Ferill 312. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1882  —  312. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Lenyu Rún Taha Karim
um fjórða orkupakkann.


     1.      Hvar er fjórði orkupakkinn staddur í innleiðingarferli á vegum sameiginlegu EES-nefndarinnar?
    Evrópusambandið hóf vinnu við endurskoðun orkulöggjafarinnar árið 2016 og var eitt af helstu stefnumálum þáverandi framkvæmdastjórnar undir heitinu „Clean energy for all Europeans“ eða „Hrein orka fyrir alla Evrópubúa“. Markmiðið var að vinna að framangreindum markmiðum orkustefnunnar með því að stuðla betur að orkuskiptum og til að uppfylla skyldur Parísarsamningsins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sem fyrr er leiðarljós regluverksins að bæta hag neytenda og umhverfisins, efla samkeppni og stuðla að bættu orkuöryggi.
    Hreinorkulöggjöfin sem inniheldur endurskoðun á helstu þáttum í orkulöggjöf ESB var samþykkt af Evrópuþinginu og ráðherraráði Evrópusambandsins í lok maí 2019. Um er að ræða átta Evrópugerðir (fjórar reglugerðir og fjórar tilskipanir) og hafa þær verið birtar í Stjórnartíðindum ESB. Þær gerðir sem um ræðir eru tilskipanir og reglugerðir um endurnýjanlega orku, raforkumarkaðsmál, orkunýtni og eftirlits- og stjórnunarkerfi. Hreinorkulöggjöfin nær til fleiri atriða en fyrri löggjöf (svokallaður þriðji orkupakki) þar sem hreinorkulöggjöfin nær einnig til gerða um endurnýjanlega orku og orkunýtni. Einnig er sá munur á að gerðir sem varða markað fyrir jarðgas eru ekki hluti hreinorkulöggjafarinnar.
    Reglugerð ESB 2018/1999 snýr að eftirlits- og stjórnkerfi og samræmir orku- og loftslagsáætlanir ríkjanna um hvernig þau muni uppfylla markmið sín til 2030. Reglugerð þessi hefur verið innleidd í landsrétt að þeim hluta gerðarinnar er varðar loftslagsáætlanir.
    Gerðirnar eru til skoðunar og greiningar í vinnuhópi EFTA um orkumál þar sem eiga sæti sérfræðingar EFTA-ríkjanna um EES. Ekki liggur fyrir hvenær þeirri vinnu lýkur. Hluti af þeirri vinnu felur í sér að viðkomandi EFTA-ríki setja fram óskir um undanþágur og/eða aðlaganir vegna sinna séraðstæðna. Í samræmi við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála verður áfram upplýst um og haft samráð við viðkomandi þingnefndir Alþingis um upptöku þessara gerða í EES-samninginn.

     2.      Hyggst ráðherra leggja til að fjórði orkupakkinn verði leiddur í lög á yfirstandandi kjörtímabili? Ef svo er, hefur ráðuneytið hafið undirbúningsvinnu vegna þess?
    Samkvæmt þingmálaskrá verða tvær gerðir úr hreinorkupakkanum leiddar í lög á komandi þingvetri, þ.e. tilskipun nr. 2018/2001 um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum (REDII) og tilskipun nr. 2018/2002 um orkunýtni (EED). Það er með þeim fyrirvara að þær verði teknar upp í EES-samninginn í tæka tíð þar sem þær hafa ekki verið afgreiddar frá vinnuhópi EFTA. Þar sem gerðirnar krefjast lagabreytinga verður upptaka þeirra þegar þar að kemur samþykkt með stjórnskipulegum fyrirvara. Það liggur ekki fyrir hvenær aðrar hreinorkugerðir koma til innleiðingar hér á landi, en það ræðst af því hvenær þær verða teknar upp í EES-samninginn. Undirbúningsvinna stendur yfir í ráðuneytinu og felur í sér rýni og hagsmunamat ásamt greiningu á innleiðingu í landsrétt.

     3.      Ef ekki er í ráði að innleiða fjórða orkupakkann í heild sinni, hefur ráðherra áform um að innleiða einstakar gerðir sem tilheyra fjórða orkupakkanum?
    Hreinorkulöggjöfin verður ekki tekin upp í EES-samninginn í heild sinni þar sem gerðirnar varða ólíka þætti og eru á mismunandi stað í upptökuferli EES-samningsins. Því er líklegt að einstakar gerðir hreinorkulöggjafarinnar verði teknar upp í samninginn og innleiddar hér á landi í sambærilegum skrefum.