Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1880  —  205. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, lögum um íslensk landshöfuðlén og lögum um Fjarskiptastofu (fjarskiptanet, skráning o.fl.).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Neytendastofu, Fjarskiptastofu og embætti ríkislögreglustjóra.
    Nefndinni bárust átta umsagnir auk tveggja minnisblaða frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Gögnin eru aðgengileg undir málinu á vef Alþingis. Málið var áður lagt fram á 153. löggjafarþingi ( 947. mál) og hafði nefndin einnig hliðsjón af umsögnum sem bárust þá.
    Um efni frumvarpsins vísast til greinargerðar með því.

Umfjöllun.
Opinn heildsöluaðgangur að fjarskiptanetum sem notið hafa ríkisaðstoðar (1. gr.).
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að í lögum um fjarskipti, nr. 70/2022, verði kveðið á um að veita skuli opinn heildsöluaðgang að almennum fjarskiptanetum sem byggð eru upp með ríkisaðstoð í þeim tilgangi að auka aðgengi notenda að háhraðaþjónustu. Þá hefur ákvæðið að geyma nánari útfærslu á þeirri skyldu, svo og á úrskurðarvaldi Fjarskiptastofu vegna ágreinings um aðgang, forsendum sem skulu búa að baki verði og heimild Fjarskiptastofu til að veita undanþágu frá ákvæðinu að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
    Í 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. er m.a. kveðið á um heimild Fjarskiptastofu til að veita undanþágu frá kröfu um að heildsöluaðgangur skuli byggjast á verðsamanburði standi fyrirhuguð nýting á fjarskiptaneti ekki undir heildsöluverði og undanþágan sé í samræmi við reglur um ríkisaðstoð. Við umfjöllun um málið á 153. löggjafarþingi gerði Samband íslenskra sveitarfélaga athugasemdir við framangreinda undanþáguheimild. Lutu athugasemdirnar m.a. að því að fjarskiptafélög hafi talið að ekki væru markaðslegar forsendur til þess að byggja upp ljósleiðarakerfi þar sem sveitarfélög hafa byggt upp fjarskiptainnviði. Kerfin hafi verið byggð upp ekki eingöngu með ríkisstyrkjum heldur að stærstum hluta á ábyrgð og kostnað eigenda, sveitarfélaga og íbúa sveitarfélaga með greiðslu á tengigjöldum. Í verulega mörgum tilvikum væru líkur til þess að fyrirhuguð nýting á viðkomandi svæði í dreifðari byggðum stæði ekki undir heildsöluverði. Ákvarðanir Fjarskiptastofu um veitingu undanþágu gætu gert rekstur innviðanna óarðbæran og valdið því að sveitarfélög hefðu ekki annan kost en að selja þessa innviði frá sér á hrakvirði, til sömu fjarskiptafélaga og fengið hafi aðgang að innviðunum á afslætti vegna sömu ákvarðana Fjarskiptastofu.
    Í minnisblaði ráðuneytisins, sem nefndinni barst við umfjöllun málsins á 153. löggjafarþingi, er að finna rökstuðning fyrir því mati ráðuneytisins að ekki verði talin hætta á því að Fjarskiptastofa muni beita undanþágunni á þann veg að hún grafi undan rekstrargrundvelli fjarskiptainnviða eða uppbyggingu þeirra til framtíðar. Þá hefur við endurflutning frumvarpsins á yfirstandandi löggjafarþingi verið bætt við greinargerðina ítarlegri umfjöllun um þau sjónarmið sem liggja skulu til grundvallar við ákvörðun um beitingu undanþágunnar. Vísar meiri hlutinn til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Brottfall 2. og 4. gr.
    Í II. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um íslensk landshöfuðlén, nr. 54/2021. Í 2. gr. er lagt til að lögfest verði ákvæði um lágmarksskráningarupplýsingar við skráningu léna. Í umsögn ISNIC kemur fram það sjónarmið að ekki ætti að festa í sessi kröfu um lágmarksskráningarupplýsingar. Ýmist væri um að ræða upplýsingar sem væru augljóslega nauðsynlegar svo að unnt væri að skrá lén, eða upplýsingar sem væru óþarfar eða gætu orðið óþarfar samhliða tækniþróun.
    Þá er í 4. gr. kveðið á um skyldu skráningarstofu til þess að veita lögreglu og héraðssaksóknara, netöryggissveitinni og Persónuvernd upplýsingar um rétthafa léns og tæknilegan tengilið þess. Í umsögnum sem bárust nefndinni kemur fram að í ákvæðinu séu gerðar ríkari kröfur til skráningarstofa hér á landi en í öðrum ríkjum innan EES.
    Fyrir liggur að ný netöryggistilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/2555 (NIS2-tilskipunin) öðlist gildi innan aðildarríkja Evrópusambandsins í lok október 2024. Tilskipunin er sem stendur til skoðunar hjá EES- og EFTA-ríkjunum og er unnið að upptöku hennar í EES-samninginn. Gert er ráð fyrir að hún verði innleidd hér á landi í síðasta lagi á árinu 2025. Þau markmið sem liggja til grundvallar 2. og 4. gr. frumvarpsins og þeim breytingartillögum sem fram koma í minnisblaði ráðuneytisins eru um margt áþekk þeim sem búa að baki NIS2. Meiri hlutinn telur eðlilegt að þær efnisreglur fái skoðun í samhengi við NIS2-tilskipunina þegar kemur að innleiðingu hennar í íslensk lög. Í því ljósi leggur meiri hlutinn til að 2. og 4. gr. frumvarpsins falli brott.
    Þá leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á fyrirsögn efnisgreinar 1. gr.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Fyrirsögn efnisgreinar 1. gr. orðist svo: Opinn heildsöluaðgangur að fjarskiptanetum sem eru byggð upp með ríkisaðstoð.
     2.      2. og 4. gr. falli brott.

    Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins og ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 11. júní 2024.

Bjarni Jónsson,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Vilhjálmur Árnason. Halla Signý Kristjánsdóttir. Ingibjörg Isaksen.
Orri Páll Jóhannsson.