Ferill 701. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1903  —  701. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur um almannavarnaáætlun á Hengilssvæðinu.


     1.      Er í gildi viðbragðs- eða almannavarnaáætlun ef kvikugangur opnast undir Hengilssvæðinu í Ölfusi?
    Viðbragðskerfi almannavarna byggist meðal annars á sviðsábyrgðarreglunni, en hún felur í sér að sá aðili sem fer venjulega með stjórn tiltekins sviðs samfélagsins, tiltekins svæðis eða umdæmis skuli skipuleggja viðbrögð og koma að stjórn aðgerða þegar hættu ber að höndum. Þá kemur það í hlut staðbundinna stjórnvalda, þ.e. almannavarnanefnda, að undirbúa fyrirbyggjandi ráðstafanir, þ.m.t. viðbragðsáætlanir.
    Í tilefni af fyrirspurninni aflaði dómsmálaráðuneytið upplýsinga frá ríkislögreglustjóra, sem aflaði jafnframt upplýsinga frá lögreglustjóranum á Suðurlandi. Samkvæmt upplýsingum frá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi er ekki til staðar sértæk viðbragðsáætlun vegna þessarar sviðsmyndar en lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur gert viðbragðsáætlun vegna hópslysa, að því leyti sem hún gæti átt við vegna þessarar sviðsmyndar. Lögreglustjórinn á Suðurlandi vinnur nú að því að meta hvort rétt væri að gera viðbragðsáætlun vegna þessarar sviðsmyndar og þá með hvaða hætti.

     2.      Hvernig verður tryggt að vatn berist til höfuðborgarsvæðisins ef kvikumyndun eða eldgos verður nærri Hellisheiðarvirkjun sem sér höfuðborgarsvæðinu fyrir orku og heitu vatni?
    Samkvæmt forsetaúrskurði fer umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið með orkumál og auðlindanýtingu, þ.m.t. öryggi raforkukerfisins og hitaveitur, og málefni tengd afhendingaröryggi orku og heits vatns falla undir ábyrgðarsvið þess ráðuneytis. Samkvæmt framangreindu fellur spurningin undir málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.