Ferill 1102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1912  —  1102. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um sendiráð eða sendiskrifstofu á Spáni.


     1.      Hvaða möguleikar á opnun sendiskrifstofu eða sendiráðs á Spáni hafa verið skoðaðir í ráðuneytinu?
    Utanríkisráðuneytið hefur skoðað mögulegar útfærslur á sendiskrifstofu á Spáni út frá þeim verkefnum utanríkisþjónustunnar sem ráðuneytið telur nauðsynlegt að sinna með viðveru í landinu. Ráðuneytið hefur lagt til stofnun sendiskrifstofu á Spáni með tvo útsenda starfsmenn úr ráðuneytinu auk staðarráðinna starfsmanna. Ráðuneytið telur æskilegra að sendiherra fari með forstöðu slíkrar sendiskrifstofu enda eru skyldur gistiríkis meiri gagnvart sendiherra en öðru útsendu starfsfólki sem liðkar fyrir úrvinnslu þeirra mála sem rata á borð sendiráðs.

     2.      Hversu mikill er áætlaður kostnaður annars vegar við opnun sendiskrifstofu sem veitti Íslendingum á Spáni aðstoð og hins vegar sendiráðs?
    Utanríkisráðuneytið gerir ráð fyrir að helsta viðfangsefni íslenskrar sendiskrifstofu á Spáni væri að anna eftirspurn Íslendinga í landinu eftir borgaraþjónustu. Hlutverk sendiskrifstofu myndi ekki breytast að þessu leyti hvort sem sendiherra færi með forstöðu sendiráðs eða sendiskrifstofan hefði annað starfsfyrirkomulag.
    Í kostnaðaráætlun ráðuneytisins er áætlaður kostnaður vegna reksturs sendiskrifstofu með tvo útsenda starfsmenn auk staðarráðins starfsfólks um 132 millj. kr. á ári að viðbættum stofnkostnaði fyrsta árið.
    Ráðuneytið hefur ekki útbúið sérstaka kostnaðaráætlun fyrir sendiskrifstofu sem sendiherra myndi ekki veita forstöðu. Þegar um lægra stig diplómatísks titils forstöðumanns er að ræða hefur það áhrif á umgjörð og starfsemi en einnig samstarf við gistiríkið og vægi sendiskrifstofunnar. Áhrif á heildarkostnað eru því einhver, en óveruleg. Ávallt er tekið mið af þörfum og umsvifum sendiskrifstofu, með hagkvæmni í huga.

     3.      Hversu mikil eru tvíhliða samskipti Íslands og Spánar í samanburði við lönd þar sem Ísland hefur enga sendiskrifstofu/sendiráð og lönd þar sem Ísland hefur þegar sendiskrifstofu/sendiráð?
    Spánn er það erlenda ríki þar sem flestir íslenskir ríkisborgarar hafa búsetu eða dvelja tímabundið til lengri eða skemmri tíma þar sem ekki er rekin íslensk sendiskrifstofa. Eftirspurn íslenskra ríkisborgara eftir borgaraþjónustu er því töluverð á Spáni.
    Lög um utanríkisþjónustu Íslands kveða á um að sendiskrifstofur og ræðisskrifstofur skuli vera á þeim stöðum erlendis þar sem slíkt er álitið nauðsynlegt til gæslu hagsmuna Íslands. Í dag eru starfrækt 18 íslensk sendiráð og þrjár aðalræðisskrifstofur í þeim ríkjum þar sem Ísland hefur mestra hagsmuna að gæta á sviðum utanríkisþjónustunnar sem varða alþjóðastjórnmál og öryggismál, þróunarmál, utanríkisviðskipti og menningarmál. Sendiráð og ræðisskrifstofur Íslands gegna einnig mikilvægu hlutverki við að veita íslenskum ríkisborgurum vernd og aðstoð gagnvart erlendum stjórnvöldum.
    Spánn er það ríki sem Ísland á í mestum tvíhliða samskiptum við á vettvangi utanríkismála þar sem ekki er starfrækt íslensk sendiskrifstofa. Á þetta sérstaklega við um svið utanríkisviðskipta en Spánn hefur um árabil ýmist verið stærsti eða einn stærsti einstaki vöruútflutningsmarkaður íslenskra fyrirtækja, sérstaklega hvað varðar sjávarafurðir og iðnaðarvörur. Ísland sker sig úr í samanburði við önnur helstu viðskiptalönd Spánar að því leyti að sinna ekki hagsmunagæslu í landinu í gegnum sendiskrifstofu sem starfrækt er ríkinu. Tvíhliða samskipti ríkjanna hafa farið vaxandi á sviði stjórnmálasamskipta, öryggis- og varnarmála og endurspegla þessi samskipti bæði það veigamikla hlutverk sem Spánn hefur að gegna í alþjóðakerfinu sem og hagsmuni Íslands í breyttri heimsmynd. Nær þetta einnig til tvíhliða og fjölhliða samstarfs lögregluyfirvalda en íslensk stjórnvöld hafa hagsmuni af því að efla frekar slíkt samstarf.

     4.      Hversu mörgum atvikum eða erindum þurfti heiðurskonsúll Íslands á Spáni að sinna síðastliðin fimm ár, sundurliðað eftir árum?
    Erindum sem berast vegna borgaraþjónustu á Spáni er í dag sinnt af deild borgaraþjónustu á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins, af sendiráðinu í París og af ellefu kjörræðismönnum á Spáni.
    Kjörræðismaður er einstaklingur sem tekur að sér að veita íslenskum ríkisborgurum aðstoð þegar þeir lenda í neyð eða annars konar erfiðleikum á erlendri grundu. Kerfi kjörræðismanna er mikilvægasti þátturinn í því að utanríkisþjónustan geti veitt borgaraþjónustu um heim allan. Í fjarlægum eða afskekktum löndum er kjörræðismaður í mörgum tilfellum eina leiðin fyrir Íslending til að nálgast aðstoð íslenska ríkisins.
    Utanríkisráðuneytið áætlar að um 80% af erindum og verkefnum sem berast til borgaraþjónustudeildar ráðuneytisins séu vegna aðstoðarbeiðna á Spáni. Ráðuneytið hefur þó ekki sérstakt yfirlit yfir öll þau erindi sem borist hafa til ellefu kjörræðismanna Íslands á Spáni undanfarin fimm ár og stafar þetta af eðli starfa þeirra sem ólaunaðra sjálfboðaliða. Almennt er gert ráð fyrir að kjörræðismaður sinni einstaka erindum á ársgrundvelli en álag á flesta kjörræðismenn Íslands á Spáni er langt umfram það sem eðlilegt getur talist, bæði vegna fjölda erinda og eðlis þeirra. Veiting borgaraþjónustu til stórs hóps Íslendinga á Spáni byggist því að stórum hluta á því að net sjálfboðaliða í landinu sé burðugt til að sinna vaxandi og sífelldu álagi vegna fjölda aðstoðarbeiðna. Ráðuneytið telur að þetta fyrirkomulag borgaraþjónustu á Spáni sé ósjálfbært til bæði lengri og skemmri tíma.

    Alls fóru þrjár vinnustundir í að taka svarið saman.