Ferill 951. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1911  —  951. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um vistun fylgdarlausra barna á flótta sem eru ekki í fóstri á vegum barnaverndaryfirvalda.


     1.      Hvaða stofnanir og úrræði starfrækja íslensk stjórnvöld til að vista fylgdarlaus börn á flótta sem eru ekki í fóstri á vegum barnaverndaryfirvalda?
    Á grundvelli laga um útlendinga, nr. 80/2016, gegnir barnaverndarþjónusta lögbundnu hlutverki gagnvart fylgdarlausum börnum sem dvelja á yfirráðasvæði ríkisins, þar á meðal hagsmunagæslu, til viðbótar við þá vernd og nauðsynlega aðstoð sem veitt er á grundvelli barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Barnaverndarþjónusta í því umdæmi sem barn dvelst eða er statt fer með mál þess og umsjá barnsins eftir því sem þörf krefur og ber að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja hagsmuni þess, sbr. 5. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga. Sú barnaverndarþjónusta sem fer með mál fylgdarlauss barns metur út frá hagsmunum þess hvar það skuli dvelja á meðan umsókn þess er til meðferðar hjá viðkomandi yfirvöldum. Sé fylgdarlausu barni sem er umsækjandi um alþjóðlega vernd veitt heimild til dvalar á Íslandi er barnaverndarþjónustu falin forsjá barnsins, sbr. 6. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga. Með vísan til framangreinds er vistun fylgdarlausra barna á ábyrgð barnaverndarþjónustu sveitarfélaga.
    Í barnaverndarlögum er fjallað um úrræði barnaverndarþjónustu þegar börn eru vistuð utan heimilis, hvort sem það er í fóstri eða í öðrum úrræðum. Yfirleitt byggir vistun fylgdarlausra barna á 84. gr. barnaverndarlaga en ákvæðið kveður m.a. á um vistunarheimili á ábyrgð sveitarfélaga.
    Ráðuneytið hefur stutt fjárhagslega við vistunarúrræði barnaverndarþjónustu Suðurnesjabæjar fyrir fylgdarlaus börn sem rekin eru á grundvelli 84. gr. barnaverndarlaga. Meðal annars á þeim grundvelli standa þessi vistunarúrræði öðrum sveitarfélögum til boða ef rými er til staðar.
    Þá hefur í ákveðnum tilfellum, að undangengnu mati barnaverndarþjónustu og í samráði við forsjáraðila barns, verið heimilt að leyfa barni að fylgja fylgdaraðila, sem ekki fer með forsjá barnsins, í úrræði fyrir fullorðna. Í þeim tilfellum hefur verið litið svo á að um ráðstöfun forsjáraðila barnsins sé að ræða en ekki barnaverndarþjónustu þó að barnaverndarþjónustan sé enn með mál barnsins til meðferðar.

