Ferill 1034. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1908  —  1034. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Maríu Rut Kristinsdóttur um vegakerfi og vegaframkvæmdir á Vesturlandi.


     1.      Hvernig sér ráðherra fyrir sér að hugað verði að vegakerfi á Vesturlandi til framtíðar í ljósi þess að þjóðvegir 54, 56 og 60 eru að stórum hluta að verða ónýtir og umferðarþungi á svæðinu hefur aukist mikið undanfarin ár?
    Unnið hefur verið markvisst að uppbyggingu vegakerfisins á Vesturlandi á undanförnum árum. Lokið var við að byggja nýjan veg á þjóðvegi 54, Snæfellsnesvegi, um Fróðárheiði árið 2021, unnið er að uppbyggingu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit og á árunum 2020–2023 var unnið að uppbyggingu Snæfellsnesvegar um Skógarströnd ásamt byggingu nýrra brúa í stað einbreiðra brúa.
    Á undanförnum árum hefur verið lagt bundið slitlag á ýmsa malarvegi á Vesturlandi. Nokkur dæmi um slíka vegi eru Laxárdalsvegur, Svínadalsvegur, Melasveitarvegur, Skorradalsvegur, Mófellsstaðavegur, Hvítársíðuvegur, Álftaneshreppsvegur, Grímarsstaðavegur, Langavatnsvegur, Uxahryggjavegur og Þverárhlíðarvegur. Á næstu fimm árum er fyrirhugað að leggja bundið slitlag á eftirfarandi malarvegi á Vesturlandi: Heydalsveg, Laxárdalsveg, Dragaveg, Hraunhreppsveg, Klofningsveg og Steinadalsveg. Alls hafa verið lagðir um 55 km af bundnu slitlagi á malarvegi á Vesturlandi (frá Hvalfirði að Gilsfirði) frá árinu 2018.
    Uppbyggingunni er þó hvergi nærri lokið. Rúmlega 50 km af Snæfellsnesvegi eru enn með malarslitlagi og er áætlað að þeim framkvæmdum verði lokið á gildistíma þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2024–2038.
    Uppsöfnuð viðhaldsþörf er í samgönguinnviðum á Vesturlandi en aðgerðir til að koma til móts við uppsafnaða viðhaldsþörf hafa meðal annars verið skilgreindar sem lykilviðfangsefni í samgöngumálum á Íslandi næstu árin samkvæmt þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2024–2028.

     2.      Kemur til greina að forgangsraða vegaframkvæmdum á Vesturlandi ofar í samgönguáætlun vegna ástands vega þar?
    Í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2024–2038 var gert ráð fyrir endurbyggingu og breikkun Vestfjarðavegar frá Reykjadalsá að Haukadalsá og um Reykhólasveit, alls um 25 km langra kafla, á 2. og 3. tímabili áætlunarinnar. Þá var gert ráð fyrir endurbyggingu og breikkun Snæfellsnesvegar frá Brúarhrauni að Dalsmynni, alls um 19 km kafla, á árunum 2034–2038. Ekki var mögulegt að koma þessum framkvæmdum framar miðað við ramma fjármálaáætlunar sem þó hefði verið æskilegt með tilliti til ástands veganna.
    Í tillögu að samgönguáætlun hefur verið lögð áhersla á uppbyggingu stofn- og tengivega með bundnu slitlagi á malarvegi. Lokið var við framkvæmdir á Snæfellsnesvegi um Fróðárheiði árið 2021 og hefur verið unnið að uppbyggingu á Snæfellsnesvegi um Skógarströnd á undanförnum árum en þó eru rúmlega 50 km eftir.
    Önnur brýn verkefni á Vesturlandi sem gerð er grein fyrir í þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2024–2038 eru færsla þjóðvegar út fyrir þéttbýlið í Borgarnesi auk breikkunar hringvegarins með aðskilnaði akstursstefna frá Hvalfjarðargöngum að Borgarnesi.
    Mat á ástandi vegakerfisins í heild fer fram með reglulegum hætti og er fjárveitingum til viðhalds á vegakerfinu skipt með hliðsjón af því. Að svo stöddu hafa ekki komið fram upplýsingar sem réttlæta breytingu á forgangsröðun vegaframkvæmda í samgönguáætlun.