Ferill 1158. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1895  —  1158. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna banns við leit, rannsóknum og vinnslu kolvetnis í efnahagslögsögunni (bann við olíuleit).

Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eva Sjöfn Helgadóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Lenya Rún Taha Karim og Þórunn Sveinbjarnardóttir.


I. KAFLI
Breyting á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990.
1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hugtakið kolvetni samkvæmt lögum þessum merkir jarðolía, jarðgas eða annars konar kolvetni sem er til staðar í jarðlögum undir hafsbotni frá náttúrunnar hendi og nýtanlegt er í loftkenndu eða fljótandi formi.

2. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Kolvetnisleit er þó óheimil.

3. gr.

    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er þó að taka eða nýta kolvetni af hafsbotni eða úr honum.

II. KAFLI
Breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
4. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    VI. kafli laganna ásamt fyrirsögn fellur brott.

6. gr.

    10. tölul. viðauka II við lögin fellur brott.

III. KAFLI
Breyting á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000.
7. gr.

    13. gr. a laganna fellur brott.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um mannvirki, nr. 160/2010.
8. gr.

    16. tölul. 5. gr. laganna fellur brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004.
9. gr.

    Orðin „nema um sé að ræða efni frá kolvetnisvinnslu eða borunum tengdum henni“ í b-lið 9. tölul. 3. gr. laganna falla brott.

10. gr.

    38. tölul. A-liðar viðauka I við lögin fellur brott.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012.
11. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Í samræmi við ákvörðun Alþingis um bann við olíuleit skal ríkisstjórnin leitast við að taka þátt í samstarfi sem miðar að alþjóðlegu banni við olíuleit og nýrri olíuvinnslu.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013.
12. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra skal eigi síðar en 8. júní 2025 friðlýsa Drekasvæðið gagnvart olíuleit og olíuvinnslu. Jafnframt skal annað verndargildi svæðisins kannað og friðlýsingin eftir atvikum látin endurspegla það.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

14. gr.
Brottfall laga.

    Við gildistöku laga þessara falla eftirfarandi lög úr gildi:
     1.      Lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001.
     2.      Lög um skattlagningu á kolvetnisvinnslu, nr. 109/2011.
     3.      Lög um stofnun hlutafélags um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi, nr. 6/2015.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að leit að jarðefnaeldsneyti verði óheimil á íslensku yfirráðasvæði. Tengt frumvarp var lagt fram á 151. löggjafarþingi (558. mál) og að lokinni umfjöllun í atvinnuveganefnd var því vísað til ríkisstjórnar. Það er nú endurflutt með breytingum sem komu fram í efnislega samhljóða stjórnarfrumvarpi á 152. löggjafarþingi (691. mál) sem ekki náðist að mæla fyrir.

Olíuleit heyrir til fortíðar.
    Ríki heims hafa sammælst um að halda hlýnun jarðar af mannavöldum hið minnsta innan 2° C og helst undir 1,5° C. Á sama tíma ná þau markmið ekki fram í áformum ríkisstjórna heims um vinnslu jarðefnaeldsneytis. Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, Production Gap Report 2023, er áætlað að ef allar hugmyndir sem þegar eru á teikniborðinu um áframhaldandi vinnslu jarðefnaeldsneytis verða að veruleika blasi við offramleiðsla og offjárfesting. Ef allar hugmyndir stærstu framleiðsluríkjanna ná fram að ganga verður framleiðsla jarðefnaeldsneytis árið 2030 um 110% umfram það sem þarf til að ná markmiði Parísarsamkomulagsins um 1,5° C hlýnun og 69% meiri en samræmist markmiði um að halda hlýnun innan 2° C.
    Þessi framtíðarsýn ríkja gengur einfaldlega ekki upp. Til að ná raunverulegum árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum þarf að draga verulega úr þeim áformum sem þegar eru á teikniborðinu og leggja algjörlega til hliðar allar hugmyndir um frekari vinnslu jarðefnaeldsneytis. Með samþykkt þessa frumvarps myndi Ísland skipa sér með skýrum hætti í hóp þeirra ríkja sem líta á vinnslu jarðefnaeldsneytis sem arf fortíðar. Ákvörðun Íslands um bann við olíuleit getur þannig styrkt alþjóðlega baráttu gegn olíuvinnslu og því er mikilvægt að ríkisstjórnin fylgi samþykkt frumvarpsins eftir með því að nota rödd sína á alþjóðavettvangi og taka virkan þátt í samstarfi sem miðar að alþjóðlegu banni við olíuleit og nýrri olíuvinnslu.

Efni frumvarpsins.
    Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er sagt að ríkisstjórnin muni ekki gefa út nein leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands, en nú er orðið ljóst að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra muni ekki fylgja því eftir með því að leggja til að markmiðið sé lögfest. Eins og að framan greinir var frumvarp þess efnis lagt fram á 152. löggjafarþingi. Framlagning slíks frumvarps var aftur boðuð í þingmálaskrá 153. löggjafarþings en það leit aldrei dagsins ljós. Ekki var minnst á slíkt frumvarp í þingmálaskrá yfirstandandi löggjafarþings og fram kemur í svari ráðherra við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns (þskj. 891) að ekki sé þörf á frekari aðgerðum til að framfylgja þessu markmiði stjórnarsáttmálans. Því þarf Alþingi sjálft að taka frumkvæði í málinu þar sem ríkisstjórnina skortir kraft til að hrinda í framkvæmd raunverulegu banni við olíuleit.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt til að á eftir 2. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1990, þar sem skilgreint er hugtakið auðlind, bætist sérstök skilgreining á hugtakinu kolvetni. Þrátt fyrir að skilgreining á hugtakinu kolvetni falli innan skilgreiningar auðlindarhugtaksins er rétt að skilgreina hugtakið sérstaklega enda markmið þessarar lagasetningar að mæla fyrir um bann við leit, rannsóknum og vinnslu kolvetnis. Um er að ræða sömu skilgreiningu á hugtakinu og er að finna í lögum nr. 13/2001 sem lagt er til í frumvarpinu að falli úr gildi.

