Ferill 924. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1924  —  924. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002 (hringrásarhagkerfi, umbúðir, ökutæki o.fl.).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Félagi atvinnurekenda, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Úrvinnslusjóði og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndinni bárust fjórar umsagnir sem aðgengilegar eru undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, sem leiðir af gildistöku laga nr. 103/2021, laga nr. 127/2022 og laga nr. 129/2022.
    Í viðauka XVIII er kveðið á um álagningarstofn úrvinnslugjalds skv. 2. málsl. 4. mgr. 7. gr. a laga um úrvinnslugjald. Nánar tiltekið hefur viðaukinn að geyma reiknireglur sem gjaldskyldum aðilum er heimilt að greiða úrvinnslugjald í samræmi við þegar staðfestar upplýsingar um þyngd umbúða vöru sem sæta úrvinnslugjaldi fást ekki. Er þar um að ræða gler-, málm- og viðarumbúðir, auk pappa-, pappírs- og plastumbúða. Reynslan af framkvæmd viðkomandi ákvæða hefur leitt í ljós vandkvæði þegar innflytjendur og tollmiðlarar hafa ekki upplýsingar um meginsöluumbúðir líkt og reiknireglur viðaukans gera ráð fyrir. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði tímabundin heimild til þess að ákvarða úrvinnslugjald miðað við líklegustu tegund söluumbúða þegar innflytjandi getur hvorki gefið upp þyngd og tegund umbúða né meginsöluumbúðir. Einnig eru lagðar til tilteknar uppfærslur á viðaukanum í ljósi fenginnar reynslu.
    Þá er lögð til breyting á fyrirkomulagi álagningar úrvinnslugjalds á ökutæki í ljósi þess að álagning gjaldsins á sér stað við nýskráningu í stað tollafgreiðslu. Með breytingunni verður kveðið með skýrari hætti á um greiðanda gjaldsins, grundvöll þess og gjalddaga og greinarmunur gerður á þeirri tilhögun og venjubundinni tilhögun álagningar við tollafgreiðslu. Breytingunni er ætlað að tryggja að álagning úrvinnslugjalds leggist í öllum tilvikum á framleiðendur og innflytjendur í samræmi við hugmyndafræði framlengdrar framleiðendaábyrgðar, en ekki á eiganda.
    Að lokum eru lagðar til lagfæringar á lögunum vegna ábendinga Úrvinnslusjóðs eða sem leiðir af gildistöku laga nr. 103/2021.

Umfjöllun.
    Í þeim umsögnum sem bárust nefndinni kom fram almenn samstaða um málið og undirstrikað mikilvægi þeirra breytinga sem lagðar eru til.