     2.      Hvaða aðilar hafa umsjón með þessum stofnunum og úrræðum, hverjir eru starfstitlar starfsfólks sem þar starfar, hver er viðvera starfsfólks og hvaða hæfniskröfur eru gerðar til þess?
    Líkt og kemur fram í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar þá ákveður sú barnaverndarþjónusta sem fer með mál fylgdarlauss barns hvar það skuli dvelja á meðan umsókn þess er til meðferðar hjá viðkomandi yfirvöldum. Sveitarfélögin bera ábyrgð á úrræðum fyrir fylgdarlaus börn sem rekin eru samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga og eru ákveðnar kröfur gerðar til slíkra vistunarúrræða í lögum og reglum.
    Aflað var upplýsinga frá barnaverndarþjónustu Suðurnesjabæjar um þær kröfur sem gerðar eru til starfsfólks vistunarúrræðanna sem fjallað er um í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar, viðveru þess og starfstitla. Í vistunarúrræðunum starfar teymisstjóri barnaverndarþjónustu, verkefnastjóri fylgdarlausra barna, málstjóri fylgdarlausra barna, ráðgjafi fylgdarlausra barna, stuðningsaðilar (persónulegir ráðgjafar) og öryggisverðir. Viðveru starfsfólks er háttað þannig að teymisstjóri, verkefnastjóri og málstjóri starfa á dagvinnutíma en hafa sveigjanlegan vinnutíma og sinna bakvöktum eftir dagvinnutíma. Öryggisverðir eru í vaktavinnu og tryggja öryggi í vistunarúrræðunum utan dagvinnutíma og allan sólarhringinn um helgar og aðra frídaga. Tveir stuðningsaðilar eru með daglega viðveru tvo tíma í senn.
    Þær hæfniskröfur sem sveitarfélagið hefur gert til starfsfólks barnaverndarþjónustu Suðurnesjabæjar sem starfar og hefur umsjón með vistunarúrræðunum eru eftirfarandi:
          Teymisstjóri barnaverndarþjónustu: Háskólapróf sem nýtist í starfi, góð þekking á barnaverndarlögum, reynsla af stjórnunarstörfum, framúrskarandi samskiptahæfni, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, góð kunnátta í íslensku og ensku.
          Verkefnastjóri fylgdarlausra barna: Framhaldsmenntun á háskólastigi (MA/MS) í félagsráðgjöf, þroskaþjálfun, sálfræði eða skyldum greinum. Gott menningarlæsi, haldgóð þekking á barnaverndarlögum og reglugerðum, frumkvæði, nákvæmni og sjálfstæði í vinnubrögðum. Krafa um lipurð í samskiptum, jákvæðni og sveigjanleika.
          Málstjóri fylgdarlausra barna: Háskólapróf í félagsráðgjöf, sálfræði eða lögfræði. Gott menningarlæsi, haldgóð þekking á barnaverndarlögum og reglugerðum, frumkvæði, nákvæmni og sjálfstæði í vinnubrögðum.
          Ráðgjafi fylgdarlausra barna: Menntun sem nýtist í starfi, gott menningarlæsi, haldgóð þekking á barnaverndarlögum, frumkvæði, nákvæmni og sjálfstæði í vinnubrögðum, færni í íslensku og ensku, samskipti við fjölbreyttan hóp barna og ungmenna í alþjóðlegu umhverfi.
          Stuðningsaðili (persónulegur ráðgjafi): Almenn menntun, góð færni í mannlegum samskiptum, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, þjónustulund, áreiðanleiki og sveigjanleiki í starfi. Stuðningsaðilar veita aðstoð á heimilum fylgdarlausra ungmenna, sinna öryggisinnliti, félagslegum stuðningi og efla þjónustuþega til sjálfshjálpar með því að aðstoða við athafnir daglegs lífs.
          Öryggisvörður: Almenn menntun, góð færni í mannlegum samskiptum, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, þjónustulund, áreiðanleiki og sveigjanleiki í starfi.

     3.      Hvaða lög og reglur gilda um þessar stofnanir og úrræði og rekstur þeirra og hver hefur eftirlit með því að þeim sé fylgt?
    Vistunarúrræði sem sveitarfélög reka á grundvelli 84. gr. barnaverndarlaga, þar á meðal vistunarúrræði sem einkum eru ætluð fylgdarlausum börnum, þurfa að uppfylla þau skilyrði sem fram koma í barnaverndarlögum, í reglugerð nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 og í lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 19/2013.
    Barnaverndarþjónustu ber að fylgjast náið með aðbúnaði barns og líðan í vistun, sbr. 89. gr. b barnaverndarlaga. Nánar er fjallað um eftirlit barnaverndarþjónustu í reglugerð nr. 652/2004. Þar segir í 8. gr. að barnaverndarþjónusta skuli hafa virkt innra eftirlit með úrræðum á ábyrgð sveitarfélaga og í því felst að tryggja að starfsemin uppfylli á hverjum tíma þau skilyrði sem sett eru. Enn fremur kemur fram í 43. gr. sömu reglugerðar að þeirri barnaverndarþjónustu sem ber ábyrgð á vistun barns utan heimilis sé skylt að fylgjast vandlega með högum og aðbúnaði barnsins og ber henni að grípa til viðeigandi ráðstafana vegna barnsins, svo sem að rifta samningi um vistun, ef í ljós kemur að meðferð barns á heimili/stofnun eða í öðru úrræði er óviðunandi.
    Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála fer með eftirlit með gæðum þjónustu sem veitt er á grundvelli barnaverndarlaga, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021. Allir þeir sem veita þjónustu sem lýtur eftirliti stofnunarinnar skulu hafa virkt eftirlit með starfsemi sinni, sbr. 11. gr. sömu laga. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur að eigin frumkvæði eftirlit með gæðum þjónustu, sbr. 14. gr. laga um stofnunina, en notendur þjónustu geta einnig beint kvörtun yfir gæðum þjónustunnar til hennar á grundvelli 17. gr. laganna. Jafnframt er hægt að beina ábendingum til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um þjónustu sem er ekki í samræmi við gæðaviðmið eða ákvæði laga, reglugerða, reglna, samninga og leiðbeininga, sbr. 13. gr. sömu laga.