Um 2. og 3 gr.

    Lagðar eru til breytingar á 2. og 3. gr. laga nr. 73/1990 þannig að mælt verði sérstaklega fyrir um bann við leit, rannsókn eða vinnslu kolvetnis í efnahagslögsögunni.

Um 4.–6. gr.

    Í 4.–6. gr. eru lagðar til breytingar á tilteknum ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, sem varða leyfisveitingu Umhverfisstofnunar.
    Í 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að lögin nái einnig til starfsemi og framkvæmda í efnahagslögsögunni vegna rannsókna og vinnslu kolvetnis. Í 4. gr. frumvarps þessa er lagt til að umræddur málsliður falli brott.
    VI. kafli laganna inniheldur einungis eina grein, 33. gr., sem felur í sér sérákvæði fyrir atvinnurekstur vegna rannsókna og vinnslu kolvetnis. Ákvæðið mælir fyrir um leyfisveitingu Umhverfisstofnunar og málsmeðferð fyrir atvinnurekstur vegna rannsókna og vinnslu kolvetnis. Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að VI. kafli laganna, sbr. 33. gr., falli brott.
    Samkvæmt 10. tölul. viðauka II við lögin gefur Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að 10. tölul. falli brott.

Um 7. gr.

    Lagt er til að 13. gr. a laga um brunavarnir, nr. 75/2000, falli brott en í ákvæðinu er mælt fyrir um að mannvirki innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka, sem eru fyrirhuguð eða tilkomin vegna rannsókna og vinnslu kolvetnis, skuli háð sérstöku öryggismati eftir því sem nánar er mælt fyrir um í ákvæðinu og í reglugerð.

Um 8. gr.

    Í 16. tölul. 5. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010, er tilgreint meðal verkefna Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að annast eldvarnaeftirlit vegna mannvirkja innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka sem eru tilkomin vegna rannsókna og vinnslu vetniskola. Lagt er til að ákvæðið falli brott.

Um 9. og 10. gr.

    Í 9. og 10. gr. eru lagðar til breytingar á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004.
    Í 9. tölul. 3. gr. laganna er hugtakið losun skilgreint. Í b-lið ákvæðisins kemur fram að það teljist ekki losun þegar úrgangsefni eða önnur efni sem beinlínis stafi frá rannsóknum eða nýtingu jarðefna í eða á hafsbotni berist í hafið nema um sé að ræða efni frá kolvetnisvinnslu eða borunum tengdum henni. Lagt er til að þessi vísun í kolvetnisvinnslu verði felld brott.
    Í 38. tölul. A-liðar viðauka I við lögin eru rannsóknir og vinnsla kolvetnis tilgreind sem starfsemi sem geti valdið bráðamengun á hafi eða ströndum vegna eðlis starfseminnar og/eða nálægðar hennar við sjó. Lagt er til að töluliðurinn falli brott.

Um 11. gr.

    Í 11. gr. er lagt til að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lög um loftslagsmál, nr. 70/2012. Þar verði ríkisstjórninni falið að taka þátt í samstarfi sem miðar að alþjóðlegu banni við olíuleit og nýrri olíuvinnslu. Þar mætti t.d. horfa til þess að Ísland efni til svæðisbundins samstarfs um tímabundna friðlýsingu eða friðun norðurskautssvæðisins fyrir olíuvinnslu, taki þátt í alþjóðlegu samstarfi á borð við metnaðarbandalagið BOGA (Beyond Oil and Gas Alliance) sem er undir forystu ríkisstjórna Danmerkur og Kosta Ríka, eða styðji alþjóðasamning um bann við frekari útbreiðslu jarðefnaeldsneytis (Fossil Fuel Non-Proliferation Treaty).

Um 12. gr.

    Lagt er til að með bráðabirgðaákvæði í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, verði ráðherra falið að friðlýsa Drekasvæðið. Með því verði vettvangur olíuleitarævintýris Íslands varanlegur minnisvarði þess að Alþingi hafi tekið formlega afstöðu gegn þeim hugmyndum. Þó að markmið ákvæðisins sé fyrst og fremst að friðlýsa Drekasvæðið gagnvart olíuleit og olíuvinnslu þá er á svæðinu jafnframt að finna fjölbreytt vistkerfi og margslungna náttúru sem verðskuldar friðlýsingu sjálfrar sín vegna. Lagt er til að ráðherra ljúki friðlýsingu fyrir alþjóðlegan dag hafsins 8. júní 2025.

Um 13. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 14. gr.

    Í 14. gr. er lagt til að lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, falli úr gildi. Samhliða er lagt til að lög um skattlagningu á kolvetnisvinnslu, nr. 109/2001, og lög um stofnun hlutafélags um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi, nr. 6/2015, falli úr gildi enda taka þessi lög einungis til starfsemi samkvæmt lögum nr. 13/2001.