Ferill 1043. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1893  —  1043. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fund með börnum úr Grindavík.


     1.      Hverjar voru helstu niðurstöður fundar með börnum úr Grindavík sem umboðsmaður barna boðaði til 7. mars sl.?
    Markmið fundar umboðsmanns barna með börnum úr Grindavík var að gefa börnunum tækifæri til að koma upplifun sinni og sjónarmiðum á framfæri vegna þeirra náttúruhamfara sem staðið hafa yfir. Er það í samræmi við 12. gr. barnasáttmálans sem fjallar um virðingu fyrir skoðunum barna. Rúmlega 300 börn mættu á fundinn sem var skipulagður í samvinnu við Grindavíkurbæ en öllum börnum á grunn- og framhaldsskólaaldri var boðið til fundarins.
Á fundinum kom berlega í ljós að áhrif þessara atburða á líf grindvískra barna hafa verið margvísleg og óvissa mikil. Í tillögum barnanna á fundinum komu fram ýmis áhersluatriði, einkum er varðar skóla- og íþróttastarf, tómstundir, húsnæði og stuðning við fjölskyldur. Einnig kom sú ósk skýrt fram að börnunum verði veitt fleiri tækifæri til samveru og að styrkja tengsl sín á milli.
    Umboðsmaður barna sendi ríkisstjórninni bréf 13. mars með helstu áhersluatriðum fundarins.

Skólamál.
    Börnin lögðu áherslu á að fundin verði langtímalausn þar sem öllum börnum úr Grindavík standi til boða að vera saman í safnskóla. Einnig þurfi að tryggja aðgengi að vinnuskóla í sumar. Þá töldu börnin mikilvægt að skipulag næsta skólaárs verði skýrt og fyrirsjáanlegt.

Íþróttastarf, tómstundir og samvera.
    Fram kom að börnunum þykir mikilvægt að geta iðkað íþróttir með sínu íþróttaliði úr Grindavík. Einnig þurfi að tryggja aðgang grindvískra barna að frístundastarfi á sumrin. Einnig komu fram hugmyndir um sérstaka félagsmiðstöð fyrir börn úr Grindavík. Þá var lögð mikil áhersla á aukna samveru og að skipulagðir verði reglulegir viðburðir fyrir börnin.

Húsnæðismál og uppbygging í Grindavík.
    Á fundinum komu fram þungar áhyggjur af framtíð Grindavíkur og létu börnin í ljós eindreginn vilja til að uppbygging eigi sér stað eins fljótt og auðið er. Tryggja þurfi öllum fjölskyldum framtíðarhúsnæði og nauðsynlegan stuðning til að takast á við stöðuna.

Annað.
    Börnin telja mikilvægt að stórfjölskyldum verði gert kleift að vera saman og ljóst er að mörg börn upplifa mikinn söknuð. Einnig lýstu börnin miklum áhuga að fá að heimsækja bæinn. Þá var lögð áhersla á að öllum sem þurfi verði tryggður sálrænn stuðningur. Loks kom fram skýrt ákall um betri upplýsingagjöf til barna og m.a. tillaga um sérstaka íbúafundi fyrir börn og ungmenni.

     2.      Hvaða aðgerðum hefur verið hrint í framkvæmd á grundvelli fundarins og hverjar eru fyrirhugaðar?
    Tekin hefur verið ákvörðun um að hvorki verði skólastarf í Grindavík næsta skólaár né reknir sérstakir safnskólar. Þess í stað munu börn sækja leik- og grunnskóla sem næst sínu heimili. Er þetta í samræmi við tillögur starfshóps um málefni grindvískra barna. Séð verður til þess að börn sem þurfa á sálfélagslegum stuðningi í skóla að halda fái hann áfram. Skólar og kennarar sem verða með börn frá Grindavík munu fá fræðslu og ráðgjöf um áföll barna og einkenni áfallastreitu. Þá býður Grindavíkurbær með stuðningi stjórnvalda upp á sálfélagslegan stuðning fyrir börn og ungmenni frá Grindavík. Um er að ræða námskeið, viðtöl og fjölskylduráðgjöf.
    Í samræmi við þær óskir sem fram komu á fundinum um samveru og viðburði fyrir börn úr Grindavík eru ýmsir viðburðir fyrirhugaðir. Þannig var haldin vorgleði Grindvíkinga í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og fjölskyldutónleikar á Granda í Reykjavík auk fleiri viðburða í tengslum við sjómannadaginn. Einnig eru skipulögð námskeið ætluð grindvískum börnum, m.a. í samstarfi við umboðsmann barna, Listasafn Íslands, skátana og Rauða krossinn á Íslandi. Þá verður starfræktur sérstakur Grindavíkurhópur í vinnuskóla Reykjavíkur.
    Umboðsmaður barna hefur unnið að ítarlegri skýrslu úr tillögum sem komu fram á fundinum og verður sú skýrsla afhent ráðherra 17. júní nk. í Safnahúsinu. Við það tilefni verða einnig til sýnis ýmis gögn frá fundinum.