Fyrirkomulag framlengdrar framleiðendaábyrgðar.
    Líkt og bent er á í samráðskafla greinargerðar komu fram efnislegar athugasemdir við frumvarpið þegar drög að því voru birt í samráðsgátt stjórnvalda. Hluti þeirra umsagna sem bárust snúa að þörf á heildarendurskoðun á fyrirkomulagi framlengdrar framleiðendaábyrgðar eða áskorunum sem leiðir af nýlegum breytingum á fyrirkomulaginu vegna þess hvernig það er útfært hér á landi. Núverandi kerfi og fyrirkomulag söfnunar og úrvinnslu úrgangs hefur verið þróað miðað við aðstæður hérlendis og þeir kostir nýttir sem fylgja því að Ísland er eyríki. Bent hefur verið á að flokkun undir tollskrárnúmer og upplýsingagjöf um umbúðir er skilyrði tollafgreiðslu ólíkt því sem á við víða annars staðar þar sem upplýsingagjöfin stendur utan tollkerfa og innheimta úrvinnslugjalds fer jafnan fram á grundvelli skilagreina sem framleiðendur og innflytjendur skila inn. Fyrirkomulagið hérlendis er því ólíkt hvað það varðar þótt almennt megi segja að heimturnar séu góðar enda þátttaka í því mikil. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga til nefndarinnar kemur fram að bundnar séu vonir við að sett verði af stað vinna við endurskoðun á framkvæmd framlengdrar framleiðendaábyrgðar og starfsemi Úrvinnslusjóðs. Í því samhengi bendir Samband íslenskra sveitarfélaga á í umsögn sinni að úrvinnslugjald standi ekki undir stærstum hluta þess kostnaðar sem til fellur við meðhöndlun úrgangs eins og að var stefnt með innleiðingu hringrásarhagkerfis með lögum nr. 103/2021.
    Innheimta úrvinnslugjalds í gegnum tollskrá hefur um margt gert innheimtuna auðvelda, einfalda og skilvirka og undanskot frá greiðslu gjaldsins fátíð hérlendis í samanburði við nágrannaþjóðir. Með þessu fyrirkomulagi er til að mynda auðvelt að innheimta úrvinnslugjald af gjaldskyldum varningi sem keyptur er í netverslunum. Eigi að síður hefur fyrirkomulag innheimtunnar sem og Úrvinnslusjóðs sætt gagnrýni og ljóst að þörf er á að skerpa á framkvæmdinni svo að markmið um fulla innleiðingu hringrásarhagkerfisins nái fram að ganga. Meiri hlutinn tekur undir ábendingar sem fram koma í umsögnum og telur brýnt að ráðist verði í endurskoðun á kerfinu hið fyrsta. Við hana þurfi m.a. að horfa til stjórnsýsluúttektar ríkisendurskoðanda á Úrvinnslusjóði frá árinu 2022, skýrslu starfshóps um hlutverk framleiðenda í hringrásarhagkerfi frá sama ári og nýrrar umbúðatilskipunar sem vænta má á vettvangi ESB.

Úrvinnslugjald þegar ekki liggja fyrir upplýsingar um meginsöluumbúðir (12. gr.)
    Líkt og að framan greinir er í 12. gr. frumvarpsins lagt til að lögfest verði tímabundin heimild til að ákvarða úrvinnslugjald á söluumbúðir út frá líklegustu tegund þeirra þegar innflytjandi getur hvorki gefið upp þyngd og tegund umbúða né skilgreint meginsöluumbúðir. Ákvæðinu er ætlað að taka á hættu á því að innflytjendur sem ekki hafa slíkar upplýsingar gefi í einhverjum tilvikum upp rangar upplýsingar um umbúðir og tryggja að álagning úrvinnslugjalds sé rétt og endurspegli raunverulegan innflutning á umbúðum. Gert er ráð fyrir að ákvæðið gildi til 1. janúar 2026 til þess að gefa innflytjendum tíma til að aðlaga sig að fullu að kröfum í nýju umbúðamódeli viðauka XVIII við lögin.
    Meiri hlutinn ítrekar að með þessari tímabundnu heimild er ekki verið að veita undanþágu frá greiðslu né afslátt af úrvinnslugjaldi. Mikilvægt er að hafa í huga að innflytjandi ber ábyrgð á því með hvaða hætti hann stendur skil á lögboðinni greiðslu úrvinnslugjalds þegar hann býr ekki yfir nægum upplýsingum um meginsöluumbúðir.

    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og hafa ekki efnisleg áhrif.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

     1.      Við 1. gr.
                  a.      A-liður orðist svo: 5. tölul. fellur brott.
                  b.      Inngangsmálsliður b-liðar orðist svo: 8. tölul. orðast svo.
     2.      Við 4. gr.
                  a.      Á eftir „4822.6910“ í 3. tölul. c-liðar komi: í fyrra skiptið.
                  b.      Á eftir „4822.6910“ í 4. tölul. c-liðar komi: í síðara skiptið.
     3.      Við 8. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Á undan orðinu „tollafgreiðsludegi“ í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: frá.
     4.      Í stað orðsins „inngangsorða“ í 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. komi: 1. mgr.

    Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 14. júní 2024.

Bjarni Jónsson,
form.
Orri Páll Jóhannsson, frsm. Vilhjálmur Árnason.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Ingibjörg Isaksen. Njáll Trausti Friðbertsson.
Þórunn Sveinbjarnardóttir.