæti dregið úr því að hvatar og hagsmunir hvers og eins söluaðila séu nægilega samofnir hagsmunum seljanda og/eða söluferlinu í heild. Með framangreindri breytingu er seljanda og ráðgjöfum á hans vegum auðveldað að skipuleggja markaðs- og sölustarf, þannig að heildarþóknun verði skipt milli söluaðila samkvæmt ákvörðun seljanda í samræmi við skipulag útboðsins. Þannig megi betur stuðla að því að markaðs- og sölustarf söluaðila verði samstillt og skilvirkt.
    Í 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins kemur fram að söluaðilar skuli skipta tilboðsbókum sínum í tilboðsbók A og tilboðsbók B. Í minnisblaði ráðuneytisins er lagt til að orðalagi málsliðarins verði breytt á þá leið að markaðssettu útboði skuli skipt í tilboðsbók A og tilboðsbók B. Í minnisblaði ráðuneytisins segir að fyrra orðalag mætti skilja sem svo að átt sé við tæknilega útfærslu á sölu hvers og eins söluaðila fremur en skipulag útboðsins í heild sinni. Þá kemur fram að í framkvæmd yrði það ekki fýsilegt að hver og einn söluaðili væri með tvær tilboðsbækur á sinni könnu. Framangreint orðalag endurspegli betur skiptingu útboðsins í tvær tilboðsbækur á heildstæðum grunni.
    Fram kemur í 1. málsl. a-liðar 3. mgr. 4. gr. að tilboðsbók A skuli taka við sölutilboðum á föstu verði, sem skuli nema meðalverði hlutabréfa í Íslandsbanka hf. síðustu 15 daga fyrir birtingu útboðslýsingar, með að hámarki 5% fráviki til lækkunar. Í minnisblaði ráðuneytisins er lagt til að jafnframt verði unnt að miða við síðasta dagslokagengi þegar kemur að tilboðsbók A. Í minnisblaði ráðuneytisins segir að þegar mikið flökt sé á hlutabréfaverði, hvort sem það er í lækkunar- eða hækkunarferli, sé ekki unnt að útiloka að fimmtán daga meðalverð að teknu tilliti til 5% fráviks sé hærra en dagslokagengi daginn fyrir birtingu útboðslýsingar. Slík takmörkun á sveigjanleika seljanda til að setja verð með fráviki frá dagslokagengi fyrir útboð gæti leitt til lakari þátttöku í útboðinu. Því þyki rétt að auka sveigjanleikann á þann hátt að seljandi geti valið milli þess að miða við 15 daga meðalverð eða síðasta dagslokagengi, áður en útboðslýsing er birt.
    Meiri hlutinn fór yfir tillögur ráðuneytisins og rökstuðning og telur þær til bóta. Fela þær í sér lagfæringar á atriðum í tengslum við framkvæmd útboðsins. Ekki sé um að ræða veigamiklar efnislegar breytingar sem víkja frá því fyrirkomulagi sem lagt er til með frumvarpinu. Meiri hlutinn gerir því viðeigandi breytingar í samræmi við umrætt minnisblað og leggur til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 4. gr.
     a.      2. málsl. 2. mgr. orðist svo: Söluþóknun til söluaðila skal nema 0,75% af heildarverðmæti seldra hluta.
     b.      1. málsl. 3. mgr. orðist svo: Markaðssettu útboði skal skipt í tilboðsbók A og tilboðsbók B.
     c.      Á eftir orðunum „fyrir birtingu útboðslýsingar“ í 1. málsl. a-liðar 3. mgr. komi: eða síðasta dagslokagengi.

Alþingi, 12. júní 2024.

Teitur Björn Einarsson,
form.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
frsm.
Diljá Mist Einarsdóttir.
Jóhann Friðrik Friðriksson. Steinunn Þóra Árnadóttir.