Ferill 588. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1901  —  588. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ingibjörgu Isaksen um meðferð ákæruvalds í kynferðisbrotamálum.


    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá embættum ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og dómstólasýslunni.

     1.      Hversu mörg mál sem vörðuðu ætluð kynferðisbrot voru tilkynnt til lögreglu á árunum 2020, 2021 og 2022? Svar óskast sundurliðað eftir þjóðerni og kyni meintra þolenda og gerenda.
    Í töflu 1 má sjá fjölda skráðra kynferðisbrota og fjölda mála á árunum 2020–2022. Miðað er við dagsetningu tilkynningar en athuga ber að brot kann að hafa átt sér stað á öðrum tíma en tilkynnt er.
    Í töflu 2 kemur fram fjöldi einstaklinga með erlent ríkisfang sem grunaðir voru um kynferðisbrot á árunum 2020–2022 eftir kyni.
    Í töflu 3 kemur fram fjöldi einstaklinga með íslenskt ríkisfang sem grunaðir voru um kynferðisbrot á árunum 2020–2022 eftir kyni. Hafa ber í huga að í töflu 1 kemur fram heildarfjöldi brota en í töflum 2 og 3 fjöldi grunaðra einstaklinga. Það er ekki vitað í öllum málum hver hinn grunaði er og því er heildarfjöldi í töflu 1 hærri en samtala fjölda grunaðra í töflum 2 og 3.
    Í töflu 4 kemur fram fjöldi brotaþola fyrir árin 2020–2022 eftir kyni og hvort ríkisfang var erlent. Það athugast að ekki eru aðgengilegar umbeðnar upplýsingar varðandi brotaþola í öllum málum á árunum 2020–2022 vegna þess með hvaða hætti skráning í kerfi lögreglu var framkvæmd.

     Tafla 1. Fjöldi skráðra kynferðisbrota og fjöldi mála 2020–2022.
Ár tilkynnt Fjöldi brota Fjöldi mála
2020 520 398
2021 646 497
2022 622 507


     Tafla 2. Fjöldi einstaklinga með erlent ríkisfang sem grunaðir voru um kynferðisbrot á árunum 2020–2022 eftir kyni.
Ár tilkynnt Karl Kona Upplýsingar vantar
2020 52 6 1
2021 86 5 4
2022 100 2 12


     Tafla 3. Fjöldi einstaklinga með íslenskt ríkisfang sem grunaðir voru um kynferðisbrot á árunum 2020–2022 eftir kyni.
Ár tilkynnt Karl Kona Upplýsingar vantar
2020 276 17 2
2021 303 21 2
2022 312 18 2


     Tafla 4. Fjöldi brotaþola árin 2020–2022 eftir kyni og ríkisfangi.
Ár tilkynnt Karl brotaþ. Kona brotaþ. Uppl. vantar Samtals Þar af ríkisfang erlent Þar af kvk. erlent Þar af kk. erlent Þar af uppl. vantar erlent
2020 31 251 2 284 29 28 1 0
2021 64 376 5 445 49 40 9 0
2022 66 414 13 493 64 49 15 0
         

     2.      Hversu mörgum málum lauk með ákæru og hversu mörg mál voru felld niður? Svar óskast sundurliðað eftir árum og þjóðerni og kyni meintra þolenda og gerenda.
    Í ársskýrslu ríkissaksóknara koma fram upplýsingar um hversu mörg kynferðisbrot voru afgreidd af ákæruvaldinu eftir ári afgreiðslu, sbr. töflu 5. Einnig er þar að finna fjölda niðurfelldra mála. Ekki er haldið utan um tölfræði um ríkisfang eða kyn.

     Tafla 5. Fjöldi kynferðisbrota sem afgreidd voru af ákæruvaldinu á árunum 2020–2022 (heimild: Ársskýrsla ríkissaksóknara).
Ár afgreiðslu Ákærur Fallið frá saksókn Niðurfelld mál Ákærufrestun Alls
2020 130 12 181 2 325
2021 90 8 156 8 262
2022 133 16 160 12 321


     3.      Þegar mál voru felld niður, á hvaða stigi var það gert? Svar óskast sundurliðað eftir árum og þjóðerni og kyni meintra þolenda og gerenda.
                  a.      Hversu mörg mál voru felld niður af handhafa ákæruvalds?
                  b.      Hversu mörgum málum var vísað frá af dómara?
                  c.      Hversu mörg mál voru dregin til baka?

    Svar við a-lið er að finna í töflu 5. Varðandi b-lið var engum málum vísað frá af dómara á árunum 2020, 2021 og 2022, samkvæmt upplýsingum frá dómstólasýslunni.
    Ekki er haldið utan um tölfræði um mál sem eru dregin til baka og því er ekki unnt að svara c-lið.

     4.      Í hve mörgum þessara mála háttaði svo til að engin áþreifanleg sönnunargögn lágu fyrir heldur aðeins framburður kæranda og hins grunaða þar sem orð stóð gegn orði? Svar óskast sundurliðað eftir árum og þjóðerni og kyni meintra þolenda og gerenda.
    Í 145. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er kveðið á um að ákærandi ákveði hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki eftir að hann hefur gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið með tilliti til allra gagna málsins. Meti ákærandi það svo að það sem fram er komið sé ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis fellir hann málið niður. Á það jafnt við áþreifanleg sönnunargögn og framburð kæranda, vitna og hins grunaða. Ekki er haldið utan um tölfræði um hvort áþreifanleg sönnunargögn liggi fyrir eða einungis framburður og því er ekki unnt að svara þeim hluta fyrirspurnarinnar. Í töflu 5 er að finna heildartölu niðurfelldra mála á umbeðnu tímabili.

     5.      Telur ráðherra að hlutverk dómara við mat á sönnunargildi framburða vitna og þolenda sé almennt virkt samkvæmt ákvæðum 115. gr. og 126. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og að ákvæðin séu nægjanlega virk í framkvæmd? Ef svo er ekki, telur ráðherra ástæðu til að styrkja þau með einhverjum hætti?
    Í 115. og 126. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er kveðið á um meginregluna um frjálst sönnunarmat dómara en í henni felst að dómari metur sjálfur hvað er sannað í hverju máli fyrir sig. Það er því á forræði dómara að meta hvaða atriði eru lögð til grundvallar hverju sinni við mat á sönnunargildi framburða vitna og brotaþola. Það er ekkert sem bendir til annars en að umrædd lagaákvæði séu virk í framkvæmd. Þá er bent á að sönnunarmat héraðsdómara sætir endurskoðun Landsréttar.