Ferill 845. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1904  —  845. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um persónuskilríki.


     1.      Hvert er verklagið þegar einstaklingur getur ekki framvísað persónuskilríkjum að kröfu lögreglu?
    Verklagið hjá lögregluembættunum er þannig að vega og meta verður hvert tilfelli fyrir sig og meta til hvaða aðgerða er gripið og ítrekað að meðalhóf skuli viðhaft í hvívetna við allar ákvarðanir og aðgerðir.
    Sú almenna vinnuregla sem er viðhöfð er að skoða greiðslukort ef viðkomandi er með þau meðferðis og meta hvort það sé látið duga. Gefi einstaklingur upp nafn eða kennitölu er reynt að sannreyna hver viðkomandi er með því að afla upplýsinga úr þeim upplýsingakerfum sem lögreglan hefur aðgang að, svo sem þjóðskrá, lögreglukerfinu (LÖKE) og ökuskírteinaskrá. Takist ekki að sannreyna á vettvangi hver viðkomandi er eru farnar aðrar leiðir, t.d. að fylgja viðkomandi að heimili sínu til að fá að sjá skilríki, séu þau til. Komi til þess að viðkomandi geti ekki eða vilji ekki framvísa persónuskilríkjum þarf að meta hvort framkvæma skuli handtöku og þá hugsanlega vista viðkomandi í fangageymslu þar til staðfesting fæst.

     2.      Telur ráðherra að það hafi áhrif á heimild lögreglu til að krefjast þess að einstaklingur sýni skilríki að ekki séu í boði gjaldfrjáls skilríki af hálfu hins opinbera?
    Í 5. mgr. 15. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, kemur fram að lögreglu sé heimilt að krefjast þess að einstaklingur sýni skilríki til sönnunar nafni sínu, kennitölu og heimilisfangi. Komi upp sú aðstaða að einstaklingur eigi ekki skilríki yrði, með þeim hætti sem greinir að framan, leitast við að koma til móts við viðkomandi í þeim tilgangi að fá sönnun þess hver viðkomandi er.

     3.      Hvaða samráð var haft við ráðuneytið þegar ákveðið var að hefja gjaldtöku fyrir afgreiðslu nafnskírteina 1. janúar 2023, sem fyrir þann tíma voru einu gjaldfrjálsu persónuskilríkin? Hvaða samráð var haft í aðdraganda þess að gjaldið var hækkað í 9.200 kr. 1. janúar 2024?
    Ekki var haft samráð við ráðuneytið þegar gjald fyrir nafnskírteini var hækkað 1. janúar 2023.     
    Ný lög um nafnskírteini, nr. 55/2023, leystu eldri lög nr. 25/1965, um útgáfu og notkun nafnskírteina, af hólmi og tóku gildi 1. desember 2023. Í 2. mgr. 2. gr. laganna er mælt fyrir um að Þjóðskrá Íslands taki gjald fyrir útgáfu nafnskírteina í samræmi við ákvæði gjaldskrár stofnunarinnar. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga um nafnskírteini kemur fram að við það sé miðað að gjaldtakan standi undir kostnaði við útgáfuna.
    Þjóðskrá Íslands annaðist kostnaðarmat fyrir útgáfu nýrra nafnskírteina á grundvelli laga um nafnskírteini, svo sem varðandi útreikning og ákvörðun gjalds fyrir nafnskírteini. Innviðaráðherra samþykkti gjaldskrá Þjóðskrár Íslands í samræmi við 5. mgr. 5. gr. laga nr. 70/2018, um Þjóðskrá Íslands.