Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1888  —  521. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu).

Frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar.


Almennt.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að færa grásleppu inn í gjafakvótakerfið og skerða þar með atvinnufrelsi landsmanna. Aðeins má takmarka atvinnufrelsi ef almannahagsmunir krefjast þess, sbr. 75 gr. stjórnarskrárinnar. Við umfjöllun málsins í nefndinni kom skýrt fram hjá sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar og matvælaráðuneytis að ekkert benti til þess að grásleppa væri ofveidd og að núverandi stjórnun stofnsins næði ekki markmiðum um fiskvernd. Það gefur augaleið að með samþykkt frumvarpsins yrðu lögfest ákvæði sem brytu í bága við stjórnarskrá íslenska lýðveldisins sem þingmenn hafa svarið eið að vernda.

Frumvarpið stuðlar ekki að þeim markmiðum sem liggja því til grundvallar.
    Markmið frumvarpsins var sagt vera að stuðla að:
    a.     verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna Íslands og tryggja þannig trausta atvinnu og byggð í landinu,
    b.     auknum fyrirsjáanleika og hagkvæmari veiðum,
    c.     sjálfbærni veiða og vera hvatning til nýsköpunar þar sem aðilar reyna að fá sem mest verðmæti úr aflahlut sínum,
    d.     að bættri umgengni um auðlindina og minnka óæskilegan meðafla,
    e.     einföldun á stjórnsýslu og eftirliti.
    Við yfirferð málsins kom skýrt fram að frumvarpið næði engu af framangreindum markmiðum heldur stuðlaði í sumum tilfellum að hinu gagnstæða:
    a.     Reynslan af kvótasetningu aflaheimilda á liðnum árum gefur til kynna að það eigi sér stað mjög hröð samþjöppun veiðiheimilda ef frumvarpið verður að lögum. Sömuleiðis fengi stór hluti handhafa grásleppuleyfa ekki nægjanlega mikla úthlutun til þess að hagkvæmt yrði að hefja veiðar. Þær sjávarbyggðir sem standa veikast fara án nokkurs efa verst út úr samþjöppuninni og því er allt tal um að frumvarpið stuðli að traustri byggð hrein öfugmæli. Vissulega eru settar upp varnir í frumvarpinu með það að markmiði að koma í veg fyrir samþjöppun, en það er víst að þær halda jafn vel og þau ákvæði sem nú eru um kvótaþak tengdra aðila í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, eða alls ekki.
    b.     Skýrt kom fram hjá sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar að kvótasetning hefði engin áhrif á fyrirsjáanleika, þ.e. hvenær veiðiráðgjöf yrði tilkynnt, en hún byggist annars vegar á niðurstöðum stofnmats botnfiska að vori og hins vegar að hluta til á stofnmati botnfiska frá árinu áður.
    c.     Það á við um íslenska sjómenn sem og aðra landsmenn að þeir reyna að gera sem best í sinni vinnu og búa til sem mest verðmæti úr því sem þeir fást við. Hins vegar er fyrirsjáanlegt að frumvarpið leiði af sér að fjöldi útgerða fái til sín of litlar aflaheimildir til þess að útgerð borgi sig.
    d.     Meðafli er háður veiðitímabili, fjölda neta sem eru í sjó og algerlega ófyrirsjáanlegum þáttum á borð við fiskgengd annarra fiska á veiðislóðinni og sömuleiðis ætisleit sjávarspendýra og fugla á slóðinni. Mikilvægt er því að tryggja að smábátasjómenn hafi bæði svigrúm til þess að landa meðafla og fénýta hann, auk þess að takmarka fjölda neta í sjó.
    e.     Það gætir greinilega mikils misskilnings hjá frumvarpshöfundum um að kvótasetning leiði bæði til einfaldari stjórnsýslu og eftirlits. Við yfirferð málsins kom skýrt fram að áfram þyrfti að fylgjast með veiðitímabili, m.a. til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur æðarbænda og grásleppukarla. Sama á við um fjölda neta í sjó en hvorki hvalir né selir gera greinarmun á netum eftir því hvort net eru í kvótakerfi eða sóknardagakerfi, eða þá að netin verði greinilegri í fyrrnefnda kerfinu fyrir þorsk og annan meðafla.

Vinnubrögð matvælaráðherra á 153. löggjafarþingi.
    Ámælisvert er við vinnslu frumvarpsins þegar það kom fram á síðasta löggjafarþingi að svo virtist sem matvælaráðuneytið hefði sniðgengið heildarsamtök smábátasjómanna, LS, og ekki svarað rökstuddum athugasemdum þeirra efnislega. Í stað þess hafði ráðuneytið gert málflutning klofningshópa einstaka grásleppuútgerða, sem hafa yfir nokkurri veiðireynslu að ráða, að sínum. Ekki þarf að koma á óvart að nokkur hluti núverandi handhafa grásleppuleyfa sé fylgjandi hlutdeildarsetningu. Eignarhald á varanlegum aflaheimildum getur tryggt mönnum verðmæta söluvöru þegar menn ákveða að hætta útgerð. Eðlilega geta þeir hagsmunir haft mikil áhrif á afstöðu þeirra hvað hlutdeildarsetningu varðar og eru þá tínd saman ýmis rök sem standast ekki nánari skoðun.

Ráðherra kastar boltanum yfir til atvinnuveganefndar.
    Frumvarp sem fjallaði um kvótasetningu grásleppu var til umfjöllunar á síðasta löggjafarþingi. Það frumvarp féll svo niður við þinglok. Þegar Alþingi tók aftur til starfa síðasta haust fór af stað undarleg atburðarás. Skyndilega vildi þáverandi matvælaráðherra ekki leggja fram frumvarpið að nýju, sennilega vegna þess að það þykir ekki vinsælt meðal stuðningsmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Því var leitað til formanns atvinnuveganefndar og útkoman varð sú að meiri hluti nefndarinnar lagði fram nánast óbreytt frumvarp. Vert er að staldra við þegar ráðherrar kjósa að endurflytja ekki eigin frumvörp, heldur fara þess á leit við fastanefndir þingsins að þær leggi málin fram í stað ráðherranna, enda er það mjög einkennilegt.

Segjum nei við kvótasetningu.
    Kvótakerfið hefur ekki stuðlað að aukinni verðmætasköpun, heldur þvert á móti. Þær veiðitölur sem algengar voru fyrir komu kvótakerfisins hafa ekki sést aftur. Þá hefur kvótakerfið lagt í rúst blómlegar byggðir víða um land. Kvótakerfið hefur einnig fært einstaka útgerðarmönnum fúlgur fjár á kostnað almennings og þeir hafa notað nýfengin völd sín til að kalla eftir útvíkkun og vernd gjafakvótakerfisins ár eftir ár. Annar minni hluti vill vinda ofan af þessari þróun og telur fráleitt að kvótasetja fleiri tegundir.

Alþingi, 13. júní 2024.

Inga Sæland.